Skip to main content

Stórkostlegt umhverfisslys fyrir 1.800 árum

Steffen Mischke, prófessor við Jarðvísindadeild

Eitt af stærstu verkefnum samtímans er að draga úr áhrifum manna á náttúru og stuðla að varðveislu fjölbreyttra vistkerfa um allan heim. Í þessu felst ekki aðeins að berjast gegn loftslagsbreytingum heldur ekki síður að vernda vatnsforðabúr heimsins og óspillta náttúru.

Aralvatn, sem liggur milli Kasakstans og Úsbekistans, er talið lýsandi dæmi fyrir áhrif mannsins á náttúruna. Það var lengi vel fjórða stærsta stöðuvatn í heimi en vegna þess að farið var að nýta vatn úr innstreymi Aralvatns í áveitur í landbúnaði hafa bakkar þess hörfað fleiri tugi kílómetra. Vatnið er nú einungis áttundi hluti þess sem það var snemma á 20. öld og eftir stendur geysistór eyðimörk.
 

Steffen Mischke

„Við komumst því að þeirri óvæntu niðurstöðu að hnignun Loulan-konungdæmisins hafi ekki verið afleiðing loftslagsbreytinga heldur að öllum líkindum stórkostlegt umhverfisslys af mannavöldum í líkingu við umhverfisslysið við Aralvatn.“

Steffen Mischke

Slíkar hamfarir af mannavöldum eru þó ekki nýjar af nálinni ef marka má rannsókn sem Steffen Mischke, prófessor í jarðfræði, og samstarfsfólk hans birti á árinu 2017. Hópurinn rannsakaði setlög í Tarim-sigdalnum í norðvesturhluta Kína. „Þar var áður salt stöðuvatn sem nefndist Lop Nur sem er talið hafa náð yfir 17.000 – 50.000 ferkílómetra svæði. Borgin Loulan var stofnuð norðvestan við stöðuvatnið, við hinn fræga silkiveg, og Loulan-konungsdæmið dregur nafn sitt af henni. Rústir fornra borga, leifar af ökrum og áveitukerfum hafa fundist í auðninni sem benda til blómlegra menningarsamfélaga á tímum Han-keisaradæmisins fyrir 2.000 árum,“ bendir Steffen á.

Á þriðju öld hófst hins vegar hnignun á svæðinu og fólk fór að yfirgefa borgir þar. Fyrri rannsóknir gefa til kynna að breytingar á loftslagi hafi hrundið þessari atburðarás af stað en rannsóknir Steffens og samstarfsfélaga á setlögum á svæðinu frá þessum tíma benda til annars, nefnilega að vatnsborð Lop Nur hafi lækkað allverulega þrátt fyrir að nærliggjandi landsvæði hafi verið tiltölulega rök. Lækkun vatnsborðsins í Lop Nur og öðrum vötnum hafi líklega verið vegna aukningar á áveitu í landbúnaði í fjallahéruðum í nágrenninu. Lop Nor hafi jafnvel þornað upp á þessum tíma.

„Við komumst því að þeirri óvæntu niðurstöðu að hnignun Loulan-konungdæmisins hafi ekki verið afleiðing loftslagsbreytinga heldur að öllum líkindum stórkostlegt umhverfisslys af mannavöldum í líkingu við umhverfisslysið við Aralvatn,“ segir Steffen.

„Landslag hefur breyst umtalsvert af mannavöldum á ýmsum stöðum í heiminum á síðustu öldum og áratugum. Við á Íslandi ættum því að meta hina nánast ósnortnu náttúru sem enn má finna víða hér. Þetta er ekki síst mikilvægt á tímum þar sem fjöldi ferðamanna eykst stöðugt og sífellt er rætt um að gera landið aðgengilegra með nýjum vegum og framkvæmdum,“ segir Steffen um lærdóminn sem draga má af þessari rannsókn.