Skip to main content

Þátttaka almennings í sóttvarnaraðgerðum vegna COVID-19-faraldursins

Tengiliður

 • Ævar Þórólfsson, verkefnisstjóri
 • Tölvupóstur: at@hi.is

Félagsvísindastofnun

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands er rannsókna- og fræðastofnun sem sinnir rannsóknum, ráðgjöf og þjónustuverkefnum sem tengjast viðfangsefnum félagsvísinda.

Veggspjald rannsóknarinnar

COVID-19 VERKEFNI HÍ

Rannsóknarteymi

Félagsvísindastofnun: Ari Klængur Jónsson, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir og Ævar Þórólfsson
Félagsfræði: Jón Gunnar Bernburg prófessor og Sigrún Ólafsdóttir prófessor
Viðskiptafræði: Magnús Þór Torfason dósent

Lýsing á rannsókn

 • Rannsóknin er byggð á spurningakönnun þar sem fylgst var með viðbrögðum Íslendinga við ráðleggingum sóttvarnarlæknis á meðan takmarkanir voru til staðar.
 • Spurningakönnun var lögð fyrir netpanel Félagsvísindastofnunar á tímabilinu 1. apríl til 15. júní og aftur í byrjun ágúst og var fólk spurt um viðbrögð þess við ráðleggingum sóttvarnarlæknis.
 • Einnig var spurt um það hversu marga viðkomandi hafi verið að umgangast síðustu tvo sólarhringa, hvort fólk hafi farið í skimun fyrir COVID-19 og hversu mikla trú fólk hafi á að aðgerðir stjórnvalda virki til að draga úr faraldrinum. 
 • Í maí var gerð stærri rannsókn þar sem áhersla var lögð á það hversu miklar áhyggjur almenningur hefur af faraldrinum og hversu miklar afleiðingar hann gæti haft. Spurningalistinn innihélt einnig spurningar um traust til yfirvalda, sérfræðinga, heilbrigðiskerfisins og fjölmiðla, traust til samfélagslegrar ábyrgðar almennings, líkamlegrar og andlegrar heilsu sem og breytingar í vinnuumhverfi. Tæplega 2000 manna úrtak var tekið úr netpanel Félagsvísindastofnunar fyrir þessa rannsókn og bárust 868 svör. 

Niðurstöður

 • Mikill meirihluti almennings fylgdi tilmælum Almannavarna strax í upphafi.
 • Trú almennings á aðgerðum og að þær myndu skila árangri var sömuleiðis mjög mikil, jafnvel á meðan faraldurinn var í fullum vexti. 
 • Ljóst var að þegar smituðum fækkaði slakaði fólk meira á í tengslum við faraldurinn, þ.e. bæði minnkuðu áhyggjur og fólk fór ekki í eins miklum mæli eftir fyrirmælum um sóttvarnaraðgerðir. 
 • Þegar það náðust betri tök á ástandinu jókst traust fólks á þeim sóttvarnaaðgerðum sem voru við lýði á hverjum tíma. Traustið jókst líklega líka þar sem upplýsingagjöf var svo mikil, þ.e. daglegir fundir með sérfræðingum og forsvarsmönnum. 
 • Íslendingar hafa meiri áhyggjur af COVID-19-kórónuveirufaraldrinum í annarri bylgju en þeirri fyrstu en eru samt ólíklegri en áður til að fara að fyrirmælum almannavarna.
 • Ástæður þess að fólk sé ekki eins tilbúið í annarri bylgju að fylgja fyrirmælum og áður og getur verið að fólk trúi síður að núverandi sóttarnaaðgerðir skili árangri þar sem faraldurinn tók sig upp aftur.

Aðferðafræði

 • Félagsvísindastofnun hafði að eigin frumkvæði sent út nokkrar spurningar á netpanel sinn og í kjölfarið á því höfðu aðrir rannsakendur samband og þar með hófst samstarf.
 • Svipuð rannsókn hefur verið gerð í Bandaríkjunum og því var hægt að nýta hluta af þeim spurningum og yfirfæra á íslenska aðstæður.
 • Gagnaöflun hefur verið framkvæmd á netinu þar sem notast var við netpanel Félagsvísindastofnunar, en hann samanstendur af fólki 18 ára og eldra á landinu öllu eftir úrtaki úr þjóskrá. 
 • Í upphafi var tekið 1000 manna úrtak til að fá nægjanlega mörg svör fyrstu dagana. Næstu sjö daga á eftir var tekið 500 manna úrtak daglega og í kjölfarið af því 400 manna úrtak daglega. 
 • Könnunin var fyrst send út 1. apríl og var hún alltaf send út klukkan 15:00, strax eftir að upplýsingafundi Almannavarna lauk. 
 • Könnunin var send út í fyrstu bylgju (1. apríl til 1. júní) og aftur í annarri bylgju (frá byrjun ágúst). 
 • Á hverjum degi bárust á bilinu 150-220 svör en fæst hafa þau verið 137 og flest 275.
 • Alls voru send 17.172 boð um að taka þátt í könnuninni og fengu flestir í netpanelnum fleiri en eitt boð á rannsóknartímabilinu. Alls bárust 8.794 svör og er þátttökuhlutfall því ríflega 51%.
 • Svarhlutfall er alla jafna lægra meðal yngra fólks. Þá er svarhlutfall hærra meðal fólks sem hefur lokið háskólagráðu en hjá þeim sem ekki hafa lokið slíkri gráðu. 
 • Gögnum er safnaði í GAGNÍS sem er gagnaþjónusta Félagsvísindastofnunar og er öllum aðgengileg í gegnum opinn aðgang. 

Samantekt af áhrifaþáttum - Framlag til samfélags

 • Af því að sérþekking, tól og gögn, eins og netpanell Félagsvísindastofnunar, voru til staðar í upphafi var hægt að byggja þetta verkefni upp mjög hratt.
 • Engu umframfjármagni var veitt til þessa verkefnis og kostnaður af því fólst í vinnustundum starfsfólks. Þrátt fyrir skort á fjármagni var engu að síður ráðist í að gera þessa rannsókn þar sem um mikilvægt tímabil var að ræða og almannahagur fólginn í því að eiga gögn sem þessi.
 • Samfélagslegt framlag felst fyrst og fremst í gagnasöfnun og opnum aðgangi að gögnunum. Vísindafólk, stjórnvöld, landlæknir, almannavarnir og almenningur getur nýtt sér gögnin. Vísindafólk getur sem dæmi metið árangur aðgerða eftir að faraldurinn hefur gengið yfir. Auk þess er hægt að draga lærdóm af því hvernig samfélagið fer í gegnum slíkt áfall og hvernig traust þróast. Það er því hægt að nota gögnin ef fleiri bylgjur koma upp eða svipaður faraldur fer af stað til að skoða hvernig fólk er líklegt til að hegða sér og hvað hafi áhrif á traust.
 • Pólitískt framlag: Stjórnvöld voru látin vita af gögnunum svo þau gátu t.d. fylgst með hvort fólk færi eftir reglum og hversu margir voru að hittast daglega. Stjórnvöld geta rýnt aðgerðir með tilliti til niðurstaðna rannsóknarinnar og metið á þeim grunni hvaða breytur hafa áhrif á t.d. aðgerðir eða upplýsingagjöf. Slíkar upplýsingar er hægt að nota í stefnumótun og krísustjórnun almannavarna og stjórnvalda.
 • Vísindalegt framlag felst í aðferðafræði sem hefur ekki verið beitt áður á Íslandi við greiningu á samfélagslegum þáttum.

Heimildir
Anna Lilja Þórisdóttir. (2020, 08. ágúst). Færri treysta sóttvörnum annarra. RÚV. Sótt frá https://www.ruv.is/frett/2020/08/20/faerri-treysta-sottvornum-annarra
Anna Sigríður Einarsdóttir. (2020, 25. ágúst). Hafa meiri áhyggjur af COVID en fylgja síður fyrirmælum. RÚV. Sótt frá https://www.ruv.is/frett/2020/08/25/hafa-meiri-ahyggjur-af-covid-en-fylg...
Ari Klængur Jónsson, Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, Jón Gunnar Bernburg, Magnús Þór Torfason, Sigrún Ólafsdóttir og Ævar Þórólfsson. (2020, 22. apríl). Þátttaka almennings í sóttvarnaraðgerðum vegna COVID-19-faraldursins í apríl 2020. Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=79253
Bára Huld Beck. (2020, 20. apríl). Almenningur hefur trú á sóttvarnaraðgerðum – og að þær muni skila árangri. Kjarninn. Sótt frá https://kjarninn.is/frettir/2020-04-22-tru-almennings-sottvarnaradgerdir...
Sigrún Ólafsdóttir, Magnús Þór Torfason, Jón Gunnar Bernburg og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir. (2020, 2. september). Hvað finnst almenningi um sóttvarnaraðgerðir? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=80004

Hlutfall fólks sem hefur frekar eða mjög miklar áhyggjur af COVID-19 faraldrinum. Í upphafi faraldurs 1. apríl eru mest 68% sem hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur en í lok fyrstu bylgju eru það 32%. Í seinni bylgju sem hefst í ágúst eru það 69% sem hafa frekar eða mjög miklar áhyggjur en fara niður í 54% í lok ágúst.
Heimsmarkmið 3
Meira efni