Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 2. júní 2022

7/2022
HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2022, fimmtudaginn 2. júní var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Einar Sveinbjörnsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson (á fjarfundi), Ingibjörg Gunnarsdóttir, Isabel Alejandra Díaz, Jessý Rún Jónsdóttir, Jón Ólafsson (á fjarfundi), Ólafur Pétur Pálsson, Siv Friðleifsdóttir (á fjarfundi) og Vigdís Jakobsdóttir (á fjarfundi). Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Fulltrúar nemenda lögðu fram bókun við lið 11c. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ að öðru leyti og skoðast hann því samþykktur. Jafnframt spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og greindi Jessý Rún frá því að hún myndi ekki taka þátt í afgreiðslu dagskrárliðar 10b vegna fyrri aðkomu sinnar að málinu í hlutverki sínu sem hagsmunafulltrúi stúdenta. Þar sem þetta var síðasti fundur þessa háskólaráðs þakkaði rektor fulltrúum í háskólaráði fyrir þeirra mikilvægu störf í inngangi sínum.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og Magnús Jökull Sigurjónsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors.

a.    Staða viðhaldsverkefna.
Kristinn gerði grein fyrir framlögðu yfirliti um helstu viðhaldsverkefni og nýframkvæmdir í vinnslu og framundan. Málið var rætt.

b.    Vatnstjón í byggingum Háskóla Íslands. Staða mála.
Magnús Jökull fór yfir eftirmál vatnstjóns sem varð í byggingum Háskóla Íslands í janúar 2021. Málið var rætt.

Kristinn og Magnús Jökull viku af fundi.

3.    Funda- og starfsáætlun háskólaráðs 2021-2022. Staða mála.
Rektor fór yfir lokayfirlit um funda- og starfsáætlun háskólaráðs sem upphaflega var samþykkt í ráðinu 7. október sl. og uppfærð hefur verið reglulega á starfsárinu. Málið var rætt.

4.    Skilagrein starfshóps háskólaráðs um störf ráðsins á undangengnu starfsári.
Ingibjörg Gunnarsdóttir, varaforseti háskólaráðs og formaður starfshóps ráðsins um störf þess á liðnu starfsári, gerði grein fyrir skilagrein starfshópsins, en hlutverk hans er að rýna vinnubrögð ráðsins og leggja eftir atvikum til umbætur á starfsháttum þess. Auk Ingibjargar voru í nefndinni Einar Sveinbjörnsson, Guðvarður Már Gunnlaugsson og Isabel Alejandra Díaz, fulltrúar í háskólaráði. Málið var rætt.
– Sameiginlegri stjórnsýslu falið að fara yfir ábendingar er fram komu og undirbúa mögulega útfærslu og framkvæmd fyrir næsta fund ráðsins eftir sumarhlé.

5.    Málefni stundakennara, sbr. fund ráðsins 4. nóvember sl.
Inn á fundinn kom Ragnhildur Ísaksdóttir, sviðsstjóri mannauðssviðs, og gerði grein fyrir tillögum starfshóps um málefni stundakennara. Fram kom m.a. að tafir hafa orðið á útfærslu tillagnanna, sem einkum tengist mögulegri aðild stundakennara að kjarafélögum. Málið var rætt og verður það áfram á dagskrá háskólaráðs.

Ragnhildur vék af fundi.

Fundarhlé

6.    Samþætting stefnu og gæðamála.
Inn á fundinn komu Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, og Bjarni Snæbjörn Jónsson, stjórnunarráðgjafi, og gerðu grein fyrir hugmyndum um samþættingu stefnu og gæðamála með því að gæðanefnd háskólaráðs verði lögð niður og í staðinn sett á laggirnar stefnu- og gæðaráð, auk þess sem ráðið verður í starf stefnu- og gæðastjóra. Málið var rætt og svöruðu rektor, Bjarni og Steinunn spurningum ráðsfólks.
– Samþykkt einróma að breyta til samræmis 7., 24., 67. og 69. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 þar sem „stefnu- og gæðaráð“ kemur í stað „gæðanefnd“ (í viðeigandi beygingarmynd).

Steinunn og Bjarni viku af fundi.

7.    Sameiginleg störf (stefnubundin), sbr. fund ráðsins 3. febrúar sl. Tillaga starfshóps.
Ólafur Pétur Pálsson, formaður starfshóps um stefnubundna úthlutun akademískra starfa, reifaði drög að tillögum hópsins er lúta að störfum þvert á fræðasvið í því augnamiði að efla þverfræðilegt samstarf. Málið var rætt og svaraði Ólafur Pétur spurningum. Ráðgert er að auglýsa nokkur sameiginleg störf á næstunni. Jafnframt er stefnt er að því að starfshópurinn ljúki vinnu sinni í haust.

8.    Um útreikning tímafjölda að baki námskeiðum við Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 13. janúar sl.
Ólafur Pétur gerði grein fyrir vinnu starfshóps um einföldun og samræmingu á útreikningi á tímafjölda að baki námskeiðum innan Háskóla Íslands. Málið var rætt og samþykkt að fela hópnum að halda áfram vinnunni, m.a. í samráði við fjármálanefnd og kennslumálanefnd háskólaráðs. Hópurinn skili tillögum sínum fyrir næstu áramót.

9.    Djúptæknikjarni Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., sbr. fund ráðsins 4. nóvember sl.
Inn á fundinn komu Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og formaður stjórnar Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., og Hrólfur Jónsson, framkvæmdastjóri félagsins. Gerði Sigurður Magnús grein fyrir hugmyndum um byggingu og rekstur djúptæknikjarna í tengslum við Vísindagarða. Málið var rætt.
– Háskólaráð lýsir yfir stuðningi við hugmyndir Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. um byggingu og rekstur djúptæknikjarna. Jafnframt felur háskólaráð rektor að vinna að nánari skoðun á því hvernig Háskóli Íslands getur stutt málið.

Sigurður Magnús og Hrólfur viku af fundi.

10.    Álit kærunefndar um málefni nemenda.
Inn á fundinn kom Víðir Smári Petersen, dósent við Lagadeild og formaður kærunefndar um málefni nemenda.

a.    Kæra fyrrum doktorsnema við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild.
Víðir Smári gerði grein fyrir framlögðu áliti kærunefndarinnar í máli fyrrum doktorsnema við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild (mál nr. 2022/1) sem háskólaráð óskaði eftir í samræmi við 50. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Málið var rætt og svaraði Víðir Smári spurningum.

b.    Kæra nema í MBA-námi.
Víðir Smári gerði grein fyrir framlögðu áliti kærunefndarinnar í máli MBA-nema við Viðskiptafræðideild (mál nr. 2022/2) sem háskólaráð óskaði eftir í samræmi við 50. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Málið var rætt og svaraði Víðir Smári spurningum.

Víðir Smári vék af fundi.

Háskólaráð kvað einróma upp úrskurð í máli nr. 2022/1 og samhljóða úrskurð í máli nr. 2022/2 þar sem Jessý Rún sat hjá. Rektor er falið að tilkynna málsaðilum niðurstöðu ráðsins. Úrskurðirnir eru kæranlegir til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema sem starfar samkvæmt 20. gr. laga um háskóla nr. 63/2006. Um kærufrest fer samkvæmt VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

11.    Bókfærð mál.
a.    Frá Félagsvísindasviði: Tillaga að breytingu að 53. gr. reglna nr. 500/2011 um doktorsnám við Félagsvísindasvið (varðar Viðskiptafræðideild).

– Samþykkt.

b.    Frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði: Tillaga að breytingu á reglum Líf- og Umhverfisvísindastofnunar Háskóla Íslands nr. 554/2011.
– Samþykkt.

c.    Frá kennslusviði og Félagsvísindasviði: Tillaga um sjúkra- og endurtökupróf, sbr. fund ráðsins 4. nóvember sl.
– Samþykkt.

Fulltrúar nemenda lögðu fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar stúdenta í háskólaráði telja endurskoðun á fyrirkomulagi sjúkra- og endurtökuprófa á Félagsvísindasviði löngu tímabæra og fagna nýrri tillögu að útfærslu sem fram er komin, í kjölfar erindis Stúdentaráðs á fundi háskólaráðs þann 4. nóvember 2021. Á sama tíma og þakkir eru færðar fyrir vinnuna sem ráðist var í vilja fulltrúar stúdenta undirstrika að það verði að tryggja að ný útfærsla nái fram að ganga fyrir háskólaárið 2023-2024, líkt og sammælst hefur verið um.

Ný útfærsla er ásættanleg lausn fyrir hlutaðeigandi og ljóst er að eðlilegt næsta skref sé að huga að heildarsamræmingu á kennslualmanaki þvert á svið. Fulltrúar stúdenta vilja þó taka fram að sú vinna, sem öll eru í grunninn sammála um, megi ekki hægja á eða hindra að nýtt fyrirkomulag sjúkra- og endurtökuprófa sé hrint í framkvæmd á Félagsvísindasviði. Fulltrúar stúdenta í háskólaráði sem og Stúdentaráð binda miklar vonir við að samráðið í framhaldinu verði lausnamiðað og farsælt í þágu stúdenta, en ljóst er að miklir hagsmunir eru undir fyrir þau. Við fögnum þessum fyrirhuguðu breytingum á sama tíma og við leggjum þunga á að útfærslan raungerist líkt og áform eru á um.
Isabel Alejandra Díaz
Jessý R. Jónsdóttir

d.    Frá Félagsvísindasviði: Tillaga að breytingu á reglum nr. 546/2010 um Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála í Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

e.    Frá Félagsvísindasviði: Tillaga að breytingu á 18. gr. reglna nr. 643-2011 um meistaranám við Félagsvísindasvið (varðar Viðskiptafræðideild).
– Samþykkt.

12.    Mál til fróðleiks.
a.    Akkerisfundur um innleiðingu HÍ26, dags. 17.5.2022.
b.    Drög dagskrár háskólaþings 8. júní 2022.
c.    Hátt í 40 doktorsnemar fá styrk úr sjóðum skólans.
d.    Viljayfirlýsing um stúdentagarð í Stapa.
e.    Skipan Vísinda- og tækniráðs 2022-2025.
f.    Horft til framtíðar á Aurora-vorráðstefnu í Austurríki.
g.    Nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands 2022.
h.    Hannes Pétursson og Steinunn Sigurðardóttir sæmd heiðursdoktorsnafnbót.
i.    Árbækur Háskóla Íslands 2011, 2012 og 2013.
j.    Fréttabréf háskólavina, dags. 1. júní 2022.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.