Skip to main content

Við erum öll almannavarnir! Mikilvægi upplýsingamiðlunar fyrir seiglu samfélaga á hamfaratímum

Tengiliður

Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir doktorsnemi
Tölvupóstur: ilo@hi.is

Heilbrigðisvísindasvið

Á sviðinu starfa margir fremstu sérfræðingar þjóðarinnar í heilbrigðisvísindum við kennslu og rannsóknir.

Verkfræði og náttúruvísindasvið

Á sviðinu starfa margir helstu sérfræðingar þjóðarinnar í verkfræði, tölvunarfræði, raun- og náttúruvísindum. 

Veggspjald rannsóknarinnar

COVID-19 verkefni HÍ

Rannsóknarteymi

Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir, doktorsnemi í umhverfis- og auðlindafræðum
Guðrún Gísladóttir, prófessor í landfræði
Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða
Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor í umhverfis- og byggingarverkfræði

Samstarfsaðilar

 • Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra
 • Embætti landlæknis

Lýsing á rannsókninni

 • Teymið sem stendur að þessari rannsókn hefur um árabil stundað rannsóknir á samfélagslegum áhrifum náttúruhamfara og möguleikum á því að auka seiglu samfélaga gagnvart miklu álagi. Undanfarin fimm ár hafa þau stýrt NORDRESS, norrænu öndvegissetri um seiglu og samfélagslegt öryggi, sem meira en 60 rannsakendur frá öllum norrænu ríkjunum eiga aðild að.
 • Fyrri rannsóknir teymisins, m.a. á áhrifum eldgosanna í Eyjafjallajökli og Holuhrauni, hafa sýnt að skilvirk upplýsingagjöf til almennings er grundvallarþáttur í farsælum viðbrögðum við hamförum.
 • Í náttúruhamförum undanfarinna áratuga hefur vaxandi áhersla verið lögð á að koma skýrum skilaboðum og ráðleggingum til almennings. Þótt tækniframfarir hafi haft mikil áhrif í þessu samhengi, skipta þó innihald og framsetning skilaboðanna meginmáli.
 • Reynslan sýnir að jafnræði í aðgengi að upplýsingum og þjónustu með tilliti til ólíkra þjóðfélagshópa er þáttur sem gæta verður sérstaklega að.

Verkefnið

 • Í doktorsnámi sínu hefur Ingibjörg Lilja rannsakað félagslegt stuðningsnet þeirra sem takast á við langtímaafleiðingar náttúruhamfara hér á landi. Félagslegur stuðningur er margþættur og felur m.a. í sér upplýsingagjöf opinberra aðila.
 • Í upphafi COVID-19-faraldursins var falast eftir því að Ingibjörg Lilja tæki þátt í störfum viðbragðsteymis almannavarna og tók hún sér tímabundið leyfi frá doktorsnámi sínu til þess. Henni var falin ritstjórn covid.is heimasíðunnar, sem ásamt upplýsingafundum „þríeykisins“ hefur verið uppistaðan í upplýsingagjöf stjórnvalda til almennings.
 • Þessi reynsla varð kveikjan að rannsóknarverkefninu sem nú er unnið að.
 • Eins og við er að búast í hamförum voru fundirnir og vefsíðan sett upp án nokkurs fyrirvara og lítið svigrúm gafst til að hugsa sig um. Treysta þurfti á sérfræðikunnáttu viðbragðsteymisins og þess stóra hóps sérfræðinga sem það hafði greiðan aðgang að.
 • Allar breytingar, þýðingar og endurbætur þurftu að fara fram á heimasíðu sem var í stöðugri notkun. Stundum bárust ábendingar frá notendum, bæði almenningi og öðrum, um það sem betur mætti fara og var tekið tillit til þeirra eftir föngum. Mikil áhersla var lögð á að ná til sem flestra þjóðfélagshópa, til að mynda mátti finna upplýsingar á síðunni á 11 tungumálum, einfölduðu máli og í formi upplesturs.
 • Það var mikil áskorun að covid.is varð að endurspegla umsvifalaust allar breytingar sem urðu á tilmælum stjórnvalda um takmarkanir á samkomum og ferðatakmarkanir.

Aðferðir  

 1. Greining verður gerð á því hvernig vefurinn var settur upp og hvernig hann  hefur þróast.  
 2. Með djúpviðtölum við þau sem unnu að vefnum verður kannað hvað hafði  áhrif á þróun hans. Hvers vegna og hvernig bættust við upplýsingar – er  eitthvað sem gott hefði verið að vita í byrjun en kom ekki í ljós fyrr en síðar?  
 3. Spurningakannanir meðal almennings um hvernig vefurinn hefur nýst og hvað má betur fara. Gætt verður að því að ná til sem flestra þjóðfélagshópa.

Markmið - Framlag til samfélags

 • Markmiðið með rannsókninni er að skilja hvernig þær leiðir sem farnar voru til að ná til almennings í COVID-19-faraldrinum virkuðu og hvað hefði mátt betur fara.
 • Í dagsins önn gafst því lítill tími til að meta vefsíðuna í heild sem þó er svo mikilvægt ef draga á lærdóm af þessari miklu reynslu sem nýst getur til framtíðar.
 • Ávinningur verkefnisins er áherslan á hagnýtingu þekkingar. Viðbragðsaðilar á Íslandi, Almannavarnir og fleiri, fá tækifæri til að tileinka sér þá þekkingu og lærdóm sem hlýst af rannsókninni og þekkingu sem gagnreynd er með vísindalegum aðferðum. Grundvallaratriði er möguleiki viðbragðsaðila á að innleiða nýja þekkingu í sína starfsemi svo hún nýtist til framtíðar.

Heimildir
Norris, F. H., Stevens, S. P., Pfefferbaum, B., Wyche, K. F., & Pfefferbaum, R. L. (2008). Community resilience as a Metaphor, Theory, Set of Capacities, and Strategy for Disaster Readiness. American Journal of Community Psychology, 41, 127-150. doi: 10.1007/s10464-007-9156-6
Bird D. K., Jóhannesdóttir G., Reynisson V., Karlsdóttir S., Gudmundsson M. T., & Gísladóttir G. (2017). Crisis Coordination and Communication During the 2010 Eyjafjallajökull Eruption. In: Fearnley C. J., Bird D. K., Haynes K., McGuire W. J., Jolly G. (eds.). Observing the Volcano World. Advances in Volcanology (An Official Book Series of the International Association of Volcanology and Chemistry of the Earth’s Interior – IAVCEI, Barcelona, Spain). Springer, Cham. doi: 10.1007/11157_2017_6

Rannsóknarteymið
Hluti Covid 19- upplýsingateymisins að störfum
Heimsmarkmið 3, 9 og 11 lógó
Meira efni