Skip to main content

Stjórnmál og konur á 20. öld

Ragnheiður Kristjánsdóttir dósent og Erla Hulda Halldórsdóttir lektor, báðar við Sagnfræði- og heimspekideild

„Það er áhugavert að á Íslandi, sem er oft kallað einhvers konar jafnréttisparadís, áttu konur lengst af undir högg að sækja í stjórnmálum. Sú saga hefur ekki verið rannsökuð til hlítar. Það er eitt af því sem við ætlum að varpa ljósi á,“ segir Erla Hulda Halldórsdóttir, lektor í kvenna- og kynjasögu, um viðamikið rannsóknarverkefni sem hún vinnur að ásamt Ragnheiði Kristjánsdóttur, dósent í sagnfræði, og Þorgerði Þorvaldsdóttur, sérfræðingi hjá Sagnfræðistofnun.

Um er að ræða félags- og menningarsögulega rannsókn á konum sem pólitískum gerendum á 20. öld og fram á þá 21. en rannsóknin hlaut styrk úr Rannsóknasjóði Rannís árið 2017. „Markmið rannsóknarinnar er að skoða á hvern hátt íslenskar konur nýttu þau borgaralegu réttindi sem þær fengu á fyrstu áratugum 20. aldar, þ.e. kosningarétt og kjörgengi og rétt til menntunar og embætta, til þess að verða fullgildir borgarar í samfélaginu og taka með virkum hætti þátt í að móta íslenskt nútímasamfélag,“ segir Ragnheiður.

Ragnheiður Kristjánsdóttir og Erla Hulda Halldórsdóttir

„Okkur fannst spennandi að vinna saman og varpa nýju ljósi á sögu kvenna og þar með Íslandssöguna á 20. öld. Hlutar þessa tímabils hafa að ýmsu leyti orðið svolítið út undan í kvennasögunni.“

Ragnheiður Kristjánsdóttir og Erla Hulda Halldórsdóttir

Á hundrað ára afmæli kosningaréttar kvenna árið 2015 var Erlu og Ragnheiði falið að skrifa bók um konur í stjórnmálum og samfélaginu á 20. öld. „Við fengum Þorgerði Þorvaldsdóttur, doktor í kynjafræði, til liðs við okkur í það verkefni en áttuðum okkur fljótt á því að við vildum fara í dýpri og viðameiri rannsóknir og tengja m.a. við það sem er efst á baugi erlendis,“ segir Erla um upphaf rannsóknarinnar.

Auk Erlu, Ragnheiðar og Þorgerðar kemur doktorsneminn Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir að verkefninu. Þær deila allar miklum áhuga á sögu kvenna þótt sjónarhorn þeirra í rannsókninni sé ólíkt. „Okkur fannst spennandi að vinna saman og varpa nýju ljósi á sögu kvenna og þar með Íslandssöguna á 20. öld. Hlutar þessa tímabils hafa að ýmsu leyti orðið svolítið út undan í kvennasögunni,“ bendir Ragnheiður á og Erla tekur undir það. „Við teljum þetta gríðarlega mikilvæga rannsókn fyrir sögu 20. aldar. Saga kvenna hefur aldrei verið þar fyrirferðarmikil og karllægt sjónarhorn ráðandi í íslenskri stjórnmálasögu almennt.“

Þegar hafa ákveðnar niðurstöður litið dagsins ljós. „Í grein í vorhefti tímaritsins Sögu árið 2017 sýndi Þorgerður fram á hvernig hugtakið samtvinnun getur nýst í sagnfræði til að skoða þá mismunun sem enn var við lýði eftir að kosningarétturinn fékkst. Rannsóknir Ragnheiðar á konum í stjórnmálastarfi, bæði á þingi og í félagasamtökum, sýna að konur börðust við sýnilegar og ósýnilegar hindranir, t.d. á þingi, en það er magnað að sjá hve vel þær gátu starfað saman þvert á stjórnmálaskoðanir. Sjálf er ég að skrifa grein um sagnaritun kvenna og hlut þeirra í sögu þjóðar fyrir tíma akademískrar kvennasögu. Sumir sjá kannski ekki hvaða máli það skiptir í þeirri sögu sem við erum að rannasaka en um leið og kona fer að skoða kvennablöð 20. aldar, æviminningar og æviþætti kvenna verður ljóst að konur voru meðvitað og markvisst að búa sér til sögu, skapa sér stað í sögu þjóðarinnar og þannig efla sjálfstraust þeirra kvenna sem stigu út á almannasviðið. Konur þurftu einfaldlega að eiga sér sögu og fyrirmyndir sem þær gátu svo notað sem rökstuðning fyrir því að konur ættu að koma að mótun samfélagsins með virkum hætti,“ segir Erla.