Skip to main content

Reglur nr. 1301-2020

Reglur um ótímabundna ráðningu akademísks starfsfólks við Háskóla Íslands, nr. 1301/2020.

PDF-útgáfa

1. gr.  Markmið.

Reglur þessar gilda um ótímabundna ráðningu akademísks starfsfólks við Háskóla Íslands sbr. 1. og 4. mgr. 17. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og III. kafla reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Ótímabundin ráðning að lokinni tímabundinni ráðningu byggir á heildstæðu faglegu mati á frammistöðu og árangri akademísks starfsmanns í rannsóknum, kennslu, stjórnun og þjónustu í þágu Háskóla Íslands og samfélagsins. Við matið ber einnig að líta til þess að Háskóli Íslands er í senn alþjóðlegur rannsóknaháskóli og þjóðskóli, sem gerir ríkar kröfur til árangurs í starfi.

Í reglum þessum er kveðið á um lágmarksskilyrði ótímabundinnar ráðningar. Deildir geta, með samþykki fræðasviðs, skilgreint frekari skilyrði en fram koma í reglum þessum sem leggja ber til grundvallar við mat á umsóknum um ótímabundna ráðningu. Fræðasvið geta einnig ákveðið að slíkar reglur skuli gilda um allar deildir á fræðasviðinu. Viðkomandi fræðasvið skal leggja reglur fræðasviðs og deilda fyrir háskólaráð til staðfestingar.

2. gr.  Tímabundin ráðning.

Í samræmi við 31. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 skal upphafleg ráðning akademísks starfsfólks að jafnaði vera tímabundin til fimm ára, hvort sem um er að ræða fullt starf eða hlutastarf. Þegar um er að ræða veikindaleyfi, fæðingarorlof eða aðrar málefnalegar ástæður sem haft geta áhrif á starfs­­afköst, er forseta fræðasviðs heimilt að framlengja tímabundna ráðningu viðkomandi um allt að tvö ár. Slík framlenging skal rökstudd sérstaklega og skal rökstuðningurinn fylgja umsókninni að framlengdu tímabili liðnu.

3. gr.  Umsókn um ótímabundna ráðningu.

Hyggist akademískur starfsmaður óska eftir ótímabundinni ráðningu skal hann sækja um það til rektors eigi síðar en níu mánuðum áður en tímabundinni ráðningu lýkur. Nota skal rafrænt umsóknareyðublað fyrir ótímabundna ráðningu, þar sem umsóknargögn eru tiltekin. Með umsókn skal umsækjandi leggja fram greinargerð, að hámarki 1500 orð, um störf sín frá upphafi tímabundinnar ráðningar við Háskóla Íslands við rannsóknir, kennslu, stjórnun og þjónustu. Með umsókn skal einnig fylgja rita- og ferilskrá, allt að fimm helstu ritverk sem hafa verið birt frá upphafi tímabundinnar ráðningar og framlag umsækjanda til ritverkanna þegar um fjölhöfundaverk er að ræða. Þá skal gera grein fyrir rannsóknum, kennslu, stjórnun og þjónustu, sbr. 6. gr. þessara reglna.

Einungis skal senda með umsókninni gögn sem tengjast starfstímabili hinnar tímabundnu ráðningar. Umsækjandi skal tilgreina fjóra einstaklinga sem samþykkt hafa að veita umsögn um verk hans. Þeir skulu vera viðurkenndir sérfræðingar á sviði umsækjanda og a.m.k. tveir þeirra starfa utan Háskóla Íslands.

Rektor sendir umsókn um ótímabundna ráðningu til forseta fræðasviðs, eða ef við á, til formanns stjórnar eða akademísks forstöðumanns viðeigandi rannsóknastofnunar eða rannsóknaseturs Háskóla Íslands, sem aflar umsagnar viðkomandi deildar eða starfseiningar og a.m.k. tveggja af þeim fjórum sérfræðingum sem umsækjandi gefur upp. Heimilt er að leita eftir umsögnum annarra utanaðkomandi sérfræðinga til viðbótar. Auk þess skrifar forseti fræðasviðs, eða ef við á, formaður stjórnar eða akademískur forstöðumaður eigin umsögn um umsækjandann þar sem fram kemur rökstudd afstaða til þess hvort mæla skuli með ótímabundinni ráðningu. Að því búnu sendir hann umsóknina ásamt öllum umsögnum til framgangs- og fastráðningarnefndar Háskóla Íslands. Nefndin gerir tillögu til rektors um hvort umsækjandi skuli ráðinn ótímabundinni ráðningu.

Hafi umsækjandi fengið framgang á síðustu 12 mánuðum má vísa til þeirrar umsóknar. Umsækjandi ber ábyrgð á að uppfæra umsóknina eftir því sem við á fyrir ótímabundna ráðningu.

4. gr.  Framgangs- og fastráðningarnefnd Háskóla Íslands.

Rektor skipar framgangs- og fastráðningarnefnd Háskóla Íslands. Í nefndinni sitja samtals sex fulltrúar. Til þess að gæta þess að hlutfall kynjanna í nefndinni sé sem jafnast og ekki minna en 40%, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008 um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla, þá tilnefnir hvert fræðasvið tvo fulltrúa, hvorn af sínu kyni, og velur rektor annan þeirra til að koma til móts við áðurnefnd sjónarmið. Auk þess skipar rektor formann án tilnefningar. Tilnefna skal varamenn á sama tíma og með sama hætti. Nefndin er skipuð til þriggja ára í senn. Um sérstakt hæfi nefndarmanna gilda ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í nefndina má skipa þá eina sem hlotið hafa prófessorshæfi. Enn fremur skal miða við að þeir sem skipaðir eru í nefndina hafi viðamikla reynslu af rannsóknum, kennslu og akademískum stjórnunarstörfum. Ef atkvæði í nefndinni falla jöfn sker atkvæði formanns úr um niðurstöðuna.

5. gr.  Ákvörðun um ótímabundna ráðningu.

Framgangs- og fastráðningarnefnd Háskóla Íslands metur störf umsækjanda á grundvelli umsóknargagna auk umsagna deildar, forseta fræðasviðs/­­forstöðumans og sérfræðinga og gerir rökstudda tillögu til rektors um hvort ráða beri umsækjanda ótímabundið. Nefndinni er heimilt að leita eftir umsögnum sérfræðinga til viðbótar við þær umsagnir sem þegar hafa verið veittar.

Þegar álit nefndarinnar liggur fyrir veitir hún umsækjanda 14 daga frest til þess að koma andmælum á framfæri, ef ekki er mælt með ótímabundinni ráðningu. Nefndin tekur afstöðu til andmæla og metur hvort þau gefi tilefni til breytinga á áliti nefndarinnar.

Rektor tekur endanlega ákvörðun, að fenginni tillögu framgangs- og fastráðningarnefndar um hvort veitt verði ótímabundin ráðning. Niðurstaða rektors skal liggja fyrir að minnsta kosti þremur mánuðum áður en tímabundinni ráðningu umsækjanda lýkur.

6. gr.  Mat á umsókn um ótímabundna ráðningu.

Leggja skal heildstætt mat á umsókn um ótímabundna ráðningu og hvort umsækjandi uppfylli þau skilyrði sem eðlilegt er að gera frá ráðningu í tímabundið starf við Háskóla Íslands. Mikilvægt er að litið sé til allra starfsþátta sem heyra til akademískra starfa við háskólann (rannsókna, kennslu, stjórnunar og þjónustu við samfélag og atvinnulíf) og tillit tekið til áherslna umsækjanda og þarfa viðkomandi starfseiningar. Við matið skulu deild, forseti fræðasviðs, eða, ef við á, formaður stjórnar eða akademískur forstöðumaður og framgangs- og fastráðningarnefnd horfa til eftirfarandi þátta, byggt á umsókn og fylgigögnum sem og umsögnum sérfræðinga og meta eftir því sem við á. Ekki er gerð krafa um að umsækjandi uppfylli öll atriðin. Þau eru til viðmiðunar og án forgangsröðunar til að auðvelda umsækjendum að gera grein fyrir störfum sínum og matsaðilum að meta fjölbreytt framlag starfsfólks. Einnig ber að líta til sérreglna fræðasviða og deilda séu þær til staðar.

1. Rannsóknir. 

Rannsóknaferill umsækjanda skal metinn frá ráðningu í tímabundið starf við Háskóla Íslands.

Horft er til eftirfarandi þátta eftir því sem við á, miðað við starfsheiti og starfsskyldur umsækjanda:

 1. Virkni, sjálfstæði, frumkvæði og áhrif í rannsóknum.
 2. Fjölda rannsóknastiga og umfang rannsókna.
 3. Birtingarvettvangs sem gerir strangar fræðilegar kröfur.
 4. Framlags umsækjanda þegar um fjölhöfundaverk er að ræða.
 5. Álitsgerða og skýrslna sem umsækjandi hefur sent frá sér í frágenginni mynd.
 6. Hlutverks við fjármögnun vísindarannsókna hér á landi og erlendis.
 7. Að hvaða marki umsækjandi er leiðandi í samstarfsverkefnum.
 8. Reynslu, virkni og framlags í alþjóðlegu og innlendu rannsóknasamstarfi.
 9.  Rannsóknaáforma umsækjanda og verka í vinnslu.

2. Kennsla.

Kennsluferill umsækjanda skal metinn frá ráðningu í tímabundið starf við Háskóla Íslands.

Horft er til eftirfarandi þátta eftir því sem við á, miðað við starfsheiti og starfsskyldur umsækjanda:

 1. Gæða kennslu, m.a. með hliðsjón af kennslukönnunum.
 2. Samþættingar rannsókna og kennslu.
 3. Fjölbreytni í kennsluaðferðum.
 4. Þátttöku í verkefnum á sviði kennsluþróunar.
 5. Reynslu og árangurs umsækjanda af leiðbeiningu lokaverkefna, meðal annars í rannsóknatengdu framhaldsnámi.

3. Stjórnun.

Stjórnunarferill umsækjanda gagnvart fræðasamfélaginu skal metinn frá ráðningu í tímabundið starf við Háskóla Íslands. Horft er til eftirfarandi þátta eftir því sem við á, miðað við starfsheiti og starfsskyldur umsækjanda:

 1. Setu í nefndum, starfshópum eða annarri stjórnun á vegum deildar eða námsbrauta.
 2. Setu í nefndum, starfshópum eða annarri stjórnun á vegum fræðasviðs.
 3. Setu í nefndum, starfshópum eða annarri stjórnun á vegum rektors eða háskólaráðs.
 4. Annarra akademískra stjórnunarstarfa hér á landi eða erlendis, byggt á sérfræðiþekkingu umsækjanda.
 5. Að hve miklu leyti umsækjandi hefur haft leiðandi hlutverk við stjórnun.

4. Þjónusta – tengsl við samfélag og atvinnulíf.

Þjónusta umsækjanda við samfélag og atvinnulíf í krafti sérþekkingar sinnar frá ráðningu í tímabundið starf við Háskóla Íslands. Horft er til eftirfarandi þátta og hvernig þeir tengjast stefnu Háskóla Íslands um virka þátttöku:

 1. Álitsgerða og skýrslna sem ætlaðar eru aðilum utan akademíunnar.
 2. Erinda á málþingum, málstofum eða fundum sem ekki falla undir akademískan vettvang, hér á landi og erlendis.
 3. Annars konar miðlunar sérþekkingar, sem ekki fellur undir akademískan vettvang, til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag og á alþjóðavettvangi.
 4. Hagnýtingar rannsókna.
 5. Setu í ritstjórn bóka og tímarita almenns eðlis sem byggja á fræðilegri sérþekkingu.
 6. Almenns fræðsluefnis og þýðinga, byggðra á fræðilegri sérþekkingu.
 7. Þátttöku í starfi fagfélaga.

7. gr.  Lagastoð og gildistaka.

Reglur þessar eru settar samkvæmt heimild í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla. Reglurnar taka gildi 1. febrúar 2021. Frá sama tíma falla úr gildi reglur nr. 263/2010 um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands.

Reglurnar skulu endurskoðaðar þremur árum eftir gildistöku.

Háskóla Íslands, 7. desember 2020.