Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 12. janúar 2017

1/2017

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2017, fimmtudaginn 12. janúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Eiríkur Rögnvaldsson, Erna Hauksdóttir, Guðrún Geirsdóttir, Orri Hauksson, Ragna Árnadóttir, Ragna Sigurðardóttir, Stefán Hrafn Jónsson, Tómas Þorvaldsson og Þengill Björnsson. Fundinn sátu einnig Elín Blöndal, Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver hefði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu, og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a)    Líkleg rekstrarniðurstaða Háskóla Íslands 2016.
Jenný Bára gerði grein fyrir málinu. Fram kom að útlit er fyrir að rekstrarniðurstaða ársins 2016 verði neikvæð sem nemur um 300 m.kr. að frátöldu gengistapi, eins og gert hafði verið ráð fyrir.

b)    Fjárlög ársins 2017.
Rektor og Guðmundur greindu frá framlagi til Háskóla Íslands í fjárlögum ársins 2017. Málið var rætt.

c)    Fjöldi ársverka við Háskóla Íslands 2014-2016.
Guðmundur gerði grein fyrir þróun fjölda ársverka við Háskóla Íslands á tímabilinu 2014-2016. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum ráðsmanna.

d)    Fjárhagsáætlun Háskóla Íslands fyrir árið 2017 og tillaga fjármálanefndar háskólaráðs um skiptingu fjárveitinga.
Fyrir fundinum lá minnisblað fjármálanefndar Háskóla Íslands og tillaga nefndarinnar um skiptingu fjárveitingar árið 2017. Rektor og Guðmundur gerðu grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Í minnisblaðinu kemur m.a. fram að fjárveiting til Háskóla Íslands kallar á aukið aðhald í rekstri skólans til að unnt sé að vinna að sem næst hallalausum rekstri á árinu. Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnmálaflokka um bætta fjármögnun háskólastigsins bendi fátt til þess að þær muni ganga eftir í bráð, a.m.k. í þeim mæli sem háskólasamfélagið telur nauðsynlegt. Því sé brýnt að skoða allar áætlanir og ákvarðanir um starfsemi skólans og í því skyni leggur fjármálanefnd fram tillögur um aðhaldsaðgerðir í 11 liðum:

1.    Unnin verði á fyrri hluta ársins 2017 fimm ára áætlun um rekstur Háskóla Íslands.
2.    Strangt aðhald verði með ráðningum. Óskir um nýráðningar, bæði störf í akademíu og í stjórnsýslu og stoðþjónustu, þurfi að bera undir undanþágunefnd sem skipuð verði framkvæmdastjóra og starfsmannastjóra miðlægrar stjórnsýslu ásamt starfsmannastjóra og rekstrarstjóra viðkomandi fræðasviðs eða yfirmanni þeirrar miðlægu einingar sem óskar eftir ráðningu.
3.    Fræðasvið setji fram tillögur til rektors um hvernig draga megi úr fjölda kennslustunda árið 2017 og yfirfari allt námsframboð m.t.t. fækkunar námsleiða og aukinnar samkennslu.
4.    Fastlaunasamningar í stjórnsýslu og stoðþjónustu verði endurskoðaðir ef í ljós kemur að yfirvinnuframlag samsvarar ekki a.m.k. 50% af vinnustundum skv. samkomulagi.
5.    Framkvæmdastjóra og starfsmannastjóra miðlægrar stjórnsýslu verði falið að kanna möguleika á því að fleiri starfsmenn í stjórnsýslu fræðasviða verði jafnframt starfsmenn sameiginlegrar stjórnsýslu.
6.    Framkvæmdastjóri og fjármálastjóri miðlægrar stjórnsýslu fundi ársfjórðungslega með forsetum og rekstrarstjórum fræðasviða um fjárhagsstöðu viðkomandi sviða.
7.    Laun starfsmanna sem innheimt (e. claim) eru af rannsóknastyrkjum verði tekjufærð á deildir.
8.    Endurnýjunartími tölvubúnaðar verði fjögur ár í samræmi við afskriftartíma.
9.    Aðhald í innkaupum verði aukið með samningum og þátttöku í útboðum.
10.    Hámarksgreiðslur fyrir fargjöld og farareyri erlendis í rannsóknaleyfi verði sem hér segir frá og með 1. júlí 2017 (í SDR):
i.    Leið A, 12 mánuðir, hámark 11.100 SDR
ii.    Leið A, 6 mánuðir, hámark 8.300 SDR
iii.    Leið B, hámark 4.500 SDR
11.    Samþykkja þarf miðlægt öll óregluleg útgjöld, svo sem kaup á þjónustu utan Háskóla Íslands, húsaleigu til lengri tíma en eins árs, aðkeypta sérfræðiþjónustu yfir útboðsskyldumörkum o.fl.

– Tillaga fjármálanefndar um skiptingu fjárveitingar árið 2017 og tillaga nefndarinnar um aðhaldsaðgerðir vegna erfiðrar fjárhagsstöðu Háskóla Íslands samþykkt einróma.

Ragna Árnadóttir þurfti að víkja af fundi.

3.    Innri endurskoðun.
Inn á fundinn kom Ingunn Ólafsdóttir, innri endurskoðandi Háskóla Íslands.

a)    Drög að endurskoðunaráætlun 2017-2019 og fjárhagsáætlun 2017.
Ingunn fór yfir drög að endurskoðunaráætlun fyrir tímabilið 2017-2019 og fjárhagsáætlun innri endurskoðunar 2017.

– Samþykkt einróma.

b)    Drög skýrslu um nýráðningar akademískra starfsmanna.
Ingunn gerði grein fyrir drögum að skýrslu um nýráðningar akademískra starfsmanna.
Málið var rætt og svaraði Ingunn spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Samþykkt einróma að vísa málinu til eftirfylgninefndar ábendinga og tillagna innri endurskoðanda.

Orri Hauksson þurfti að víkja af fundi.

4.    Skýrsla nefndar um deildarskiptingu á Menntavísindasviði.
Inn á fundinn kom Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, og gerði grein fyrir skýrslu og tillögum nefndar um deildarskiptingu á Menntavísindasviði. Málið var rætt og svaraði Jóhanna spurningum ráðsmanna. Áætlað er að tillögur nefndarinnar um deildarskiptingu á Menntavísindasviði komi til framkvæmdar haustið 2018.

5.    Málefni fræðasviða Háskóla Íslands. Kynning á starfsemi og áherslumálum Félagsvísindasviðs.
Inn á fundinn kom Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs og gerði grein fyrir starfsemi og áherslumálum sviðsins. Málið var rætt og svaraði Daði Már spurningum ráðsmanna.

6.    Bókfærð mál.
a)    Fyrirvarar við útgáfu kennsluskrár 2017-2018.
– Samþykkt.

b)    Stjórn Styrktarsjóða Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Stjórnin er skipuð þeim Gylfa Magnússyni, dósent við Viðskiptafræðideild, sem er formaður,
Ásu Ólafsdóttur, dósent við Lagadeild og
Jóhanni Ómarssyni viðskiptafræðingi.
Varamaður er Sigurður Jóhannesson, sérfræðingur hjá Hagfræðistofnun. Stjórnin er skipuð til 31. desember 2019.

c)    Stjórn Happdrættis Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Stjórnin er skipuð þeim Eyvindi G. Gunnarssyni, prófessor við Lagadeild á Félagsvísindasviði, sem er formaður, Jenný Báru Jensdóttur, sviðsstjóra fjármálasviðs og Kristbjörgu Eddu Jóhannsdóttur, forstjóra Kaffitárs. Stjórnin er skipuð til eins árs í senn.

d)    Skipan kærunefndar í málefnum háskólanema.
– Samþykkt. Nefndin er skipuð þeim Björgu Thorarensen, prófessor við Lagadeild, sem er formaður (varamaður er Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við Lagadeild), Guðmundi G. Haraldssyni, prófessor við Raunvísindadeild (varamaður er Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild á Heilbrigðisvísindasviði) og Oddnýju G. Sverrisdóttur, prófessor við Mála- og menningardeild (varamaður er Jón Torfi Jónasson, prófessor við Kennaradeild). Skipunartími nefndarinnar er til 31. janúar 2020.

e)    Reglum um inntöku nýnema í Hagfræðideild Háskóla Íslands, nr. 188/2012, verður ekki beitt háskólaárið 2017-2018.
– Samþykkt.

f)    Veiting akademískra nafnbóta, sbr. reglur nr. 212/2011 um viðurkenningu Háskóla Íslands á akademísku hæfi starfsmanna Landspítala-háskólasjúkrahúss og veitingu akademískrar nafnbótar.
– Samþykkt.

7.    Mál til fróðleiks.
a)    Sjálfsmatsskýrsla vegna úttektar á matskerfi opinberu háskólanna.
b)    Ályktun rektora íslenskra háskóla um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017, dags. 14. desember sl.
c)    Skipan Færeyjanefndar Háskóla Íslands.
d)    Valnefnd vegna akademískra nafnbóta, sbr. 4. gr. reglna um viðurkenningu Háskóla Íslands á akademísku hæfi starfsmanna á Landspítala og veitingu akademískrar nafnbótar, nr. 888/2016.
e)    Uppfært yfirlit um nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að og fyrirséð er að skipa eða tilnefna í á misserinu.
f)    Endurnýjaður samstarfssamningur Háskóla Íslands og Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands um kennslu og rannsóknir, dags. 5. janúar 2017.
g)    Skýrsla um sameiginlega stjórnsýslu Háskóla Íslands.
h)    Úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands 2017.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00.