Skip to main content

Jarðleiðnikort nýtt í fjarskiptum

Valentin Oliver Loftsson, BS-nemi við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild

Nýsköpunarsjóður námsmanna veitir árlega stórum hópi nemenda við Háskóla Íslands mikilvægt tækifæri til þess að vinna að rannsóknarverkefnum í sumarstörfum, ýmist undir leiðsögn kennara við skólann eða starfsmanna annarra stofnana og fyrirtækja. Afrakstur verkefnanna getur oftar en ekki nýst til frekari nýsköpunar í samfélaginu og það á svo sannarlega við um verkefni sem Valentin Oliver Loftsson, BS-nemi í hugbúnaðarverkfræði, vann að sumarið 2017.

„Verkefnið fól í sér að flokka og setja fram til birtingar á vefnum mæligögn sem hægt er að nýta til að fá mat á rafleiðni yfirborðs landsins. Þessum gögnum safnaði Sæmundur Óskarsson, fyrrverandi prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands, yfir langt árabil. Hann ferðaðist um landið til að mæla móttökustyrk frá ýmsum radíósendum og safnaði mörg þúsund mælingum. Endanlegt markmið hans var að búa til jarðleiðnikort af Íslandi en honum entist því miður ekki aldur til að ljúka verkinu,“ segir Valentin en Sæmundur lést árið 2015.

Valentin Oliver Loftsson

„Verkefnið fól í sér að flokka og setja fram til birtingar á vefnum mæligögn sem hægt er að nýta til að fá mat á rafleiðni yfirborðs landsins....“

Valentin Oliver Loftsson

Fjölskylda Sæmundar afhenti Rafmagns- og tölvuverkfræðideild gögnin til varðveislu og undir handleiðslu Sæmundar E. Þorsteinssonar, lektors við deildina, vann Valentin að úrvinnslu gagnanna. Valentin segir verkefnið gott dæmi um það hvernig hægt er að nota þekkingu á hugbúnaðarsviði til að stuðla að framgangi á öðru þekkingarsviði.

„Hingað til hefur jarðleiðni landsins verið óþekkt og vísindamenn oftast reitt sig á „upplýstar ágiskanir“. Víða um heim hefur þessi eiginleiki yfirborðsins verið kortlagður og hafa slík kort þjónað sem öflugt hjálpartæki til að reikna útbreiðslu radíóbylgna og til að ákvarða þá staði þar sem skilyrði til útvarpssendinga eru best,“ segir Valentin.

Hann bætir við að slíkt jarðleiðnikort væri hægt að nýta t.d. hjá Ríkisútvarpinu sem hafi uppi hugmyndir um að skipta tveimur langbylgjustöðvum sínum út fyrir miðbylgjustöðvar sem séu ódýrari í rekstri. „Þá þarf að svara því hvar best væri að staðsetja slíkar miðbylgjustöðvar og hve margar þær þurfa að vera til þess að ná ásættanlegri útbreiðslu útvarpssendinga um landið allt og miðin.“

Valentin lauk flokkun og samantekt gagnanna í sumar og bjó jafnframt til vef þar sem skoða má sviðstyrksmælingar frá yfir 60 radíósendum, sem langflestir eru staðsettir hér á landi. Enn á þó eftir að gera sjálft jarðleiðnikortið að hans sögn. „Ef til væri gott jarðleiðnikort fyrir Ísland væri hægt að segja til um móttökuskilyrði lágtíðnifjarskipta hvar sem er á landinu og umhverfis það. Hugsanlega væri líka hægt að nýta jarðleiðnikort á öðrum sviðum vísinda, t.d. í jarðvísindum og við ræktunarstarf,“ segir Valentin og bætir við að endingu: „Mér þótti uppörvandi að heyra frá leiðbeinendum mínum að meistaranemi er nú þegar byrjaður að vinna verkefni þar sem mælingar Sæmundar eru nýttar til að útfæra spálíkan fyrir móttökustyrk.“

Leiðbeinendur: Sæmundur E. Þorsteinsson, lektor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, og Kristinn Andersen, prófessor við sömu deild.