Skip to main content

Reglur nr. 554-2011

Reglur um Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands, nr. 554/2011

1. gr.  Almennt.

Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands er vísindaleg rannsóknarstofnun sem starfrækt er af Háskóla Íslands. Stofnunin heyrir undir Líf- og umhverfisvísindadeild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði við Háskóla Íslands, og er vettvangur rannsókna og þróunarstarfs á fræðasviðum lífvísinda, landfræði, umhverfis- og auðlindafræði og ferðamálafræði.

2. gr.  Hlutverk. 

Hlutverk Líf- og umhverfisvísindastofnunar er:

a. að efla rannsóknir á fræðasviðum sínum við Háskóla Íslands,
b. að samhæfa rannsóknir og efla tengsl rannsókna og kennslu á fræðasviðum sínum við Háskóla Íslands,
c. að styðja kennslu og þjálfun í vísindalegum vinnubrögðum og veita nemendum í framhaldsnámi aðstöðu og búnað til rannsóknarstarfa eftir því sem kostur er,
d. að stuðla að samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknaraðila á fræðasviðum sínum og sterkum tengslum við atvinnu- og þjóðlíf,
e. að sinna þjónustuverkefnum á fræðasviðum sínum eftir því sem unnt er og við á
f. að kynna niðurstöður rannsókna á fræðasviðum sínum,
g. að veita upplýsingar og ráðgjöf varðandi málefni sem snerta fræðasvið stofnunarinnar,
h. að gangast fyrir námskeiðum, fyrirlestrum og ráðstefnum sem geta stuðlað að  aukinni þekkingu á fræðasviðum stofnunarinnar, til heilla fyrir þjóðina og vísindasamfélagið.

3. gr.  Aðstaða.

Háskóli Íslands lætur stofnuninni í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað svo sem kostur er. Stjórn Líf- og umhverfisvísindastofnunar lætur starfsmönnum sínum (sjá 7. gr. hér að neðan) í té starfsaðstöðu svo sem kostur er og aðstæður leyfa.

4. gr.  Skipulag.

Líf- og umhverfisvísindastofnun skiptist í tvær rannsóknarstofur, á sviði líffræði og land- og ferðamálafræði. Heimilt er stjórn stofnunarinnar, með samþykki stjórnar fræðasviðs, að breyta stofuskiptingu, t.d. að skipta stofu í tvennt ef tilefni er til, m.a. vegna aukinna rannsóknarumsvifa, enda liggi fyrir skilgreining á rannsóknarsviði hverrar stofu ásamt rannsóknar- og fjárhagsáætlun. Fyrir hverri rannsóknarstofu fer stofustjóri, skipaður af stjórn stofnunarinnar samkvæmt tilnefningu stofufundar, en um hlutverk stofustjóra segir nánar í [11. gr.]1 reglna þessara.
1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 738/2022.

5. gr.  Stjórn.

Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs skipar stofnuninni fimm manna stjórn til þriggja ára í senn og skulu fjórir þeirra tilnefndir af deildarfundi Líf- og umhverfisvísindadeildar en sá fimmti, sem jafnframt er formaður stjórnar, er skipaður án tilnefningar. [...]1 
[...]1
1Breytt með 2. gr. rgl. nr. 738/2022.

6. gr.  Skrifstofustjóri.

Heimilt er að ráða stofnuninni skrifstofustjóra. Forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs ræður skrifstofustjóra að fenginni tillögu stjórnar og setur honum erindisbréf. Hann skal sitja stjórnarfundi og hefur þar málfrelsi og tillögurétt.

7. gr.  Starfsmenn.

[Aðild að stofnuninni með starfsaðstöðu eiga akademískir starfsmenn og aðjúnktar með rannsóknaskyldu við Líf- og umhverfisvísindadeild svo og sérfræðingar með lengri ráðningartíma en eitt ár. Stofnunin veitir framhaldsnemum við deildina og öðru tímabundið ráðnu starfsfólki við rannsóknir starfsaðstöðu.]1 Heimilt er stjórn stofnunarinnar, í samráði við forseta fræðasviðs, að veita öðrum tímabundna aðstöðu við stofnunina.
1Breytt með 3. gr. rgl. nr. 738/2022.

8. gr.  Ráðning starfsfólks.

Um ráðningu starfsfólks fer eftir ákvæðum reglna fyrir Háskóla Íslands. Forseti fræðasviðs setur nánari verklagsreglur um ráðningu starfsfólks.

9. gr.  Stjórnarfundir.

Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi bréflega eða í tölvupósti með minnst þriggja daga fyrirvara. Fundarboð skal greina frá dagskrá fundar. Á stjórnarfundum skal ræða fjárhagsáætlanir og fjárhagsstöðu rannsóknarstofanna. Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir formannsstörfum. Halda skal rafræna gerðabók stjórnar og skulu staðfestar fundargerðir færðar í hana. Afrit fundargerða skulu send forseta sviðsins.

10. gr.  Verkefni stjórnar.

Stjórnin tekur allar stefnumarkandi ákvarðanir fyrir stofnunina og setur henni starfsreglur eftir því sem við á. [Stjórn stofnunarinnar fjallar um öll sameiginleg málefni stofnunar, ber ábyrgð á fjármálum hennar gagnvart forseta fræðasviðs, semur fjárhagsáætlun og gerir tillögu til forseta fræðasviðs um fjárveitingar.]1 Stjórnin sker úr um vafamál er upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofnunarinnar. [Stjórnin skipar stofustjóra til þriggja ára samkvæmt tilnefningu stofu­funda og skulu þeir vera fulltrúar hvorrar stofu í stjórn stofnunarinnar.]1 Stjórnin gerir tillögu að samþykktum um þjónusturannsóknir sem háskólaráð staðfestir. Stjórnin efnir til aðalfundar með starfsmönnum þar sem ársskýrsla er lögð fram og fjallað um önnur mál svo sem kveðið er á um í sameiginlegum reglum fyrir Háskóla Íslands. Aðalfundur skal haldinn í síðasta lagi fyrir lok maímánaðar. Stjórnin efnir til annarra funda með starfsmönnum eftir því sem tilefni gefast til. Halda skal starfsmannafund ef a.m.k. þriðjungur starfsmanna óskar þess.
1Breytt með 4. gr. rgl. nr. 738/2022.

11. gr.  Rannsóknarstofur og stofustjóri.

Rannsóknarstofur eru rannsóknarvettvangur stofnunar og deildar. Yfir hverri stofu er stofustjóri sem hefur yfirumsjón með sameiginlegum rekstri og umsýslu tengdri rannsóknum og rannsóknarnámi innan stofu. Stofustjóri kallar saman stofufundi eftir því sem þörf er á eða minnst tvisvar á ári. Verði ágreiningur á stofufundi getur stofustjóri skotið ágreiningsmálinu til úrskurðar stjórnar stofnunar. [...]1 Stofustjóri skal vera úr hópi fastra akademískra starfsmanna viðkomandi stofu (fageiningar).

Verkefni stofustjóra eru m.a.:

a. að gera árlega fjárhagsáætlun í samvinnu við deild og sviðsstjórn og vinna að áætlunum um fjárhag og þróun stofunnar,
[...]1,
b. að sinna erindum framhaldsnema og nýdoktora sem unnt er að leysa í stofu,
c. að gera tillögu til deildar um afgreiðslu erinda er varða húsnæði og aðstöðu í samræmi við stefnumótun stofu, deildar og sviðs,
d. að vinna áætlanir um sameiginleg tækjakaup og rekstur tækja eftir því sem við á,
[...]1,
e. að svara erindum sem beint er til stofunnar.
1Breytt með 5. gr. rgl. nr. 738/2022.

12. gr.  Stofufundir.

Á stofufundum fer fram stefnumótandi umræða er varðar rannsóknir og rannsóknarnám á viðkomandi fagsviðum. Þar er einnig fjallað um fagleg málefni kennslugreina sem falla undir fagsvið stofunnar. Stofufundi sitja allir kennarar sem aðilar eru að stofunni: vísindamenn, fræðimenn og sérfræðingar sem starfa hjá stofunni og hafa verið ráðnir til þriggja ára eða lengur eða hafa starfað samfellt í þrjú ár eða lengur, auk fulltrúa framhaldsnemenda og fulltrúa nýdoktora.

Meðal annarra umfjöllunarefna á stofufundum eru:

 1. áætlanir um fjárhag og þróun stofu,
 2. árleg fjárhagsáætlun stofu,
 3. húsnæðis- og öryggismál stofu,
 4. rekstur tækja og áætlanir um sameiginleg tækjakaup stofu,
 5. tillögur til deildar um tækjakaupaumsóknir innan HÍ,
 6. tillögur til deildar um auglýsingu starfa á stofunni,
 7. faglegt álit til deildar varðandi umsóknir um framhaldsnám,
 8. tilnefning stofustjóra og varastofustjóra,
 9. tilnefning í námsbrautarstjórn(ir) eftir því sem við á,
 10. umfjöllun um erindi sem beint er til stofufunda,
 11. tilnefningar í starfsnefndir  deildar.

13. gr.  Fjármál.

Tekjur Líf- og umhverfisvísindastofnunar Háskóla Íslands eru m.a. eftirfarandi:

 1. framlag frá sviði verkfræði- og náttúruvísinda,
 2. styrkir til einstakra verkefna,
 3. greiðslur fyrir þjónustustarfsemi,
 4. tekjur af útgáfustarfsemi,
 5. aðrar tekjur, t.d. gjafir og framlög úr ríkissjóði eftir því sem kveðið kann að vera á um í fjárlögum.

Reikningshald stofnunarinnar skal vera hluti af reikningshaldi háskólans. Fjárhagsáætlun skal kynnt og lögð fram til samþykktar á deildarfundi og samþykkt af forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Sé um að ræða útselda þjónustu, sem veitt er í samkeppni við einkaaðila, skal sú starfsemi fjárhagslega afmörkuð frá öðrum rekstri stofnunarinnar og þess gætt að sá rekstur sé ekki niðurgreiddur með öðrum tekjum, í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.

Um stjórnunar- og aðstöðugjald af sértekjum fer eftir ákvæðum 73. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands.

14. gr.

Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli heimildar í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, að fenginni tillögu Líf- og umhverfisvísindadeildar og stjórnar Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur nr. 978/2001 um Líffræðistofnun Háskóla Íslands.

Háskóla Íslands, 12. maí 2011.

Prentvæn útgáfa