Skip to main content

8. háskólafundur 1. nóvember 2002

8. háskólafundur haldinn 1. nóvember 2002 í Hátíðasal Háskóla Íslands á 2. hæð í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 09:00-15:30

Dagskrá

Kl. 09:00 - 09:10    Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir framkomnum tillögum.
Kl. 09:10 - 09:50    Dagskrárliður 1. Rektor gerir grein fyrir ýmsum sameiginlegum málefnum Háskólans sem tengjast vísinda- og menntastefnu hans.
Kl. 09:50 - 10:20    Dagskrárliður 2. Starfshópur um sameiginlega vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands ræðir framkvæmd stefnunnar.

Kl. 10:20 - 10:40    Kaffihlé. Kl. 10:40 - 12:20    Dagskrárliður 3. Hvers konar menntun skiptir mestu máli fyrir framtíðina? – Hvers konar menntun vill Háskóli Íslands veita nemendum sínum? Framsögur og umræður.
Kl. 12:20 - 14:00    Matarhlé.
Kl. 14:00 - 15:30    Dagskrárliður 4. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, stefna þess og tengsl við deildir og stofnanir Háskólans. Framsaga og umræður.
Kl. 15:30    Rektor slítur fundi.

Kl. 09:00 - Fundarsetning

Rektor setti áttunda háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Þá fór rektor yfir dagskrá og tímaáætlun fundarins sem og framlögð fundargögn. Engar tillögur til ályktunar bárust að þessu sinni. Fundarritarar voru, eins og áður, Magnús Diðrik Baldursson, aðstoðarmaður rektors, og Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri rannsóknasviðs.
 

Kl. 09:10 - Dagskrárliður 1: Rektor gerir grein fyrir ýmsum sameiginlegum málefnum Háskólans sem tengjast vísinda- og menntastefnu hans

1. Uppbygging Háskóla Íslands – Markmið og aðgerðir 2002-2005. Rektor reifaði nýútkominn bækling um markmið og aðgerðir til uppbyggingar Háskóla Íslands næstu þrjú árin. Í bæklingnum eru sett fram þrjú meginmarkmið Háskólans, í fyrsta lagi að gera hann að enn öflugri rannsóknaháskóla, í öðru lagi að auka fjölbreytni námsins og efla alþjóðleg samskipti og í þriðja lagi að bæta starfsskilyrði í háskólasamfélaginu. Síðan eru taldar upp fjölmargar aðgerðir til að ná fram þessum markmiðum og forsendur þeirra skýrðar. Þá er að finna í bæklingnum ýmsar tölfræðilegar upplýsingar um starfsemi Háskólans og svokölluð leiðarljós sem tekið er mið af í öllu starfi hans. Efni bæklingsins hefur verið kynnt rækilega innan Háskólans og utan, en þetta er í fyrsta sinn sem Háskóli Íslands setur fram slíka stefnumiðaða framtíðaráætlun með skýrum mælanlegum markmiðum og tímasetningum. Um þessar mundir er verið að vinna gátlista um framkvæmd áætlunarinnar, þar sem fram kemur nákvæmlega hver(jir) beri ábyrgð á hverju einstöku atriði, hvernig staðið verður að framkvæmdinni, hvernig hún verður fjármögnuð og hvenær henni verður lokið. Gátlistinn verður síðan til reglulegrar umfjöllunar með ábyrgðaraðilunum. Tilkynnti rektor að farið verði yfir stöðu málsins á næsta háskólafundi.

2. Samningar við ráðuneytið. Verið er að vinna að gerð nýs samnings við ríkisvaldið um fjármögnun kennslu við Háskóla Íslands, en núgildandi samningur rennur út um næstu áramót. Við endurskoðun samningsins skiptir tvennt mestu máli: Í fyrsta lagi endurskoðun hinnar svonefndu launastiku og í öðru lagi fjármögnun fámennra námsgreina, en kostnaður við þær er meiri en gert er ráð fyrir í reiknilíkaninu. Námsgreinarnar sem hér um ræðir eru einkum erlend tungumál (önnur en enska), almenn málvísindi, guðfræði og raungreinarnar eðlisfræði, efnafræði, jarðeðlisfræði, jarðfræði og matvælafræði. Þá greindi rektor frá því að þrátt fyrir ítrekaðar óskir Háskólans hefði fátt gerst af hálfu ráðuneytisins varðandi frágang samnings um fjármögnun rannsókna.

3. Staða ýmissa mála sem voru á dagskrá 7. háskólafundar 23. maí sl.
a.    Starfshættir dómnefnda. Í máli rektors kom m.a. fram að í raun sé um tvö skyld mál að ræða, þ.e. annars vegar tillögu sem Páll Sigurðsson prófessor og þáverandi deildarforseti lagadeildar flutti á 7. háskólafundi og hins vegar fyrirhugaða endurskoðun ákvæða um dómnefndir og ráðningaferli akademískra starfsmanna í lögum og reglum fyrir Háskóla Íslands. Fyrra málið snýst um samræmingu á reglum um nýráðningar og reglum um framgang og hefur það þegar verið afgreitt í háskólaráði. Um síðara málið verður á næstunni skipuð sérstök nefnd.
b.    Skipun nefndar um akademískar nafnbætur. Á síðustu mánuðum hefur nokkuð verið fjallað um veitingu akademískra nafnbóta við Háskóla Íslands, einkum í tengslum við nýlegan samning milli Háskólans og Landspítala-háskólasjúkrahúss. Skipuð var nefnd til að gera tillögur um málið og skilaði hún fyrr í haust áliti til háskólaráðs.
c.    Nefnd um endurmenntun á vegum Háskóla Íslands. Í kjölfar tillögu Kristínar Jónsdóttur, forstöðumanns Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands, á 7. háskólafundi verður á næstunni skipuð nefnd til að fara yfir starfsemi Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands annars vegar og endurmenntun á vegum deilda Háskólans hins vegar.

4. Dómur hæstaréttar um launagreiðslur til prófessora vegna MBA-náms. Rektor reifaði nýlegan dóm hæstaréttar í máli sem nokkrir prófessorar viðskipta- og hagfræðideildar höfðuðu gegn kjaranefnd vegna launagreiðslna fyrir kennslu í MBA-námi deildarinnar. Verið er að fara yfir dóminn, m.a. með það í huga hvaða afleiðingar hann getur haft á öðrum sviðum innan Háskólans.

5. Skipun nefndar um markaðs- og kynningarmál Háskólans. Rektor greindi frá því að þessa dagana er verið að ljúka við skipun nefndar um markaðs- og kynningarmál Háskólans, m.a. í kjölfar álits starfshóps undir forystu Ólafs Þ. Harðarsonar frá sl. vori. Málið hefur tafist nokkuð, m.a. vegna brotthvarfs framkvæmdastjóra þróunar- og kynningarsviðs til annarra starfa og endurskipulagningar innan sviðsins. Í þessu sambandi gat rektor þess einnig að fyrirhugað er að taka málefni Hollvinasamtaka Háskóla Íslands til endurskoðunar.

6. Háskólasetur á landsbyggðinni. Háskólasetrið á Höfn í Hornafirði flutti starfsemi sína í nýtt húsnæði í september sl. Þrjú ný háskólasetur eru í undirbúningi, á Húsavík, Egilsstöðum og Ísafirði og hefur fulltrúum í háskólaráði verið falið að móta sameiginlega áætlun um málefni háskólasetranna. Óskaði rektor eftir því við fundarmenn að þeir kæmu á framfæri við sig tillögum og ábendingum um samstarfsverkefni með aðilum á landsbyggðinni.

7. Gæðakerfi Háskólans. Gæðakerfi Háskólans var samþykkt í háskólaráði fyrir skömmu og hefur verið kynnt rækilega innan Háskólans. Samkvæmt gæðakerfinu er rektor gæðastjóri Háskólans og deildarforsetar gæðastjórar deilda. Á næstunni verður skipaður ráðgjafahópur rektors í gæðamálum, en í reynd gegna deildarforsetafundir hlutverki gæðanefndar Háskólans. Þessir aðilar munu á næstunni útfæra nánar framkvæmd gæðakerfisins.

8. Fundagerðir háskólaráðs og háskólafundar með nýju sniði á netinu. Rektor sagði frá því að frá og með seinasta háskólaráðsfundi eru fundargerðir ráðsins birtar á netinu með þeim hætti að öll málsgögn eru aðgengileg með því að smella á viðeigandi blálituð orð í texta fundargerðarinnar

(sjá http://www.hi.is/stjorn/rektor/hrad/fundarg/index.html).

Sama verður gert við fundargerðir háskólafundar héðan í frá

(sjá http://www.hi.is/stjorn/rektor/haskolafundur/).

9. Húsnæðismál. Rektor reifaði framlagt minnisblað sitt um væntanlegar breytingar á nýtingu húsnæðis Háskóla Íslands. Eitt af markmiðunum með breytingunum er að öll starfsemi Háskólans verði komin á háskólalóðina í fyrirsjáanlegri framtíð. Stærsta húsnæðismál Háskólans er þó lúkning Náttúrufræðahússins í Vatnsmýrinni. Undanfarið hefur komið fram í fréttum að blikur séu á lofti um það hvort lánsfjárheimild fáist fyrir lúkningu hússins skv. áætlun. Nýjustu fréttir benda hins vegar til þess að Háskólanum verði heimilað að taka 1án til að ljúka byggingu og innréttingu hússins eins og fyrirhugað er á síðari hluta ársins 2003. Þá er nýlokið við að gera viðskiptaáætlun vegna Vísindagarða og vinna við þarfagreiningu vegna Háskólatorgs stendur yfir.

10. Tillögur nefndar um breytingar á lögum um háskóla frá nefnd skipaðri af háskólaráði, ásamt bréfi til ráðherra. Rektor reifaði tillögur nefndarinnar og gat þess m.a. í þessu sambandi að í menntamálaráðuneytinu er nú hafin vinna við að afla gagna um umfang rannsókna við háskóla á Íslandi.

11. Athugasemdir umboðsmanns Alþingis við stjórnsýslu í Háskóla Íslands. Rektor greindi frá nýkomnu áliti umboðsmanns Alþingis vegna ráðningar lektors í félagsvísindadeild. Í máli rektors kom m.a. fram að athugasemdir umboðsmanns séu hvorki þungvægar né varði þær stjórnsýslu Háskólans almennt. Þvert á móti hefði nú þegar mikil vinna verið lögð í að bæta stjórnsýslu Háskólans og muni gæðakerfið bæta þar enn um betur. Athugasemdirnar varði einkum þrjú atriði, í fyrsta lagi að í reglur fyrir Háskóla Íslands skorti ákvæði um það hver eigi að skera úr um hæfi starfsmanna til þess að taka þátt í ákvörðunum er lúta að ráðningarmálum, í öðru lagi að rökstyðja þurfi betur tillögu deildarforseta til rektors um val á umsækjanda og í þriðja lagi að Háskólinn hafi dregið að svara erindi umboðsmanns.

Ólafur Þ. Harðarson, forseti félagsvísindadeildar, tók til máls undir þessum lið og undirstrikaði að ávirðingar umboðsmanns sem snúa að deildinni væru bæði ómaklegar og ekki á rökum reistar. Ekki væri við deildina að sakast vegna skorts á reglum um hver skuli skera úr um hæfi starfsmanna til að taka þátt í ákvörðunum er lúta að ráðningarmálum. Þá væru gildar ástæður fyrir þeim töfum sem urðu á afgreiðslu málsins. Loks væri hæpið að fara fram á sérstakan rökstuðning við niðurstöðu atkvæðagreiðslu deildarfundar. Umboðsmaður segði í áliti sínu að deildarforseti hefði átt að draga saman helstu röksemdir sem fram komu í umræðum á deildarfundi, en í þessu tilviki hefði verið nóg að leggja fram álit mannfræðiskorar og staðfesta að deildarfundur hafi fallist á þær röksemdir sem þar komu fram. Að endingu tók Ólafur undir þau orð rektors að málið væri ekki stórvægilegt, s.s. sjá má á því að umboðsmaður hefði aðeins tekið til greina örfáa of 38 kæruliðum í kæruskjalinu, sem flestir hefðu verið þungvægari en þeir sem umboðsmaður tók til greina.

12. Málþing rektors um menntun í íslensku skólakerfi á vormisseri. Rektor skýrði frá því að í undirbúningi sé að efna vorið 2003 til málþings um menntun í íslensku skólakerfi, m.a. í samstarfi við skólameistarafélag framhaldsskóla. Málinu verði fylgt eftir á næsta fundi stjórnenda Háskólans með félaginu sem fyrirhugaður er 11. nóvember nk.

13. Ráðstefna um samstarf og samkeppni í íslensku skólastarfi. Verið er að undirbúa ráðstefnu um samstarf og samkeppni í íslensku skólastarfi þar sem innlendir og erlendir sérfræðingar munu hafa framsögu. Óskaði rektor eftir því við fundarmenn að þeir beindu tillögum og ábendingum um dagskrárefni til sín eða Ingjalds Hannibalssonar.

14. Vísindadagar 1.-11. nóvember nk. Rektor benti fundarmönnum á fyrirliggjandi dagskrá Vísindadaganna og hvatti þá til að koma á opnun þeirra í Listasafni Reykjavíkur í Hafnarhúsinu að loknum háskólafundi kl. 16.30.
15. Heimsókn rektors í deildir til að ræða rannsóknastefnu. Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri rannsóknasviðs, mun skipuleggja heimsóknirnar þar sem sérstaklega verður rætt um tengsl rannsókna og náms í deildum Háskólans.
Að lokum minnti rektor á að við brautskráningu kandídata í Háskólabíói 26. október sl. hefði þremur starfsmönnum Háskóla Íslands verið veitt viðurkenning fyrir lofsverðan árangur í starfi: Viðari Guðmundssyni fyrir framlag til rannsókna, Stefáni Svavarssyni fyrir framlag til kennslu og Brynhildi Brynjólfsdóttur fyrir framlag til annarra starfa í þágu Háskólans. Var verðlaunahöfunum klappað lof í lófa.

Kl. 10:00 - Dagskrárliður 2: Starfshópur um sameiginlega vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands ræðir framkvæmd stefnunnar

Jón Atli Benediktsson, formaður vísindanefndar háskólaráðs, flutti greinargerð starfshópsins í fjarveru Ágústu Guðmundsdóttur, formanns hans. Í upphafi máls síns minnti Jón Atli á þá hlutverkaskiptingu milli háskólafundar og háskólaráðs, sem kveðið er á um í lögum um Háskóla Íslands nr. 41/1999, að háskólafundur móti almenna stefnu Háskólans en háskólaráð vinni að því að hrinda stefnunni í framkvæmd. Á þeim þremur árum sem liðin eru frá því lögin tóku gildi hafi háskólafundur unnið markvisst að stefnumótun á öllum sviðum starfsemi sinnar. Almennt mætti skipta stefnumótunarstarfinu í fjóra áfanga:

1. Fyrsti áfanginn var mótun sameiginlegrar vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands. Stefnumótunarstarfið hófst með 1. háskólafundi í nóvember 1999 og stóð yfir til ársins 2001. Vísinda- og menntastefna Háskólans var síðan samþykkt á 5. háskólafundi 6. apríl sama ár.

2. Í kjölfarið ákvað háskólafundur að útfæra hina sameiginlegu vísinda- og menntastefnu á vettvangi með því að hver deild og hver stofnun sem á fulltrúa á háskólafundi gerði sína eigin þróunaráætlun til næstu fimm ára með hliðsjón af vísinda- og menntastefnunni og sérstöku hlutverki deildanna á sviði kennslu, rannsókna, fræðslu og þjónustu. Hófst vinnan við þróunaráætlanirnar haustið 2000 og ári síðar lágu þær fyrir og voru kynntar og ræddar ítarlega á 6. háskólafundi í nóvember 2001. Að því búnu var þróunaráætlununum vísað aftur til deilda og stofnana og þeim falið að vinna eftir þeim með hliðsjón af umsögnum og umræðum á háskólafundinum. Jafnframt var þróunaráætlununum vísað til háskólaráðs til að það hefði þær til hliðsjónar við mótun almennrar framkvæmdaáætlunar Háskólans.

3. Á sama háskólafundi var hrundið af stað þriðja áfanga í stefnumótunarstarfi Háskólans sem er heildarstarfsáætlun hans til næstu ára. Stóð undirbúningsvinna fyrir áætlunina yfir mestallt árið 2002 og komu fjölmargir aðilar innan Háskólans að því starfi, s.s. háskólaráð, deildarforsetar og aðrir stjórnendur Háskólans. Áætlunin var kynnt rækilega bæði innan Háskólans og utan og hún loks birt í bæklingnum „Uppbygging Háskóla Íslands – markmið og aðgerðir 2002-2005“, sem út kom í september sl. og hefur verið dreift víða. Í áætluninni eru sett fram fjölmörg skýr markmið og í flestum tilvikum eru þau mælanleg til að tryggja framkvæmd hennar.

4. Loks hefur háskólafundur mótað stefnu Háskólans í ýmsum einstökum málaflokkum, s.s. starfsmannastefnu Háskóla Íslands (samþykkt á háskólafundi í maí 2000), umhverfisstefnu Háskóla Íslands (samþykkt á háskólafundi í febrúar 2001) og stefnu Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum (samþykkt á háskólafundi í febrúar 2001), jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2000-2004 og stefna Háskóla Íslands í málefnum fatlaðra (samþykkt á háskólafundi í maí 2002).

Á heildina litið mætti segja að þungamiðja alls stefnumótunarstarfs háskólafundar hafi verið hin sameiginlega vísinda- og menntastefna Háskólans og að rauði þráðurinn í gegnum alla fjóra áfanga starfsins hafi verið efling Háskóla Íslands sem alþjóðlegs rannsóknaháskóla.

Á 5. háskólafundi í apríl 2001 var skipaður starfshópur um vísinda- og menntastefnu Háskólans. Verkefni hópsins er þríþætt: Í fyrsta lagi að fylgjast með framkvæmd vísinda- og menntastefnunnar og að tryggja að hún sé sífellt yfirveguð og skoðuð í ljósi þess hvernig til tekst með framkvæmd, í öðru lagi að vera tengiliður milli háskólafundar og háskólaráðs og brúa þannig bilið milli stefnu og framkvæmdar og í þriðja lagi að gera háskólafundi reglulega grein fyrir starfi sínu og framkvæmd vísinda- og menntastefnunnar. Starfshópurinn er skipaður þremur fulltrúum á háskólafundi, þar af einum úr röðum stúdenta, og formönnum vísindanefndar, kennslumálanefndar og fjármálanefndar háskólaráðs. Með hópnum starfa þrír fulltrúar úr undirbúningshópi rektors fyrir háskólafund skv. tilnefningu rektors. Starfshópinn skipa: Ágústa Guðmundsdóttir prófessor, formaður, Sigrún Klara Hannesdóttir landsbókavörður (kom í stað Erlu Kolbrúnar Svavarsdóttur dósents sem ekki á lengur sæti á háskólafundi), Guðrún Ögmundsdóttir, fulltrúi stúdenta, Ingjaldur Hannibalsson prófessor, formaður fjármálanefndar, Hjalti Hugason prófessor, formaður kennslumálanefndar, Jón Atli Benediktsson, formaður vísindanefndar, Þórður Kristinsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslusviðs, Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri rannsóknasviðs, og Magnús Diðrik Baldursson, aðstoðarmaður rektors.

Þá greindi Jón Atli frá því að starfshópurinn hafi haldið nokkra fundi og m.a. lagt fram tillögu um áframhald vinnu við vísinda- og menntastefnu Háskólans á háskólafundi í nóvember 2001. Tillagan var tvíþætt: Í fyrsta lagi að tillögur um breytingar á vísinda- og menntastefnu Háskólans yrðu ekki til umræðu fyrr en haustið 2002. Nánar tiltekið verði á tveggja ára fresti auglýst eftir breytingartillögum eða athugasemdum við vísinda- og menntastefnuna frá deildum og stofnunum sem eiga fulltrúa á háskólafundi. Í öðru lagi að lögð yrði áhersla á kynningu vísinda- og menntastefnunnar eins og hún liggur fyrir.

Um síðari lið tillögunnar er það að segja að hann hefur að öllu leyti gengið eftir. Vísinda- og menntastefnan hefur verið prentuð í tveimur upplögum, sett á netið, þýdd á ensku og henni dreift víða innanlands og utan. Einnig hefur rektor heimsótt deildir Háskólans til að kynna og ræða stefnuna. Vísinda- og menntastefna Háskóla Íslands hefur á aðeins hálfu öðru ári öðlast fastan sess við hlið laga um Háskóla Íslands nr. 41/1999 og reglna fyrir Háskóla Íslands sem undirstöðurit og formlegur rammi utan um alla starfsemi Háskólans.

Loks flutti Jón Atli tillögu starfshópsins um áframhald stefnumótunarvinnunnar:

Í framhaldi af fyrri lið tillögu starfshópsins um breytingar á vísinda- og menntastefnunni frá nóvember 2001 og til að fylgja eftir þróunaráætlunum deilda og stofnana leggur starfshópurinn nú fyrir háskólafund eftirfarandi tillögu um málsmeðferð:

1. Með fundarboði fyrir 9. háskólafund vorið 2003 verði auglýst eftir athugasemdum við vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands sem komi til umræðu á fundinum vorið 2003.

2. Á sama fundi gefi hver deild og stofnun sem á fulltrúa á háskólafundi stutt yfirlit yfir framkvæmd og endurskoðun þróunaráætlunar sinnar.

Að lokinni framsögu Jóns Atla gaf rektor orðið laust.

Enginn tók til máls undir þessum lið.

Rektor bar tillöguna undir atkvæði.
Samþykkt einróma.

Kl. 10:10 - 10:40 - Kaffihlé.

Kl. 10:40 - 12:20 - Dagskrárliður 3: Hvers konar menntun skiptir mestu máli fyrir framtíðina? – Hvers konar menntun vill Háskóli Íslands veita nemendum sínum?

Í upphafi þessa dagskrárliðar skýrði rektor frá ástæðunni fyrir því að spurningin um menntastefnu Háskólans væri á dagskrá háskólafundar. Vísaði rektor í þessu sambandi m.a. til þeirra orða sem hann viðhafði í ræðu sinni á háskólahátíð 26. október sl. og bar yfirskriftina „Hnattvæðingin og Háskóli Íslands“, en þar segir: „Hnattvæðing sem ekki eykur vitund okkar hvers um sig um samábyrgð okkar allra sker á rætur menningarinnar og sundrar mannlegu samfélagi“. Einn hættulegasti fylgifiskur þeirrar hnattvæðingar sem nú riði yfir jörðina væri vaxandi einstaklingshyggja sem ógnaði allri mannlegri samstöðu. Því væri það eitt brýnasta verkefni samtímans að vekja fólk til vitundar og ábyrgðar um gildi sögu, tungu og menningar sem þeirra frumafla er halda mannlegu samfélagi saman. Þetta ætti ekki síst við um smáþjóðir á borð við Ísland. Háskóli Íslands bæri mesta ábyrgð íslenskra stofnana á menntun þjóðarinnar og því væri í senn eðlilegt og brýnt að hann ræddi þessi mál og kynnti fyrir þjóðinni.

Þegar hugað væri nánar að menntahlutverki Háskóla Íslands mætti segja að styrkur hans væri m.a. fólginn í því að tvinna saman þrenns konar menntamarkmið: Í fyrsta lagi að veita nemendum trausta fræðilega menntun svo að þeir geti orðið skapandi einstaklingar, hver á sínu fræðasviði. Þetta markmið væri í raun alls staðar að verki í Háskólanum. Í öðru lagi væri það menntamarkmið Háskólans að nemendur hans fengju góða starfsmenntun til að verða hæfir starfsmenn er sinna hinum fjölbreyttustu störfum í samfélaginu. Loks tengdist þriðja menntahlutverk Háskólans því að miðla og gera nemendum kleift að rækta með sér siðferðilega þekkingu og gildi í öllu námi sínu. Í þessu sambandi megi margt læra af uppeldishugsjón breskra háskóla sem hafa alla tíð haft það að markmiði að ala upp fólk til ábyrgrar þátttöku í samfélaginu. Háskóla Íslands hafi ætíð tengt saman þessi þrjú menntamarkmið – fræðilega menntun, starfsmenntun og siðferðilega menntun –, þótt sífellt þurfi að leita leiða til að gera það enn betur.

Að þessum inngangsorðum slepptum gaf rektor Guðrúnu Geirsdóttur dósent, fyrri frummælanda undir þessum dagskrárlið, orðið. Í upphafi vakti Guðrún athygli á spurningablaði sem hún bað fundarmenn að fylla út. Á blaðinu eru bornar fram nokkrar spurningar varðandi kennslu í Háskólanum og er greint á milli tveggja sjónarhorna, þ.e. hvað leggja eigi áherslu á í háskólastarfinu og hvað lögð sé áhersla á í raun.

Hóf Guðrún framsögu sína með því að varpa fram þeirri spurningu, hvers vegna starfsmenn/stjórnendur Háskólans ættu að velta fyrir sér spurningunni um menntahugsjón skólans. Rifjaði Guðrún upp í þessu sambandi að þegar hún hóf störf sem kennari við Háskóla Íslands hafi það komið sér í opna skjöldu að enginn samstarfsmaður hennar hafi verið reiðubúinn að ræða framangreinda spurningu, sem varð til þess að hún ákvað að helga sig henni í doktorsritgerð sinni.

Síðan fjallaði Guðrún um námskrá háskóla og útlistaði m.a. þá tilgátu sína að í fæstum tilvikum væru kennararnir á eitt sáttir um hana heldur endurspeglaði námskráin í reynd innri átök háskólanna um markmið háskólakennslu, aðgengi að háskólanámi, inntaki námsins, kennsluaðferðum og mati á gæðum kennslu, svo nokkuð væri nefnt.

Næst varpaði Guðrún fram þeirri spurningu, hverjir tækju ákvarðanir um námskrá? Hér væri um flókið ákvarðanatökuferli að ræða sem fjölmargir aðilar kæmu að. Þannig legðu háskólayfirvöld fram sýn um markmið háskólamenntunar, sem kæmi fram í ráðstöfun fjármagns, lögum, reglum og samþykktum. Síðan væri það hlutverk deilda og námsbrauta að endurskoða og yfirvega heilar námsleiðir og einstök námskeið. Loks væri það í höndum hvers kennara að skipuleggja námskeið sín sem jafnframt eru grunneiningar alls starfsins.

Í framhaldi af þessu reifaði Guðrún spurninguna, hvað hefði áhrif á ákvarðanatöku framangreindra aðila? Svaraði hún því til að við þessu væri ekki til einhlítt svar, heldur væri það breytilegt eftir sviðum og þrepum í skipulagi stofnunarinnar. Þó mætti greina ákvarðanir í sundur eftir því hvort þær vörðuðu stefnu og skipulag, viðtekin gildi eða viðhorf. Í raun spiluðu þessar tegundir ákvarðana þó allar saman þegar tekist væri á um námskrá.

Þá skýrði Guðrún frá tveimur skýringarlíkönum. Annars vegar er um að ræða starfskenningu Handal og Lauvas frá 1993, sem sett er fram sem þrískipt píramídalíkan, þar sem athafnir mynda neðsta lagið, sem fræðileg og starfstengd rök hvíla á og á toppnum tróna siðferðileg rök. Hitt líkanið er kennt við Walker og er einnig lagskipt, en þar myndar grunnur neðsta lagið, ofan á honum hvílir ígrundun og útfærsla og efsta lagið er kennt við hönnun.

Loks fór Guðrún nokkrum orðum um það sem kallað hefur verið „hin dulda námskrá“ (hidden curriculum) háskóla og kemur t.d. fram í því að byggingar og skipulag háskóla eru holdgervingar þeirra viðhorfa sem ríkja innan stofnunarinnar til námskrár og menntunar.

Að endingu varpaði Guðrún fram til umhugsunar þremur ábendingum um það, hvers beri að gæta varðandi námskrá og menntun: Í fyrsta lagi séu hugmyndir, viðhorf og gildi til námskrár/menntunar oft dulin, í öðru lagi væri námskráin sífelldum breytingum undirorpin og því væri yfirvegun forsenda þess að hún gæti þróast eðlilega og í þriðja lagi myndu starfshættir ekki breytast nema kenningin að baki þeim væri íhuguð.

Síðari framsöguna undir þessum dagskrárlið flutti Jón Torfi Jónasson prófessor og bar erindi hans yfirskriftina „Um markmið háskólamenntunar í nútíð og framtíð“. Byrjaði Jón Torfi á því að lýsa afstöðu sinni til málsins, þ.e. sem kennara og fræðimanni. Að því búnu drap hann stuttlega á nokkur einstök atriði, s.s. hvernig umræðunni um kennslu hætti til að takmarkast við einingar og peninga, um mikilvægt verkstjórnarhlutverk kennarans, um hlutverk nemandans sem þátttakanda í háskólasamfélaginu, um ofuráherslu kennarans á glærur og aðra tækni, um dreifingu einkunna og hverjum háar og lágar einkunnir væru að þakka og loks um góða kennara og góða nemendur. Í útlistun sinni á síðasttalda atriðinu sló Jón Torfi fram þeirri ögrandi tilgátu að sumir nemendur læri hvernig sem þeim er kennt, sem geti leitt til þess að kennarar sem kenni iðulega mjög góðum nemendum freistist til þess að draga þá ályktun að sú kennsluaðferð sem þeir noti væri einmitt sú besta.

Meginhluti framsögu Jóns Torfa skiptist í fjóra hluta:

1. Um samband orð og æðis. Hóf Jón Torfi máls á því að benda á hversu oft sé langt á milli orðs og æðis, m.a. á milli umræðu og framkvæmd háskólamenntunar. Misræmi sé á milli þess að vita og þess að kunna eitthvað, á milli þess hvernig við ræðum um hlutina og þess sem við gerum. Þetta tengist viðfangsefni fundarins á fleiri en einn veg því þetta snerti annars vegar þá spurningu, hvernig við skipulegðum nám. Það væri eitt fyrir nemendur að kunna fræðikenningar, hugtök og heiti, en annað að beita þessum efniviði í starfi. Þarna væri langur vegur á milli, hjá flestum lengri en almennt væri álitið. Þetta snerti einnig umræðu okkar sjálfra um störf okkar og starfshætti. Til þess að gera langa sögu stutta þá væri oft lítið að marka hvað við segðumst vera að gera – til þess að finna það út yrði að athuga hvað við gerðum í raun. Það væri vel þekkt að hægt væri að gjörbreyta viðhorfum og umræðu fólks um eðli og einkenni starfs síns án þess að nokkuð breytist raunverulega í starfsháttum. Þetta væri orðið talsvert áhyggjuefni í mörgum fyrirtækjum þar sem virtist við fyrstu sýn að umfangsmikið símenntunarstarf hefði breytt miklu án þess að það hefði gerst í raun. Af þessum sökum yrði að hafa nokkurn fyrirvara á því þegar starfsfólk, m.a. kennarar, lýsti markmiðum og eðli starfa sinna.

2. Um afrakstur menntunar í framtíðinni. Þegar lesnar væru nýlegar skýrslur um þá færni sem atvinnulíf gerði kröfu um á 21. öldinni blasti við að ætlast væri til þess að starfsmenn framtíðarinnar sýndu frumkvæði, sveigjanleika, samskiptafærni, samvinnufærni, félagslega næmni, gagnrýna hugsun, færni til þess að meta upplýsingar, skipulagsfærni, færni til að stjórna, vandvirkni, skilvirka tjáningu, færni til þess að færa rök fyrir máli sínu, færni til þess að takast á við ný viðfangsefni, færni til þess að læra, færni til þess að semja um verk, færni til þess að taka ákvarðanir, færni til að taka á siðfræðilegum vandamálum, svo nokkur helstu dæmin væru nefnd. Þetta væri kallað hin „nýja færni“ og hvað sem um hana mætti segja að öðru leyti þá væri ljóst að skólakerfi hefðu leitt hana hjá sér að mestu leyti hingað til, þrátt fyrir mjög áhugaverðar en oft máttlausar tilraunir til þess að sinna henni. Í þessu sambandi mætti minnast á áhugaverða deilu um það hvort hægt væri að gera nokkuð af þessu án þess að hafa haldgóða þekkingu á efniviðnum sem allt ætti að snúast um. Sjálfur teldi Jón Torfi sig í hópi þeirra sem álitu að öll þessi færni væri býsna efnisbundin. Þess vegna yrði að kenna inntakið, fagið og ástæðulaust að gera lítið úr því. Á hinn bóginn væri ábyggilega jafn fráleitt að leiða þessa þætti alla hjá sér og vona að þeir komi svona meðfram, af sjálfu sér án þess að gengið væri yfirvegað til verks og stefnt að allri þeirri færni sem mestu máli skipti. Því væri brýnt að fólk settist niður og færi yfir öll þau markmið sem ætti að sinna, skoðaði hverjum þeirra væri þegar sinnt, hverjum væri lítið sinnt og hverjum ekki og skipulegði starf sitt, í stóru og smáu (þ.e. fyrir heilar greinar og einstök námskeið), þannig að ljóst væri að öllum mikilvægum markmiðum sem máli skipta væri raunverulega sinnt.

3. Um nýbreytni eða þróunarstarf. Mikið hefur verið skrifað um þróunarstarf síðustu tvo áratugina eða svo og talsvert er vitað um hvað sé líklegt til að skila árangri og hvað ekki og hvernig eigi að ganga til verks þannig að hlutirnir gangi upp. Hér skyldu þó aðeins nefnd þrjú atriði í þessu sambandi: Í fyrsta lagi gangi þróunarstarf ekki nema að það væri vel undirbúið og ljóst að hverju væri stefnt. Þess vegna yrði að ganga nokkuð langt í því að tilgreina ekki aðeins inntaks-, heldur einnig færnimarkmið og auk þess að tilgreina það verklag sem ætti að nota til þess að ná breytingunum fram. Í öðru lagi lærði maður mest af því að gera hlutina. Ef ætti að kenna einhverjum að taka upp nýtt verklag þá yrði hann að fá að læra þetta verklag, fá að ná tökum á því. Það dygði engan veginn að hlusta á umræðu um það. En ef slík þróun nýrra starfshátta ætti sér ekki stað yrðu mjög litlar og yfirborðslegar breytingar. Í þriðja lagi bæri þróunarstarf ekki árangur nema markvisst væri að því staðið, fólk prófaði sig áfram og lærði af reynslunni, dembdi sér ekki út í breytingar sem væru vanhugsaðar og gengju af sjálfum sér dauðum.

4. Um fagmennsku og háskólastarf. Mikið væri vitað um þróun fagmennsku, hvernig fagmaður yrði til. Rannsóknir á þessu sviði hefðu verið gerðar á skákmönnum og tónlistarmönnum, en einnig á forriturum, eðlisfræðingum, leikurum og fleiri stéttum. Um þetta hefði margt verið ritað og rætt, en hér yrðu þó aðeins dregin fram þrjú atriði.

Í fyrsta lagi ynnu fagmenn í umhverfi þar sem þeir fengju miklar og sífelldar upplýsingar um frammistöðu sína. Tónlistarmaðurinn heyrði sjálfan sig spila og vegna þess að hann þekkti hvernig hægt væri að leika lagið vel, vissi hann talsvert um það hvernig hann stæði sig. Hann væri hjá kennara fram eftir öllum aldri sem gæfi honum mikilvægar ábendingar. Hann héldi síðan tónleika þar sem hann fengi oft ítarlega gagnrýni. Segja mætti að fræðimaðurinn fengi sambærilega gagnrýni. Hann fengi endurgjöf á verk sín sem vísindamaður, tæki þátt í ráðstefnum þar sem hann gæti borið hugmyndir sínar saman við hugmyndir annarra og hann sendi verk sín til ritdæmingar hjá kollegum sínum. En kennarinn fengi nær enga sambærilega gagnrýni. Greindi Jón Torfi frá því að þótt hann hefði sjálfur stundum fengið prýðilegar einkunnir hjá nemendum í kennslukönnunum. En í þeim fælist afar lítil leiðbeinandi gagnrýni. Þetta sætti hann sig ekki við og hefði nú beðið um að úttekt yrði gerð á kennslu hans með það fyrir augum að fá alvöru leiðsögn um það sem betur mætti fara.

Í öðru lagi væri mikilvægt að hafa hugfast að það tæki tíma að verða fagmaður. Oft væri talað um 10 ára tímabilið eða 4-5000 tíma múrinn. Hins vegar er fjarstæða að ætla að fagmennska þróist af sjálfu sér t.d. við það eitt að kenna mikið og lengi, þ.e. án leiðsagnar.

Í þriðja lagi krefðist fagmennska ásetnings. Fólk næði ekki tökum á flóknum verkum nema til kæmi skýr ásetningur. Þess vegna þyrfti að gera það að sérstöku umræðuefni hver ásetningurinn væri hjá starfsfólki Háskólans, t.d. í kennslu, hvað snerti þær umbætur sem hlyti að verða að gera smám saman eðli málsins samkvæmt. Ef ekki er ásetningur fyrir hendi um betri kennslu, eða að Háskólinn sinni betur menntunarhlutverki sínu, þá verða engar umbætur.

Í lokin dró Jón Torfi erindi sitt saman með þessum orðum: Hann hefði rætt um fagmennsku og við vissum hvað þyrfti til að rækta fagmennsku hjá okkur og nemendum okkar. Hann hefði rætt um nýbreytni eða þróunarstarf og við vissum hvernig ætti að halda á því svo það gengi upp. Hann hefði rætt um fjölmörg markmið sem skiptu máli en hefðu þó verið utangarðs í skipulagi háskólastarfs. Við vissum einnig talsvert um hvernig megi ná þeim fram. En hann hefði líka rætt um það hve langt væri á milli orðs og æðis. Þótt við vissum allt þetta væri langur og grýttur vegur til útfærslu þessarar vitneskju og til framkvæmda. Þetta vissum við, en úrslitaspurningin væri sú, hvort og hvernig við myndum færa okkur þá vitneskju í nyt.

Að loknum framsögum gaf rektor orðið laust.

Málið var rætt ítarlega og voru fundarmenn á einu máli um ágæti framsöguerindanna. Í umræðunni var m.a. bent á að til viðbótar við þær spurningar sem framsögumenn báru fram mætti bæta við þeirri spurningu, hvernig menntun nemendur vilja fá, þ.e. að hvaða leyti Háskólinn skuli taka tillit til óska nemenda sinna. Mikill munur væri á nemendum og nemendahópum í þessu efni. Þannig vildu t.d. sumir nemendur ekki endilega læra meira, heldur einkum fá góð gögn og glærur. Annar hópur nemenda legði áherslu á að kennarinn raski ekki einkalífi þeirra o.s.frv. Ósk nemenda væri oft sú að kennarinn ætti að vera skemmtikraftur sem virkji nemendurna. Á móti bentu stúdentar á að brögð væru að því að kennarar reyndu að gera sér lífið létt, t.d. með því að leggja lítið upp úr ritgerðavinnu nemenda sem útheimtir mikla vinnu. Vitnaði einn fundarmanna í þessu sambandi til orða breska heimspekingsins og menntafrömuðarins Bertrands Russel: „A university lecture is a complete waste of time!“

Þá var rætt um hina „nýju færni“ sem Jón Torfi hafði gert að umtalsefni og kennd er í fjölda námskeiða hjá Endurmenntun. Spurt var, hvort slík færnikennsla flokkaðist undir nám á háskólastigi eða hvort greina þyrfti skýrar á milli fræðilegs náms og miðlunar færni. Einnig kom fram það sjónarmið að í sumum greinum væri nauðsynlegt að tvinna saman þetta tvennt. Til dæmis hefði kennsla í lögfræði löngum miðast við staðreyndakennslu fremur en þjálfun í færni. Verkleg færni væri hins vegar ómissandi í störfum dómara og lögmanna, en hún gerði kröfu um allt aðrar kennsluaðferðir. Hér þyrftu deildir að nýta sér í ríkara mæli þekkingu kennslufræðinnar.

Rætt var um hlutverk kennarans og hvort líta beri á hann sem verkstjóra, leiðbeinanda eða eitthvað annað. Nefnt var í þessu sambandi, að e.t.v. væri list kennarans fólgin í því að fá nemendur til að vera virkir án þess að þeir finndu til þess að þeim væri stýrt.  Einnig var fjallað um hlutverk kennslutækni og -tækja, s.s. PowerPoint, glæra, heimasíðna o.fl.

Einnig var komið inn á hlutverk kennslukannana og vöntun á eftirfylgni vegna þeirra. Bent var á hlutverk nýja gæðakerfisins og nauðsyn þess að taka gæðamálin alvarlega í því skyni að bæta allt háskólastarfið. Mikilvægt væri að breyta hugarfari starfsmanna í þessa átt.

Bent var á að lítið stoðaði að setja sér háleit markmið varðandi gæðamál Háskólans meðan aðstaðan til kennslu væri jafn erfið og raun ber vitni. Til að geta bætt gæði kennslunnar þurfi minni nemendahópa og meiri þjónustu við nemendur. Þetta kalli aftur á algjöra endurskoðun á þeirri hugsun sem er á bak við samninga Háskólans við ráðuneytið. Forsenda umbóta væri að fá hækkaða taxtana í lægstu reikniflokkunum.

Að endingu þakkaði rektor framsögumönnum fyrir fróðleg erindi og fundarmönnum fyrir gagnlegar umræður. Minnti rektor aftur á fyrirhugaða ráðstefnu um samstarf og samkeppni í íslensku skólastarfi sem haldin verður vorið 2003.

Til máls tóku undir þessum dagskrárlið, auk rektors og framsögumanna, þau Anna Agnarsdóttir, Ingjaldur Hannibalsson, Kristín Jónsdóttir, Björn Þ. Guðmundsson, Stefán B. Sigurðsson, Guðmundur Ómar Hafsteinsson, Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir, Ólafur Þ. Harðarson, Stefán Svavarsson, Eiríkur Tómasson og Ásgeir Brynjar Torfason.
 

Kl. 12:20 - 14:00 - Matarhlé.

Kl. 14:00 - 15:30 - Dagskrárliður 4: Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, stefna þess og tengsl við deildir og stofnanir Háskólans

Eftir matarhlé bauð rektor fundarmenn aftur velkomna til starfa. Framsögu um síðasta dagskrárlið fundarins hafði Sigrún Klara Hannesdóttir landsbókavörður. Hóf Sigrún mál sitt á því að rekja upphaf og þróun bókasafnsþjónustu frá stofnun Landsbókasafns árið 1818 og fram til okkar daga. Þegar árið 1956 hófust umræður um sameiningu Landsbókasafns og Háskólabókasafns, en safnið opnaði loks 1994. Þá greindi Sigrún Klara frá lagaumhverfi Landsbókasafns-Háskólabókasafns, en safnið er sjálfstæð háskólastofnun með sérstaka stjórn og heyrir stjórnarfarslega undir menntamálaráðherra. Önnur formleg tengsl milli Háskóla Íslands og safnsins fara einkum fram gegnum tvo fulltrúa sem Háskólinn skipar í stjórn safnsins, bókasafnsfulltrúa og nefndir deilda sem hafa það hlutverk að hafa yfirsýn yfir þarfir deildanna fyrir safnþjónustu og gera tillögu fyrir hönd þeirra um skiptingu og ráðstöfun ritakaupafjár. Samkvæmt áætlun á ritakaupasjóður að hafa til ráðstöfunar um 47 m.kr. sem dreifast á deildir Háskólans. Vegna fjárhagsvanda sumra deilda hafa þær þó ekki getað staðið undir framlögum sínum til ritakaupasjóðs og er nú svo komið að óhjákvæmilegt virðist að safnið segi upp miklum fjölda tímaritaáskrifta. Safnið fær nú í áskrift um 7.500 altextuð tímarit, 4.000 tímarit í útdrætti, 31 gagnasafn, 3 alfræðigögn og eina orðabók, auk 350.000 engilsaxneskra bókmenntaverka.

Á árinu 2002 tók nýr landsbókavörður við stjórn Landsbókasafns-Háskólabókasafns og í kjölfarið var ráðist í stefnumótunarstarf fyrir safnið, m.a. með málþingi um hlutverk þess í kennslu og rannsóknum við Háskóla Íslands sem fram fór 3. maí og á stefnumótunarfundi í Borgarnesi dagana 31. maí til 1. júní 2002. Helstu niðurstöður þessara funda voru:

1. Almennur skortur er á bókum og tímaritum á öllum sviðum. 2. Brýn nauðsyn er að halda áfram rafrænum landsaðgangi að vísindalegum tímaritum. 3. Byggja þarf upp bókakost á þröngum sviðum til að styrkja rannsóknir og framhaldsnám. 4. Óskað er ýmist eftir útibúum eða samsteypu safna á líkum sviðum. 5. Þörf er fyrir lengri opnunartíma, einkum meðal stúdenta. 6. Skortur er á upplýsingaþjónustu. 7. Óskað er eftir meiri þátttöku safnsins í kennslu í upplýsingatækni og samþættingu náms og heimildaleitar. 8. Þörf er fyrir sendingarþjónustu og millisafnalán frá söfnum á höfuðborgarsvæðinu. 9. Setja þarf á laggirnar rafræna skráningu rannsóknagagna. 10. Stofna þarf rafrænt rannsóknatímarit. 11. Setja þarf á laggirnar rafrænt námsbókasafn. 12. Setja þarf upp rafrænan prófabanka.

Næst greindi Sigrún Klara frá nokkrum nýjum þróunarverkefnum í Landsbókasafni­ Háskólabókasafni. Einkum er um tvö verkefni að ræða, þ.e. stafrænt þjóðbókasafn og stafrænt háskóla- og rannsóknabókasafn. Þá nefndi hún nokkrar væntanlegar nýjungar í starfsemi safnsins: 1. Ítarlegar heimildaleitir og gagnaöflun gegn gjaldi. 2. Rafrænt námsbókasafn. 3. Meira af rafrænu íslensku efni á netinu. 4. Notendakannanir. 5. Árvekniþjónustu í stað útibúa.

Þá gat landsbókavörður nokkurra vandamála sem bókasafnið og Háskólinn þurfa að leysa í sameiningu: 1. Aðgengi stúdenta og opnunartími. 2. Aðrir bókasafnsnotendur en háskólamenn, einkum framhaldsskólanemar. 3. Bókakaup og fjármögnun ritakaupa. 4. Lélegur tækjabúnaður, einkum úreltar tölvur, fyrir stúdenta og kennara í Bókhlöðu og útibúum.

Að endingu dró Sigrún Klara upp mynd of framtíðarsýn Landsbókasafns-Háskólabókasafns. Lagði hún einkum áherslu á tvö atriði: 1. Að rannsókna- og háskólasamfélagið á Íslandi standi jafnfætis því sem best gerist erlendis hvað varðar aðgengi að vísindaritum og þekkingu. 2. Að Háskóli Íslands „eigni sér“ Þjóðarbókhlöðuna, styrki safnið með náinni samvinnu og geri kröfur til þess um þjónustu.

Að framsögu Sigrúnar Klöru Hannesdóttur lokinni gaf rektor orðið laust.
Í umræðunni var til þess tekið hversu skýrt og skeleggt erindi Sigrúnar Klöru hafi verið. Bent var á það að Landsbókasafn-Háskólabókasafn væri ein mikilvægasta stofnun Háskólans. Nú væru um 900 framhaldsnemar skráðir við Háskólann og því nauðsynlegt að efla bókakost safnsins til að mæta þeirri þörf sem framhaldsmenntun kallar á. Bót á námsaðstöðu fyrir framhaldsnema og bættum safnakosti væri algjört grundvallaratriði og ætti að vera forgangsmál. Ritakaupafé frá Háskólanum hefur ekkert aukist á síðustu árum þrátt fyrir aukinn nemendafjölda og verðhækkanir á vísindaritum. Það væri geigvænleg þróun ef segja þyrfti upp rafrænum áskriftum í sumum deildum Háskólans. Tölvukostur sem ætlaður er notendum er lélegur í Þjóðarbókhlöðu og ekki hægt að endurnýja hann eins hratt og æskilegt væri. Nauðsynlegt væri að virkja hollvinafélögin og jafnvel að efna til þjóðarátaks fyrir Þjóðarbókhlöðuna, t.d. í tengslum við 100 ára afmæli Háskólans. Til álita komi jafnvel að Háskólinn taki að sér rekstur safnsins, enda er skóli án bókasafns illa settur. Þörf væri á vitundarvakningu og háskólamenn allir þyrftu að spyrja sig að því, hvers virði safnið væri þeim.

Rætt var um rafrænan prófabanka og nauðsyn þess að nemendur hafi tafarlausan aðgang að prófum svo þeir viti hvaða kröfur eru gerðar til þeirra. Þá var tekið fram að þrátt fyrir allt tal um bókaskort væri bókasafnið í raun mjög gott á mörgum sviðum, einkum með tilliti til aðgangs að rafrænum gögnum og tímaritum. Þarfir einstakra námsgreina fyrir safnaþjónustu væru ólíkar og því skipti miklu máli að virkt upplýsingastreymi væri milli bókasafnsins og Háskólans svo safnið gæti brugðist við kröfum skólans. Almennt væri mikilvægt að safnið hefði frumkvæði að slíku samstarfi.

Spurt var um þjónustu bókasafnsins við heilbrigðisvísindadeildir Háskólans. Svaraði Sigrún Klara því til að skiptar skoðanir væru á því hvort fara ætti þá leið að efla útibú safnsins í deildum Háskólans, enda væri það bæði dýrt og flókið í framkvæmd. Einnig hefði komið til greina að koma á fót samræmdu bókasafni á heilbrigðissviði. Unnið væri að þessum málum í samráði við heilbrigðisvísindadeildirnar.

Fulltrúar stúdenta ítrekuðu óskir sínar um lengingu opnunartíma safnsins. Í umræðunni um þetta atriði kom m.a. fram að Háskóli Íslands borgar safninu nú þegar 15 m.kr. á ári til að lengja opnunartímann. Þessi mikli kostnaður hlytist einkum af því að Þjóðarbókhlaðan er þannig skipulögð að erfitt er að takmarka opnun við hluta hússins. Ef safnið ætti að vera opið lengur þyrfti að breyta skipulagi þess þannig að ekki þurfi eins marga starfsmenn á vakt til að halda því opnu. Á móti var á það bent að hluti bókasafnsgesta nýtti safnið einkum til að lesa bækur sem þeir kæmu með sjálfir og ættu þessir gestir ekki erindi á safnið frekar en fólk með nesti á veitingastaði! Þá var rætt um reynsluna af því að opna almennar kennslustofur fyrir nemendur vegna undirbúnings þeirra fyrir próf á álagstímum.

Að lokum þakkaði landsbókavörður fundarmönnum fyrir áhuga þeirra á málefnum safnsins og gagnlegar umræður. Sagði hún ánægjulegt hvað háskólafólk væri fúst til samstarfs og tók undir það sjónarmið að safnið skuli hafa frumkvæði að því að koma á samstarfi. Lýsti hún eftir stuðningi við að finna fjármagn til að lengja opnunartíma safnsins, því safnið hefði allt sem þyrfti til að bæta þjónustuna nema fé. Greindi hún frá því að unnið væri að þjónustusamningi við menntamálaráðuneytið í tengslum við rafrænar áskriftir og sagði mikla áherslu lagða á að stúdentar kynnist safninu svo að þeir geti notað þá þjónustu og þau gögn sem þar eru á boðstólnum. Að lokum greip landsbókavörður þá spurningu á lofti, hvort Háskóli Íslands ætti að taka að sér að reka safnið og svaraði hún henni játandi. Vissulega væri hlutverk safnsins margþætt, t.a.m. væri bókmenntalegur þjóðararfur Íslendinga geymdur þar á fyrstu hæðinni, en hann væri þó efalítið í góðum höndum hjá Háskólanum.

Þakkaði rektor Sigrúnu Klöru Hannesdóttur fyrir góða kynningu og fundarmönnum fyrir málefnalegar umræður.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Sigrúnar Klöru Hannesdóttur, Ágúst Einarsson, Guðfinnur Sigurvinsson, Jón Torfi Jónasson, Reynir Tómas Geirsson, Ingjaldur Hannibalsson, Helgi Tómasson, Anna Agnarsdóttir og Rannveig Traustadóttir.

Að lokum þakkaði rektor þeim sem tóku þátt í undirbúningi fundarins. Beindi hann því til fundarmanna að þeir veltu fyrir sér hvort bæta mætti framkvæmd háskólafundar í framtíðinni og óskaði hann jafnframt eftir ábendingum um fundarefni næstu funda.

Fleira var ekki gert.
Rektor sleit fundi kl. 15:30 og bauð fundarmönnum að þiggja léttar veitingar í anddyri hátíðasalar.

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 8. háskólafundi:
1.     Dagskrá 8. háskólafundar 1. nóvember 2002.
2.     Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
3.     Reglur um skipan og fundarsköp háskólafundar.
4.     Bæklingurinn „Uppbygging Háskóla Íslands - Markmið og aðgerðir 2002-2005“.
5.     „Hnattvæðingin og Háskóli Íslands“. Ræða rektors við brautskráningu kandídata 26. október 2002.
6.     Minnisblað rektors um ýmis sameiginleg málefni Háskólans, dags. 1. nóvember 2002.
7.     Minnisblað rektors um væntanlegar breytingar á nýtingu húsnæðis í Háskóla Íslands, dags. 5. september 2002.
8.     Tillögur um breytingar á lögum um háskóla frá nefnd skipaðri af háskólaráði, dags. 21. febrúar 2002, ásamt bréfi rektors til menntamálaráðherra, dags. 24. september 2002.
9.     Dagskrá Háskóla Íslands á Vísindadögum 1.-11. nóvember 2002.
10.     Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn. Stefna þess og tengsl við deildir og stofnanir Háskólans. Glærur við framsöguerindi Sigrúnar Klöru Hannesdóttur landsbókavarðar.
11.     Spurningar til fulltrúa á háskólafundi, lagðar fram af Jóni Torfa Jónassyni og Guðrúnu Geirsdóttur.