Skip to main content

Ímynd Nonna í Japan

Ímynd Nonna í Japan - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Mér finnst það mjög merkilegur hluti af sögu Íslendinga þegar þeir byrja að mynda sambönd við fjarlæg lönd. Við eigum nána, langa og farsæla sögu t.d. gagnvart nágrannalöndum okkar en það er ekki sjálfgefið að eiga náin tengsl við lönd hinum megin á hnettinum eins og Japan. Við eignumst okkar eigin utanríkisþjónustu mjög seint af því að við heyrðum undir Danmörku og lengi vel var utanríkisþjónusta Íslands takmörkuð. Það var stórt skref í íslenskum utanríkismálum þegar að Ísland hóf að stunda viðskipti og menningarsamskipti við Japan og síðar kom til opinbert stjórnmálasamband við þetta fjarlæga ríki.“ 

Þetta segir Kristín Ingvarsdóttir, lektor í japönskum fræðum við Mála-og menningardeild Háskóla Íslands, um upphaf samskiptasögu Íslands og Japans, sem hún stundar rannsóknir á. Ein af áherslum hennar í rannsókninni eru þættir í sögunni sem að hennar sögn hafa gleymst. Sem dæmi nefnir hún Japansferð rithöfundarins Jóns Sveinssonar, sem er betur þekktur sem Nonni úr Nonnabókunum. „Hann dvaldist í Japan í heilt ár, frá 1937 til 1938, og vakti gríðarlega athygli. Það var skrifað um hann í mörgum af stærstu fjölmiðlum Japans og sumar af bókunum hans voru þýddar og síðan endurútgefnar í marga áratugi á eftir,“ segir Kristín.

Sjálf segist hún lítið hafa vitað um ferð Nonna á meðan hún bjó í Japan, skammt frá þeim stað þar sem Nonni dvaldist sjálfur, en hann ritaði ferðabók um dvöl sína í Japan. Þá er einnig að finna frásögn af dvöl hans í ævisögu Jóns eftir Gunnar F. Guðmundsson sem kom út árið 2012. Áherslur Kristínar eru hins vegar á ímynd Jóns í Japan og hvað var skrifað um hann á þeim tíma.

Kristín hefur birt tvær greinar í tímaritinu „Skírni“ um samskipti Íslands og Japans. Önnur þeirra fjallar um söguna fyrir seinni heimsstyrjöld, en sú seinni um söguna eftir stríð. Einnig hefur hún birt tvær greinar á Vísindavefnum um sama viðfangsefni í tilefni heimsóknar forseta Íslands til Japans haustið 2019. Ítarleg grein um Japansdvöl Nonna birtist í nýjasta hefti tímaritsins „Milli mála“. Von er á fleiri greinum frá Kristínu um viðfangsefnið á þessu ári og reynir hún að birta niðurstöður sínar jafn óðum. Einnig er hún að skrifa bók um viðfangsefnið.

Kristín Ingvarsdóttir, lektor í japönsku við Mála-og menningardeild Háskóla Íslands, rannsakar upphaf samskiptasögu Íslands og Japans og segir þar ýmislegt koma á óvart. MYND/Kristinn Ingvarsson

Spurð um áhuga Kristínar á Japan segir hún að hann hafi komið úr ýmsum áttum. Hann hófst m.a. þegar hún æfði karate á Íslandi en hún heillaðist sérstaklega af því að öll hugtökin fyrir tækni í íþróttinni væru á japönsku en ekki þýdd á íslensku „Þar var svona eitt af því sem gerði mig forvitna um Japan þegar ég var táningur hérna heima á Íslandi. Svo var ég líka í myndlistaskóla mjög lengi sem vakti áhuga minn á japönskum listum og menningu. Svo hef ég alltaf haft gríðarlegan áhuga á tungumálum og mér fannst einhvern veginn japanskan alveg ótrúlega spennandi.“ Seinna meir fór hún í alþjóðlegt viðskiptanám með áherslu á Japan og Austur-Asíu og flutti síðan til Japans þar sem hún útskrifaðist með meistara- og doktorsgráðu frá Hitotsubashi-háskólanum í Tókýó.

Kristín segir enn fremur athyglisvert og hafa komið henni á óvart hve mikinn áhuga Japanir hafa á Íslandi og Íslendingum. Hún bendir á því til stuðnings að Íslendingasögurnar hafi verið kenndar við Tókýóháskóla, þekktasta háskóla Japans, snemma á 20. öld. Þegar hún var yngri var hins vegar nánast ekkert hægt að læra um japanska tungu og menningu hér á landi. Þetta hefur þó breyst með árunum og er japanska nú eitt af þrettán erlendum tungumálum sem kennd eru við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands og jafnframt eitt af þeim vinsælustu við deildina.

Höfundur greinar: Hans Marteinn Helgason, nemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands.