Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 5. október 2017

8/2017

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2017, fimmtudaginn 5. október var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Eiríkur Rögnvaldsson, Eydís Blöndal (varamaður fyrir Þengil Björnsson), Guðrún Geirsdóttir, Stefán Hrafn Jónsson, Ragna Sigurðardóttir, Svanhildur Konráðsdóttir (varamaður fyrir Rögnu Árnadóttur) og Tómas Þorvaldsson. Erna Hauksdóttir og Orri Hauksson boðuðu forföll og varamenn þeirra sömuleiðis. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver hefði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a)    Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2018. Staða mála. Minnisblað.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs og gerðu grein fyrir stöðu mála varðandi fjárlagafrumvarp fyrir árið 2018. Málið var rætt og svöruðu þau Guðmundur og Jenný Bára spurningum ráðsmanna.

b)    Drög að þriggja ára áætlun Háskóla Íslands um starfsemi og rekstur, sbr. bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins, dags. 15. september sl.
Rektor og Jenný Bára gerðu grein fyrir drögum að þriggja ára áætlun um starfsemi og rekstur Háskóla Íslands sem tekur m.a. mið af Stefnu Háskóla Íslands 2016-2021. Málið var rætt og svöruðu þau spurningum fulltrúa í háskólaráði. Áætlunin verður send mennta- og menningarmálaráðuneytinu í kjölfar fundarins.

Jenný Bára vék af fundi.

3.    Framtíðarskipulag háskólasvæðisins, sbr. síðasta fund.
Rektor greindi frá fundi sínum með borgarstjóra Reykjavíkur fyrir skömmu, sbr. bókun háskólaráðs á síðasta fundi varðandi hugmyndir um nýbyggingu við Gamla garð og breytingu á deiliskipulagi Háskóla Íslands vegna reits við Hringbraut 27-31. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

Inn á fundinn komu Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslu og þróunar og Pétur H. Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun. Pétur fór ítarlega yfir sögu og þróun skipulags háskólasvæðisins á Melunum og skipulag háskólasvæða (e. campus) erlendis. Málið var rætt ítarlega.

Pétur, Sigríður og Steinunn véku af fundi.

4.    Tillaga að breytingu á 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 um skipulegt framhaldsnám til meistara- og doktorsprófa.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
– Samþykkt einróma að senda tillöguna til umsagnar fræðasviða, Félags doktorsnema og nýdoktora við Háskóla Íslands (Fedon), kennslumálanefndar, vísindanefndar og gæðanefndar háskólaráðs og Stúdentaráðs. Miðað er við að málið komi til afgreiðslu háskólaráðs í desember nk.

5.    Innri endurskoðun. Tillaga eftirfylgninefndar ábendinga og tillagna innri endurskoðanda um Nemendaskrá, sbr. fund ráðsins 4. maí sl.
Inn á fundinn kom Róbert H. Haraldsson, prófessor og fulltrúi í eftirfylgninefnd ábendinga og tillagna innri endurskoðanda um Nemendaskrá Háskóla Íslands. Gerði Róbert grein fyrir tillögum nefndarinnar og var málið rætt.
– Tillögur eftirfylgninefndar samþykktar einróma.

6.    Hugverkanefnd. Helstu mál á döfinni.
Inn á fundinn komu Kristinn Andersen, deildarforseti Rafmagns- og tölvuverkfræðideildar og formaður hugverkanefndar og Einar Mäntylä, verkefnisstjóri nýsköpunar við Háskóla Íslands. Gerðu þeir grein fyrir starfi nefndarinnar og helstu málum sem þar eru á döfinni. Málið var rætt og svöruðu þeir Kristinn og Einar spurningum ráðsmanna.

7.    Bókfærð mál.
a)    Starfsáætlun háskólaráðs og yfirlit um fasta liði á dagskrá ráðsins 2017-2018.
– Samþykkt.

b)    Verklagsreglur um samvinnu deilda Háskóla Íslands og Endurmenntunar Háskóla Íslands um einingabært nám á ábyrgð deilda, ásamt tillögu að breytingu á 64. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Samþykkt.

c)    Verklagsreglur um ótímabundnar ráðningar akademískra starfsmanna Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

d)    Skipun öryggisnefndar Háskóla Íslands 2017-2020.
– Samþykkt. Nefndin er skipuð þeim Sveinbirni Gizurarsyni, prófessor við Heilbrigðisvísindasvið (fulltrúi Háskóla Íslands), Sigríði Jónsdóttur, fræðimanni á Raunvísindastofnun (fulltrúi Háskóla Íslands), Sigurlaugu I. Lövdahl, skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs (fulltrúi starfsfólks) og Snorra Páli Davíðssyni, tækjaverði í Öskju hjá Líf- og umhverfisvísindastofnun (fulltrúi starfsfólks). Skipunartími nefndarinnar er til þriggja ára eða til 15. október 2020.

e)    Reglur Rannsóknasjóðs, 75. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009. Vegna heimildar til veitingar allt að þriggja ára styrkja.
– Samþykkt.

f)    Málefni Reiknistofnunar Háskóla Íslands. Forstöðumaður.
– Samþykkt að sviðsstjóri nýs upplýsingatæknisviðs gegni starfi forstöðumanns Reiknistofnunar Háskóla Íslands uns gengið hefur verið frá framtíðarskipulagi sviðsins og stofnunarinnar.

g)    Fulltrúi Menntavísindasviðs í stjórn Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands.
– Samþykkt að Hróbjartur Árnason, lektor, verði fulltrúi Menntavísindasviðs í stjórn Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands.

h)    Skipun formanns kærunefndar í málefnum nemenda ad-hoc.
– Samþykkt. Formaður kærunefndar í málefnum nemenda ad-hoc verður Trausti Fannar Valsson, dósent við Lagadeild.

8.    Mál til fróðleiks.
a)    Málþing um matskerfi opinberu háskólanna 28. september 2017.
b)    Staða Háskóla Íslands og einstakra fræðasviða háskólans á lista Times Higher Education World University Rankings. Sjá hér um hugvísindi og hér um félagsvísindi.
c)    Samningur Félagsstofnunar stúdenta og Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., dags. 6. september 2017.
d)    Neyðarstjórn Háskóla Íslands.

e)    Samningur Háskóla Íslands og Landspítala um Rannsóknastofu í næringarfræði (endurnýjaður), 26.9.2017.
f)    Samningur Háskóla Íslands og Heilsugæslu Salahverfis um klíníska kennslu, dags. 26. september 2017
g)    Fréttabréf Menntavísindasviðs, september 2017.
h)    Samningur Háskóla Íslands, NIVA Education og Vinnueftirlitsins, dags. 29. september 2017.
i)    Ávarp rektors á málþingi um endurskoðun matskerfis opinberu háskólanna 28. september 2017.
j)    Skýrsla NordForsk um árangur norrænna háskóla í rannsóknum.
k)    Fréttabréf Heilbrigðisvísindasviðs, október 2017.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.55.