Skip to main content

Reglur nr. 1145-2011

Reglur um Lífvísindasetur Háskóla Íslands, nr. 1145/2011

með síðari breytingum

1. gr.  Almennt.

[Lífvísindasetur Háskóla Íslands (e. Biomedical Center, BMC) er rannsóknarstofnun sem starfrækt er af Háskóla Íslands. Lífvísindasetur er vettvangur rannsókna- og þróunarstarfs á fræðasviðum lífvísinda. Setrið er vistað á Heilbrigðisvísindastofnun Háskóla Íslands, sbr. 27. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 og 4. og 8. gr. reglna nr. 200/2019 um Heilbrigðisvísindastofnun Háskóla Íslands. Um samstarf Lífvísindaseturs við önnur fræðasvið háskólans eða aðrar stofnanir, og fjármál því tengd, skulu gerðir sérstakir samningar. Slíkur samningur tekur gildi að fenginni staðfestingu viðkomandi fræðasviðs eða stofnunar og að fenginni samþykkt Heilbrigðisvísindastofnunar.]1

1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 513/2022.

2. gr.  Hlutverk.

[Hlutverk Lífvísindaseturs er að:

  1. skapa sameiginlegan vettvang þeirra sem stunda rannsóknir á sviði lífvísinda við Háskóla Íslands og samstarfsstofnanir hans,
  2. efla rannsóknir í lífvísindum og auka tengsl rannsókna og kennslu í rannsókna-tengdu framhaldsnámi,
  3. auka sýnileika rannsókna á þessu sviði innanlands sem utan,
  4. [Stuðla að samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknaraðila á sviði lífvísinda og annarra heilbrigðisvísindagreina og efla tengsl við atvinnu- og þjóðlíf,]2
  5. gefa út og kynna niðurstöður rannsókna í lífvísindum,
  6. veita upplýsingar og ráðgjöf varðandi málefni tengd lífvísindum,
  7. gangast fyrir ráðstefnum, námskeiðum og fyrirlestrum í lífvísindum.]1

1Breytt með 1. gr. rgl. nr. 289/2016.
2Breytt með 2. gr. rgl. nr. 513/2022.

3. gr.  Skipulag.

Aðild að Lífvísindasetri eiga allir þeir rannsóknarhópar við Háskóla Íslands [og samstarfsstofnanir hans]1 sem starfa á sviði lífvísinda [og læknisfræði]2 og óska eftir aðild. Við Lífvísindasetur starfa einstakir rannsóknarhópar sem sinna rannsóknum á sviði lífvísinda, í samræmi við 27. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands. Hver rannsóknarhópur er ábyrgur fyrir eigin rannsóknum og rekstri eigin rannsóknarverkefna.

[Stjórn Lífvísindaseturs setur hverjum rannsóknarhópi starfsreglur eftir atvikum þar sem m.a. kemur fram hverjir standa að hópnum og tengsl hans og Lífvísindaseturs eru nánar tilgreind. Hópstjóri (e. principal investigator) fer fyrir hverjum hópi og ber á honum fjárhagslega ábyrgð. Hópstjóri ber ábyrgð á að koma upplýsingum um rannsóknarhóp sinn til forstöðumanns Lífvísindaseturs sem kemur þeim inn á vefsíðu setursins.]1

Lífvísindasetur [stendur]1 fyrir uppbyggingu sameiginlegrar aðstöðu til rannsókna á sviði lífvísinda með rekstri sameiginlegrar rannsóknaraðstöðu, með sameiginlegum tækjakaupum, með skipulegri kynningarstarfsemi og með annarri starfsemi sem eflir rannsóknir á sviði [lífvísinda og tengdra greina]2 við HÍ. Þeir rannsóknarhópar sem aðild eiga að Lífvísindasetri munu taka þátt í rekstri þess eftir því sem kostur er.
1Breytt með 2. gr. rgl. nr. 289/2016.
2Breytt með 3. gr. rgl. nr. 513/2022.

4. gr.  Aðstaða.

Háskóli Íslands lætur stofnuninni í té starfsaðstöðu, svo sem húsnæði og búnað eftir því sem kostur er. Stofnunin veitir starfsliði sínu skv. 8. gr. aðstöðu og nauðsynlegan búnað til rannsókna eftir því sem unnt er.

5. gr.  Stjórn.

[Forseti Heilbrigðisvísindasviðs skipar sex manna stjórn Lífvísindaseturs til þriggja ára í senn. Í stjórninni skal vera formaður, valinn án tilnefningar í samráði við forseta [deilda sviðsins,]2 þrír fulltrúar tilnefndir sameiginlega af hópstjórum rannsóknarhópa sem aðild eiga að Lífvísindasetrinu, einn fulltrúi doktorsnema og einn fulltrúi nýdoktora sem valdir eru til eins árs í senn af nemendum í doktorsnámi og starfandi nýdoktorum við Lífvísindasetrið. Með stjórn starfar ráðgjafaráð sem samanstendur af fulltrúum þeirra aðila sem standa að Lífvísindasetri. [Í stjórn skulu sitja bæði karlar og konur og skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé ekki minna en 40%, sbr. 28. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.]2

Stjórnarfundi skal halda að jafnaði mánaðarlega á hinu akademíska starfsári frá september til júní. [Jafnframt fundar formaður stjórnar með stjórn Heilbrigðisvísindastofnunar og með stjórn heilbrigðisvísindasviðs að jafnaði einu sinni á ári.]2]1

Stjórn er heimilt að skipa úr hópi stjórnarmanna þriggja manna framkvæmdastjórn sem formaður stýrir.
1Breytt með 3. gr. rgl. nr. 289/2016.
2Breytt með 4. gr. rgl. nr. 513/2022.

6. gr.  Stjórnarfundir.

Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi bréflega eða í tölvupósti, [með minnst þriggja daga fyrirvara.]1 Fundarboð skal greina dagskrá fundar.

Skylt er að boða stjórnarfund óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. [Sama gildir ef forsetar deilda heilbrigðisvísindasviðs, forseti sviðsins eða rektor ber fram slíka ósk og hafa þeir þá málfrelsi og tillögurétt á fundinum.]2

Falli atkvæði jöfn á stjórnarfundi ræður atkvæði formanns eða þess sem gegnir formannsstörfum.

Fundargerðir skulu birtar á heimasíðu Heilbrigðisvísindasviðs og heimasíðu Lífvísindaseturs.

[Ráðgjafaráð situr stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðis­réttar. Ef forstöðumaður er ráðinn til stofnunarinnar án þess að eiga sæti í stjórninni situr hann einnig stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt en án atkvæðisréttar.]1
1Breytt með 4. gr. rgl. nr. 289/2016.
2Breytt með 5. gr. rgl. nr. 513/2022.

7. gr.  Verkefni stjórnar.

[Stjórn fjallar um öll málefni Lífvísindaseturs, mótar starfsemi þess, ber ábyrgð á fjármálum þess gagnvart forseta fræðasviðs og stjórn Heilbrigðisvísindastofnunar, semur fjárhagsáætlun og gerir tillögu til forseta fræðasviðs um fjárveitingar og skiptingu þeirra ásamt skiptingu annarra tekna.]2 Stjórn sker úr vafaatriðum er upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofnunar. Stjórn undirbýr ásamt forstöðumanni rekstrar- og fjárhagsáætlun og samþykkir þjónustuverkefni sem setrið tekur að sér í samræmi við reglur þar um. Heimilt skal að framselja ákvörðunarvald um smærri verkefni til forstöðumanns.

[Stjórn Lífvísindaseturs efnir til ársfundar með hópstjórum rannsóknastofa við Lífvísindasetrið, þar sem ársskýrsla er lögð fram og önnur mál, svo sem kveðið er á um í reglum fyrir Háskóla Íslands.]1
1Breytt með 5. gr. rgl. nr. 289/2016.
2Breytt með 6. gr. rgl. nr. 513/2022.

8. gr.  [Mannauður.]2

[Heimilt er að ráða forstöðumann að stofnuninni. Forseti heilbrigðisvísindasviðs ræður forstöðumann á grundvelli, hæfnismats skv. ákvæðum laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla og reglna um Háskóla Íslands nr. 569/2009, umsagnar stjórnar stofnunarinnar og að fenginni tillögu sviðsstjórnar. Forseti setur forstöðumanni erindisbréf þar sem nánar er kveðið á um verksvið hans og starfsskyldur við stjórnsýslu og rannsóknir.]2

Ef heimild skv. 1. mgr. er ekki nýtt er stjórnarformaður jafnframt forstöðumaður stofnunarinnar.

[Forstöðumaður skal hafa akademískt hæfi sem fræðimaður, vísindamaður eða sérfræðingur. Hann skal hafa lokið doktorsprófi eða samsvarandi menntun ásamt þekkingu á aðferðafræði og reynslu af vinnu við rannsóknir.]2 Þekking á viðfangsefnum rannsakenda í lífvísindum er einnig nauðsynleg.

Forstöðumaður stýrir daglegum rekstri setursins í samráði við stjórn og situr fundi stjórnar. Hann framfylgir markmiðum setursins, en leggur sérstaka áherslu á stuðning við rannsóknir starfsmanna við fræðasviðið og uppbyggingu rannsókna á verksviði Heilbrigðisvísindasviðs. [Auk þess stundar hann rannsóknir á sínu sérsviði.]2

Forstöðumaðurinn tilheyrir stjórnsýslu Heilbrigðisvísindasviðs.

Um ráðningu forstöðumanns og annars starfsfólks fer að öðru leyti eftir ákvæðum reglna fyrir Háskóla Íslands.
1Breytt með 6. gr. rgl. nr. 289/2016.
2Breytt með 7. gr. rgl. nr. 513/2022.

9. gr.  Fjármál.

[Tekjur Lífvísindaseturs Háskóla Íslands eru eftirfarandi:

  1. greiðslur fyrir þjónustu við umfangsmikil verkefni,
  2. greiðslur fyrir fræðslu,
  3. greiðslur fyrir aðra þjónustustarfsemi,
  4. tekjur af fræðslufundum og ráðstefnum sem Lífvísindasetur stendur fyrir,
  5. aðrar tekjur, t.d. framlög frá Háskóla Íslands, styrkir frá hinu opinbera eða einkaaðilum, gjafir og framlög úr ríkissjóði eftir því sem kveðið er á um í fjárlögum,
  6. framlag frá [deildum]2 og Heilbrigðisvísindasviði,
  7. [fjárveiting]2 vegna styrkjaöflunar, eftir því sem heimilt er og að fengnu samþykki forseta Heilbrigðisvísindasviðs og forseta viðkomandi deildar,
  8. aðstöðugjöld fyrirtækja sem nýta sér rannsóknaraðstöðu Lífvísindaseturs.]1

Tekjur sínar notar Lífvísindasetur til eigin rekstrar, í sameiginlega sjóði setursins og til að skapa rannsóknastofunum fjárhagslegan grundvöll.

Reikningshald Lífvísindaseturs og rannsóknarhópa þess skal vera hluti af reikningshaldi háskólans í umsjón [Heilbrigðisvísindasviðs.]2

Lífvísindasetri og rannsóknarhópum sem innan þess starfa er heimilt að taka að sér þjónustuverkefni gegn gjaldi. Ef um er að ræða útselda þjónustu, sem veitt er í samkeppni við einkaaðila, skal sú starfsemi fjárhagslega afmörkuð frá öðrum rekstri stofnunarinnar og þess gætt að sá rekstur sé ekki niðurgreiddur með öðrum tekjum, í samræmi við ákvæði samkeppnislaga.

Um stjórnunar- og aðstöðugjald af sértekjum fer eftir ákvæðum 73. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands.
1Breytt með 7. gr. rgl. nr. 289/2016.
2Breytt með 8. gr. rgl. nr. 513/2022.

10. gr.

Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett á grundvelli heimildar í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, að fenginni tillögu Læknadeildar og stjórnar Heilbrigðis­vísinda­sviðs, öðlast þegar gildi.
 
Háskóla Íslands, 1. desember 2011.