Skip to main content

Starfsþjálfun hjá umhverfis- og auðlindafræði

Starfsþjálfun hjá umhverfis- og auðlindafræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Þverfaglegt framhaldsnám í umhverfis- og auðlindafræði býður upp á starfsþjálfun fyrir meistaranemendur sína í hinum ýmsu atvinnugreinum. Starfsþjálfunin er hagnýtt valnámskeið sem veitir nemendum tækifæri til að fá innsýn í starfsemi frjálsra félagasamtaka, fyrirtækja eða stofnana (skipulagsheilda) sem tengjast umhverfis- og auðlindafræði. 

Fjölbreyttur ávinningur er fólginn í því að bjóða nemendum starfsþjálfun. Skipulagsheildir fá aðgang að nýjustu þekkingu á viðfangsefnum og fræðum í gegnum nemendur. Jafnframt efla þær aðgengi sitt að framtíðarmannauði og tengsl sín við háskólasamfélagið. Nemendur öðlast þekkingu og reynslu af starfi sem tengist námi þeirra beint undir leiðsögn sérfræðinga í atvinnulífinu. Í lok starfsþjálfunar hafa nemendur fengið tækifæri til að beita fræðilegri þekkingu á raunveruleg viðfangsefni, öðlast reynslu á tilteknu sviði og eflt tengslanetið sitt.

Starfsþjálfun er metin til 6 ECTS og samsvara þriggja vikna fullu starfsnámi (120 klst alls). Hægt er að dreifa starfsnámi yfir lengri tíma, allt að einu kennslumisseri (13 vikur). Verkefni nemanda skulu vera tvenns konar: eitt veigamikið verkefni, sem að minnsta kosti helmingi starfsþjálfunar er varið í, og hins vegar tilfallandi verkefni skipulagsheildarinnar. Æskilegt er að nemandi kynnist sem flestum starfssviðum hennar og fái innsýn í starfsemina. Hægt er að skrá nemendur í námskeiðið hvenær sem er, líka utan hefðbundinna skráningartímabila. Ekki eru gefnar einkunnir fyrir starfsþjálfun, eingöngu staðið eða fallið.