Skip to main content

Bætt röðun skurðaðgerða

Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild

„Verkefnið er hagnýtt þar sem markmiðið er að hanna gagnvirkt og sjónrænt upplýsingakerfi sem aðstoðar stjórnendur og innköllunarstjóra á Landspítala – háskólasjúkrahúsi við að finna og viðhalda bestu röðun skurðaðgerða með þar til gerðum reikniritum og líkönum.“

Þetta segir Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson, dósent í iðnaðarverkfræði, um verkefni sem hann vinnur nú að ásamt Tómasi P. Rúnarssyni, sem einnig er prófessor í iðnaðarverkfræði.
 

Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson

„Verkefnið er hagnýtt þar sem markmiðið er að hanna gagnvirkt og sjónrænt upplýsingakerfi sem aðstoðar stjórnendur og innköllunarstjóra á Landspítala – háskólasjúkrahúsi við að finna og viðhalda bestu röðun skurðaðgerða með þar til gerðum reikniritum og líkönum.“

 Rögnvaldur Jóhann Sæmundsson

Nýsköpun í heilbrigðiskerfinu í formi bættra aðferða er ákaflega mikilvæg því hún getur snardregið úr kostnaði á sama tíma og hún eykur öryggi sjúklinga. Rögnvaldur segir verkefni þeirra félaga býsna flókið viðfangsefni enda hafi ekki enn þá fundist góð lausn á þessari mikilvægu röðun aðgerða, hvorki á Landspítalanum né meðal annarra þjóða sem við berum okkur saman við.

„Landspítalinn hefur mikinn áhuga á því að skilja betur hvernig skipulag og röðun skurðagerða hefur áhrif á flæði sjúklinga og nýtingu aðfanga með það fyrir augum að tryggja öryggi sjúklinga og auka nýtni og skilvirkni.“

Rögnvaldur segir að fjárfesting í skurðstofurými sé nálægt því að vera tíföld á við fjárfestingu í legurými af sömu stærð. „Það er því eftir miklu að sækjast með því að bæta flæði og nýtingu aðfanga við skurðaðgerðir, hvort heldur sem er með betri nýtingu á þeim búnaði sem fyrir er eða með endurbótum og nýsköpun,“ segir Rögnvaldur.

Fyrsta frumgerð af bestunarlíkani er komin úr smiðju þeirra Rögnvaldar og Tómasar og lofar hún góðu. Almennt auka rannsóknir þekkingu okkar en að sögn Rögnvaldar gera rannsóknir í verkfræði okkur betur kleift að takast á við ýmsar áskoranir og nýta betur það sem við höfum í höndunum.