Skip to main content

Endurhæfing á heimavelli eftir heilablóðfall

Þóra B. Hafsteinsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild

Heilablóðfall eða slag er það kallað þegar truflun verður á blóðflæði til heilans þannig að heilafrumur fara að deyja. Árlega er talið að um 600 fái slag hér á landi og bíður margra þeirra löng endurhæfing að lokinni sjúkrahúslegu. Mikilvægt er að sú endurhæfing takist vel og til að stuðla að því vinnur hópur norrænna vísindamanna í rannsóknarverkefninu AktivABLES að því að þróa tæki til að hvetja fólk sem fengið hefur heilablóðfall til aukinnar hreyfingar heima fyrir.

Verkefnið hófst árið 2015 en meðal þátttakenda í því er Þóra B. Hafsteinsdóttir, prófessor í hjúkrunarfræði. „Rannsóknir hafa sýnt að sjúklingar sem hafa fengið heilablóðfall fá mjög góða endurhæfingu inni á endurhæfingarstofnunum en þegar heim er komið eiga þeir erfitt með að halda æfingunum áfram. Það er því mikilvægt að rannsaka hvað það er sem hvetur fólk til að halda æfingum áfram. Rannsóknir hafa sýnt að sjúklingar sem fengið hafa heilablóðfall geta notað tækninýjungar í endurhæfingu. Við erum því að þróa tæki sem hvetja sjúklingana til að hreyfa sig meira. Þetta eru mismunandi tæki sem hægt er að laga að þörfum viðkomandi einstaklings með stuðningi fjölskyldu og umönnunaraðila,“ segir Þóra.

Þóra B. Hafsteinsdóttir

„Ef við getum þróað þessi tæki vel og sýnt fram á að nýjungar sem þessar nýtast einstaklingum með heilablóðfall vel væri áhugavert að fara í stærri rannsókn á áhrifum tækninnar og ef til vill í samvinnu við fleiri lönd.“ 

Þóra B. Hafsteinsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild

Þóra bendir á að þegar nýjungar séu þróaðar fyrir sjúklinga með heilablóðfall sé mikilvægt að velta fyrir sér hvaða vandamál þeir glími við í daglegu lífi og skoða hvernig slíkar nýjungar geti nýst sem best. „Þess vegna vinna rannsakendur og heilbrigðisstarfsfólk að þróuninni mjög náið með sjúklingum, það er talað um sameiginlega sköpun í þessu sambandi,“ útskýrir Þóra en auk hennar koma doktorsneminn Steinunn A. Ólafsdóttir, Sólveig Ása Árnadóttir, dósent í sjúkraþjálfun, Ingibjörg Hjaltadóttir dósent og Helga Jónsdóttir prófessor, báðar í hjúkrunarfræði, að verkefninu hér á landi.

Þóra segir þróun tækjanna ganga vel og aðstandendur AktivABLES hafi fengið góð viðbrögð frá þeim einstaklingum sem hafi unnið að þessu með vísindahópnum. „Ef við getum þróað þessi tæki vel og sýnt fram á að nýjungar sem þessar nýtast einstaklingum með heilablóðfall vel væri áhugavert að fara í stærri rannsókn á áhrifum tækninnar og ef til vill í samvinnu við fleiri lönd,“ segir hún og bætir við að tæki sem þessi muni væntanlega hafa gildi fyrir sjúklingana sjálfa en gætu einnig nýst öldruðum almennt til að auka hreyfingu í heimahúsum.