Skip to main content

Reglur nr. 984-2008

Reglur um skipan og fundarsköp háskólaþings Háskóla Íslands, nr. 984/2008

með síðari breytingum

1. gr.  Um háskólaþing.

Háskólaþing er samráðsvettvangur háskólasamfélagsins þar sem fram fer umræða um þróun og eflingu Háskóla Íslands. Háskólaþing [mótar og setur fram] sameigin­lega vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands að frumkvæði rektors, auk þess að veita umsögn skv. 6. mgr. 6. gr., 1. mgr. 11. gr. og 3. mgr. 16. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Háskólaráð felur háskólaþingi jafnframt að fjalla um sameiginleg akademísk málefni Háskóla Íslands og getur leitað umsagnar þingsins um hvaðeina sem varðar starfsemi háskólans, einstakra fræðasviða og stofnana, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna.

Háskólaþing tilnefnir [þrjá] fulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð, sbr. 6. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla.

Um skipan háskólaþings gilda ákvæði 10. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla.

Háskólaþing er ályktunarfært ef löglega er til þess boðað, án tillits til þess hversu margir sækja þing. Afl atkvæða ræður niðurstöðu ályktunar. Ef atkvæði falla jafnt í atkvæða­greiðslu um ályktun, ræður atkvæði rektors.
Breytt með 1. gr. rgl. nr. 1144/2011.

2. gr.  Fastir fulltrúar á háskólaþingi.

[Á háskólaþingi eiga sæti rektor, forsetar fræðasviða, deildarforsetar og formaður Stúdentaráðs.] Í forföllum forseta fræðasviðs tilnefnir stjórn fræðasviðs fulltrúa úr sínum röðum til þess að taka sæti á þinginu. [Varadeildarforseti situr háskólaþing í forföllum deildarforseta og varaformaður Stúdentaráðs situr háskólaþing í forföllum formanns Stúdentaráðs.]Breytt með 1. gr. rgl. nr. 521/2016.

3. gr.  Skipunartími kjörinna og tilnefndra fulltrúa.

Skipunartími kjörinna og tilnefndra fulltrúa á háskólaþingi er tvö ár í senn, nema fulltrúa nemenda, sbr. 4. gr. Kosningu eða tilnefningu fulltrúa á háskólaþing samkvæmt þessari grein skal lokið fyrir 1. mars á því ári sem skipunartími sitjandi háskólaþings rennur út og miðast upphaf skipunartímabils við 1. júlí og lok við 30. júní að tveimur árum liðnum.

4. gr.  [Skipunartími tilnefndra fulltrúa nemenda.

Skipunartími tilnefndra fulltrúa nemenda á háskólaþingi er eitt ár í senn. Tilnefningu fulltrúa skal lokið fyrir 1. mars og miðast upphaf skipunartímabils við 1. júlí og lok við 30. júní að ári liðnu.]
Breytt með 2. gr. rgl. nr. 521/2016.

5. gr.  Fjöldi kjörinna eða tilnefndra fulltrúa á háskólaþingi.

Fjöldi kjörinna og tilnefndra fulltrúa skal vera sem hér segir:

 1. Sjö fulltrúar fyrir hvert hinna fimm fræðasviða Háskóla Íslands og eru deildar­forsetar þar meðtaldir, sbr. 2. gr. Hinir skulu kjörnir úr röðum akademískra starfsmanna deilda og stofnana undir fræðasviðinu. Enn fremur skal kjörinn með sömu skilmálum einn fulltrúi til viðbótar fyrir hverja 500 nemendur á þeim fræðasviðum þar sem nemendur eru fleiri en 2.000. Fyrir hvern kjörinn fulltrúa fræðasviðs skulu jafnframt kjörnir tveir varamenn með sama hætti.
 2. Tveir fulltrúar samtaka háskólakennara og einn varamaður fyrir hvorn um sig skulu kjörnir úr hópi félagsmanna Félags háskólakennara og Félags prófessora við ríkisháskóla. Áskilið er að sá sem tekur kjöri gegni ekki starfi forseta fræðasviðs eða deildar innan Háskóla Íslands (þ.m.t. varadeildarforseta).
 3. Tveir fulltrúar starfsmanna við stjórnsýslu og einn varamaður fyrir hvorn þeirra skulu kjörnir til tveggja ára í senn í skriflegri kosningu á almennum fundi Félags starfsfólks í stjórnsýslu Háskóla Íslands.
 4. Hver eftirtalinna stofnana tilnefnir fulltrúa sinn. Fyrir hvern fulltrúa skal einnig tilnefndur varamaður:
  Landspítalinn
  Landsbókasafn – Háskólabókasafn
  Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
  Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
  Raunvísindastofnun Háskólans
  Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands
  [Þjóðminjasafn Íslands]1
 5. [Tíu fulltrúar samtaka nemenda Háskóla Íslands tilnefndir af Stúdentaráði Háskóla Íslands. Fyrir hvern fulltrúa skal tilnefna einn varamann.]

Þegar kjör og tilnefning fulltrúa skv. þessari grein er undirbúin skal fylgt ákvæðum í jafnréttisáætlun Háskóla Íslands um jafna aðild kynjanna að nefndum, stjórnum og ráðum skólans.
Breytt með 3. gr. rgl. nr. 521/2016.

6. gr.  Atkvæðisréttur.

Hver hinna föstu, kjörnu og tilnefndu fulltrúa skv. 2.-5. gr. fer með eitt atkvæði þegar hann situr háskólaþing. Varamaður fer með atkvæðið í forföllum aðalmanns.

Fulltrúar í háskólaráði, sem ekki eru skipaðir fulltrúar skv. 2.-5. gr., sitja háskólaþing, með málfrelsi og tillögurétt, en án atkvæðisréttar.

Rektor er heimilt að kveðja aðra aðila til setu á háskólaþingi með málfrelsi og tillögurétt, en atkvæðisrétt hafa þeir ekki.

7. gr.  Boðun háskólaþings.

Skrifstofa háskólarektors heldur skrá yfir fulltrúa á háskólaþingi.

Háskólaþing skal halda að minnsta kosti einu sinni á háskólaári. Háskólarektor boðar til háskólaþings. Boða skal til þingsins með a.m.k. þriggja vikna fyrirvara. Með fundarboði skulu fylgja drög að dagskrá. Ef einstakir fulltrúar á háskólaþingi vilja leggja fyrir fundinn tillögur til ályktana skulu þær, ásamt greinargerð fyrir þeim, hafa borist til skrifstofu háskólarektors eigi síðar en tveimur vikum fyrir boðaðan fund. Endanleg dagskrá, ásamt öllum fundargögnum, skal send fulltrúum á háskólaþingi eigi síðar en viku fyrir boðaðan fund.

Æski 2/3 hlutar fulltrúa á háskólaþingi fundar er rektor skylt að boða til hans.

8. gr. Dagskrá og fundarsköp háskólaþings.

Háskólarektor setur þingfund og stýrir honum. Í upphafi fundar fer rektor yfir dagskrá og tímaáætlun.

Heimilt er að skipa nefndir og starfshópa til að vinna að málum á fundum og á milli funda.

Á háskólaþingi skulu tekin fyrir þessi mál eftir því sem við á hverju sinni:

 1. Rektor kynnir og ræðir sameiginlega vísinda- og menntastefnu Háskólans.
 2. Tillögur að ályktunum háskólaþings um einstök málefni, sem fyrir liggja frá öðrum fulltrúum.
 3. Umsagnir um reglur sem háskólaráð setur.
 4. Önnur mál sem löglega eru upp borin.

Í lok háskólaþings skal farið yfir ályktanir þingfundar og gengið frá fundargerð að þingi loknu. Ályktanir háskólaþings og fundargerðir skulu birtar á vef Háskóla Íslands.

9. gr.  Gildistaka.

Reglur þessar eru settar af háskólaráði skv. heimild í 3. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla og öðlast þegar gildi.

Við gildistöku reglna þessara falla úr gildi 5.-7. gr. reglna nr. 458/2000 fyrir Háskóla Íslands.

Ákvæði til bráðabirgða.

Miðað skal við að boðað sé til fyrsta háskólaþings skv. þessum reglum um leið og forsetar fræðasviða hafa tekið til starfa.

Áður en boðað er til fyrsta háskólaþings sem haldið er eftir gildistöku þessara reglna, skal fara fram kjör og tilnefning fulltrúa skv. a- til e-lið 5. gr. Skipunartími þessara fulltrúa er til 30. júní 2010.

Niðurstaða kosningar meðal nemenda HÍ sem fram fór í febrúar 2007 skal gilda um skipun 8 af 10 fulltrúum nemenda skv. e-lið 5. gr. en tveir af 10 skulu vera þeir fulltrúar nemenda sem síðast sátu í háskólaráði Kennaraháskóla Íslands. Skipunartími fulltrúa nemenda skv. þessu bráðabirgðaákvæði skal vera til 30. júní 2009, en frá þeim tíma ræðst skipan fulltrúa nemenda af 4. gr. og e-lið 5. gr.

Háskóla Íslands, 6. október 2008.