Skip to main content

Er réttlætanlegt að hætta lífi og heilsu borgara fyrir félagsleg samskipti?

Er réttlætanlegt að hætta lífi og heilsu borgara fyrir félagsleg samskipti? - á vefsíðu Háskóla Íslands

Einn af þeim hópum sem varð hvað verst úti í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins og ekki síður þeirri þriðju voru eldri borgarar á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Þeir eru í sérstakri hættu á að veikjast alvarlega af COVID-19 og því var á tímabili sett heimsóknarbann á öllum slíkum heimilum sem þýddi að ættingjar og vinir gátu ekki heimsótt heimilismenn. En hvaða kostnað hafði heimsóknarbannið í för með sér og hver var ávinningurinn?

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Hagfræðideild Háskóla Íslands, fæst við þessa spurningu ásamt samstarfsfólki sínu innan og utan Háskóla Íslands. Að rannsókninni koma auk hennar Þórólfur Mattíasson, prófessor í hagfræði, Gísli Páll Pálsson, forstjóri Grundarheimilanna, sem er með MS-próf í heilsuhagfræði frá Háskóla Íslands, auk tveggja nýútskrifaðra hagfræðinga, þeirra Guðnýjar Halldórsdóttur og Bergþóru Þorvaldsdóttur sem unnu að rannsókninni með stuðningi frá Nýsköpunarsjóði námsmanna í sumar. 

Tinna stundar margvíslegar heilsuhagfræðirannsóknir sem snúa að hegðun og lífsstíl einstaklinga. Nefna má tengsl heilsu og hlutskiptis á vinnumarkaði, áhrif sveiflna í efnahag á heilsu, heilsuhegðun, svokallaða fjölskylduhagfræði og rannsóknir sem miða að því að meta virði óáþreifanlegra gæða sem ekki fást til sölu á markaði, svo sem hjónabands eða þess að vera foreldri.

Afrakstur rannsóknarinnar getur nýst í framtíðinni

Þegar kórónuveirufaraldurinn hóf að herja á Íslendinga snemma í vor reyndist nauðsynlegt að taka í skyndi ákvörðun um að loka dvalar- og hjúkrunarheimilum hér á landi til að verja íbúa þeirra. „Eðlilega þurfti að nota almenna skynsemi enda var ekki á miklum gögnum að byggja. En nú þegar reynsla er komin á málið og það er tími til þess að undirbyggja svona ákvarðanir betur, ákváðum við að fara af stað til þess að skoða hagkvæmni heimsóknarbanns eða heimsóknartakmarkana,“ segir Tinna. Hún bætir við að markmiðið sé að afrakstur rannsóknarinnar geti nýst í framtíðinni, hvort sem er í seinni bylgjum faraldursins eða öðrum faröldrum. 

Rannsóknin felst m.a. í því að meta aukakostnað og ávinning dvalar- og hjúkrunarheimilanna af íhlutuninni en þar skipta hlutir á borð við rekstartölur heimilanna vissulega máli. Það er þó að mati Tinnu ekki síður mikilvægt að meta virði þeirra óáþreifanlegu gæða sem koma við sögu, þ.e. hversu miklu máli félagsleg samskipti skipta íbúana annars vegar og þá ógn sem felst í þeim gagnvart lífi og heilsu þeirra hins vegar.„Virði þeirra óáþreifanlegu gæða sem koma við sögu skipta kannski mestu máli í þessari rannsókn því þótt heimsóknarbannið hafi vissulega áhrif á ákveðna hluti í rekstri er fyrst og fremst verið að kaupa líf og heilsu og greiða fyrir þau kaup með félagslegum samskiptum. Við þurfum að reyna að meta magn og virði heilsunnar sem við fáum fram með heimsóknarbanninu. Og á sama tíma þurfum við að meta magn og virði þeirra félagslegu samskipta sem að fólk varð af,“ segir Tinna. 

Rannsókn Tinnu og samstarfsfólks mun vonandi gagnast í framtíðinni, bæði þegar kemur að öðrum bylgjum þessa faraldurs og ef annars konar faraldrar herja á mannkynið. Þá má nýta þær upplýsingar sem rannsóknin veitir til að að undirbyggja ákvarðanir um aðgerðir til að verja heilsu viðkvæmra þegna samfélagsins án þess að kaupa heilsuna of háu verði, það er í skiptum fyrir lífshamingju einstaklinganna á meðan á aðgerðum stendur.  

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir

Virði félagslegra samskipta rannsakað

Hún bætir við að mikið sé vitað um virði heilsu út frá við aldri og heilsubresti fólks úr fyrri rannsóknum en erfiðara sé að rannsaka virði félagslegra samskipta. Helsta leiðin til þess sé að leggja spurningakannanir fyrir þar sem reynt er að grafast fyrir um virði félagslegra samskipta við fólk innan og utan heimilanna. Tinna og samstarfsfólk hafa þegar undirbúið slíka rannsókn en bíða nú eftir tilskildum leyfum til framkvæmdarinnar. 

Rannsóknin mun vonandi gagnast í framtíðinni, bæði þegar kemur að öðrum bylgjum þessa faraldurs og ef annars konar faraldrar herja á mannkynið. Þá má nýta þær upplýsingar sem rannsóknin veitir til að að undirbyggja ákvarðanir um aðgerðir til að verja heilsu viðkvæmra þegna samfélagsins án þess að kaupa heilsuna of háu verði, það er í skiptum fyrir lífshamingju einstaklinganna á meðan á aðgerðum stendur.  

Höfundur greinar: Sigríður H. Jónasdóttir, nemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands