Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 7. september 2017

7/2017

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2017, fimmtudaginn 7. september var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Eiríkur Rögnvaldsson, Erna Hauksdóttir, Guðrún Geirsdóttir, Stefán Hrafn Jónsson, Orri Hauksson, Ragna Sigurðardóttir, Tómas Þorvaldsson og Þengill Björnsson. Ragna Árnadóttir boðaði forföll og varamaður hennar einnig. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson sem ritaði fundargerð og Elín Blöndal.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver hefði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a)    Hálfs árs uppgjör Háskóla Íslands 2017.

Inn á fundinn komu Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu. Jenný Bára gerði grein fyrir hálfs árs uppgjöri Háskóla Íslands 2017. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum ráðsmanna.

b)    Drög áætlunar um innleiðingu og framkvæmd fimm ára fjárhagsáætlunargerðar fyrir Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs og meðlimur í starfshópi háskólaráðs sem falið var að gera tillögur um verklag við fimm ára fjárhags-áætlunargerð fyrir Háskóla Íslands. Í framhaldinu fól rektor Daða Má að vinna málið áfram með aðstoð ytri ráðgjafa. Daði Már gerði grein fyrir stöðu mála varðandi áætlun um innleiðingu og framkvæmd fimm ára fjárhagsáætlunargerðar fyrir Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Daði Már spurningum fulltrúa í háskólaráði. Fjármálanefnd mun fjalla um málið og kemur það síðan aftur til háskólaráðs.

3.    Málefni háskólaráðs.
a)    Starfsreglur háskólaráðs. Tillögur að breytingu á starfsreglunum í ljósi ábendinga nefndar um störf ráðsins á liðnu háskólaári, sbr. 10. gr. starfsreglna ráðsins og síðasta fund.
Fyrir fundinum lágu tillögur að breytingu á starfsreglum háskólaráðs í ljósi ábendinga nefndar um störf ráðsins á háskólaárinu 2016-2017. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Framlagðar tillögur nefndar háskólaráðs um störf ráðsins á liðnu háskólaári samþykktar einróma. Jafnframt falla úr gildi verklagsreglur um rafræna fundi háskólaráðs Háskóla Íslands frá 1. október 2015.

b)    Minnisblað um reglubundin mál á dagskrá háskólaráðs 2017-2018. Drög.
Rektor fór yfir framlagt minnisblað um reglubundin mál á dagskrá háskólaráðs 2017-2018.

4.    Starfsáætlun háskólaráðs 2017-2018. Drög.
Fyrir fundinum lágu drög að starfsáætlun háskólaráðs 2017-2018, sbr. 7. gr. starfsreglna ráðsins. Málið var rætt og beindi rektor því til ráðsmanna að koma á framfæri við sig ábendingum. Málið verður afgreitt á næsta fundi.

Jenný Bára vék af fundi.

5.    Framtíðarskipulag háskólasvæðisins. Nýbygging við Gamla Garð; breyting á deiliskipulagi Háskóla Íslands vegna Hringbrautar 27-31.
Inn á fundinn kom Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. Rektor og Eiríkur gerðu grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega.

Að umræðu lokinni samþykkti háskólaráð einróma svohljóðandi bókun:

„Um fyrirhugaða uppbyggingu stúdentagarða á lóð nr. 29 við Hringbraut

Með bréfi Minjastofnunar Íslands til Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur, dags. 17. ágúst sl., eru settar fram alvarlegar athugasemdir Minjastofnunar Íslands og Húsafriðunarnefndar um tillögu að breytingu á deiliskipulagi á lóð Gamla Garðs við Hringbraut 29, sem auglýst var af hálfu Reykjavíkurborgar í byrjun júlí sl.

Reyndar hafði Minjastofnun Íslands áður gert alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir og af því tilefni hafði rektor ritað bréf til Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur, dags. 7. júlí sl. þar sem lögð er áhersla á að mikilvægt sé að ráðrúm gefist til þess að fara yfir málið að nýju og óskað er eftir því að Háskóli Íslands fái að skila inn umsögn eftir fyrirhugaðan fund háskólaráðs 7. september. Frestur var gefinn til 11. september.

Fyrir liggur samningur um að Háskóli Íslands og Reykjavíkurborg skuli hafa samráð um uppbyggingu og nýtingu lóða á háskólasvæðinu. Jafnframt liggur fyrir samningur háskólans og borgarinnar um uppbyggingu á lóð Gamla Garðs við Hringbraut 29 og að lóðinni hafi verið ráðstafað til Félagsstofnunar stúdenta. Að svo stöddu er ljóst að einungis er um hugmyndir að ræða um aukið byggingamagn. Engin formleg samþykkt liggur fyrir um deiliskipulag.

Að fengnum alvarlegum athugasemdum Minjastofnunar og Húsafriðunarnefndar og einnig ábendingum sem fram komu í niðurstöðu dómnefndar um vinningstillögu í hugmyndasamkeppni um viðbyggingu við Gamla Garð og nýbyggingu á lóð sunnan hans, er nauðsynlegt að staldra við og endurskoða í samráði við Reykjavíkurborg hvort og þá með hvaða hætti unnt geti verið að nýta lóðina fyrir stúdentagarða eða að finna þeim annan stað á háskólasvæðinu.

Þar sem um er að ræða mjög viðkvæmt svæði sem stjórnendum háskólans og Reykjavíkurborgar er trúað fyrir á hverjum tíma er mikilvægt að farið verði vandlega yfir málið að nýju með það að markmiði að breið sátt náist um nýtingu lóðarinnar. Fram hafa komið málefnaleg sjónarmið og ber því að staldra við og vega og meta framhaldið, kosti og galla, og mögulegar nýjar lausnir með það að markmiði að leiða mál til farsælla lykta í góðri sátt. Af hálfu háskólans snýst málið fyrst og fremst um nýtingu tiltekinnar lóðar og ásýnd og skipulag háskólasvæðisins. Engin breyting er á vilja háskólans til uppbyggingar stúdentagarða.

Í ljósi fyrrgreindra athugasemda og umsagnar dómnefndar telur háskólaráð brýnt, að svo stöddu, að rektor taki málið upp við borgarstjóra hið fyrsta og að fulltrúar háskólans fari yfir stöðuna með Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur.“

Elín, Eiríkur, Guðmundur og Þengill véku af fundi.

6.    Skýrsla ytri úttektarhóps um matskerfi opinberu háskólanna.
Inn á fundinn komu Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, aðstoðarrektor vísinda og Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar. Guðbjörg Linda gerði grein fyrir helstu niðurstöðum skýrslu ytri úttektarhóps um matskerfi opinberu háskólanna. Málið var rætt og svöruðu rektor og aðstoðarrektor vísinda spurningum fulltrúa í háskólaráði. Fram kom m.a. að Háskóli Íslands mun efna til opins málþings um matskerfið 28. september nk.

Guðbjörg Linda vék af fundi.

7.    Málefni sameiginlegrar stjórnsýslu. Upplýsingatæknisvið og framkvæmda- og tæknisvið.
Rektor greindi frá því að Guðmundur H. Kjærnested hefur verið ráðinn sviðsstjóri nýs upplýsingatæknisviðs og Sigríður Sigurðardóttir sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs. Fyrir fundinum lá tillaga að breytingu á 8. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 þar sem svið hinnar sameiginlegu stjórnsýslu eru talin upp og bætist þar við hið nýja upplýsingatæknisvið.
– Samþykkt einróma.

8.    Aðstoðarrektor kennslu og þróunar. Helstu mál á döfinni.
Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar, gerði ítarlega grein fyrir helstu málum á döfinni á starfsviði sínu. Málið var rætt og svaraði Steinunn spurningum.

9.    Bókfærð mál.
a)    Fulltrúar Háskólans í stjórn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands.

Samþykkt að fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands verði þau Pétur Dam Leifsson, dósent við Lagadeild og Björg Thorarensen, prófessor við Lagadeild. Varamaður er Brynhildur G. Flóvenz, dósent við Lagadeild. Skipunin er til tveggja ára, 2017-2019.

b)    Endurskoðaðar verklagsreglur um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru kynferðislegu ofbeldi.
– Samþykkt.

c)    Verklag við undirbúning breyttrar deildaskipunar á Menntavísindasviði sem tekur gildi 1. júlí 2018.
– Samþykkt.

10.    Mál til fróðleiks.
a)    Dagatal Háskóla Íslands fyrir háskólaárið 2017-2018.
b)    Lykiltölur. Háskóli Íslands 2017.
c)    Dagskrá ársfundar Háskóla Íslands 22. ágúst 2017 og glærur rektors.
d)    Röðun Háskóla Íslands á Shanghai-matslistanum yfir fremstu háskóla heims. Sjá nánar aðferðafræði og skýrslu.

e)    Endanleg skipan vísindasiðanefndar og framgangsnefndar Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 1. júní sl.
f)    Stjórnir Sagnfræðisjóðs Björns Þorsteinssonar, Heimspekisjóðs Brynjólfs Bjarnasonar og Verðlaunasjóðs Sigurðar Helgasonar, sbr. fund ráðsins 1. júní sl.

g)    Yfirlit um nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að og fyrirséð er að skipa þurfi eða tilnefna í á misserinu.
h)    Fundargerð aðalfundar Vísindagarða Háskóla Íslands 8. júní 2017.
i)    Ávarp rektors við brautskráningu kandídata í Laugardalshöll 24. júní sl.
j)    Viðtal við rektor í handbók stúdenta, Akademían 2017-2018.
k)    Ávarp rektors í Winnipeg 17. júní sl.
l)    Glærur rektors frá Þjóðræknisþingi 20. ágúst sl.
m)    Fréttabréf Heilbrigðisvísindasviðs, september 2017.

n)    Röðun Háskóla Íslands á matslista Times Higher Education World University Rankings.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.55.