Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 12. apríl 2018

4/2018

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2018, fimmtudaginn 12. apríl var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Amalía Björnsdóttir (varamaður fyrir Eirík Rögnvaldsson), Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Erna Hauksdóttir, Ingibjörg Gunnarsdóttir (varamaður fyrir Guðrúnu Geirsdóttur), Orri Hauksson, Ragna Árnadóttir, Ragna Sigurðardóttir, Stefán Hrafn Jónsson og Tómas Þorvaldsson. Þengill Björnsson boðaði forföll. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá. Stefán Hrafn Jónsson lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í afgreiðslu dagskrárliðar 6 þar sem hann hefði komið að málinu á vettvangi deildar. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a)    Drög að ársreikningi Háskóla Íslands 2017.

Inn á fundinn komu Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri miðlægrar stjórnsýslu. Jenný Bára gerði grein fyrir drögum að ársreikningi Háskóla Íslands. Málið var rætt.

b)    Minnisblað um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019-2023.
Rektor gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir tímabilið 2019-2023. Málið var rætt og að umræðu lokinni var samþykkt einróma svohljóðandi bókun:

„Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að ná skuli OECD meðaltali fjárveitinga til háskóla árið 2020. Miðað við núverandi forsendur þyrfti framlag til háskólastigsins að aukast um 5 milljarða kr. hið minnsta til að ná þessu markmiði. Því er að óbreyttu ekki útlit fyrir að meðaltali OECD ríkjanna verði náð á tímabilinu sem fjármálaáætlunin nær til.

Háskólaráð Háskóla Íslands fagnar þeirri aukningu sem von er á fyrir árið 2019 og hvetur stjórnvöld um leið áfram á þeirri vegferð sem boðuð er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Fjárfesting í háskólastiginu er mikilvæg fjárfesting í innviðum landsins sem skilar sér margfalt til baka til samfélagsins.“

c)    Mannaflaáætlun. Umræða.
Inn á fundinn kom Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs og gerði grein fyrir drögum að líkani til að áætla mannaflaþörf fyrir Háskóla Íslands næstu árin. Málið var rætt og svaraði Daði Már spurningum fulltrúa í háskólaráði. Stefnt er að því að starfshópurinn ljúki störfum á næstunni og sendi minnisblað til ráðsins.

Guðmundur, Daði Már og Jenný Bára viku af fundi.

3.    Nefnd um störf háskólaráðs, sbr. 10. gr. starfsreglna ráðsins.
Rektor gerði grein fyrir málinu. Í 10. gr. starfsreglna háskólaráðs Háskóla Íslands segir að fyrir lok hvers starfsárs skuli ráðið taka saman greinargerð um störf sín á undangengnu starfsári og leggja mat á árangur og gera eftir atvikum tillögu til úrbóta. Háskólaráð skipar úr sínum röðum fjögurra manna nefnd sem annast matið og ritar greinargerðina. Í nefndinni er einn fulltrúi hvers hóps sem myndar háskólaráð, þ.e. einn fulltrúi háskólasamfélagsins, einn tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra, einn valinn af háskólaráði og einn fulltrúi stúdenta. Varaforseti háskólaráðs er formaður nefndarinnar og situr hann jafnframt fyrir þann hóp sem hann er fulltrúi fyrir í ráðinu. Rektor bar upp tillögu um að nefndin verði skipuð Eiríki Rögnvaldssyni, varaforseta háskólaráðs og fulltrúa háskólasamfélagsins, Ernu Hauksdóttur, fulltrúa mennta- og menningarmálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, fulltrúa völdum af háskólaráði og Þengli Björnssyni, fulltrúa stúdenta. Nefndin mun skila greinargerð sinni á fundi háskólaráðs í júní nk.
– Samþykkt einróma.

4.    Drög að jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2018-2020, sbr. fund ráðsins 1. mars sl.
Inn á fundinn komu Hanna Ragnarsdóttir, prófessor og formaður jafnréttisnefndar háskólaráðs og Sveinn Guðmundsson, starfandi jafnréttisfulltrúi Háskóla Íslands. Gerðu þau grein fyrir endurskoðuðum drögum að jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2018-2020 sem taka mið af ábendingum umsagnaraðila og Jafnréttisstofu, sbr. fund ráðsins 1. mars sl. Málið var rætt. Fram kom m.a. að jafnréttisnefnd mun fyrir lok september ár hvert leggja fyrir rektor kostnaðargreinda áætlun um viðfangsefni og vinnu nefndarinnar á árinu.
– Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2018-2020 samþykkt einróma.

Hanna og Sveinn viku af fundi.

5.    Innri endurskoðun. Eftirfylgni innri endurskoðanda:
a)    Nýráðningar akademískra starfsmanna.
b)    Skjalastjórn.
c)    Erlendir rannsóknarstyrkir.

Inn á fundinn kom Ingunn Ólafsdóttir, innri endurskoðandi Háskóla Íslands og gerði grein fyrir eftirfylgniskýrslu um þrjár endurskoðunarskýrslur, þ.e. um nýráðningar akademískra starfsmanna, skjalastjórn og erlenda rannsóknastyrki. Málið var rætt og svaraði Ingunn spurningum fulltrúa í háskólaráði.
– Vísað til eftirfylgninefndar.

6.    Tillaga Félags- og mannvísindadeildar um kjör heiðursdoktors.
Fyrir fundinum lá tillaga Félags- og mannvísindadeildar um kjör heiðursdoktors og umsögn heiðursdoktorsnefndar. Rektor gerði grein fyrir málinu.
– Tillaga Félags- og mannvísindadeildar um kjör heiðursdoktors samþykkt einróma. Stefán Hrafn Jónsson vék af fundi við afgreiðslu málsins.

7.    Bókfærð mál.
a)    Endurskoðaðar (nýjar) reglur um doktorsnám við Menntavísindasvið.

– Samþykkt.

b)    Rekstraráætlun v. MBA náms í Viðskiptafræðideild 2018-2019.
– Samþykkt.

c)    Breyting á nokkrum ákvæðum reglna Háskóla Íslands vegna breytingar á heiti Félags- og mannvísindadeildar í Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild.
– Samþykkt.

d)    Nýr fulltrúi háskólaráðs í stjórn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands.
– Samþykkt. Fulltrúi háskólaráðs í stjórn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands verður Eiríkur Jónsson, prófessor við Lagadeild. Skipunartími hans er frá 16. apríl 2018 til ársloka 2019.

8.    Mál til fróðleiks.
a)    Frá opnum fundi rektors með starfsfólki Háskóla Íslands 13. mars 2018.
b)    Þekking er gjaldmiðill framtíðar. Grein rektors í Fréttablaðinu 21. mars 2018.
c)    Tímarit Háskóla Íslands 2018.
d)    Fréttabréf Heilbrigðisvísindasviðs, apríl 2018.
e)    Dagskrá ársfundar Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands 11. apríl 2018.
f)    Dagskrá háskólaþings 13. apríl.
g)    Dagskrá árlegs akkerisfundar um innleiðingu HÍ21, Stefnu Háskóla Íslands 2016-2021, 16. maí 2018.
h)    Erindisbréf forseta fræðasviða Háskóla Íslands.
i)    Erindisbréf stjórnenda í sameiginlegri stjórnsýslu Háskóla Íslands.
j)    Samkomulag fræðasviða um fyrirkomulag þverfræðilegs náms í lýðheilsuvísindum. Drög í vinnslu.
k)    Yfirlýsing rektors Háskóla Íslands um lyktir könnunar á þætti prófessors í plastbarkamálinu, dags. 5. apríl 2018.
l)    Fréttabréf Menntavísindasviðs, apríl 2018.

Næsti fundur háskólaráðs er áætlaður fimmtudaginn 3. maí 2018 kl. 13.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.00.