Skip to main content

Merkilegar minningarústir

Gavin Murray Lucas, prófessor við Heimspeki- og sagnfræðideild

„Ég hef verið að rannsaka fiskiþorp í Viðey sem  var yfirgefið um 1940,“ segir Gavin Murray Lucas,  prófessor í fornleifafræði, um verkefni sem hann  sinnir nú af krafti. Gavin hefur vakið mikla athygli  langt út fyrir landsteinana. Auk þess sem hann  sinnir metnaðarfullum verkefnum í fornleifafræði  ritaði hann nýverið bókina Understanding the  Archaeological Record sem Cambridge University Press gaf út í fyrra. Það þarf ekki að fjölyrða um  gildi þess að fá bók útgefna hjá slíku forlagi.

„Þessi bók fjallar um hugmyndir  fornleifafræðinga um fornleifar og viðfangsefni  sín, svo sem rústir bygginga eða gripi, grafna  úr jörð, sem eigendur hafa fleygt vegna þess að  þeir brotnuðu eða urðu ónýtir. Ég held því fram  að í túlkun sinni hafi fornleifafræðingar glatað  tengslum við þessar efnislegu leifar, rústirnar  og gripina, þegar þeir hafa leitast við að fylgja  ríkjandi straumum í hug- og félagsvísindum. Með  póstmódernismanum varð túlkunin allsráðandi hjá  fornleifafræðingum og efnið og efnismenningin  hvarf í skuggann af túlkuninni,“ segir Gavin um  nýju bókina.

Gavin Murray Lucas

„Ég hef verið að rannsaka fiskiþorp í Viðey sem  var yfirgefið um 1940.“

Gavin Murray Lucas

Gavin nálgast þannig efnismenninguna  með nýjum hætti, allt hið efnislega í veruleika  mannsins, frá öngli til þilskipa. Hann segir að í  bókinni endurskoði hann aðferðir fornleifafræðinga  og umgengni þeirra við fornleifafræðileg gögn.  „Markmiðið er að benda á nýja leið til að fjalla  um fortíðina. Þessi nýja leið snýst um að skoða  samband fólks og hluta en einnig það hvort líta  beri á fornleifafræði sem hugvísindi yfirleitt.“

Uppgröftur Gavins í Viðey er hluti af alþjóðlegu  rannsóknaverkefni sem er styrkt af norska  vísindaráðinu og kallast Ruin Memories. „Í  rannsókn minni í Viðey lagði ég áherslu á að  reyna að skilja með hvaða hætti þetta þorp var  yfirgefið, að rekja atburðarásina frekar en að  endurbyggja það sem áður var. Þetta er í takt  við stefnur samtímans í félagsvísindum þar sem  samband fólks og hluta er tekið til skoðunar.  Þannig afhjúpum við þræði sem tengja okkur  við efnismenninguna. Þetta er partur af vaxandi  rannsóknasviði sem  sýnir hversu mikilvæg  efnismenningin er í því að  móta og viðhalda mannlegu  samfélagi – í fortíð, nútíð og  framtíð. Þetta sýnir hvernig  fornleifafræði sem grein og  aðferðafræði lætur sig ekki  einungis varða fjarlæga fortíð heldur getur einnig  verið gefandi aðferð til rannsókna á samfélögum  samtímans.“  

Rannsókn Gavins í Viðey er augljóslega í takti við  það sem hann fullyrðir í bókinni sinni nýju. „Bókin  er vegvísir á endurmat á ríkjandi viðhorfum,“ segir  Gavin. „Kenningar fornleifafræðinnar eru orðnar of  sundurleitar og fráhverfar séreðli fornminja sem eru  áþreifanlegar í eðli sínu.“

Gavin leggur áherslu á að fornleifafræðin eigi  að vera grein hins áþreifanlega umfram annað. Í  rannsókninni í Viðey sýnir Gavin að aldur skiptir  engu við rannsóknir á fortíðinni, þær snúast um  efnislegar leifar frá hvaða tíma sem er. Markmið  Gavins er þannig í raun að endurhugsa eðli  fornleifa og hvernig þær geti birt okkur söguna  með áþreifanlegum hætti.