Skip to main content

Hver er lykillinn að góðum lesskilningi?

Jóna Guðrún Guðmundsdóttir, doktorsnemi við Mála- og menningardeild

„Aðalmarkmiðið með rannsókninni er að kanna stöðu lesskilnings hjá nemendum við lok grunnskóla og að skoða hvort og þá hvaða áhrif áunnin lesskilningsfærni á móðurmáli hefur á lesskilning annars máls,“ segir Jóna Guðrún Guðmundsdóttir, doktorsnemi í enskum málvísindum við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, um doktorsrannsókn sína.

Rannsóknin er þríhliða þar sem ætlunin er að kanna lesskilning á meðal 10. bekkinga í íslensku og ensku. Rýnt er í hvaða aðferðir nemendur nota við lesturinn og áhrif þeirra á lesskilning. Þá er skoðað hvort sömu aðferðir séu notaðar á móðurmáli og á öðru tungumáli. Síðast en ekki síst er kannað hvort tengsl séu á milli lesskilnings í íslensku sem móðurmáls og ensku sem annars máls, þ.e. hvort þeir sem mælast með góðan lesskilning á íslensku séu jafnvígir á ensku og hvort sú færni sem eykur lesskilning byggist á færni í tungumálinu eða á lesaðferðunum. Prófað verður fyrst í íslensku og svo í ensku og eru prófin sambærileg hvað varðar til dæmis orðþéttni texta og gildi spurninga. Jóna Guðrún hyggst heimsækja átta grunnskóla víðs vegar um landið í tengslum við rannsóknina.

Í ljósi niðurstaðna sem snúa að lesskilningi í samræmdum könnunarprófum og PISA-prófum 2015 hér á landi telur Jóna Guðrún brýnt að gera rannsókn af þessu tagi. „Hefðbundin ályktun fræðanna hefur verið sú að lesskilningur í móðurmáli sé langbesta vísbendingin um góðan árangur í lestri á öðru máli, jafnvel mikilvægari en hæfnin í tungumálinu sjálfu. Norsk rannsókn Lisbeth Brevik og fleiri frá árinu 2017 um fjölþætt samband milli móðurmáls og annars tungumáls hefur hins vegar ýtt stoðum undir að svo sé ekki. Í þeirri rannsókn kemur fram að hópur norskra framhaldsskólanemenda sé með betri lesskilning í öðru tungumáli en í móðurmáli. Endurskoðun á eldri ályktunum er því þörf og er rannsókn mín partur af því,“ segir Jóna Guðrún. 

„Lesskilningur hefur verið ofarlega í mínum huga en ég á þrjú ungmenni sem öll hafa lokið grunnskóla og eru í framhaldsskóla, listnámi og á vinnumarkaði. Ég hef fylgst með þeim og öðrum nemendum,“ segir Jóna Guðrún. „Það sem eflir mann í vísindastarfi er að vera tengdur nemendunum. Maður vonar að maður geti lagt eitthvað til bæði fræðasamfélagsins og skólasamfélagsins.“ 

Jóna Guðrún  Guðmundsdóttir

Segja má að kveikjan að rannsókn Jónu Guðrúnar hafi verið meistararitgerð hennar sem fjallaði um gerð lesefnis í efstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla. Þar bentu niðurstöður til þess að 70% af öllu lesefni væru bókmenntir en kynning á öðrum textagerðum, eins og fræðilegum textum eða fagtextum, væri lítil sem enginn. Ásamt því að skrifa doktorsritgerð starfar Jóna Guðrún, sem er menntaður framhaldsskólakennari í ensku, sem stundakennari í ensku við Háskóla Íslands. „Lesskilningur hefur verið ofarlega í mínum huga en ég á þrjú ungmenni sem öll hafa lokið grunnskóla og eru í framhaldsskóla, listnámi og á vinnumarkaði. Ég hef fylgst með þeim og öðrum nemendum,“ segir Jóna Guðrún. „Það sem eflir mann í vísindastarfi er að vera tengdur nemendunum. Maður vonar að maður geti lagt eitthvað til bæði fræðasamfélagsins og skólasamfélagsins.“ 

Hún segir niðurstöður rannsóknarinnar geti skipt miklu máli og vonast til að þær muni varpa ljósi á hvað liggur að baki góðum lesskilningi. Mögulega komi fram ný þekking sem fræða- og kennslusamfélagið í heild muni geta nýtt sér. „Það er einstakt tækifæri á Íslandi að gera svona rannsókn af því við getum prófað sömu nemendurna samhliða í íslensku og ensku,“ segir Jóna Guðrún. 

Aðspurð að því hver hennar áhugamál séu fyrir utan vinnu og nám segir hún: „Ferðalög til dæmis og tungumál. Ég var keppnismanneskja í sundi hérna í gamladaga en að öðru leyti þá held ég að þetta eigi mestan hug minn núna - tungumál og málvísindi. Það eru forréttindi að fá að vinna við áhugamálið.“

Leiðbeinandi: Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum við Háskóla Íslands og stjórnarformaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands.

Höfundur greinar: Árný Árnadóttir, nemi í vefmiðlun við Háskóla Íslands.