Skip to main content

6. háskólafundur 1. nóvember 2001

6. háskólafundur haldinn 1. nóvember 2001 í Hátíðasal Háskóla Íslands á 2. hæð í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 09:00 - 17:00

Kl. 09.00 - Fundarsetning

Rektor setti sjötta háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Hann fór yfir dagskrá og tímaáætlun fundarins og gerði grein fyrir framkomnum tillögum sem bárust innan tilskilins frests og lista yfir útsend gögn og viðbótargögn sem lágu fyrir fundinum.
Magnús Diðrik Baldursson og Halldór Jónsson voru skipaðir ritarar fundarins.

Þá greindi rektor frá því að borist hefði ný tillaga, um breytingu á 9. gr. reglna um skipan og fundarsköp háskólafundar. Þar sem tillagan kom fram eftir auglýstan frest óskaði rektor eftir heimild fundarins til að taka hana á dagskrá og var það samþykkt.

Næst reifaði rektor sögulegt samhengi fundarins. Sé horft til þeirra fimm háskólafunda sem haldnir hafa verið blasa við tvö meginverkefni þeirra. Annars vegar hefur orðið gagnger endurnýjun hins lagalega umhverfis Háskólans með nýjum lögum um Háskóla Íslands (1999) og nýjum reglum fyrir Háskóla Íslands (2000). Hins vegar hefur verið unnið skipulega að mótun sameiginlegrar stefnu fyrir allt innra starf Háskólans. Skipta má þessu stefnumótunarstarfi í a.m.k. fjóra þætti:

a.    Fyrsta og mikilvægasta skrefið var staðfesting sameiginlegrar vísinda- og menntastefnu Háskólans (1999-2001).
b.    Í kjölfarið ákvað háskólafundur að útfæra hina sameiginlegu vísinda- og menntastefnu ‘á vettvangi' með því að hver deild og hver stofnun sem á fulltrúa á háskólafundi gerði sína eigin þróunaráætlun til fimm ára með hliðsjón af vísinda- og menntastefnunni. Þessi áfangi stendur nú sem hæst og verður aðalefni þessa 6. háskólafundar.
c.    Þá verður á fundinum reifaður þriðji áfangi stefnumótunarstarfsins, sem er heildar-starfsáætlun Háskólans til næstu ára.
d.    Í fjórða lagi hefur háskólafundur mótað stefnu Háskóla Íslands í fjölmörgum einstökum málaflokkum, s.s. starfsmanna- og jafnréttismálum, umhverfismálum og alþjóðamálum. Þessu starfi verður áfram haldið.

Kl. 09:10 - Dagskrárliður 1

Þróunaráætlanir deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi

Rektor lýsti fyrirhugaðri meðferð málsins: Fyrst gera formenn starfsnefnda háskólaráðs og fulltrúi jafnréttisnefndar grein fyrir umsögnum sínum. Þá bregðast deildarforsetar og forstöðumenn við umsögnum starfsnefndanna og skýra frá áætlunum sínum. Loks verður orðið gefið laust fyrir almennar umræður.

Umsagnir nefnda
Fyrstur umsagnaraðila tók formaður vísindanefndar til máls. Umsögn nefndarinnar tók einkum mið af rannsóknarþættinum í starfi deilda og rakti formaður hennar í stuttu máli stöðu og áætlanir á sviði rannsókna í hverri deild og stofnun fyrir sig. Almennt taldi hann að deildir og stofnanir Háskólans hefðu unnið mjög gott starf með áætlunum sínum. Hann benti þó á ýmis atriði sem vísindanefndin hnaut um í umfjöllun sinni. Þannig hefðu sumar deildir mátt, m.a. í ljósi vísinda- og menntastefnu Háskólans, leggja ríkari áherslu á rannsóknatengt framhaldsnám, rannsóknir í stofnunum deilda og öflun rannsóknafjár úr sjóðum og frá fyrirtækjum. Ennfremur benti formaður vísindanefndar á að deildir einblíni of mikið á erfiða stöðu fjármála í áætlunum sínum.

Formaður kennslumálanefndar vísaði til framlagðrar umsagnar nefndarinnar og lagði í framsögu sinni áherslu á að draga fram almennar línur og leggja heildarmat á þróunaráætlanirnar. Í framsögu hans kom m.a. fram að of margar deildir og stofnanir miða áætlanir sínar við aukin fjárframlög. Þetta orkar tvímælis að mati kennslumálanefndar og hvatti formaður hennar deildir og stofnanir til að miða áætlanir sínar við þann raunveruleika og þær aðstæður sem blasa við hverri deild eða stofnun.

Formaður fjármálanefndar sagði að í mörgum tilvikum hvíla áætlanir deilda og stofnana á óraunhæfum væntingum um fjárveitingar. Hins vegar kemur einnig fram að sumum deildum og stofnunum er ekki gert kleift að uppfylla þær kröfur sem settar eru fram í vísinda- og menntastefnu Háskólans nema fjárveitingar til þeirra aukist að sama skapi. Þá koma í þróunaráætlunum fram væntingar um aukið húsnæði, sem ekki eru alls kostar raunhæfar. Taldi formaður fjármálanefndar mikilvægt að deildir og stofnanir forgangsraði verkefnum sínum og áætlunum á grundvelli raunhæfra áætlana um fjárveitingar.

Að endingu gerði fulltrúi jafnréttisnefndar grein fyrir því hvort og hvernig þróunaráætlanirnar samrýmast jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2000-2004. Í framsögu sinni lagði fulltrúinn heildarmat á áætlanirnar í ljósi jafnréttissjónarmiða. Kom þar fram að víða í deildum og stofnunum skorti nokkuð á að markvisst væri unnið að því að samþætta starfsemina við jafnréttissjónarmið.

Viðbrögð deildarforseta og forstöðumanna stofnana
Deildarforsetar og forstöðumenn gerðu í stuttu máli grein fyrir helstu atriðum í áætlunum sínum og brugðust við umsögnum starfsnefndanna. Almennt tóku þeir umsögnunum vel, töldu þær gagnlegar þó þær beri þess merki, í sumum tilvikum, að vera unnar á skömmum tíma. Í máli þeirra kom fram að mjög gagnlegt þótti að lesa áætlanir annarra deilda og stofnana. Það hefur veitt innsýn í starfsemi þeirra og góðar hugmyndir hafa skotið upp kollinum. Þá kom fram að sumar deildir og stofnanir eru þegar farnar að hrinda stefnumiðum áætlana sinna í framkvæmd.

Í máli nær allra deildarforseta og forstöðumanna kom fram að fjárhags- og húsnæðisþrengingar setji allri þróun verulegar skorður. Áætlanir deilda og stofnana beri því þessum staðreyndum glöggt vitni. Bent var á að í umsögnum nefnda gæti misskilnings í sumum tilvikum og betra hefði verið að eyða slíku með viðræðum við fulltrúa deilda á fyrri stigum. Nokkrir deildarforseta vöktu sérstaka athygli á nýtilkominni og vaxandi samkeppni um nemendur og ræddu um leiðir til að bregðast við henni.

Fyrir utan fjármál og húsnæðismál ræddu deildarforsetar og forstöðumenn ítarlega ýmis mál sem fjallað er um í þróunaráætlununum, s.s. framhaldsnám, grunnrannsóknir, samkeppni við aðra háskóla, jafnréttismál, kennslu sérfræðinga á stofnunum, brottfall nemenda, sjálfsaflafé til rannsókna og tengsl við þjóðlíf og atvinnulíf.

Kl. 10.30 - Kaffihlé

Kl. 10:50 - Dagskrárliður 1 (frh.)

Þróunaráætlanir deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi.

Eftir kaffihlé var áfram haldið framsögum deildarforseta og forstöðumanna stofnana.

Almennar umræður
Formenn starfsnefnda lýstu ánægju sinni með viðbrögð deilda og stofnana við umsögnunum og tóku undir ábendingu um samræðu til að eyða misskilningi milli deilda og stofnana annars vegar og starfsnefndanna hins vegar.

Fulltrúi stúdenta benti á að fjalla hefði mátt ítarlegar í þróunaráætlununum um tryggingarmál stúdenta, tæknivæðingu kennslu, samstarf við atvinnulífið, einkunnaskil kennara og móttöku nýnema. Af þessu tilefni greindi rektor frá því að væntanleg væri skýrsla frá starfshópi um öryggis- og tryggingarmál stúdenta við Háskóla Íslands.

Fram kom á fundinum að ekki lægju fyrir nein drög að þróunaráætlun stjórnsýslu Háskólans. Í þessu samhengi bar einnig á góma „fjórskólahugmyndina“ svonefndu og sjálfstæði deilda og var því m.a. haldið fram að það hafi minnkað undanfarin ár og miðlæg stjórnsýsla um leið orðið umsvifameiri. Rektor benti í þessu sambandi á að um þessar mundir væri unnið að endurskipulagningu stjórnsýslunnar sem miðaði m.a. að því að gera hana skilvirkari, sveigjanlegri og betur í stakk búna að þjóna deildum skólans.

Í umræðunum kom ennfremur fram að í þróunaráætlanir flestra deilda og stofnana vantar umfjöllun um hvernig þær vilja bæta úr fjár- og húsnæðisskortinum sem þær eru sammála um að sé helsti vandi þeirra.

Í lok umræðunnar benti rektor á mikilvægi liðsheildarinnar - Háskóli Íslands er ein sterk heild og styrkur hans felst ekki síst í opinni umræðu af þessu tagi. Að endingu þakkaði rektor deildum og stofnum fyrir gott starf.

Til máls tóku undir þessum dagskrárlið, auk rektors, Jón Atli Benediktsson, Hjalti Hugason, Ingjaldur Hannibalsson, Rósa Erlingsdóttir, Gunnlaugur A. Jónsson, Páll Sigurðsson, Ágúst Einarsson, Vilhjálmur Árnason, Einar Ragnarsson, Sigurður Brynjólfsson, Hörður Filippusson, Ólafur Þ. Harðarson, Þórdís Kristmundsdóttir, Stefán Arnórsson, Vésteinn Ólafsson, Sigurður Ingvarsson, Einar Sigurðsson, Guðrún Kvaran, Þorvarður Tjörvi Ólafsson, Ingibjörg Lind Karlsdóttir, Þorsteinn Loftsson, Þorsteinn Vilhjálmsson, Björn Þ. Guðmundsson og Baldvin Þór Bergsson.

Kl. 12:10 - Dagskrárliður 2

Framhald vinnu við þróunaráætlanir deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi. Greinargerð og tillaga rektors

Rektor gerði grein fyrir tillögu sinni um framhald vinnunnar við þróunaráætlanir deilda og stofnana. Tillagan hljóðar svo:

Tillaga
Í samræmi við þá hlutverkaskiptingu milli háskólafundar og háskólaráðs, sem kveðið er á um í lögum um Háskóla Íslands nr. 41/1999, að háskólafundur móti almenna stefnu Háskólans en háskólaráð vinni að því að hrinda stefnunni í framkvæmd, er gerð eftirfarandi tillaga:

1.    Að loknum 6. háskólafundi 1. nóvember 2001 verði þróunaráætlanir deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi vísað aftur til deilda og þeim falið að vinna eftir þeim með hliðsjón af umsögnum og umræðum á háskólafundinum. Einnig verði fjallað um hverja þróunaráætlun fyrir sig á fundum rektors með deildarforsetum.
2.    Jafnframt verði þróunaráætlununum vísað til háskólaráðs sem hafi þær til hliðsjónar við mótun almennrar framkvæmdaáætlunar Háskólans.

Greinargerð
Við umfjöllun um málsmeðferð stefnumótunarstarfs háskólafundar á 3. háskólafundi 16.-17. nóvember 2000 samþykkti fundurinn að jafnhliða áframhaldandi vinnu við sameiginlega vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands skyldu deildir og stofnanir Háskólans hefja undirbúning að gerð sérstakra þróunaráætlana sinna. Þróunaráætlanirnar skyldu í senn taka mið af almennri vísinda- og menntastefnu Háskólans og sérstöku hlutverki deildanna á sviði kennslu, rannsókna, fræðslu og þjónustu. Í þeim skyldi fjallað um helstu þætti í starfi deilda og stofnana, núverandi stöðu þeirra og áætlun til næstu fimm ára.

Í framhaldi af 3. háskólafundi var hafist handa við að útfæra þessa samþykkt nánar og í janúar 2001 var deildum og stofnunum sem eiga fulltrúa á háskólafundi sent efnisyfirlit fyrir þróunaráætlanirnar og leiðbeiningar fyrir gerð þeirra. Við gerð yfirlitsins var, auk framangreindrar samþykktar 3. háskólafundar 16.-17. nóvember 2000 um málsmeðferð stefnumótunarstarfs, m.a. stuðst við reglur menntamálaráðuneytisins um sjálfsmat deilda Háskólans sem nota skal við mat á deildum skv. samningi milli menntamálaráðuneytisins og Háskóla Íslands um fjármögnun kennslu við Háskólann. Einnig var höfð hliðsjón af lögum, reglum og stefnuyfirlýsingum sem þegar eru í gildi, s.s. lögum um Háskóla Íslands nr. 41/1999, reglum fyrir Háskóla Íslands frá 26. júní 2000, drögum að vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands, starfsmannastefnu Háskóla Íslands, jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2000-2004 og drögum að stefnu Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum.

Á 4. háskólafundi 23. febrúar 2001 greindu forsetar deilda og forstöðumenn stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi frá stöðu vinnunnar við gerð þróunaráætlana sinna og fram fór almenn umræða um málið.

Á 5. háskólafundi 5.-6. apríl 2001 hlaut vísinda- og menntastefna Háskóla Íslands formlegt samþykki. Jafnframt kynntu forsetar deilda og forstöðumenn stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi fyrstu drög að þróunaráætlunum sínum og fram fór umræða um málið. Á fundinum var samþykkt tillaga um málsmeðferð stefnumótunarstarfsins sem m.a. gerði ráð fyrir því að fullfrágengnum þróunaráætlunum yrði skilað fyrir 20. september 2001, þær yrðu síðan sendar starfsnefndum háskólaráðs til umsagnar og umsagnirnar loks sendar deildum og stofnunum tveimur vikum fyrir 6. háskólafund 1. nóvember 2001. Loks gerði tillagan ráð fyrir því að á 6. háskólafundi myndu umsagnaraðilar gera grein fyrir umsögnum sínum, deildir og stofnanir bregðast við þeim og skýra frá áætlunum sínum og almenn umræða fara fram. Ekki var kveðið á um frekara framhald vinnunnar. Hér er gerð tillaga um næstu skref.

Að lokinni kynningu gaf rektor orðið laust.

Í umræðum um tillöguna komu fram eftirfarandi breytingartillögur á orðalagi (feitletrun):
a) Undir lið eitt bætist við: „[...] vísað aftur til deilda og stofnana og þeim [...] fundum rektors með deildarforsetum og forstöðumönnum stofnana.“

b) Undir lið eitt komi: „[...] vísað aftur til deilda og stofnana til frekari vinnslu með hliðsjón af [...].“

Rektor bar tillöguna svo breytta undir atkvæði.

Samþykkt einróma.

Til máls tóku undir þessum dagskrárlið, auk rektors, Kristín Jónsdóttir, Ágúst Einarsson, Hörður Sigurgestsson, Páll Sigurðsson og Þórólfur Matthíasson.

Kl. 12:30 - 13:40 - Matarhlé

Kl. 13:40 - Dagskrárliður 3

Málsmeðferð stefnumótunarstarfs.
Greinargerð og tillaga starfshóps um vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands

Rektor gerði grein fyrir tillögu starfshópsins, sem hljóðar svo:

Greinargerð
Á háskólafundi 6. apríl 2001 var skipaður starfshópur um vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands. Hópinn skipa þau Ágústa Guðmundsdóttir, formaður, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Halldór Jónsson, Hjalti Hugason, Ingjaldur Hannibalsson, Jón Atli Benediktsson, Magnús Diðrik Baldursson, Þórður Kristinsson.

Hópnum er m.a. ætlað að,
a)    fylgjast með framkvæmd vísinda- og menntastefnunnar í samráði við þá aðila sem hafa umsjón með stefnunni,
b)    vera tengiliður milli háskólafundar og háskólaráðs og brúa þannig bilið milli stefnu og framkvæmdar,
c)    gera árlega grein fyrir starfi sínu og framkvæmd vísinda- og menntastefnunnar.

Tillaga um áframhald vinnu við vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands
1.    Tillögur um breytingar á vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands verði ekki til umræðu á háskólafundi fyrr en haustið 2002.
Skýring: Annars vegar er stutt síðan vísinda- og menntastefna Háskólans hlaut formlegt samþykki háskólafundar (6. apríl 2001) eftir hálfs annars árs undirbúningsvinnu. Hins vegar er nú unnið að gerð þróunaráætlana deilda, en þeim er ætlað að taka mið af vísinda- og menntastefnunni.

2.    Lögð verði áhersla á kynningu vísinda- og menntastefnunnar eins og hún liggur fyrir.
Skýring: Á háskólafundi 6. apríl 2001 var samþykkt svohljóðandi tillaga um málsmeðferð stefnumótunarstarfs háskólafundar: „Hljóti vísinda- og menntastefna Háskóla Íslands samþykki á háskólafundi 6. apríl hyggst rektor beita sér fyrir víðtækri kynningu hennar innan skólans sem utan.“ Stefnan hefur þegar verið prentuð, sett á netið, þýdd á ensku og henni dreift víða. Þá hefur rektor þegar hafið víðtækt kynningarstarf á vísinda- og menntastefnunni.

3.    Haustið 2002 og á tveggja ára fresti eftir það verði lýst eftir breytingatillögum eða athugasemdum við vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands frá deildum og stofnunum sem eiga fulltrúa á háskólafundi.

Að kynningu lokinni gaf rektor orðið laust. Engin tók til máls undir þessum lið.

Rektor bar tillöguna undir atkvæði.

Samþykkt samhljóða.

Kl. 14:00 - Dagskrárliður 4

Uppbygging Háskóla Íslands á næstu árum. Hugmyndir rektors.

Rektor reifaði framlagt minnisblað sitt, „Uppbygging Háskóla Íslands næstu árin. Hugmyndir rektors.“

Í máli rektors kom fram að hugmyndirnar taka til eftirfarandi þátta: 1. Alþjóðlegur háskóli, 2. þjóðskóli, 3. háskólasvæði og -samfélag, 4. stjórnun. Rektor dreifði einnig til fróðleiks tveimur öðrum minnisblöðum, „Hvað verður um Vatnsmýrina? Morgunverðarfundur Reykjavíkurborgar í samvinnu við Borgarfræðasetur" og "Staða undirbúningsvinnu við þekkingarþorp, háskólatorg og skipulag háskólasvæðisins.“

1. Alþjóðlegur háskóli. Mikilvægast er að byggja upp Háskólann sem alþjóðlega viðurkenndan rannsóknaháskóla með megináherslu á framhaldsnám, einkum meistaranám. Þá vék rektor að spurningunni: Hver á vöxturinn að vera? Háskólinn hefur alla 20. öldina verið í samfelldum vexti, svo mjög að hann er að sprengja utanaf sér. Að vissu leyti er þetta einkenni skapandi háskóla. Samt þurfum við að spyrja okkur að því, hvar við viljum að vöxturinn eigi sér stað? Mikilvægast er að kennarar, annað starfsfólk og nemendur Háskólans vandi til verka og standi sig vel í því sem þeir taka sér fyrir hendur. Til þess að hafa stjórn á vextinum þarf Háskólinn að móta markvissa heildaráætlun og setja sér skýr og mælanleg markmið. Í þessu sambandi þarf Háskólinn jafnframt að taka mið af þróun alls háskóla- og rannsóknastarfs í landinu. Háskóli Íslands er og á að vera bakhjarl allra annarra háskólastofnana á Íslandi.

2. Þjóðskóli. Lengi fram eftir nýliðinni öld var Háskóli Íslands eini háskólinn í landinu. Þetta hefur breyst á síðustu árum og áratugum með tilkomu nýrra skóla á háskólastigi og nú er svo komið að nauðsynlegt er að endurmeta hlutverk og skyldur Háskólans sem þjóðskóla, m.a. með viðræðum við stjórnvöld. Þá þarf að huga vandlega að tengslum Háskólans við aðra skóla, sem einnig líta á sig sem þjóðskóla, einkum Kennaraháskóla Íslands (þjóðskóla kennaramenntunar) og einnig Háskólann á Akureyri (þjóðskóla landsbyggðarinnar).

3. Háskólasvæði og -samfélag. Í þriðja lagi þarf að gera skipulega áætlun um húsnæðisþarfir, byggingar og skipulag háskólasvæðisins. Rektor vísaði til framlagðra minnisblaða um þessi mál. Brýnast í þessu sambandi er að ljúka við byggingu Náttúrufræðahússins í Vatnsmýrinni. Greindi rektor frá því að nýskipuð bygginganefnd hefði unnið verkáætlun sem miðar við að húsið verði tekið í notkun 23. ágúst 2003. Nýja nefndin hefur ráðgefandi hlutverk og er stefnt að því að ráða verkstjóra til að stjórna sjálfri framkvæmdinni.

Fyrirliggjandi er samþykkt skipulag fyrir austurhluta háskólalóðarinnar, en skipulag vesturhlutans hefur aldrei hlotið formlegt samþykki. Reykjavíkurborg hefur nú sýnt málinu mikinn áhuga, í kjölfar fyrirætlana um þekkingarþorp í Vatnsmýrinni. Reykjavíkurborg hefur heitið Háskólanum landrými austan við lóð Íslenskrar erfðagreiningar og til stendur að leggja niður n-s-flugbrautina fyrir árið 2016. Þá eru skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar að skoða möguleika á því að leggja hluta Hringbrautar í stokk og einnig að draga úr umferð um Suðurgötu. Rektor lagði á það áherslu að samstaða sé um þessi mál innan Háskólans. Það verður að vera skýrt í umræðunni um þekkingarþorpið að með þeim áformum er Háskólinn ekki að selja land sitt einkaaðilum.

4. Stjórnun. Rektor lagði fram minnisblað Þórðar Kristinssonar, „Um stjórnkerfi Háskólans og breytingar á því á síðastliðnum þremur árum.“ Margháttaðar breytingar hafa verið gerðar á stjórnkerfi Háskólans á síðustu árum. Meginmarkmiðin með þessu starfi hafa verið að gera alla stjórnsýslu skilvirkari, markvissari, opnari og sveigjanlegri. Mikilvægt er að leyfa þessu kerfi að festa sig í sessi. Meðal annars hefur sjálfstæði deildanna verið aukið verulega og starf deildarforseta styrkt til muna. Markmið hinnar sameiginlegu stjórnsýslu er að veita deildum og stofnunum þjónustu og unnið hefur verið að því að bæta hana í hvívetna. Þá er einnig mikilvægt að styrkja stjórnsýslu deilda. Benti rektor á mikilsverðan greinarmun á faglegri stjórnun og tæknilegri (t.d. skipulagningu og uppbyggingu kennslu og rannsókna annars vegar og fjármálastjórnun hins vegar).

Þá vék rektor nokkrum orðum að fræðslu um háskóla. Eitt af höfuðverkefnum allra háskólamanna er að fræða almenning og stjórnvöld um háskóla, starfsemi þeirra og hlutverk. Háskólinn er margbrotinn stofnun eða fyrirtæki sem er gífurlega dínamískt, þótt stundum kunni hann að virðast stirðbusaleg stofnun utanfrá. Hér er mikilvægt að vinna stöðugt að því að upplýsa fólk um það starf sem unnið er í Háskólanum. Þetta tengist mikilvægi þess að háskólamenn komi fram sem ein liðsheild og vikið var að fyrr á fundinum. Góður liðsandi þarf að ríkja þrátt fyrir allan mismun og fjölbreytileika. Við háskólafólk þurfum öll að vita hvert við stefnum og standa saman að þessu markmiði.

Að framsögn sinni lokinni gaf rektor orðið laust.

Í umræðum um uppbyggingu Háskólans var m.a. komið inn á framtíðarstaðsetningu Landspítala-háskólasjúkrahúss og áhrif Háskólans á stjórn og starfsemi spítalans, framtíðarstaðsetningu Keldna, Þjóðarbókhlöðu og nauðsyn viðbyggingar við hana, stofnanir íslenskra fræða, nauðsyn mælanlegra markmiða og vaxtarmörk skólans, fámennar kennslugreinar og hlutverk „þjóðskólans“ í því efni, framboð á námskeiðum á ensku í „alþjóðlegum háskóla“, Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins, fyrirhugað þekkingarþorp í Vatnsmýrinni og nauðsyn þess að kynna og ræða það betur innan skólans, framtíðarmöguleika til bygginga á háskólalóðinni, uppbyggingu doktorsnáms og vaxandi eftirspurn eftir því og framboð Háskóla Íslands á námi með starfi, m.a. í ljósi samkeppni við aðra skóla á háskólastigi.

Rektor vakti athygli á því að minnisblað sitt væri ekki tæmandi yfirlit um byggingaráform Háskólans. Til dæmis er þar ekki minnst á byggingu á grunni við VR III og viðbyggingu við hús Endurmenntunarstofnunar. Að lokum gerði rektor nánari grein fyrir stöðu ýmissa mála sem nefnd voru í umræðunum og svaraði framkomnum fyrirspurnum.

Til máls tóku undir þessum dagskrárlið, auk rektors, Þórður Harðarson, Vésteinn Ólason, Vilhjálmur Árnason, Jón Torfi Jónasson, Hörður Filippusson, Björn Þ. Guðmundsson, Þorsteinn Loftsson, Stefán Arnórsson, Rannveig Traustadóttir og Kristín Jónsdóttir.

Kl. 14:40 - Dagskrárliður 5

Formlegt gæðakerfi Háskólans.
Kynning og umræður

Rektor greindi frá aðdraganda málsins. Framlögð drög að formlegu gæðakerfi voru send deildum og stofnunum til umsagnar. Rektor benti á að Háskólanum væri skylt að hafa formlegt gæðakerfi um starfsemi sína. Hann benti jafnframt á að drögin gerðu ráð fyrir því að þau matsferli sem við búum þegar við verði dregin saman í eitt formlegt gæðakerfi. Rektor lagði til að málið yrði ekki leitt til lykta á fundinum heldur verði deildarforsetum falið að ganga frá endanlegri tillögu um formlegt gæðakerfi Háskólans til háskólaráðs.

Rektor gaf orðið laust.

Í umræðunni var m.a. bent á að formlegt gæðakerfi megi ekki verða að skrifræðisbákni heldur væri æskilegra að hver deild eða stofnun hefði sitt eigið gæðakerfi, að fulltrúar kennarafélaganna eigi að koma að mótun gæðakerfisins, að það þurfi að vera skýrt kveðið á um það í ráðningarsamningum til hvers er ætlast af háskólakennurum, að ekki megi íþyngja kennurum um of með eftirliti með þeirra störfum, að gæðakerfið verði að endurspegla vísinda- og menntastefnu skólans og að það verði að vera ljóst hvernig bregðast skuli við ef tilteknir einstaklingar sinna starfi sínu illa.

Að umræðum loknum bar rektor upp svohljóðandi tillögu sína:

„Deildarforsetum verði falið undir forystu rektors að ganga frá endanlegri tillögu um formlegt gæðakerfi Háskólans til háskólaráðs.“

Samþykkt með þorra atkvæða og einn var á móti.

Til máls tóku undir þessum dagskrárlið, auk rektors, Þorsteinn Vilhjálmsson, Þorsteinn Loftsson, Þórólfur Matthíasson, Stefán Arnórsson, Guðrún Kvaran, Jón Atli Benediktsson, Gylfi Magnússon, Þórólfur Matthíasson, Jón Atli Benediktsson og Vilhjálmur Árnason.

Kl. 15:10 - 15:30 - Kaffihlé

Kl. 15:30 - Dagskrárliður 6

Tillögur að ályktunum háskólafundar um einstök málefni, sem fyrir liggja.

Fimm tillögur lágu fyrir fundinum, fjórar sem sendar voru inn og ein sem samþykkt var í byrjun fundarins að taka á dagskrá. Rektor lagði til að brugðið yrði frá dagskrá fundarins og tillögurnar teknar fyrir í eftirfarandi röð:

6.4 Tillaga Guðfinns Sigurvinssonar, fulltrúa stúdenta, til ályktunar um bætt aðgengi hreyfihamlaðra nemenda í Háskóla Íslands.
Fyrir tillögunni mælti Baldvin Þór Bergsson, í stað Guðfinns Sigurvinssonar, sem er forfallaður. Eftir að hafa kynnt tillöguna dró Baldvin hana til baka í ljósi þess að mjög svipuð tillaga var samþykkt á síðasta háskólafundi, þar sem málefni hreyfihamlaðra voru sett í tiltekinn farveg í stjórnsýslu skólans.

6.3 Tillaga Ingibjargar Lindar Karlsdóttur, fulltrúa stúdenta, til ályktunar um málefni foreldra.
Ingibjörg Lind Karlsdóttir gerði grein fyrir tillögunni. Lagði hún fram breytingartillögu, sem komi í stað fyrri tillögu hennar:

Háskólafundur fagnar því að skipaður hafi verið samráðshópur um fjölskyldumál sem vinnur nú ötullega að því að móta stefnu Háskóla Íslands í þeim efnum. Fundurinn óskar eftir því að niðurstöður samráðshópsins verði ræddar nánar á næsta háskólafundi og að stefna skólans í fjölskyldumálum ákveðin í framhaldi af því.

Rektor gaf orðið laust. Enginn tók til máls undir þessum lið.

Rektor bar tillöguna undir atkvæði.

Samþykkt samhljóða.

6.5 Tillaga rektors að breytingu á 9. gr. reglna um skipan og fundarsköp háskólafundar.

Samþykkt var í upphafi fundar að bæta þessari tillögu við dagskrá fundarins.

Aftast í 9. gr. reglna um fundarsköp háskólafundar bætist við nýr málsliður, svohljóðandi:

Auk þess á forstjóri Landspítala-háskólasjúkrahúss sæti og atkvæðisrétt á háskólafundi, vegna náinnar samvinnu Háskóla Íslands við háskólasjúkrahúsið.

Skýring:
Hinn 10. maí 2001 var undirritaður samstarfssamningur milli Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahúss um uppbyggingu háskólasjúkrahúss og kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindagreinum. Í 7. kafla samningsins eru nokkur stefnumótandi ákvæði, m.a. ákvæði um að samningsaðilar séu sammála um að reglum háskólafundar verði breytt í þá veru að Landspítali-háskólasjúkrahús eigi fulltrúa á háskólafundi. Tillaga þessi er lögð fram til að standa við þá viljayfirlýsingu.

Samningurinn er mikilvægur fyrir báða aðila. Hann gildir um samskipti og samvinnu Landspítala-háskólasjúkrahúss og Háskóla Íslands um kennslu, rannsóknir og þjálfun í heilbrigðisvísindagreinum sem kenndar eru við Háskólann og stundaðar eru á Landspítala-háskólasjúkrahúsi og myndar ramma um samskipti samningsaðilanna. Á grundvelli samningsins verða gerðir skuldbindandi samningar um sameiginlega starfsmenn, starfsaðstöðu og fjármál, auk þess sem verklagsreglur verða settar um einstaka þætti. Unnið er að framhaldi samningsgerðar og stefnt að lúkningu hennar fyrir 1. desember n.k.

Samningurinn formfestir samstarf Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahúss um þessi atriði:
·    Stefnumörkun.
·    Starfsmannamál.
·    Skipulag háskólanáms á Landspítala-háskólasjúkrahúsi.
·    Grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir.
·    Fræðslustarf fyrir starfsmenn beggja stofnana og almenning.

Markmið samningsins er að efla spítalann sem háskólasjúkrahús, þannig að fræðileg og verkleg menntun og kennsla heilbrigðisstétta á Íslandi verði sambærileg því sem best gerist á hliðstæðum stofnunum erlendis. Sömuleiðis munu aðilar samningsins sameiginlega stuðla að framgangi vísindarannsókna heilbrigðisstétta til framþróunar í læknisfræði, hjúkrunarfræði og öðrum heilbrigðisvísindagreinum, sem samningurinn tekur til. Jafnframt er samningnum ætlað að stuðla að sem bestri nýliðun heilbrigðisstétta á Landspítala-háskólasjúkrahúsi til að tryggja viðhald og nýsköpun fræðilegrar þekkingar á sjúkrahúsinu. Þá er samningnum ætlað að bæta aðgengi vísindamanna að rannsóknaefnivið og tækjum Landspítala-háskólasjúkrahúsi í samræmi við lög og reglur.

Rektor gaf orðið laust. Enginn tók til máls undir þessum lið.

Rektor bar tillöguna undir atkvæði.

Samþykkt samhljóða.

6.1 Tillaga forseta lagadeildar og viðskipta- og hagfræðideildar til ályktunar um skiptingu fjárveitinga.

Tillagan er svohljóðandi:

Skipting fjárveitinga
Háskólafundur ályktar að framvegis skuli það fé, sem Háskóli Íslands fær greitt frá ríkinu vegna kennslu, skiptast milli einstakra deilda Háskólans eftir þeim reglum og viðmiðunum sem lagðar eru til grundvallar í samningi menntamálaráðuneytisins og Háskólans skv. 1. mgr. 19. gr. Laga nr. 136/1997 og fram koma í reglum ráðuneytisins um kennslukostnað skv. 20. gr. sömu laga. Sömu sjónarmið skuli lögð til grundvallar við skiptingu á fé til rannsókna og húsnæðis.

Greinargerð
1.    Reglur ráðuneytisins um kennslukostnað eru byggðar á mati þess hver sé raunverulegur kostnaður við kennslu hvers nemanda í einstökum námsgreinum. Þótt yfirstjórn Háskólans telji að þessi kostnaður sé of lágt áætlaður hefur hún fallist á að leggja reglurnar til grundvallar með því að skrifa undir samning við ráðuneytið þar sem vísað er til þeirra.

2.    Ef umtalsverður munur er á fjárframlögum ríkisins til kennslu í einstökum greinum og framlögum Háskólans vegna sömu kennslu er engin hvatning fyrir einstakar háskóladeildir til þess að auka afköst sín og þar með auka tekjur skólans.

3.    Ef fjárframlög ríkisins eru umtalsvert meiri en framlög Háskólans til kennslu greinar, sem jafnframt er kennd í öðrum háskólum, verður samkeppnisstaða hlutaðeigandi háskóladeildar önnur og lakari en sambærilegra deilda í öðrum háskólum. Það kynni að leiða til fækkunar nemenda við Háskóla Íslands og þar með samdráttar í tekjum skólans.

Ágúst Einarsson mælti fyrir tillögunni. Í máli hans kom m.a. fram að tillagan feli í sér að deililíkan Háskólans verði numið úr gildi. Tillagan er komin til vegna óviðunandi samkeppnisstöðu lagadeildar og viðskipta- og hagfræðideildar við aðra skóla á háskólastigi í landinu, sem fá sömu upphæð vegna kennslu fyrir hvern nemanda og Háskóli Íslands og hafa að auki heimild til að innheimta umtalsverð skólagjöld.

Rektor gaf orðið laust.

Flestir þeirra sem til máls tóku sýndu tillögunni og þeirri erfiðu samkeppnisaðstæðum sem þessar deildir eru í skilning, en jafnframt var bent á að útilokað væri fyrir fundinn að samþykkja tillöguna, enda feli hún í raun sér að nokkrar háskóladeildir yrðu lagðar niður. Rót vandans væru of lágar fjárveitingar til Háskólans. Endurskoða þyrfti kennslusamninginn í ljósi breyttra aðstæðna og koma á árangurstengdum rannsóknasamningi við stjórnvöld.

Í umræðunni kom ennfremur fram að sterkara væri fyrir deildir að snúa bökum saman en að kljást innbyrðis, að nauðsynlegt væri að ræða sérstaklega á grundvelli tillögunnar tilfærslu fjár frá fjölmennum greinum til fámennra greina, að nauðsynlegt væri að bregðast við slæmri samkeppnisstöðu þeirra deilda sem um ræðir í tillögunni, að sannfæra þyrfti stjórnvöld um að Háskólinn þurfi hærri fjárveitingar á hvern nemanda en gerist í Svíþjóð vegna fámennisins hér og að skólagjöld geti komið til greina sem lausn til að bæta samkeppnisstöðu tiltekinna greina.

Rektor gerði grein fyrir því að í raun væri hvorki hægt að fella né samþykkja tillögu lagadeildar og viðskipta- og hagfræðideildar og lagði því fram nýja tillögu er hljóðar svo:

Nokkrar námsgreinar og deildir Háskóla Íslands, einkum lagadeild og viðskipta- og hagfræðideild, horfast í augu við samkeppni við innlenda skóla sem njóta framlaga úr ríkissjóði. Háskólafundur fer þess á leit við menntamála- og fjármálaráðuneyti að Háskólanum verði gert kleift að mæta þessari samkeppni á jafnréttisgrundvelli. Vilji stjórnvöld að áfram verði boðið upp á nám í ýmsum fámennum greinum við Háskóla Íslands er eina leiðin að auka fjárveitingar til skólans. Að öðrum kosti kann að koma til þess, að ræða þurfi við stjórnvöld um að fámennar greinar verði lagðar niður. Háskólafundur felur rektor að hefja þegar viðræður við stjórnvöld um þennan alvarlega vanda.

Rektor gaf orðið laust um tillögu sína.

Ágúst Einarsson. deildarforseti og annar flutningsmanna tillögu lagadeildar og viðskipta- og hagfræðideildar tók undir orð rektors um að erfitt væri að samþykkja eða fella tillöguna. Óskaði hann eftir því að tillagan yrði ekki borin undir atkvæði og lýsti jafnframt yfir stuðningi við tillögu rektors, þar sem hún tekur á öllum efnisatriðum fyrri tillögunnar.

Þá bárust tvær breytingartillögur við tillögu rektors:

a) Þorvarður Tjörvi Ólafsson bar fram tillögu um að bætt yrði við fyrstu málsgreinina orðunum „...framlaga úr ríkissjóði á sömu forsendum og Háskóli Íslands“.

Rektor bar breytingartillöguna undir atkvæði.

Felld með 13 atkvæðum, 9 greiddu atkvæði með tillögunni.

b) Þorsteinn Vilhjálmsson bar fram tillögu um að fellt yrði niður setningin: „Að öðrum kosti kann að koma til þess, að ræða þurfi við stjórnvöld um að fámennar greinar verði lagðar niður“.

Rektor bar tillöguna undir atkvæði.

Samþykkt með 22 atkvæðum, en 5 greiddu atkvæði á móti tillögunni.

Rektor bar tillöguna í heild sinni, svo breytta, undir atkvæði:

Samþykkt einróma, en tveir fulltrúar lagadeildar sátu hjá.

Til máls tóku undir þessum dagskrárlið, auk rektors, Ágúst Einarsson, Hörður Filippusson, Stefán Arnórsson, Baldvin Þór Bergsson, Páll Sigurðsson, Ingjaldur Hannibalsson, Þórólfur Matthíasson, Gylfi Magnússon, Þorsteinn Vilhjálmsson, Björn Þ. Guðmundsson, Vilhjálmur Árnason, Þorvarður Tjörvi Ólafsson, Gunnlaugur H. Jónsson, Stefán Ólafsson, Gunnlaugur A. Jónsson og Rannveig Traustadóttir.

6.1 Tillaga stúdenta til ályktunar um að háskólafundur staðfesti afstöðu háskólaráðs frá 10. ágúst 1995 til gjaldtöku af nemendum.

Rektor kynnti ný framlögð gögn, þ.e. „Bókun háskólaráðs í tengslum við tillögu að lagabreytingu sem nauðsynleg var til að treysta lagagrundvöll undir töku skrásetningargjalds frá 10. ágúst 1995.“ Rektor dreifði einnig „Tillögu deildarforseta til ályktunar um innritunargjöld, er komi í stað tillögu stúdenta um sama efni.“

Rektor gaf Þorvarði Tjörva Ólafssyni orðið sem kynnti svohljóðandi tillögu stúdenta:

Háskólafundur mótmælir fyrirhugaðri hækkun innritunargjalda við Háskóla Íslands. Háskólafundur ítrekar afstöðu háskólaráðs sem birtist í bókun þann 10. ágúst árið 1995 að innheimta gjalda af stúdentum til rekstrar skólans sé ekki vilji Háskólans og stefna beri að lækkun innritunargjalda. Háskólafundur tekur undir fyrri kröfu háskólaráðs um að Alþingi auki fjárveitingar til skólans svo unnt verði að lækka þessi gjöld.

Greinargerð
Í nýju fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir 40% hækkun innritunargjalda stúdenta við Háskóla Íslands. Innritunargjöld eiga samkvæmt lögum aðeins að standa undir kostnaði við innritun nemenda en ekki auka almennar tekjur skólans eða standa undir kostnaði við kennslu eins og boðað er í nýju fjárlagafrumvarpi.

Stúdentaráð stóð fyrir undirskriftasöfnun til að mótmæla fyrirhuguðum hækkunum og skoraði á stúdenta að leggja sér lið. Viðbrögð stúdenta voru skýr og afdráttarlaus. Á rúmum tveimur sólarhringum skrifuðu rúmlega 3100 stúdentar undir mótmælin og kröfðust þess að ráðherrar fjármála og menntamála dragi hækkun innritunargjalda til baka. Þessi fjöldi undirskrifta lýsir órofa samstöðu meðal stúdenta og eindregnum vilja þeirra til þess að brjóta á bak aftur tilraun stjórnvalda til að koma á skólagjöldum við Háskólann.

Háskólayfirvöld verða að standa fast á þeirri stefnu sinni að hafna skólagjöldum. Háskólafundur ítrekar því þá afstöðu sem birtist í bókun háskólaráðs frá árinu 1995. Aðeins er liðið rúmt ár frá því að rektor lagði fram bókun í æðstu stjórn skólans þess efnis að gjaldtaka við hið svokallaða MBA nám fæli ekki í sér stefnubreytingu hvað varðar upptöku skólagjalda.

Í máli Tjörva kom m.a. fram að í hvert sinn sem skrásetningargjöld hafi verið hækkuð hafi verið tekið fram í bókunum háskólaráðs að um tímabundna neyðarráðstöfun væri að ræða. Loks áréttaði Tjörvi að hér væri á ferðinni stefnumarkandi ákvörðun en ekki framkvæmdaratriði og því væri fráleitt að vísa málinu frá eða til háskólaráðs.

Rektor greindi frá því að Háskólinn hefði aldrei óskað eftir því við stjórnvöld að fá heimild til að innheimta skólagjöld. Á fundinum hefði hins vegar komið fram það sjónarmið að e.t.v. væru aðstæður orðnar slíkar að skólinn væri tilneyddur að óska eftir slíkri heimild. Hér væri hins vegar á ferðinni slíkt grundvallarmál að ekki væri unnt að fjalla um það nægilega á þessum fundi. Þá reifaði rektor framlagt yfirlit frá framkvæmdastjóra fjárreiðusviðs um áætlaðan kostnað annan en kennslukostnað af skrásetningu 6.500 stúdenta á háskólaárinu 2002-2003, reiknað út frá rauntölum ársins 2001.

Rektor gaf orðið laust.

Í umræðunni kom m.a. fram að stúdentar vilja ekki að umræðan snúist um tæknileg atriði s.s. skilgreiningu á því hvað sé réttnefnt skrásetningargjald og hvað skólagjald, að ræða þurfi hvort Háskólinn eigi að vera hlutlaus í þessu máli eða taka skýra afstöðu, að opin og óþvinguð umræða um skólagjöld þurfi að fara fram innan Háskólans á næstunni og að óljóst væri hvort umrædd hækkun skráningargjalda væri stefnumarkandi eða eingöngu gjaldskrárbreyting í takt við verðlagsþróun í landinu.

Að umræðu lokinni bar rektor svohljóðandi tillögu deildarforseta til ályktunar um innritunargjald, er komi í stað framkominnar tillögu stúdenta um sama efni, undir atkvæði.

Háskólafundur samþykkir að vísa tillögu stúdenta um innritunargjöld til háskólaráðs þar sem viðræður eru nú í gangi milli rektors og stjórnvalda um fjárhagsleg samskipti Háskóla Íslands og ríkisvaldsins. Háskólafundur telur eðlilegt að efni tillögunnar verði þáttur þeirra viðræðna. Jafnframt er rektor falið að gera næsta háskólafundi grein fyrir þessum viðræðum.

Tillaga deildarforseta var samþykkt með 25 atkvæðum, en 11 voru á móti. Þar með kom tillaga stúdenta ekki til atkvæðagreiðslu.

Til máls tóku undir þessum dagskrárlið, auk rektors Þorvarður Tjörvi Ólafsson, Dagný Jónsdóttir, Þorsteinn Vilhjálmsson, Gylfi Magnússon, Ólafur Þ. Harðarson, Ágúst Einarsson, Kristín Jónsdóttir og Stefán Ólafsson.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 17.15.

Rektor þakkaði fundarmönnum fyrir fundinn og bauð þeim að þiggja léttar veitingar.

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 6. háskólafundi:

1.    Dagskrá háskólafundar 1. nóvember 2001.
2.    Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
3.    Þróunaráætlanir guðfræðideildar, læknadeildar, lagadeildar, viðskipta- og hagfræðideildar, heimspekideildar, tannlæknadeildar, verkfræðideildar, raunvísindadeildar, félagsvísindadeildar, lyfjafræðideildar, Raunvísindastofnunar, Stofnunar Árna Magnússonar, Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands, Landsbókasafns-háskólabókasafns og Orðabókar Háskólans.
4.    Umsagnir vísindanefndar, kennslumálanefndar, fjármálanefndar og jafnréttisnefndar um þróunaráætlanir deilda og stofnana.
5.    Framhald vinnu við þróunaráætlanir deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi. Tillaga rektors.
6.    Málsmeðferð stefnumótunarstarfs. Greinargerð og tillaga starfshóps um vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands.
7.    Formlegt gæðakerfi Háskóla Íslands. Drög, dags. 14. júní 2000.
8.    Uppbygging Háskóla Íslands næstu árin. Hugmyndir rektors. Minnisblað lagt fram á háskólafundi 1. nóvember 2001.
9.    Hvað verður um Vatnsmýrina? Minnisblað rektors fyrir morgunverðarfund Reykjavíkurborgar í samvinnu við Borgarfræðasetur 10. október 2001.
10.    Staða undirbúningsvinnu við þekkingarþorp, háskólatorg og skipulag háskólasvæðisins. Minnisblað frá rektor og formanni húsnæðis- og skipulagsnefndar Háskóla Íslands til háskólafundar 1. nóvember 2001.
11.    Um stjórnkerfi Háskólans og breytingar á því á síðastliðnum þremur árum. Minnisblað frá stjórnsýslusviði, dags. 29.10.2001.
12.    Skipting fjárveitinga. Tillaga til ályktunar frá Ágústi Einarssyni, forseta viðskipta- og hagfræðideildar, og Páli Sigurðssyni, forseta lagadeildar.
13.    Háskólafundur staðfestir afstöðu háskólaráðs til gjaldtöku af nemendum. Tillaga til ályktunar frá stúdentum.
14.    Tillaga deildarforseta til ályktunar um innritunargjöld, er komi í stað framkominnar tillögu stúdenta um sama efni.
15.    Bókun háskólaráðs í tengslum við tillögu að lagabreytingu sem nauðsynleg var til að treysta lagagrundvöll undir töku skrásetningargjalds frá 10. ágúst 1995.
16.    Áætlaður kostnaður annar en kennslukostnaður af skrásetningu 6500 stúdenta á háskólaárinu 2002-03, reiknað út frá rauntölum ársins 2001. Yfirlit frá fjárreiðusviði, dags. 23.10.2001.
17.    Skrásetningargjald Háskóla Íslands 1990-2002 og uppreiknað með áætlaðri meðalvísitölu ársins 2002. Yfirlit frá fjárreiðusviði, dags. 17.2.2001.
18.    Málefni foreldra í öndvegi. Tillaga til ályktunar frá Ingibjörgu Lind Karlsdóttur, fulltrúa stúdenta.
19.    Bætt aðgengi hreyfihamlaðra nemenda í Háskóla Íslands. Tillaga til ályktunar frá Guðfinni Sigurvinssyni, fulltrúa stúdenta.