Skip to main content

Kennslustofa 21. aldarinnar

Anna Kristín Sigurðardóttir, dósent við Menntavísindasvið, og Áslaug Björk Eggertsdóttir, verkefnisstjóri Menntasmiðju

Einfölduð mynd af hinni hefðbundnu skólastofu 20. aldar er stofa af ákveðinni stærð þar sem allir nemendur snúa andliti að kennara sem er staðsettur fremst í stofu. Sú stofa er hönnuð utan um nálgun þar sem litið er á kennarann sem miðlara þekkingar og nemendur nánast óvirka móttakendur. Í skólastofu 21. aldar þarf meiri sveigjanleika, hún þarf að rúma fjölbreytt vinnubrögð nemenda, kennarinn er n.k. verkstjórnandi sem mótar æskilegar aðstæður fyrir nám. Hans hlutverk er áfram jafnmikilvægt en hann er ekki lengur eins miðlægur í því sem fer fram í kennslustofunni.“ Þetta segir Anna Kristín Sigurðardóttir, dósent í menntunarfræðum, sem er ein þeirra sem kom að hugmyndavinnu á bak við skólastofu 21. aldarinnar sem opnuð var í húsakynnum Menntavísindasviðs haustið 2017.

Hugmyndin að stofunni fæddist í tengslum við þarfagreiningu fyrir nýja byggingu fyrir Menntavísindasvið sem rísa mun á Melunum í framtíðinni. „Í þeirri vinnu vaknaði áleitin spurning um hvernig við vildum kenna í framtíðinni og hvers konar umhverfi við vildum skapa utan um slíka kennslu. Þegar ljóst var að ekki yrði af byggingaframkvæmdum í bráð skipaði stjórn sviðsins starfshóp til að gera tillögur um skipulag, tæki og búnað í einni kennslustofu sviðsins sem hæfði kennsluháttum 21. aldar,“ segir Áslaug Björk Eggertsdóttir, verkefnisstjóri Menntasmiðju, sem einnig kom að vinnunni.

Með þessu vildi sviðið vera tilbúið með sínar áherslur þegar að framkvæmdum við nýja byggingu kæmi. „Í öðru lagi erum við mjög meðvituð um það að kennsluhættir á sviðinu eru fyrirmynd að kennsluháttum á öðrum skólastigum og í þriðja lagi vill Menntavísindasvið gjarna taka að sér að vera í forystu innan Háskóla Íslands hvað varðar þróun kennsluhátta,“ segir Anna Kristín. Anna Kristín segir um tilraunastofu að ræða þar sem kennarar geti prófað sig áfram.
 

„Tækniframfarir eru hraðar og námsumhverfi þarf að vera sveigjanlegt svo unnt sé að aðlaga það breyttum þörfum hvers tíma. Við vonumst til að kennslustofan skapi þau hughrif hjá þeim sem þangað koma að eitthvað nýtt sé í gangi.“ 

Anna Kristín Sigurðardóttir og Áslaug Björk Eggertsdóttir.

„Tækniframfarir eru hraðar og námsumhverfi þarf að vera sveigjanlegt svo unnt sé að aðlaga það breyttum þörfum hvers tíma. Við vonumst til að kennslustofan skapi þau hughrif hjá þeim sem þangað koma að eitthvað nýtt sé í gangi. Húsgögn eru létt og auðvelt að færa til, stórir snertiskjáir leysa skjávarpa af og ýmis annar búnaður er í stofunni fyrir nemendur og kennara að prófa sig áfram með. Margir framsæknir kennarar starfa á sviðinu sem hafa m.a. verið markvisst að þróa kennsluhætti í eins konar blönduðu námi, þar sem staðnemar og fjarnemar tilheyra sama námshópi. Þessi er vænst að stofan styðji við þessa þróun,“ segir hún.

Áslaug Björk segir stofuna hugsaða fyrir alla nemendur sviðsins og mögulega fleiri innan Háskólans. „Ný tækni og traustari þekking á því hvernig nám fer fram hlýtur að hafa áhrif á kennsluhætti 21. aldar. Nú er vitað að nemandi þarf sjálfur að vera virkur í að byggja upp sinn eigin skilning og þekkingu til að nám fari fram. Það þýðir að hann þarf að hafa möguleika á að hafa áhrif á sinn eigin námsferil, bæði inntak og aðferðir. Þetta á sérstaklega við um fullorðna námsmenn eins og þá sem stunda nám í Háskóla Íslands,“ segir hún.