Skip to main content

Nota sýndarveruleika til að þróa meðferðir gegn kvíðaröskunum

Þráhyggja og árátta er kvíðaröskun þar sem fólk fær áleitnar hugsanir, hvatir eða ímyndanir sem valda kvíða. Í nýju rannsóknarverkefni Ágústs Pálssonar, meistaranema í klínískri sálfræði við Háskóla Íslands, er stefnt að því að varpa nýju ljósi á virkni athyglinnar í slíkum kvillum sem getur jafnframt leitt til þess að hægt verði að þróa öfluga meðferð við þeim.

„Markmiðið er að þróa mælingar á athyglisvirkni í kvíðasjúkdómum á borð við áráttu og þráhyggju. Við munum þróa söfnunarverkefni, sem er ein tegund athyglisverkefna sem notuð eru í sálfræðirannsóknum, í sýndarveruleika (e. virtual reality) þar sem þátttakendur leita að andlitum með neikvæðan svip innan um andlit með jákvæðum svip. Frammistaða þátttakenda í slíkum verkefnum verður mæld eftir því hvernig þeir koma út í mælingum á kvíða,“ segir Árni Kristjánsson, prófessor við Sálfræðideild og leiðbeinandi Ágústs.

„Áráttu- og þráhyggjuröskun (e. obsessive-compulsive disorder) einkennist af endurteknum áleitnum hugsunum sem eru óvelkomnar. Þessar hugsanir eru þráhyggjurnar. Þessar hugsanir geta komið upp þótt viðkomandi átti sig á því að þær séu óraunhæfar. Árátta er þá einhvers konar hegðun sem tengist þessum hugsunum og er hegðun sem ætlað er að koma í veg fyrir að þráhyggjurnar rætist. Einfalt dæmi og nærtækt núna síðustu mánuði gætu verið þráhyggjukenndar hugmyndir um smit og endalaus handþvottur. Hins vegar myndu áhyggjur af COVID-19 og mikill handþvottur síðustu mánuði almennt ekki teljast merki um áhyggju- og þráhyggjuröskun því full ástæða var fyrir áhyggjunum og hegðuninni. Það er þó áhugaverð spurning hvernig fólk hegðar sér þegar faraldurinn er genginn yfir. Munu einhverjir þróa með sér röskunina eftir faraldurinn?“ spyr Árni.

Notast verður við myndavélina Samsung Gear 360 í rannsókninni en hún tekur upp 360 gráðu umhverfi sem gerir það að verkum að hægt verður að teikna upp ólíkar aðstæður í sýndarveruleika fyrir þátttakendur og mæla um leið viðbrögð þeirra við þeim. Rannsakandinn hefur fulla stjórn á því hvað fyrir augu fólks ber í sýndarveruleika og því er hægt að hafa mikil áhrif á skynjun og þar með upplifun fólks, sem er lykilatriði þegar unnið er að því að draga úr ótta og kvíða sem kviknar í tilteknum aðstæðum eða við tiltekin áreiti. Slíkt er gert í meðferð við áráttu- og þráhyggjuröskun og öðrum kvíðatengdum vanda. 

„Söfnunarverkefni (e. visual foraging) mæla virkni athyglinnar töluvert betur og á margbreyttari hátt en önnur athyglisverkefni og því er vonin sú að bæði verði hægt að mæla athyglisskekkju með meiri nákvæmni og jafnframt þróa betri meðferðarúrræði fyrir þau sem glíma við kvíðaröskun,“ segir Árni.

Í nýju rannsóknarverkefni Ágústs Pálssonar, meistaranema í klínískri sálfræði við Háskóla Íslands, er stefnt að því að varpa nýju ljósi á virkni athyglinnar í slíkum kvillum sem getur jafnframt leitt til þess að hægt verði að þróa öfluga meðferð við þeim.

Sýndarveruleiki gerir rannsakendum kleift að búa til sérstakar aðstæður og umhverfi sem, að sögn Ágústs, gefur mikla möguleika í rannsóknum á orsaka- og viðhaldandi þáttum í geðröskunum, þar á meðal áráttu- og þráhyggjuröskun.

„Í sýndarveruleika er fyrirhafnarlítið hægt að kalla fram aðstæður sem annars gæti verið erfitt að búa til. Þessi tækni er í þróun og er ef til vill komin tiltölulega skammt á veg en býður upp á mikla möguleika. Einn kostur við sýndarveruleikann er að hann gefur færi á því að gera aðstæðurnar miskrefjandi. Oft er unnið með kvíða og ótta á þann hátt að byrjað er á minna krefjandi verkefnum og með stigvaxandi hætti er unnið í átt að þeim sem eru meira krefjandi. Stjórnin, sem sýndarveruleikinn gefur færi á, ætti því að geta nýst vel í okkar rannsókn,“ segir Ágúst en hann vinnur rannsóknina með stuðningi Nýsköpunarsjóðs námsmanna í sumar. Markmið sjóðsins er einmitt að gefa háskólum, rannsóknarstofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunn- og meistaranámi við háskóla til sumarvinnu við metnaðarfull og krefjandi rannsóknarverkefni eins og þetta verkefni er sannarlega.