Skip to main content

Reglur nr. 440-2018

Reglur um doktorsnám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, nr. 440/2018

með síðari breytingum

1. gr.  Markmið doktorsnáms og prófgráður við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Megintilgangur doktorsnáms við Menntavísindasvið Háskóla Íslands er að efla rannsóknir og þekkingu á þeim fræðasviðum sem lögð er stund á við sviðið. Markmið doktorsnámsins er að efla hæfni doktorsnema til að stunda sjálfstæðar rannsóknir og fræðastörf og til að gegna sérfræðistörfum í menntavísindum á innlendum og erlendum vettvangi.

Prófgráður eru tvær, í samræmi við þær námsleiðir sem eru í boði í framhaldsnámi. Í námi til Ph.D.-gráðu er áhersla lögð á hefðbundnar fræðilegar rannsóknir. Í námi til Ed.D.-gráðu er megináhersla lögð á starfsþróun og rannsóknir á starfsvettvangi.

Nemi í Ed.D.-námi skal að jafnaði hafa fjögurra ára starfsreynslu af vettvangi. Enn fremur er munur á samsetningu námsleiðanna, sbr. 6. gr. Heiti prófgráðu er háð samþykki doktorsnámsnefndar og stjórnar Menntavísindasviðs. Heimilt er að útskrifa doktorsnema með sameiginlega gráðu frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands og öðrum háskóla eða frá öðrum fræðasviðum við Háskóla Íslands.

Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands hefur umsjón með og fylgir eftir settum viðmiðum og kröfum um gæði framhaldsnáms við Háskóla Íslands, sbr. 66. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Standa ber skil á upplýsingum og gögnum sem Miðstöðin kallar eftir.

2. gr.  Stjórnun doktorsnáms.

Doktorsnám á Menntavísindasviði er skipulagt þvert á deildir sviðsins. Stjórn sviðsins tekur ákvarðanir um málefni doktorsnámsins fyrir hönd deilda. Doktorsnámsnefnd Menntavísindasviðs fer með málefni doktorsnáms fyrir hönd stjórnar sviðsins í samræmi við 1. tölulið 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 um fastanefndir. Í doktorsnámsnefnd sitja eftirfarandi sjö fulltrúar: formaður, sem er skipaður af stjórn sviðsins og er jafnframt fulltrúi sviðsforseta, fulltrúar allra fjögurra deilda, einn fulltrúi stjórnsýslu, sem jafnframt er verkefnisstjóri námsins, og einn fulltrúi doktorsnema. Doktorsnámsnefnd er skipuð til tveggja ára í senn. Formaður nefndarinnar er jafnframt umsjónarmaður doktorsnáms og tengiliður fræðasviðsins við Miðstöð framhaldsnáms.

Hlutverk doktorsnámsnefndar er að marka stefnu um tilhögun doktorsnáms og ábyrgjast framkvæmd þess. Nefndin kynnir það nám sem í boði er, fjallar um umsóknir og fylgist með framvindu og gæðum náms og kennslu, m.a. með mati á stöðu rannsóknarverkefna á náms­tímanum. Nefndin undirbýr mál til afgreiðslu stjórnar Menntavísindasviðs, svo sem tillögur um inntöku doktorsnema og um skipan leiðbeinenda, doktorsnefnda, prófdómara og andmælenda.

3. gr.  Inntaka í doktorsnám.

Doktorsnám við Menntavísindasvið er auglýst á vef Háskóla Íslands. Stjórn Menntavísindasviðs ákveður, að fenginni tillögu frá doktorsnámsnefnd, hvaða umsækjendum er gefinn kostur á námi hverju sinni.

4. gr.  Inntökuskilyrði og mat á fyrra námi.

Einstaklingur, sem hefur lokið meistaraprófi eða sambærilegu prófi frá viðurkenndum háskóla, getur sótt um inntöku í doktorsnám. Umsækjandi skal að jafnaði hafa lokið 30 eininga meistararitgerð. Við inntöku skal taka mið af námsárangri og starfsreynslu umsækjanda.

Ef umsækjandi hyggst hefja doktorsnám strax að loknu meistaraprófi getur hann sótt um það áður en hann lýkur prófi ef fyrir liggur staðfesting um að hann ljúki náminu með fullnægjandi árangri áður en doktorsnám hefst.

Námskeið í grunnnámi (bakkalárnámi eða samsvarandi námi) geta ekki verið hluti af námi doktorsnema en heimilt er að meta námskeið á meistarastigi sem hluta af doktorsnámi, þó að hámarki 20 einingar, enda hafi þau ekki áður verið metin sem hluti af meistaranámi. Ekki er heimilt að nota meistararitgerð aftur sem uppistöðu í doktorsritgerð.

Í samræmi við 4. tölulið 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 er ekki heimilt að taka akademískan starfsmann í deild inn í doktorsnám við viðkomandi deild. Í ljósi þess að doktorsnám við Menntavísindasvið er starfrækt þvert á deildir sviðsins er að öðru jöfnu ekki heimilt að taka akademískan starfsmann á Menntavísindasviði inn í doktorsnám við sviðið.

5. gr.  Meðferð umsókna.

Umsókn um doktorsnám skal skilað til kennsluskrifstofu Menntavísindasviðs. Ferli umsóknar er sem hér segir:

  1. Umsókn um doktorsnám skal skilað á sérstökum eyðublöðum, sbr. leiðbeiningar sem birtar eru á vef Menntavísindasviðs. Með umsókn skal fylgja afrit af prófskírteinum, drög að námsáætlun, greinargerð um faglegar forsendur umsækjanda til að leggja stund á námið og drög að rannsóknaráætlun.
  2. Með umsókn um doktorsnám skulu umsækjendur hafa tvo óháða meðmælendur.
  3. Kennsluskrifstofa sviðsins fer yfir og skráir umsóknir og athugar hvort tilskilin gögn fylgja.
  4. Doktorsnámsnefnd fjallar um og leggur mat á umsóknir og niðurstöður viðtala. Nefndin leitar til sérfræðinga á sviðinu þar sem við á. Doktorsnámsnefnd undirbýr tillögu um inntöku til stjórnar Menntavísindasviðs og skal hún samrýmast eftirfarandi forsendum:
    •  Umsækjandi er talinn hæfur til að takast á við nám á doktorsstigi og sinna krefjandi rannsóknarstörfum.
    •  Tiltækir eru sérfræðingar á því fræðasviði, sem rannsóknin tekur til, sem geta tekið að sér leiðsögn umsækjanda og mat á rannsóknarverkefni.
    •  Fjárhagslegur grundvöllur er til að sinna doktorsnema og viðunandi námsaðstæður eru fyrir hendi.
  5. Með tillögu doktorsnámsnefndar skal fylgja rökstuðningur um alla meginliði umsóknar, rökstudd ábending um leiðbeinendur og ábendingar um það viðbótar- og/eða undirbúningsnám sem umsækjandi kann að hafa þörf fyrir. Tillagan er tekin til umfjöllunar í stjórn Menntavísindasviðs.
  6. Eftir að stjórn Menntavísindasviðs hefur afgreitt umsóknina svarar kennsluskrifstofa umsækjanda skriflega fyrir hönd forseta fræðasviðs. Svara skal umsækjanda skriflega innan tveggja mánaða eftir að umsóknarfrestur rennur út.

6. gr.  Einingafjöldi og tímalengd náms.

Doktorsnám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands er einstaklingsbundið nám að lágmarki 180 einingar. Heimilt er að heildareiningafjöldi sé allt að 240 einingar.

  • Í Ph.D.-námi þarf að ljúka 180 eininga doktorsritgerð og 30–60 einingum í formi námskeiða.
  • Í Ed.D.-námi þarf að ljúka 120 eininga doktorsritgerð og 60–120 einingum í formi námskeiða.

Öllum námskröfum skal að jafnaði hafa verið mætt innan fjögurra ára, sé doktorsneminn í fullu námi, en innan átta ára sé hann í hlutanámi. Miðað er við þann dag er neminn skráði sig fyrst til doktorsnáms. Gert er ráð fyrir að doktorsnemi geti lokið 60 einingum á ári.

Ef doktorsnema tekst ekki að ljúka náminu á tilsettum tíma getur hann sótt um undanþágu til doktorsnámsnefndar. Verði undanþága veitt má setja þau skilyrði að nemi ljúki námi miðað við reglur sem þá eru í gildi þótt hann hafi hafið námið meðan aðrar reglur giltu.

Leyfilegt er að taka námshlé að hámarki eitt ár. Doktorsnemi skal vera skráður og greiða skráningargjöld allan námstímann, þar með talið í námshléinu.

7. gr.  Leiðsögn og skipan doktorsnefndar.

Sérhver doktorsnemi skal frá upphafi náms hafa umsjónarkennara sem hann ráðfærir sig við um skipulag námsins, val námskeiða og annað sem náminu tengist. Umsjónarkennari er að öðru jöfnu jafnframt aðalleiðbeinandi doktorsnema og veitir doktorsnefnd forstöðu. Umsjónarkennari skal koma úr hópi fastráðinna akademískra starfsmanna fræðasviðsins en leiðbeinendur og aðra sérfræðinga í doktorsnefnd má sækja út fyrir fræðasviðið. Tillaga um skipan leiðbeinenda skal fara fyrir doktorsnámsnefnd og skal skipan leiðbeinenda vera háð samþykki stjórnar Menntavísindasviðs. Leiðbeinendur hvers nema eru að öðru jöfnu tveir, og semja sín á milli um verkaskiptingu og starfshlutfall.

Doktorsnefnd skal skipuð leiðbeinendum og að auki einum til þremur sérfræðingum á fræðasviði ritgerðarinnar. Skal a.m.k. einn nefndarmaður starfa annars staðar en á Menntavísindasviði. Skipti doktorsnemi um rannsóknarefni endurskoðar doktorsnámsnefnd skipan doktorsnefndar.

Hlutverk doktorsnefndar er að fylgjast með að framgangur námsins samrýmist námsáætlun og að rannsóknarvinnan standist þær kröfur sem gerðar eru á viðkomandi fræðasviði. Umsjónarkennari veitir doktorsnefnd forstöðu. Doktorsnemi ráðfærir sig við nefndina um gerð námsáætlunar, skipulag námsins, val námskeiða, gerð rannsóknaráætlunar, framkvæmd rannsóknar og gerð lokaritgerðar.

Að öðru jöfnu er gert ráð fyrir því að doktorsnefnd sé fullskipuð innan tveggja ára frá inntöku sé nemi í fullu námi. Þó skal nefndin ekki fullskipuð fyrr en að afloknu áfangamati á rannsóknarverkefni nemans, sbr. 10. gr. Leiðbeinendur og aðrir sérfræðingar í doktorsnefnd skulu að jafnaði hafa doktorspróf og hæfnisdóm til akademískra starfa og hafa hlotið viðurkenningu Miðstöðvar framhaldsnáms við Háskóla Íslands. Þess skal gætt að leiðbeinendur hafi sýnt fram á virkni í rannsóknum og hafi m.a. birt ritsmíðar á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur. Þeir skulu að jafnaði hafa reynslu af leiðsögn, af því að sækja um rannsóknarstyrki og af alþjóðlegu samstarfi. Verkefni nemandans skal vera á sérsviði leiðbeinanda.

Doktorsnemi og leiðbeinendur koma sér saman um réttindi og skyldur sín í milli og hvernig samstarf þeirra verður.

Komi upp illleysanlegur ágreiningur á milli leiðbeinenda eða leiðbeinenda og doktorsnema skal ágreiningnum vísað til doktorsnámsnefndar sem gerir tillögu um úrlausn. Doktorsnámsnefnd setur nánari reglur um samstarf og hlutverk leiðbeinenda, doktorsnema og doktorsnefndar.

8. gr.  Námsframvinda.

Gert er ráð fyrir að endurskoðuð náms- og rannsóknaráætlun liggi fyrir innan eins árs frá upphafi náms, sbr. 9 gr. Nemi og leiðbeinendur vinna sameiginlega að námsáætluninni. Í námsáætlun skulu koma fram fyrirhuguð námskeið og vægi þeirra í náminu.

Doktorsnemar skulu taka þátt í málstofum á vegum doktorsnámsins og kynna rannsóknir sínar á þeim vettvangi svo og á innlendum og erlendum ráðstefnum. Þeir skulu dvelja um nokkurt skeið við erlendan háskóla eða eiga annars konar sambærilegt formlegt samstarf við erlenda vísindamenn. Leiðbeinendur fylgjast með og stuðla að því að doktorsnemi taki virkan þátt í fræðasamfélagi sviðsins og í alþjóðlegri fræðastarfsemi.

Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs heldur námsferilsskrá fyrir hvern doktorsnema þar sem fram kemur hvenær neminn var fyrst skráður og hvort hann er skráður í Ed.D.- eða Ph.D.-nám. Þar kemur fram stærð doktorsritgerðar og hvaða einingum doktorsneminn hefur lokið. Jafnframt skal skráin geyma umsóknargögn, áætlanir um námið og rannsóknarverkefni, upplýsingar um leiðbeinendur og sérfræðinga, sem koma að náminu, framvinduskýrslur og niðurstöður námsmats.

9. gr.  Skyldur doktorsnema.

Doktorsnema er skylt að skila eftirfarandi skýrslum og svara könnunum, er tengjast náminu, þegar eftir því er óskað:

  1. Fyrir 1. febrúar ár hvert skal doktorsnemi skila framvinduskýrslu. Tilgangurinn er að fá yfirlit yfir stöðu hvers og eins í náminu. Í skýrslunni leggja leiðbeinendur og nemi mat á framvindu námsins. Leiðbeinendur skulu samþykkja skýrsluna og senda hana til doktorsnámsnefndar til umsagnar. Ef framvinda er ófullnægjandi getur doktorsnámsnefnd sett nema skilyrði um áframhaldandi nám. Skili doktorsnemi ekki framvinduskýrslu getur doktorsnámsnefnd gert kröfu um að doktorsnemi segi sig frá námi.
  2. Innan eins árs frá upphafi námsins skal nemi skila endurskoðaðri námsáætlun og rannsóknaráætlun til leiðbeinenda sinna.
  3. Gert er ráð fyrir að doktorsnemi sæki málstofur doktorsnámsins reglulega og fjalli um verkefni sitt a.m.k. fjórum sinnum á námstímanum á sama eða á sambærilegum vettvangi.
  4. Um miðbik námsins skal neminn skila skýrslu til doktorsnámsnefndar um rannsóknarverkefnið til áfangamats, sbr. 10. gr.
  5. Doktorsnemi skal dvelja um nokkurt skeið við erlendan háskóla eða eiga annars konar sambærilegt formlegt samstarf við erlenda vísindamenn. Leiðbeinendur samþykkja skýrslu nema um námsdvölina og/eða samstarfið og koma henni til doktorsnáms­nefndar.

Doktorsnema ber skylda til að kynna sér vel þær reglur og siði, sem akademískt starf lýtur, og temja sér viðurkennd fræðileg vinnubrögð í rannsóknum og meðferð heimilda. Í þessu felst m.a. að starfsfólk og nemendur sýni hvert öðru virðingu í framkomu, ræðu og riti, eigi málefnaleg skoðanaskipti og vinni saman af heilindum. Um skyldur doktorsnema er að öðru leyti vísað í 51. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands og í siðareglur Háskóla Íslands.

10. gr.  Áfangamat á rannsóknarverkefni.

Formlegt áfangamat á rannsóknarverkefni fer fram um miðbik námsins. Í skýrslu um rannsóknarverkefnið, sem nemi leggur fram til mats, skulu koma fram fræðilegar forsendur rannsóknarinnar, yfirlit yfir fyrri rannsóknir á sviðinu, lýsing á öflun og úrvinnslu gagna og tímaáætlun um rannsóknina. Að auki leggur nemi fram þá kafla eða tímaritsgreinar sem hann hefur lokið við.

Doktorsnemi leggur fram til umsjónarmanns doktorsnáms með þriggja mánaða fyrirvara ósk um að áfangamat á rannsóknarverkefni hans fari fram.

Doktorsnámsnefnd fær til umfjöllunar rökstutt álit frá leiðbeinendum um hvort forsendur eru fyrir hendi til að veita doktorsnema kost á slíku mati.

Áfangamat á rannsóknarverkefni er unnið af matsnefnd sem í sitja leiðbeinendur og tveir prófdómarar sem eru að jafnaði utan Menntavísindasviðs og eru sérfræðingar á viðkomandi rannsóknarsviði. Gert er ráð fyrir að prófdómarar standist þær kröfur sem gerðar eru til leiðbeinenda, sbr. 7. gr. Mat er lagt á verkefni og frammistöðu doktorsnemans og skýrslu skilað til doktorsnámsnefndar. Þar er gerð grein fyrir því hvort þekking doktorsnema og hæfni til rannsókna sé talin viðunandi og hvað hann skuli gera til að bregðast við athugasemdum matsnefndar, sbr. verklagsreglur um áfangamat á rannsóknarverkefni sem birtar eru á vef doktorsnámsins.

11. gr.  Kröfur til doktorsritgerða.

Doktorsritgerð skal vera heildstætt verk, ýmist í formi einnar ritsmíðar eða í formi vísindagreina sem mynda eina heild. Doktorsritgerð skal að jafnaði vera 50.000–100.000 orð. Doktorsnámsnefnd getur veitt undanþágu frá þessum lengdarmörkum.

Leggi doktorsnemi fram ritsmíð, sem byggir á vísindagreinum, skal semja sérstaka yfirlitsgrein þar sem gerð er grein fyrir fræðilegum forsendum verksins, kenningum, aðferðafræði og siðfræðilegum álitamálum, dregið saman efni hinna einstöku greina, settar skulu fram heildarályktanir og efni þeirra tengt fræðilega. Þegar Ph.D.-ritgerð er samsett úr greinum skulu þær vera 3–5 talsins. Við vörn skulu allar greinarnar hafa verið sendar til birtingar og að lágmarki tvær vera samþykktar til birtingar á viðurkenndum ritrýndum vettvangi. Miðað er við að a.m.k. tvær greinanna séu birtar á alþjóðlegum vettvangi og skal doktorsnemi vera aðalhöfundur a.m.k. þriggja. Þegar Ed.D.-ritgerð er samsett úr greinum skulu þær vera 2–3 talsins og skal doktorsnemi vera aðalhöfundur a.m.k. tveggja. Skulu að lágmarki tvær greinar vera samþykktar til birtingar á viðurkenndum ritrýndum vettvangi við vörn.

Í samræmi við málstefnu Háskóla Íslands (samþykkt á háskólaþingi 10. maí og í háskólaráði 19. maí 2016) er megintungumál doktorsritgerða enska. Ritgerð getur þó verið á íslensku. Í því tilviki skal gengið úr skugga um hvort íslenskumælandi sérfræðingar með nægilega sérþekkingu séu tiltækir þannig að örugglega verði unnt að skipa doktorsnefnd og fá hæfa andmælendur. Doktorsritgerð má þó vera á öðrum tungumálum en ensku eða íslensku ef doktorsnámsnefnd samþykkir.

Öllum ritgerðum (sem skrifaðar eru á íslensku) skal fylgja ítarleg samantekt á ensku.

12. gr.  Skil og frágangur doktorsritgerðar.

Þegar doktorsnefnd telur að ritgerð sé tilbúin til varnar skal doktorsnemi senda hana í lokahandriti til doktorsnámsnefndar með rökstuddu áliti doktorsnefndar, sbr. 7. gr. Að fengnu samþykki doktorsnámsnefndar sendir aðalleiðbeinandi ritgerðina til andmælenda.

Yfirliti um námsferil skal skilað um leið og doktorsritgerð er lögð fram til varnar. Kennsluskrifstofa gengur frá yfirlitinu og staðfestir það.

Ritgerð skal liggja frammi á skrifstofu Menntavísindasviðs, á bókasafni Menntavísindasviðs og á Háskólabókasafni í fjórar vikur áður en vörn fer fram. Doktorsnemi skal skila a.m.k. 15 eintökum til Menntavísindasviðs. Við frágang doktorsritgerðar skal koma skýrt fram í inngangskafla að verkefnið sé unnið við Háskóla Íslands, tilgreina skal leiðbeinendur, fræðasvið og rannsóknastofnun, ef við á, og geta skal þeirra sjóða Háskóla Íslands og annarra aðila, sem styrkt hafa verkefnið, og þeirra stofnana eða fyrirtækja utan háskólans sem doktorsnemi hefur tengst við vinnslu þess. Forsíða ritgerðar skal bera merki (lógó) Háskóla Íslands. Ef um sameiginlega doktorsgráðu er að ræða með öðrum háskóla eða háskólum samkvæmt samningi þar um ber forsíða ritgerðar auðkenni beggja eða allra háskóla sem hlut eiga að máli.

13. gr.  Andmælendur.

Andmælendur við doktorsvörn skulu vera tveir óháðir aðilar sem eiga ekki sæti í doktorsnefnd. Þeir eru skipaðir af stjórn Menntavísindasviðs, að fengnum tillögum doktorsnefndar, og með samþykki doktorsnámsnefndar og Miðstöðvar framhaldsnáms. Andmælendur skulu að jafnaði hafa doktorspróf. Þess skal gætt að þeir séu viðurkenndir fræðimenn og hafi birt ritsmíðar á vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur. Að minnsta kosti annar andmælandinn skal vera utan sviðsins.

Andmælendur fá ritgerðina í hendur a.m.k. fjórum mánuðum áður en fyrirhuguð vörn fer fram. Sex vikum síðar skulu þeir hafa sent rökstudda umsögn um hvort þeir telji að ritgerðin sé tæk til varnar ásamt ábendingum um nauðsynlegar breytingar séu þær einhverjar. Doktorsnemi tekur afstöðu til þeirra, ásamt leiðbeinendum, og gerir grein fyrir afstöðu sinni í skýrslu til andmælenda innan eins mánaðar. Forsendur þess að doktorsvörn sé haldin er að doktorsnemi hafi gert viðunandi lagfæringar að mati andmælenda og leiðbeinenda.

14. gr.  Doktorsvörn.

Doktorsnemi skal verja ritgerð sína við Háskóla Íslands í heyranda hljóði. Ritgerð skal dæmd og varin samkvæmt reglum skólans um doktorspróf. Ekki eru gefnar einkunnir fyrir doktorsritgerð. Stjórn Menntavísindasviðs setur nánari reglur um framkvæmd doktorsvarna. [Verði ágreiningur meðal dómnefndarfulltrúa við doktorsvörn um hvort veita skuli doktorsnafnbót fer um hann samkvæmt verklagsreglu sem háskólaráð setur, sbr. 70. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.]1

1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 1533/2021.

15. gr.  Gildistaka.

Reglur um doktorsnám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands eru settar í samræmi við 47. og 68.–69. gr. reglna nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands og með heimild í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Reglurnar hafa verið samþykktar af stjórn Menntavísindasviðs og deildum fræðasviðsins og staðfestar af háskólaráði, að fenginni umsögn Miðstöðvar framhaldsnáms, sbr. 66. og 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Reglurnar öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 641/2011 um doktorsnám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

 

Háskóla Íslands, 17. apríl 2018