Skip to main content

Frá kynferðislegum útlögum til fyrirmyndarborgara

Frá kynferðislegum útlögum til fyrirmyndarborgara - á vefsíðu Háskóla Íslands

„Rannsóknin snýst um að rekja hvernig orðræðan um hinsegin fólk á Íslandi hefur þróast frá því að stilla upp hinsegin fólki, þá aðallega samkynhneigðum körlum, sem kynferðisútlögum yfir í að orðæðan verði að mestu jákvæð um hinsegin fyrirmyndarborgarann sem endurspeglar nýja og jákvæðari orðræðu almennt um hinsegin fólk.“

Þetta segir Íris Ellenberger, dósent við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, um þverfræðilega rannsókn sem hún vinnur nú að ásamt fleira vísindafólki við HÍ. Rannsóknin er sagnfræðileg en tekur á fjölbreyttum félagslegum og menningarlegum þáttum en horft er til allskyns miðla til að fá gleggri mynd af orðræðu um hinsegin fólk á tímabilinu 1944–2010. Þannig er skoðuð orðræða í fjölmiðlum, gögnum hins opinbera og félagasamtaka auk þess sem leitað er fanga í bókmenntum. 

Íris segir að breytingarnar á orðræðunni sýni að hún innlimi í raun ákveðinn hluta hinsegin fólks inn í þjóðina, eins og hún orðar það, og í verkefninu sé skoðað hvernig sú innlimun fari fram, hvaða valdaafstæður endurspeglist í innlimuninni, hverjir séu skilmálar hennar, hver séu áfram skilin eftir úti í kuldanum og hver séu útilokuð sem afleiðing af þessu ferli.

Saga kynverundar – saga þjóðar

Íris Ellenberger er sagnfræðingur sem hefur vakið mikla athygli fyrir rannsóknir sínar enda nálgast hún söguna með þvermenningarlegum hætti ef þannig má að orði komast. Hún hefur á síðustu árum lagt rækt við sögu kynverundar með áherslu á svokallaða hinsegin sagnfræði. Þessi nýja rannsókn er einmitt á þeim nótum.

Þegar vikið er að kveikjunni að þessari áhugaverðu rannsókn segir Íris að hún hafi sprottið fram í samvinnu hennar, Hafdísar Erlu Hafsteinsdóttur og Ástu Kristínar Benediktsdóttur.  

„Í fyrri rannsóknum okkar hafði komið mjög skýrt fram hversu hugmyndir um íslenska þjóð höfðu sterk áhrif á orðræðuna um hinsegin fólk. Skipti þá engu hvort um var að ræða umfjöllun um listir á sjötta áratug 20. aldar eða orðræðuna um hinsegin paradísina Ísland á öðrum áratugi 21. aldar. Þjóðin og staða hinsegin fólks gagnvart henni var afar miðlæg. Þess vegna langaði okkur til að kanna þetta samband á kerfisbundinn hátt, hvernig það hefur breyst og varpa ljósi á ástæður og forsendur þeirra breytinga sem áttu sér stað,“ segir Íris. 

Rannsóknarteymið hefur nú verið að störfum í á annað ár og enn er margt á huldu. Þó segir Íris að ýmsar línur séu farnar að skýrast, eins og hvað varðar hlutverk HIV-faraldursins í aðgangi samkynja para að hefðbundnum stofnunum hjónabands og kirkju. 

„Þá erum við farin að átta okkur á því hvernig stjórnvaldstækni nýfrjálshyggjunnar birtast í fjölmiðlaumfjöllun um samkynhneigða karla og þau áhrif sem nýfrjálshyggjan hefur á sameiginlegt minni af sögu hinsegin fólks á Íslandi.“

Íris segir að doktorsnemar rannsóknarinnar, þau Hafdís Erla Hafsteinsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson, beri hitann og þungann af rannsóknarvinnunni, en Hafdís Erla skoði hlutverk HIV í innlimunarferlinu, m.a. áhrif faraldursins á lagalegar úrbætur fyrir samkynja pör á tíunda áratug síðustu aldar. 

„Þorsteinn skoðar aftur á móti áhrif nýfrjálshyggjunnar á innlimun og útilokun hinsegin fólks frá tíunda áratugnum og til okkar daga. Ásta Kristín Benediktsdóttir, lektor við Íslensku- og menningardeild, skoðar svo hvort og hvernig þessi þróun endurspeglast í bókmenntaorðræðu síðustu 50 ára.“

Rannsóknahópinn skipa þau Þorsteinn Vilhjálmsson, Hafdís Erla Hafsteinsdóttir Ásta Kristín Benediktsdóttir, og Íris Ellenberger. „Við erum í raun að skapa nýja þekkingu á bæði sögu hinsegin fólks og sögu þjóðernismyndunar á Íslandi,“ segir Íris. 

Rannsóknahópurinn

Fyrsta stóra verkefnið um sögu hinsegin fólks

Íris segir að þetta sé fyrsta stóra rannsóknarverkefnið um sögu hinsegin fólks á Íslandi og það muni því auka til muna þekkingu okkar Íslendinga á því rannsóknarsviði. „Við erum í raun að skapa nýja þekkingu á bæði sögu hinsegin fólks og sögu þjóðernismyndunar á Íslandi,“ segir Íris. 

„Þar að auki mun rannsóknin leiða til aukins skilnings á því hvaða hlutverki hinsegin kynverundir gegna í mótun þess ímyndaða samfélags sem við köllum íslenska þjóð. Það hefur mikið gildi að skoða þetta gagnkvæma samband milli hinsegin fólks og þjóðarinnar því það eykur ekki aðeins þekkingu okkar á sögu hinsegin fólks heldur kemur með algjörlega nýtt sjónarhorn á mótun hugmynda um íslenskt þjóðerni á síðustu 50 árum.“

Heimsmarkmiðin og hinsegin gildin

Þegar kemur að því að leita eftir tengslum rannsóknarinnar við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er svar Írisar virkilega áhugavert. 

„Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eru ekki mjög hinsegin inngildandi þar sem þar er einvörðungu fjallað um jafnrétti kynjanna, ekki jafnrétti á víðari grunni. En þetta verkefni hefur augljósa jafnréttisskírskotun þar sem rannsóknin eykur bæði þekkingu okkar á sögu hinsegin fólks, en það skiptir miklu máli fyrir jaðarsetta hópa að hafa meðvitund um sögu sína. Þar að auki dregur rannsóknin fram þá staðreynd að hinsegin fólk er og var ekki jaðarhópur sem á sína sögu í einangrun. Heldur þvert á móti skiptir hinsegin fólk og hinsegin kynverundir gríðarlegu máli fyrir sjálfsskilning og sjálfsvitund heillar þjóðar. Þess konar vitneskja stuðlar að sjálfsögðu að jafnrétti og réttlæti, sbr. Heimsmarkmiðið sem tekur á frið og réttlæti.“

Rannsóknir skipta gríðarlega miklu máli

Á Vísindavef HÍ stendur að Íris sé vísindamaður en líka aktívisti sem berjist fyrir félagslegu réttlæti kvenna, hinsegin fólks og annarra jaðarsettra einstaklinga. „Hún hefur því lagt sig fram við að flétta saman fræðum og aktívisma með því að skrifa pistla og greinar fyrir almenning í blöð og á vefmiðla. Hún hefur einnig tekið þátt í að skipuleggja ráðstefnur um samtvinnun og samtvinnunarfemínisma, vinnustofur um hinsegin baráttu og forréttindi auk sýninga sem hafa það að markmiði að koma á samtali milli fræðafólks og almennings,“ segir á Vísindavefnum. Upplýsingar þaðan sýna að Íris leitar fjölbreyttra leiða til að miðla rannsóknum og efni þeirra til almennings en það er einmitt hluti af heildarstefnu Háskólans að leita nýrra leiða við að miðla þekkingu til samfélagsins. 

„Rannsóknir skipta gríðarmiklu máli. Þær innleiða nýja þekkingu sem gerir okkur kleift að skoða samfélög okkar og heiminn í nýju ljósi. Rannsóknir gera okkur kleift að skoða með gagnrýnum augum þær ákvarðanir sem teknar eru af valdhöfum, auk þeirra orðuðu og óorðuðu forsendna sem liggja þar að baki. Þær leggja grunninn að aðhaldi við valdhafa og eru því hornsteinnin að lýðræði og réttlæti, jafnvel áframhaldandi tilvist okkar á jörðinni,” segir Íris.