Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 6. febrúar 2020

3/2020

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2020, fimmtudaginn 6. febrúar var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Benedikt Traustason, Einar Sveinbjörnsson, Guðbrandur Benediktsson (varamaður fyrir Kristrúnu Heimisdóttur), Guðvarður Már Gunnlaugsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Jón Ólafsson (varamaður fyrir Guðrúnu Geirsdóttur), Ólafur Pétur Pálsson, Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir og Siv Friðleifsdóttir. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs.

a)    Minnisblað um framkvæmdaáætlun og fjármögnun nýbygginga 2020-2028.
Guðmundur gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði um framkvæmdaáætlun og fjármögnun nýbygginga Háskóla Íslands 2020-2028. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum fulltrúa í háskólaráði. Rektor lagði fram tillögu um að samþykkja ráðstöfun framkvæmdafjár fyrir árið 2020.
– Samþykkt einróma.

b)    Fyrirkomulag fasteigna Háskóla Íslands, sbr. fyrri fundi. Staða mála.
Rektor og Daði Már gerðu grein fyrir stöðu málsins og var það rætt.  

c)    Grænbók mennta- og menningarmálaráðuneytis um fjárveitingar til háskóla.
Daði Már gerði grein fyrir helstu efnisatriðum nýrrar grænbókar mennta- og menningarmálaráðuneytisins um fjárveitingar til háskóla, en bókin er til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Rætt var ítarlega um fjármögnun Háskóla Íslands í alþjóðlegum samanburði. Í tengslum við þennan lið samþykkti háskólaráð einróma svohljóðandi ályktun:

„Á aldarafmæli Háskóla Íslands árið 2011 var stofnaður Aldarafmælissjóður Háskóla Íslands. Markmið sjóðsins er að styðja við stefnu Háskóla Íslands um að komast í röð fremstu háskóla í heiminum og að stuðla þannig að samkeppnishæfni Íslands. Ljóst er að Aldarafmælissjóður hefur skipt gríðarlegu máli enda hefur hann verið nýttur markvisst til að innleiða stefnu Háskólans og stuðla að því að hann nái markmiðum sínum.

Í tengslum við aldarafmælið og stofnun sjóðsins var farið að ræða af alvöru samanburð á fjármögnun Háskóla Íslands og háskólastigsins á Íslandi við fjármögnun háskóla í OECD-ríkjunum og á hinum Norðurlöndunum. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar Íslands hefur markið verið sett á að ná fyrst OECD-meðaltalinu (árið 2020) og síðan meðaltali Norðurlanda (árið 2025). Að fjármögnun Háskóla Íslands sé í takt við það sem gerist hjá nágrannaþjóðum okkar er forsenda þess að skólinn geti verið samkeppnishæfur í því alþjóðlega umhverfi sem hann starfar í.

Mikilvægum áfanga hefur verið náð á þessari vegferð og má nú telja að fjármögnun háskóla á Íslandi sé sambærileg við það sem gerist að meðaltali hjá háskólum innan OECD í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar.

Eins og að framan greinir er í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar ekki látið þar við sitja heldur kveðið á um að Ísland skuli ná meðaltali fjármögnunar háskóla á Norðurlöndum árið 2025. Gögn frá Háskóla Íslands og úr ársreikningum rannsóknaháskóla á Norðurlöndum árið 2018 sýna hver staða Háskóla Íslands er í norrænum samanburði. Myndin hér að neðan sýnir heildartekjur á ársnema að meðaltali á hinum Norðurlöndunum og hjá Háskóla Íslands.

Heildartekjur á ársverk nemenda 2018 með hliðsjón af meðaltali Norðurlanda. Danmörk 5, Noregur 4,5, Svíþjóð 4,5, Finnland 3,5, Háskóli Íslands 2,8, Meðaltal 4,4 
Ljóst er að fjármögnun Háskóla Íslands stendur enn langt að baki fjármögnun sambærilegra háskóla á hinum Norðurlöndunum. Eigi stefnumarkmið ríkisstjórnarinnar um sambærilega fjármögnun háskóla á Íslandi og á Norðurlöndum að nást árið 2025 er afar brýnt að stíga nú þegar áþreifanleg skref í þá átt og að það komi fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Í ljósi þessa hvetur Háskólaráð Háskóla Íslands ríkisstjórn Íslands og Alþingi að endurskoða fimm ára fjármálaáætlun fyrir 2021-2025 og tryggja aukna fjármögnun þannig að meðaltali Norðurlandanna verði náð árið 2025.“  

d)    Skrásetningargjald.
Fyrir fundinum lá minnisblað um skrásetningargjald við háskóla landsins og viðmiðun þess við verðlag. Guðmundur gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Fram kom m.a.í minnisblaðinu að skrásetningargjaldið ætti að vera um 104.000 kr. árið 2020 og um 107.000 kr. árið 2021 ef miðað er við forsendur núverandi fjárlaga um verðhækkanir og gert ráð fyrir 3% hækkun verðlags á milli ára. Í ljósi þessa er mikilvægt að óskað verði eftir viðræðum við mennta- og menningarmálaráðuneytið um fjárhæð skrásetningargjalds fyrir árið 2021.
– Eftir umræður var samþykkt með átta atkvæðum að fela rektor að taka málið upp við rektora annarra opinberra háskóla og við mennta- og menningarmálaráðherra, en fulltrúar stúdenta greiddu atkvæði á móti.

Guðbrandur Benediktsson kom inn á fundinn.

3.    Framtíðarskipan samgöngu- og bílastæðamála á háskólasvæðinu, sbr. ályktun háskólaþings 3. maí 2019 og fund háskólaráðs 6. júní 2019. Tillaga starfshóps.
Fyrir fundinum lágu drög að tillögu starfshóps um samgöngu- og bílastæðamál á háskólasvæðinu, þ.m.t. um mögulega gjaldtöku og samgöngupassa. Rektor og Daði Már, sem á sæti í starfshópnum, gerðu grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt að senda tillögudrögin til umsagnar fræðasviða, skipulagsnefndar háskólasvæðisins, Stúdentaráðs og samstarfsstofnana og fyrirtækja sem aðsetur hafa á svæði Háskólans. Að því búnu gangi starfshópurinn frá tillögu sinni sem komi í kjölfarið til umfjöllunar og afgreiðslu í háskólaráði.

Daði Már og Guðmundur viku af fundi.

4.    Ytri úttekt á Háskóla Íslands skv. áætlun Gæðaráðs háskóla.
Inn á fundinn kom Áslaug Helgadóttir, gæðastjóri, og gerði grein fyrir fyrirhugaðri ytri úttekt á Háskóla Íslands skv. áætlun Gæðaráðs háskóla. Fram kom m.a. að sérfræðinganefndin kemur í vettvangsheimsókn til Háskóla Íslands dagana 31. mars til 3. apríl nk. og mun þá m.a. eiga fund með háskólaráði sem ráðgerður er 2. apríl nk. Málið var rætt og svaraði Áslaug spurningum ráðsmanna.

Áslaug vék af fundi.

5.    Fyrirkomulag sjúkra- og endurtökuprófa.
Inn á fundinn kom Róbert H. Haraldsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir framlagðri tillögu um endurskoðað fyrirkomulag sjúkra- og endurtökuprófa. Málið var rætt og svaraði Róbert spurningum.
– Samþykkt einróma.

6.    Verksamningur Háskóla Íslands og Útlendingastofnunar um klíníska munnholsskoðun og röntgenmyndatöku, dags. 25. mars 2019. Skýrsla samráðsnefndar, sbr. 6. gr. verksamnings.
Inn á fundinn kom Björn Atli Davíðsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors sem unnið hefur með samráðsnefnd um framkvæmd verksamnings Háskóla Íslands og Útlendingastofnunar, og gerði ásamt Róbert, sem er annar fulltrúi Háskóla Íslands í nefndinni, grein fyrir skýrslu nefndarinnar um verksamninginn og framkvæmd hans. Róbert og Björn Atli viku af fundi. Málið var rætt ítarlega.

Ragnhildur Alda, fulltrúi stúdenta, lagði fram svohljóðandi bókun:

„Fyrir ári síðan tók ég þá ákvörðun að greiða atkvæði með því að setja á laggirnar sérstakan starfshóp um framkvæmd verksamnings á milli Háskóla Íslands og Útlendingastofnunar um klíníska munnholsskoðun og röntgenmyndatöku. Tilkoma starfshópsins var að mínum dómi mikið framfaraskref og hafði hún einkum tvíþætt hlutverk, þ.e. í fyrsta lagi að vera eins konar öryggisventill til að tryggja að þau mál sem Tannlæknadeild Háskóla Íslands fengi til meðferðar hefðu sannarlega áður verið reifuð í þaula og að því komist enginn önnur leið væri eftir til að meta aldur hælisleitanda. Í öðru lagi væri það hlutverk starfshópsins að þróa, í krafti sérþekkingar Háskólans, leiðir til að meta aldur út frá fleiri forsendum en tanngreiningum, en samkvæmt frásögnum ungmenna sem hafa undirgengist tanngreiningar er ferlinu ábótavant bæði lagalega og siðferðilega.

Með það í huga að verksamningurinn yrði endurskoðaður í ljósi reynslunnar að ári liðnu ákvað ég að láta reyna á það hvort Háskóli Íslands gæti í krafti þekkingar sinnar stuðlað að framförum á umræddu sviði með aðkomu sinni að ferlinu, einkum á grundvelli tveggja þátta:

1. Tanngreiningar í þessum tilgangi eru leyfilegar samkvæmt lögum. Með því að greiða framgangi málsins atkvæði mitt væri ég því að freista þess að stuðla að breytingum á ferlinu innan frá, sem er yfirleitt mun fljótvirkari leið en að krefjast breytinga utan frá.

2. Heilbrigðisstarfsmenn eiga að starfa samkvæmt svokallaðri skaðleysisreglu, ásamt því að fara að fyrirmælum laga um upplýst samþykki. Fyrir vikið ber þeim, sem og öðrum sem koma að ferlinu, að tryggja að sá sem undirgengst skoðunina hafi sannarlega veitt valkvætt samþykki og er upplýstur um eðli hennar og tilgang, auk þess að viðkomandi hljóti ekki líkamlegan eða andlegan skaða. Háskóli Íslands er svo í ofanálag með enn víðtækari siðareglur.
 
Nú, tæpu ári síðar, er komið að reikningsskilum og er það niðurstaða mín að ekki hafi orðið nægilegar breytingar á ferlinu í heild sinni til að það geti talist samræmast þeim kröfum sem Háskóli Íslands og heilbrigðisstarfsmenn þurfa að mæta samkvæmt ákvæðum laga og reglna. Háskóli Íslands er táknmynd gæða á sviði rannsókna og kennslu í íslensku samfélagi. Þann sess hefur hann réttilega hlotið fyrir ófrávíkjanlega kröfu sína um að allir þátttakendur stofnunarinnar starfi eftir ítrustu kröfum laga, reglna og siðferðisviðmiða. Jafnframt hafa rektor og yfirstjórn Háskóla Íslands tvíeflt þá kröfu um gæði með störfum sínum í þessum málaflokki sem öðrum.

Störf starfshópsins hafa sannarlega endurspeglað þennan metnað, með ítarlegri upplýsingaöflun um ferlið frá öllum sjónarhornum og tilheyrandi umbótum á verklagi. Þó eru sterkar vísbendingar um að verkferlar Útlendingastofnunar hafi ekki náð að samlagast gæðakröfum Háskóla Íslands. Á þeim grundvelli getur undirrituð ekki stutt endurnýjun á verksamningi Háskóla Íslands og Útlendingastofnunar. Út frá skýrslu starfshópsins met ég það svo að heiðarleg tilraun Háskóla Íslands til að stuðla að framförum í málaflokknum hafi ekki náð að skila ætluðum árangri, ekki síst vegna aðgerðaleysis hins samingsaðilans. Því tel ég að næsta skref sé að standa vörð um kröfur Háskólans varðandi gæði og siðferði með því að segja upp verksamningnum við Útlendingastofnun.  

Rétt er að taka fram að aldursgreiningar voru framkvæmdar í rúman áratug án þess fyrir hendi væri samningur um þessa starfsemi og það var núverandi yfirstjórn Háskólans sem fyrst tók málið til gagnrýninnar skoðunar og setti á laggirnar framangreindan starfshóp með það að markmiði að beita sér fyrir bættu verklagi í málaflokki sem er annars, eðli máls samkvæmt, fullkomlega fyrir utan valdsvið skólans. Sannarlega eiga rektor og aðrir í yfirstjórn Háskóla Íslands mikið hrós skilið fyrir lýðræðisleg og framfaramiðuð vinnubrögð.

Það er mikilvægt að muna að á meðan Háskóli Íslands hefur aðkomu að tanngreiningum í framangreindum tilgangi er málaflokkurinn settur beint á borð allra aðkomandi, þ.m.t. nemenda og starfsmanna. Stúdentaráð Háskóla Íslands sem og báðar stúdentafylkingarnar Vaka og Röskva hafa krafist afnáms þessa samnings m.a. á sömu forsendum og voru nefndar hér að framan. Málaflokkurinn fjallar um ungmenni í sérstaklega viðkvæmri stöðu og því er sú skylda sett á herðar okkar allra sem tökum þátt í starfsemi Háskólans að nota málaflokkinn ekki til sundrungar, hvort sem er á milli nemenda, starfsmanna, deilda eða stjórnar. Málaflokkurinn varðar okkur öll og er eðli hans slíkt að hann krefst sameinaðrar afstöðu. Það er mín persónulega túlkun að afstaða Háskóla Íslands sé skýr og sameinuð á grundvelli þeirra ríku gæðakrafna sem hann hefur sett sér í þessu máli, eins og skýrt kemur fram með skipun starfshópsins. Fyrir vikið tel ég tímabært að ljúka aðkomu Háskóla Íslands að tanngreiningum í þessum tilgangi.“

7.    Bókfærð mál.
a.    Staðfesting á stofnanasamningi Háskóla Íslands við Félag háskólakennara, ásamt viðaukum.

– Samþykkt.

b.    Breytingar á reglum nr. 971/2009 og nr. 605/2006 vegna kjarasamninga.
– Samþykkt.

c.    Frá Félagsvísindasviði: Tillaga að nýrri námsleið, viðbótardiplómu í þjóðfræði á meistarastigi innan námsbrautar í þjóðfræði og safnafræði við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild.
– Samþykkt.

d.    Frá Heilbrigðisvísindasviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði: Tillaga að reglum um meistaranám í iðnaðarlíftækni, sbr. fund ráðsins 10. mars 2019.
– Samþykkt.

e.    Frá Menntavísindasviði: Tillaga um nýjar námsleiðir til meistaraprófs, kennt meistaranám án rannsóknarverkefnis, sbr. síðasta fund.
– Samþykkt.

f.    Tillaga að breytingu á 28. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 er varðar starfsheiti akademískra starfsmanna.
– Samþykkt.

g.    Fulltrúi í fagráð um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi innan Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Nýr fulltrúi í fagráðinu er Finnborg Salome Steinþórsdóttir, nýdoktor við Stjórnmálafræðideild.

h.    Frá kennslusviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði: Leiðrétting á breytingu á reglum um inntökuskilyrði í grunnnám, sbr. fund ráðsins 6. desember sl.
– Samþykkt.

i.    Skipan kærunefndar í málefnum nemenda.
– Samþykkt að fela rektor að ganga frá skipun nefndarinnar.

j.    Skipan fulltrúa Háskóla Íslands í stjórn Félagsstofnunar stúdenta.
– Samþykkt. Fulltrúi Háskóla Íslands í stjórn Félagsstofnunar stúdenta tímabilið 2019-2021 er Baldur Þórhallsson, prófessor við Stjórnmálafræðideild. Varafulltrúi Baldurs er Ragnhildur Ísaksdóttir, sviðsstjóri Starfsmannasviðs.

8.    Mál til fróðleiks.
a)    Formaður stjórnar Háskólaútgáfunnar.
b)    Skipan siðanefndar Háskóla Íslands.
c)    Svar við erindi ráðuneytis vegna samkeppnisreksturs. Frestað.
d)    Uppfært yfirlit um nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að og fyrirséð er að skipa þurfi eða tilnefna í á misserinu.
e)    Uppfært dagatal vormisseris 2020.

f)    Fréttatilkynning frá evrópskum háskólasamtökum vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
g)    Fréttabréf háskólavina, dags. 30. janúar 2020.
h)    Starfsáætlun háskólaráðs, staða mála.
i)    Bréf rektors til mennta- og menningarmálaráðherra vegna útgáfu leyfisbréfa kennara.
j)    Dagskrá Jafnréttisdaga 2020.
k)    Breytingar á skattalegu umhverfi þriðja geirans.
l)    Nefnd um endurskoðun reglna um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna Háskóla Íslands.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.10.