Skip to main content

Ljósáta í heilsuvörur?

Sólveig Guðmunda Guðmundsdóttir, MS frá Lyfjafræðideild

Á síðustu árum og áratugum hafa sjónir manna beinst að leiðum til þess að nýta auðlindir hafsins betur, bæði út frá sjónarmiðum sjálfbærni og með því að skoða tegundir sem ekki hafa verið nýttar áður en geta stuðlað að bættri heilsu fólks. Það á til dæmis við um ljósátu sem er agnarsmátt krabbadýr sem finna má í efstu lögum sjávar og finnst bæði á norður- og suðurhveli jarðar.

„Suðurhafsljósáta sem veidd er við Suðurskautslandið hefur verið nýtt um árabil en ljósáta á norðurhveli jarðar er frekar vannýtt og lítt rannsökuð auðlind. Þó að aragrúi ljósátuafurða sé til á markaði nú þegar hefur engin afurð, svo vitað sé, þá sérstöðu að vera unnin úr íslenskri ljósátu,“ segir Sólveig Guðmunda Guðmundsdóttir sem í lokaverkefni sínu í lyfjafræði þróaði aðferðir til að einangra og greina lífvirk efni úr ljósátu hér við land. „Markmiðið var að þróa hagkvæma og skilvirka aðferð til að hámarka nýtni við vinnslu efnanna og jafnframt greina helstu efnaflokka í ljósátunni, svo sem fitusýrur og andoxunarefni, og kanna það magn ljósátuolíu sem myndaðist.“
 

Sólveig Guðmunda Guðmundsdóttir

„Suðurhafsljósáta sem veidd er við Suðurskautslandið hefur verið nýtt um árabil en ljósáta á norðurhveli jarðar er frekar vannýtt og lítt rannsökuð auðlind. Þó að aragrúi ljósátuafurða sé til á markaði nú þegar hefur engin afurð, svo vitað sé, þá sérstöðu að vera unnin úr íslenskri ljósátu,“

Sólveig Guðmunda Guðmundsdóttir

Ljósátan var veidd við Ísafjarðardjúp og það vakti áhuga Sólveigar á verkefninu enda gafst henni þar frábært tækifæri til að vinna með afurð úr heimabyggð hennar sjálfrar. „Einnig fannst mér spennandi að fara að vinna efni úr sjávarlífveru sem geta síðan nýst okkur mannfólkinu,“ segir Sólveig.

Sólveigu tókst að þróa aðferð til að einangra lífvirk efni úr norðuratlantshafsljósátunni. „Sú aðferð sem þótti koma best út var valin miðað við sparnað við ýmis tímafrek og kostnaðarsöm skref, magn ljósátuolíu sem myndast, samsetningu fitusýra og stöðugleika. Þá tókst mér að greina helstu fitusýrur, þar á meðal omega-3 fitusýrurnar EPA og DHA og staðfesta tilvist andoxunarefnisins astaxanthins,“ segir hún en slík efni hafa verið afar vinsæl í heilsuvörur vegna virkni sinnar.

Sólveig bendir á að með áframhaldandi rannsóknum á norðuratlantshafsljósátunni geti skapast grundvöllur fyrir vinnslu hennar hér á landi. „Með aukinni vitund manna á hollum lífstíl og almennu heilbrigði hafa vinsældir omega-3 fitusýra, sem finna má í ljósátu, aukist svo um munar. Því tel ég að vörur unnar úr ljósátu geti orðið eftirsótt vara á markaði í náinni framtíð,“ segir hún að endingu. Leiðbeinendur: Hákon Hrafn Sigurðsson og Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessorar við Lyfjafræðideild.