Skip to main content

Erkifjendurnir mega ekki vinna í enska

Atli Jóhannesson, M.Ed. frá Menntavísindasviði

Í áratugi hefur enska knattspyrnan notið fádæma vinsælda hér á landi og verið vinsælt umræðuefni á kaffistofum víða um land, ekki síst á mánudagsmorgnum að loknum helgarleikjum. Fjölmargir Íslendingar eiga sér sitt uppáhaldslið í ensku úrvalsdeildinni og leggja ýmislegt á sig til þess að geta fylgst vel með því. Í meistaraverkefni sínu í íþrótta- og heilsufræði beindi Atli Jóhannesson sjónum sínum að þessum stuðningsmönnum og kannaði hvaða áhrif þetta áhugamál hefði á líf og persónu þeirra.

„Hugmyndin að rannsókninni kviknaði í grunnnámi við Háskólann í Reykjavík árið 2009. Þá sat ég áfanga um íþróttir í félags- og menningarlegu samhengi sem mér finnst mjög áhugaverð nálgun,“ segir Atli um upphaf rannsóknarinnar. Honum hafi fundist áhugavert að skoða áhrif íþrótta bæði á stuðningsmenn liða og samfélagið allt. „Þegar undirbúningur rannsóknarinnar hófst voru allir leikir í ensku úrvalsdeildinni sýndir í beinni útsendingu og enski boltinn er mjög vinsæll á Íslandi. Þess vegna lá beinast við að taka viðtöl við stuðningsmenn liða í þeirri deild.“
 

Atli Jóhannesson

„Hugmyndin að rannsókninni kviknaði í grunnnámi við Háskólann í Reykjavík árið 2009. Þá sat ég áfanga um íþróttir í félags- og menningarlegu samhengi sem mér finnst mjög áhugaverð nálgun..“

Atli Jóhannesson

Atli lét sér ekki nægja að ræða við hóp stuðningsmanna heldur fór einnig í tvær vettvangsathuganir á sportbar. „Rannsóknin leiðir í ljós að stuðningsmenn liða í enska boltanum upplifa hann sem sitt stærsta áhugamál. Áhuginn takmarkast ekki bara við hvernig þeirra liði gengur heldur vilja þeir alls ekki að erkifjendurnir sigri. Einnig sýna niðurstöður að úrslit leikja hafa áhrif á það hvernig þeim líður en með auknum aldri og þroska taka þeir slæmu gengi síns liðs betur en áður. Þeir telja áhugann ekki hafa hamlandi áhrif á einkalíf og fjölskyldu heldur þvert á móti fylgi honum góður og skemmtilegur félagsskapur,“ segir Atli enn fremur og bætir við að forvitnilegt væri að skoða hvort niðurstöðum þessarar rannsóknar svipi til niðurstaðna sams konar erlendra rannsókna.

Leiðbeinendur: Steingerður Ólafsdóttir og Örn Ólafsson, lektorar við Menntavísindasvið.