Skip to main content

21. háskólafundur 17. nóvember 2006

21. háskólafundur haldinn 17. nóvember 2006 í Hátíðasal Háskóla Íslands á 2. hæð í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13.00-18.00

Dagskrá

Kl. 13.00 - 13.05  Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir framkomnum gögnum.
Kl. 13.05 - 13.15  Dagskrárliður 1. Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands.
Kl. 13.15 - 13.20  Dagskrárliður 2. Tillaga að breytingu á reglum um skipan og fundarsköp háskólafundar frá 5. nóvember 1999.
Kl. 13.20 - 14.10  Dagskrárliður 3. Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Efling tengsla við atvinnulíf. Mótun fyrirkomulags um akademísk gestastörf.
Kl. 14.10 - 15.00  Dagskrárliður 4. Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Endurskoðun ráðningarferlis akademískra starfsmanna.
Kl. 15.00 - 15.20  Kaffihlé.
Kl. 15.20 - 15.50  Dagskrárliður 4 (frh.). Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Endurskoðun ráðningarferlis akademískra starfsmanna.
Kl. 15.50 - 17.40  Dagskrárliður 5. Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Endurskoðun á skiptingu Háskóla Íslands í deildir og skorir.
Kl. 17.40 - 18.00  Dagskrárliður 6. Tillaga að útfærslu á siðareglum Háskóla Íslands, sbr. háskólafundi 26. maí og 17. nóvember 2005.
Kl. 18.00  Rektor slítur fundi.
 

Kl. 13.00-13.05: Fundarsetning

Rektor setti 21. háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Þá gerði rektor grein fyrir útsendum og framlögðum fundargögnum, dagskrá og tímaáætlun fundarins. Fundarritari var Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri Háskólans.

 

Kl. 14.05 - 14.20 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar mál sem eru efst á baugi hjá Háskóla Íslands

1. Mál sem tengjast framkvæmd stefnu Háskóla Íslands 2006-2011

Stefnuskjöl deilda

Allar deildir hafa nú gengið frá stefnuskjölum sínum og hefur verið gerð áætlun um birtingu þeirra.

Verkefnisstjórn um framkvæmd stefnu
Í stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 segir að rektor skipi hóp til að annast eftirfylgni með framkvæmd stefnunnar. Rektor hefur nú skipað þennan hóp. Eins og við skipun verkefnisstjórnar stefnumótunarinnar veturinn 2005-2006 var leitað til fólks innan Háskólans sem hefur sérþekkingu á sviði stefnumótunar og eftirfylgni. Hópurinn er skipaður þeim Snjólfi Ólafssyni, prófessor í viðskipta- og hagfræðideild, sem er formaður, Margréti S. Björnsdóttur, forstöðumanni Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, og Snorra Þór Sigurðssyni, prófessor í raunvísindadeild. Verkefnisstjórnin mun verða deildum innan handa við framkvæmd stefnunnar.

Skipun gæðanefndar háskólaráðs
Í samræmi við stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 hefur háskólaráð skipað gæðanefnd sem eina af starfsnefndum háskólaráðs. Nefndin tók til starfa 1. júlí 2006 og er skipuð þeim Jóni Atla Benediktssyni, prófessor í verkfræðideild, sem er formaður, Fjólu Einarsdóttur, meistaranema í félagsvísindadeild, Gylfa Zoëga, prófessor í viðskipta- og hagfræðideild, Hólmfríði Garðarsdóttur, dósent í hugvísindadeild, Ingileif Jónsdóttur, prófessor í læknadeild og Lárusi Thorlacius, prófessor í raunvísindadeild. Hlutverk nefndarinnar er m.a. að tryggja gæði kennslu, rannsókna og stjórnunar við Háskóla Íslands, auk þess að sinna öðrum þeim verkefnum sem rektor, háskólaráð eða háskólafundur fela henni.

Nýtt skipurit sameiginlegrar stjórnsýslu.
Fyrir skömmu tók gildi nýtt skipurit sameiginlegrar stjórnsýslu Háskólans sem endurspeglar áherslur í stefnu hans. Samkvæmt hinu nýja skipuriti skiptist sameiginleg stjórnsýsla í sex svið, fjármálasvið, framkvæmda- og tæknisvið, kennslusvið, markaðs- og samskiptasvið, starfsmannasvið og vísindasvið, auk skrifstofu rektors sem m.a. fer með þróunarmál og gæðamál, og innri endurskoðunar. Rektor vakti athygli á því að á tiltölulega skömmum tíma hefur konum fjölgað töluvert í yfirstjórn Háskólans, en þær eru nú í meirihluta í háskólaráði, auk þess sem fjórir deildarforsetar, tveir sviðsstjórar og tveir formenn starfsnefnda háskólaráðs eru konur.

Mótun fyrirkomulags um akademísk gestastörf
Eitt af fyrstu verkefnum gæðanefndar var að undirbúa tillögur um mótun fyrirkomulags um akademísk gestastörf við Háskóla Íslands, sem er í samræmi við stefnu Háskóla Íslands um eflingu tengsla við atvinnulíf. Tillögur gæðanefndar eru til umfjöllunar á þessum háskólafundi.

Endurskoðun ráðningarferils akademískra starfsmanna
Fyrir skömmu skipaði rektor starfshóp undir forystu Páls Hreinssonar, prófessors og forseta lagadeildar, sem hefur það hlutverk að endurskoða ráðningarferil og reglur um framgang akademískra starfsmanna. Markmiðið er að gera ráðningarferlið einfaldara, fljótvirkara og skilvirkara um leið og hert verður á faglegum kröfum.

Endurskoðun á skiptingu Háskóla Íslands í deildir og skorir
Nýlega skipaði háskólaráð starfshóp undir forystu Ólafs Þ. Harðarsonar, prófessors og forseta félagsvísindadeildar og varaformanns háskólaráðs, sem er ætlað að gera tillögu um endurskoðun á núverandi skiptingu Háskólans í deildir og skorir. Er þetta í samræmi við ábendingar í úttektarskýrslum og stefnu Háskólans. Fyrstu hugmyndir starfshópsins verða kynntar á þessum fundi, en gert er ráð fyrir að málið verði í vinnslu fram á næsta vor.

Viðræður við stjórnvöld um fjármögnun stefnu Háskóla Íslands 2006-2011
Í kjölfar stefnumótunar Háskólans voru teknar upp viðræður við stjórnvöld um fjármögnun stefnunnar. Forsenda Háskólans í viðræðunum er sú sannfæring að skólinn gegni afar mikilvægu hlutverki í áframhaldandi uppbyggingu íslensks samfélags í krafti þeirrar þekkingar sem býr í starfsfólki hans, deildum og stofnunum. Það er til marks um þá þekkingu og getu sem er innan Háskólans að honum hefur tekist á aðeins einu ári að marka sér þá skýru og metnaðarfullu framtíðarsýn sem birtist í stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 og hrint henni í framkvæmd. Á sama tíma hefur tekist að skapa nýjan skilning og sátt í samfélaginu um stöðu og hlutverk Háskólans og mikil samstaða ríkir innan skólans um stefnu hans. Sá einhugur sem ríkir í skólanum og sá metnaður sem felst í stefnu hans hefur gert það að verkum að umræða um háskólamenntun hefur fengið á sig nýjan blæ. Sést þetta m.a. á því að samkvæmt fjölmiðlagreiningu er að meðaltali fjallað tíu sinnum á dag um Háskóla Íslands í helstu fjölmiðlum landsins. Viðræðunum um fjármögnun stefnunnar hefur miðað vel áfram og eru þær nú á lokastigi. Rektor sagði þetta ekki síst vera að þakka því afburðafólki sem hefur tekið þátt í undirbúningi og framkvæmd viðræðnanna. Ber þar sérstaklega að nefna Tryggva Þór Herbertsson, prófessor í viðskipta- og hagfræðideild og formann fjármálanefndar háskólaráðs, sem er formaður samninganefndar Háskólans, sem og Guðmund Árnason, ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins sem hefur leitt viðræðurnar af hálfu þess. Aðrir í samninganefnd Háskólans eru Gylfi Zoëga, prófessor viðskipta- og hagfræðideild, Guðmundur R. Jónsson, sviðstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, Ingjaldur Hannibalsson, prófessor í viðskipta- og hagfræðideild, Jón Atli Benediktsson, prófessor í verkfræðideild, þróunarstjóri og aðstoðarmaður rektors, Róbert Haraldsson, dósent og varaforseti hugvísindadeildar, Sigrún Aðalbjarnadóttir, prófessor í félagsvísindadeild, og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðstjóri fjármálasviðs.

2. Önnur mál sem eru á döfinni hjá Háskóla Íslands

Sameining Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.
Hugmyndin um hugsanlega sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands kom fyrst fram fyrir u.þ.b. fjórum árum. Síðastliðinn vetur komst svo skriður á málið er menntamálaráðherra skipaði nefnd með fulltrúum beggja skóla til að ræða fýsileika mögulegrar sameiningar. Niðurstaða nefndarinnar var send til umsagnar í öllum deildum Háskólans og rædd á háskólafundi. Allar deildir voru sammála um að áfram yrði unnið að sameiningu. Menntamálaráðuneytið skipaði nýja nefnd í haust til að gera tillögur að framkvæmd sameiningarferlisins. Fyrir fundinum liggur skýrsla nefndarinnar, en menntamálaráðherra mun á næstunni leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um sameiningu skólanna. Höfuð tilgangur sameiningarinnar er að efla kennaramenntun í landinu og fellur það vel að stefnu Háskóla Íslands.

Reglur og verkefni í kjölfar laga um háskóla nr. 63/2006
Ein mikilvægustu nýmæli nýrra laga um háskóla nr. 63/2006 er stóraukin áhersla á gæðamál. Um þessar mundir er hafin vinna við innleiðingu reglna sem menntamálaráðuneytið setur vegna laganna. Meðal þeirra eru formleg viðmið um æðri menntun og prófgráður. Á grundvelli þessara reglna er nú hafin vinna við lýsingu á inntaki námsleiða í deildum Háskólans út frá þekkingu, hæfni og færni við námslok, sem er liður í umsókn Háskóla Íslands um viðurkenningu fyrir fræðasvið sín, en lögin mæla fyrir um að allir háskólar í landinu þurfi slíka viðurkenningu. Umsjón með þessu verkefni hafa Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, Guðrún Geirsdóttir, dósent í félagsvísindadeild, Sigurður J. Grétarsson, prófessor í félagvísindadeild og formaður kennslumálanefndar, og Gísli Fannberg, verkefnisstjóri á kennslusviði.

Fræðasetur Háskóla Íslands á landsbyggðinni
Í október sl. var opnað í Stykkishólmi Háskólasetur Snæfellsness þar sem fram fer gróskumikil rannsóknastarfsemi, einkum á sviði líffræði. Hér er á ferðinni fimmta háskólasetrið innan vébanda Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands og eru uppi áform um að stofna hliðstæð setur á Vestfjörðum, Húsavík og á Austurlandi.

Framkvæmdir
Umfangsmiklar framkvæmdir standa nú yfir á háskólasvæðinu. Í Aðalbyggingu er verið að leggja lokahönd á endurbætur á kapellunni og áformað er að vígja hana í lok þessa mánaðar. Einnig er nýlega lokið endurgerð salerna í byggingunni. Vinna við Háskólatorg gengur vel og er nokkurn veginn á áætlun. Verið að ræða við skipulagsyfirvöld um hvort breyta megi aðalskipulagi í því skyni að byggja 3. hæðina á Háskólatorg, en af því myndi hljótast tiltölulega lítill kostnaður miðað við ávinninginn. Áfram er unnið að undirbúningi byggingar nýs háskólasjúkrahúss og hefur að undanförnu verið farið yfir þarfagreiningar heilbrigðisvísindadeilda sem fyrirhugað er að verði á spítalalóðinni, þ.e. hjúkrunarfræðideild, læknadeild, lyfjafræðideild og tannlæknadeild auk Keldna. Þessi vinna er langt komin og stefnt er að því að ljúka henni í þessum mánuði. Vinnan hefur verið í höndum Guðmundar R. Jónssonar, sviðsstjóra framkvæmda- og tæknisviðs, Kristjáns Erlendssonar, dósents og varaforseta læknadeildar, og Sigurlaugar I. Lövdahl, rekstrarstjóra læknadeildar. Þá er nú unnið að þarfagreiningu fyrir Vísindagarða, m.a. í því skyni að undirbúa ákvörðun um hvaða einingum Háskólans verður þar fyrir komið. Jafnframt stendur yfir kynning á Vísindagörðum fyrir fyrirtækjum og stofnunum og er mikill áhugi fyrir verkefninu. Gert er ráð fyrir að fyrsti áfangi verði tilbúin um mitt ár 2008. Stjórn Vísindagarða ehf. er skipuð þeim Hilmari Janussyni, þróunarstjóra hjá Össuri hf., sem er formaður, Kristínu Ingólfsdóttur, rektor Háskóla Íslands, Ingibjörgu S. Pálmadóttur, hönnuði og fjárfesti, Ingjaldi Hannibalssyni, prófessor í viðskipta- og hagfræðideild, og Frosta Sigurjónssyni, stofnanda og forstjóra Dohop Ltd. Framkvæmdastjóri er Eiríkur Hilmarsson, sem gegnt hefur starfi varahagsýslustjóra. Loks er unnið er að undirbúningi byggingar fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og ríkisstjórnin hefur í hyggju að reisa nýtt hús vestan Suðurgötu fyrir hina nýju Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Dagatal Háskóla Íslands 2006-2007
Rektor benti fundarmönnum á framlagt dagatal Háskóla Íslands 2006-2007 þar sem getur að líta yfirlit yfir alla helstu viðburði á yfirstandandi háskólaári.

Kl. 13.15 - 13.20 - Dagskrárliður 2: Tillaga að breytingu á reglum um skipan og fundarsköp háskólafundar frá 5. nóvember 1999

Rektor gerði grein fyrir málinu. Samkvæmt ákvæðum laga nr. 40/2006, sem tóku gildi þann 1. september 2006, hafa Orðabók Háskólans og Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi sameinast þremur öðrum stofnunum íslenskra fræða í nýrri Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Til samræmis er lagt til að í 9. gr. reglna um skipan og fundarsköp háskólafundar verði upptalningu þeirra háskólastofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi breytt á þann veg að í stað Orðabókar Háskólans og Stofnunar Árna Magnússonar komi Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Einnig er lagt til að í heiti greinarinnar verði vísað til „háskólastofnana“ í stað „stofnana Háskóla Íslands“. Hugtakið „háskólastofnun“ er vanalega notað um hvort tveggja, stofnanir sem eru beinlínis hluti af Háskóla Íslands, s.s. Raunvísindastofnun og Endurmenntunarstofnun, eða stofnanir sem eru í mjög nánum tengslum við Háskólann, s.s. Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Hin nýja Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tilheyrir síðarnefnda flokknum.

Rektor gaf orðið laust.

Enginn tók til máls undir þessum lið.

Rektor bar tillöguna undir atkvæði.

- Samþykkt einróma.

 

Kl. 13.20 - 14.10 - Dagskrárliður 3: Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Efling tengsla við atvinnulíf. Mótun fyrirkomulags um akademísk gestastörf.

Rektor bauð Jóni Atla Benediktssyni, prófessor og formanni gæðanefndar, að kynna málið. Greindi Jón Atli frá því að í stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 væri m.a. gert ráð fyrir því að Háskólinn efli verulega tengsl sín við rannsóknastofnanir, framsækin fyrirtæki og aðra alþjóðlega viðurkennda háskóla. Framlagðar tillögur gæðanefndar um akademísk gestastörf miðuðu að því að auðvelda Háskóla Íslands að koma á slíkum tengslum.

Í tillögum gæðanefndar væri gert ráð fyrir því að í umboði rektors geti deildir boðið völdum einstaklingum svonefnd gestastörf og verði starfsheiti þeirra ýmist gestalektor, gestadósent eða gestaprófessor. Til aðgreiningar frá hefðbundnum akademískum störfum væri um að ræða hlutastarf, enda hefðu viðkomandi aðalstarf hjá samstarfsaðilum sem Háskólinn vill tengjast.

Með tillögum nefndarinnar fylgdu verklagsreglur sem útfærðu nánar fyrirkomulag akademísku gestastarfanna og skilgreindu faglegar kröfur sem og hvernig staðið skuli að mati þeirra einstaklinga sem til greina þykja koma í slík störf. Skýrði Jón Atli frá því að gæðanefnd legði til að gerðar verði ríkar faglegar kröfur til einstaklinga í gestastörfum, enda feli gestastarf m.a. í sér að viðkomandi geti leiðbeint í rannsóknanámi innan deildar. Þá gerðu tillögurnar ráð fyrir því að sett verði ákvæði um hámarkshlutfall gestastarfa í hverri deild.

Í tillögunum væri miðað við að ávallt verði gerður samningur við gestakennara um þætti á borð við réttindi og skyldur, kennslu í grunn- og framhaldsnámi, leiðbeiningu meistara- og doktorsnema, rannsóknir, stjórnun og birtingu ritverka í nafni Háskóla Íslands. Þá væri gert ráð fyrir að sú stofnun eða fyrirtæki sem viðkomandi gestakennari starfi hjá skuli eiga aðild að samkomulaginu og að hámarkslengd samnings verði 5 ár.

Gestastarf verði almennt ekki launað nema annað verði tekið fram í samningi. Þó verði hægt að ráða einstakling í sérstakt launað 20% gestastarf ef viðkomandi er alþjóðlega viðurkenndur á sínu sviði og uppfyllir ótvírætt þær hæfiskröfur sem gerðar eru.

Lagt væri til að íslensku heitin gestalektor, gestadósent og gestaprófessor verði þýdd á ensku sem Adjunct Professor, Adjunct Associate Professor og Adjunct Assistant Professor.

Rektor þakkaði Jóni Atla fyrir kynninguna og gaf orðið laust.

Málið var rætt ítarlega og lýstu fundarmenn almennt ánægju með tillögur gæðanefndar. Tillögurnar væru einfaldar og vel til þess fallnar að ná settum markmiðum. Með tillögunum væri gefinn skýr rammi fyrir aukin tengsl Háskólans við fræðimenn í háskólum jafnt sem fagfólk í fyrirtækjum og stofnunum. Lögðu fundarmenn áherslu á að gerðar verði ríkar kröfur til handhafa nafnbótanna. Einnig var á það bent að tilkoma akademískra gestastarfa mætti ekki verða til þess að hægja á fjölgun hefðbundinna starfa í Háskólanum.

Fram kom að gestastörf tíðkast víða við erlenda háskóla og að slíkt fyrirkomulag hafi gefið góða raun. Bentu fundarmenn á að tillögurnar fela í sér nýja möguleika fyrir Háskóla Íslands til að tengjast framúrskarandi fagfólki utan skólans. Háskólinn geti á grundvelli tillagnanna haft frumkvæði að því að bjóða afburða íslenskum vísindamönnum sem starfa á ólíkum fræðasviðum við erlenda háskóla aðstöðu við Háskóla Íslands. Búið væri að leggja mat á viðkomandi einstaklinga við erlendu skólana og því væri óþarft að láta fara fram ítarlega dómnefndarvinnu.

Bent var á að síðar meir mætti víkka út tillögurnar þannig að hægt væri að „lána“ kennara Háskólans til fyrirtækja á Íslandi og ekki aðeins til annarra háskóla erlendis.

Velti einn fundarmanna því upp hvort hægt væri að taka upp svonefnd „joint appointments“ við Háskólann, þ.e. að skilgreina störf vísindamanna í fleiri en einni grein og við fleiri en eina deild, m.a. til þess að efla þverfræðilegt samstarf.

Spurt var hvort gestakennarar, sem eiga að birta í nafni Háskólans, fái með því aðgang að sjóðum skólans, t.d. vinnumatssjóði? Var því svarað að handhafar gestakennaratitla hefðu ekki formlega stöðu starfsmanna og hefðu því ekki aðgang að sjóðum Háskólans. Sama gilti um gestakennara í launuðu 20% starfi, því samkvæmt núgildandi reglum þyrfti starfsmaður að vera í a.m.k. 50% starfshlutfalli til að geta sótt um styrk í vinnumatssjóði. Þegar fram liðu stundir kæmi til greina að breyta þessum reglum

Skiptar skoðanir voru um enskar þýðingar á heitunum gestalektor, gestadósent og gestaprófessor. Var því haldið fram að „Adjunct“ væri ekki hentug þýðing, en engin betri hugmynd kom fram.

Að umræðu lokinni bar rektor upp þá tillögu að tillögum gæðanefndar yrði vísað til háskólaráðs að teknu tilliti til þeirra athugasemda og ábendinga sem fram komu á fundinum.

- Samþykkt einróma.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Jóns Atla Benediktssonar, þau Ólafur Þ. Harðarson, Rúnar Vilhjálmsson, Friðrik Már Baldursson, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Rannveig Traustadóttir, Oddný G. Sverrisdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson, Inga Þórsdóttir, Einar Stefánsson, Kristján Erlendsson og Gunnlaugur H. Jónsson.

 

Kl. 14.10 - 15.00 - Dagskrárliður 4: Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Endurskoðun ráðningarferils akademískra starfsmanna

Rektor bauð Halldóri Jónssyni, sviðsstjóra vísindasviðs, að kynna málið í fjarveru Páls Hreinssonar, formanns starfshópsins sem undirbjó framlagðar tillögur um endurskoðun á ráðningarferli akademískra starfsmanna.

Hóf Halldór mál sitt á því að fara yfir aðdraganda og forsendur málsins. Framlagðar tillögur um endurskoðað ráðningarferli akademískra starfsmanna voru unnar af starfshópi rektors sem í sátu þau Páll Hreinsson, prófessor og forseti lagadeildar, formaður, Gísli Sigurðsson, rannsóknaprófessor við Stofnuna Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og formaður Félags háskólakennara, Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, sviðsstjóri starfsmannasviðs, Ingibjörg Harðardóttir, dósent í læknadeild, Jóhannes R. Sveinsson, dósent í verkfræðideild, Ólafur Þ. Harðarsson, prófessor og forseti félagsvísindadeildar og varaforseti háskólaráðs og Sigrún Valgarðsdóttir, jafnréttisfulltrúi. Með hópnum störfuðu þeir Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs, og Tryggvi Þórhallsson, lögfræðingur Háskólans.

Starfshópurinn tók í vinnu sinni mið af stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 og tillögum fyrri nefndar um sama verkefni. Einnig gekk hópurinn út frá því að tillögurnar skyldu falla að núverandi lagaramma, en hann kveður m.a. á um tvö þrep í ráðningarferlinu, þ.e. dómnefnd og tillögu deildarfundar, að auglýsa beri laus störf og að rökstyðja verði ákvörðun sem og að hámarkslengd tímabundinnar ráðningar skuli vera 5 ár.

Samkvæmt erindisbréfi starfshópsins var honum ætlað að gera tillögur um einföldun ráðningarferlis, tímabundna ráðningu, að tekið verði tillit til aldurs við ráðningar, að almennt verði krafist doktorsprófs við nýráðningar, og að kröfur við ráðningu og framgang verði auknar. Greindi Halldór frá því að starfshópurinn hefði einbeitt sér að ráðningarferlinu og hygðist að því búnu snúa sér að endurskoðun á kröfum við ráðningu og framgang.

Helstu vandamál við núverandi kerfi, sem tillögunum er ætlað að bæta úr eru þessar:

 • Að jafnaði líður of langur tími frá auglýsingu til ákvörðunar
 • Misræmis gætir í störfum og efnistökum dómnefnda
 • Erfitt er að setja fram rökstuðning fyrir niðurstöðu leynilegrar atkvæðagreiðslu, sem er grundvallarkrafa í stjórnsýslurétti
 • Margir aðilar koma að ferlinu (100 dómnefndir á ári)

Þá vék Halldór að tillögum starfshópsins, en þær taka til eftirtalinna efnisþátta:

 • Auglýsingar
 • Tímabundinnar ráðningar
 • Dómnefnda og rökstuðnings þeirra
 • Valnefnda, vinnulags þeirra og sjónarmiða við val

Varðandi fyrsta þáttinn, auglýsingu um laust starf, fela tillögur starfshópsins í sér eftirfarandi:

 • Áhersla er lögð á skilgreiningu deildar er byggi á stefnu og uppbyggingaráformum
 • Ekki verði auglýst opið (lektor/dósent/prófessor) heldur vísað á framgangskerfi
 • Auglýsingar verði styttar en vísað á nákvæmar leiðbeiningar á vefsetri
 • Meginreglan verði sú að auglýsa á alþjóðlegum vettvangi
 • Umsóknir verði einfaldaðar, t.d. með því að óska eftir aðeins einu eintaki af birtum ritverkum umsækjenda

Varðandi tímabundna ráðningu leggur hópurinn til eftirfarandi:

 • Upphafleg ráðning verði að jafnaði tímabundin
 • Komið verði á fimm ára tímabundinni ráðningu (svonefndu „tenure“-kerfi) þar sem nýja starfsmanninum gefst tími til sanna hæfni sína í starfi
 • Nýr starfsmaður byrji yfirleitt sem lektor eða sérfræðingur og síðan taki framgangskerfið við
 • Rektor taki ákvörðun um framhald ráðningar („fastráðningu“) á grundvelli umsagnar valnefndar
 • Háskólaráð setji sérstakar verklagsreglur um mat valnefndar
 • Að jafnaði verði gerð krafa um doktorspróf þar sem því verður við komið

Um skipun og störf dómnefnda segir í tillögunum:

 • Gert er ráð fyrir fjórum föstum dómnefndum - einni á hverju meginfræðasviði
 • Hver dómnefnd verði skipuð tveimur föstum fulltrúum og verði annar þeirra tilnefndur af háskólaráði og verði hann formaður, en hinn verði tilnefndur af menntamálaráðherra. Þriðji maður í dómnefnd verði tilnefndur af deild fyrir hvert ráðningarmál og liggi tilnefning hans fyrir um leið og auglýsing er send til rektors

Samhliða föstum dómnefndum verði mögulegt að skipa svonefndar „ad hoc“ dómnefndir:

 • Rektor verði áfram heimilt að skipa dómnefnd fyrir hvert mál skv. gamla laginu
 • Slíkt kemur t.d. til álita þegar ráða á prófessor beint

Um rökstuðning dómnefnda segja tillögur starfshópsins:

 • Rökstuðningurinn metur eingöngu hvort umsækjendur uppfylli lágmarksskilyrði vegna viðkomandi starfs á fræðasviðinu
 • Verulega er dregið úr umfjöllun um einstök ritverk
 • Rökstuðningurinn byggir fyrst og fremst á stigum fyrir hvern starfsþátt
 • Leiki vafi á því hvort umsækjandi uppfylli lágmarksskilyrði eru verk hans metin með hliðstæðum hætti og nú er gert

Varðandi valnefndirnar er gert ráð fyrir eftirfarandi:

 • Ein fimm manna valnefnd verði í hverri deild
 • Deildarforseti eigi fast sæti í valnefnd og verði hann formaður
 • Í skoraskiptum deildum er gert ráð fyrir að í valnefnd eigi skorarformaður fast sæti, en að auki sitji í henni einn fulltrúi viðkomandi skorar kosinn til fjögurra ára, og einn fulltrúi kosinn af deildarfundi til fjögurra ára
 • Í deildum án skora er miðað við að valnefnd verði skipuð þremur fulltrúum kosnum af deildarfundi til fjögurra ára
 • Þá skipi rektor einn fulltrúa í hverja valnefnd
 • Loks geti valnefnd kvatt til sérfræðinga eftir þörfum

Vinnulag valnefndar verði sem hér segir:

 • Heimilt verði að velja úr hæfustu umsækjendurna (gera svonefndan „shortlist“) þannig að valið takmarkist við þá sem helst eru taldir koma til greina
 • Valnefnd skuli að jafnaði boða þá umsækjendur í viðtal sem til greina koma
 • Einnig verði heimilt að bjóða þeim að halda fyrirlestur
 • Valnefnd sendi rökstudda tillögu til rektors
 • Rökstuðningurinn taki einungis til hæfasta umsækjandans að mati valnefndar
 • Valnefnd geti lagt til að ekki verði ráðið í starfið

Sjónarmið við val:

 • Áhersla verði lögð á stefnumótun deildar
 • Lagt verði mat á rannsóknir, kennslu og önnur störf umsækjenda (eins og dómnefndir gera nú)
 • Metin verði frammistaða í viðtali og fyrirlestri
 • Heimilt verði að meta út frá ferli umsækjanda hvort hann teljist líklegur til að stuðla að markmiðum deildar um uppbyggingu greinar

Afgreiðslutími og kostnaður:

 • Afgreiðslutími verði að jafnaði 8 vikur frá því að umsóknarfrestur rennur út þar til tillaga frá valnefnd berst rektor. Til samanburðar má geta þess að meðalafgreiðslutími árið 2005 var 28 vikur
 • Nýja ferlið leiðir til lækkunar kostnaðar
 • Almennt miðar nýja ferlið að því að tímanum og orkunni við ráðningarferlið verði varið til að velja hæfasta umsækjandann í stað þess að eyða púðri í að greina þá umsækjendur frá sem ekki koma til greina í starfið.

Að lokum fór Halldór yfir helstu athugasemdir og ábendingar sem fram komu í umsögnum deilda um tillögur starfshópsins. Almennt hefðu tillögurnar fengið jákvæð viðbrögð þótt sumir hefðu viljað ganga enn lengra í breytingum. Það hefði hins vegar kallað á lagabreytingu og þyrfti því að bíða betri tíma. Þá hefði komið fram ábending um að sleppa dómnefndum alveg og einskorða sig við valnefndirnar. Einnig hefði verið lagt til að krafan um innsend gögn yrði einfölduð enn frekar. Bent var á að almenn birting starfsauglýsinga á alþjóðlegum vettvangi kallaði á margskonar aðgerðir, s.s. varðandi móttöku erlendra starfsmanna, málstefnu o.fl. Fram kom sú gagnrýni að í tillögunum væri lögð of mikil áhersla á stigamat. Einnig var gert að umtalsefni að vanda þyrfti valið á þeim einstaklingum sem taka sæti í dómnefndum. Fram kom athugasemd um að taka þyrfti tillit til framgangskerfisins. Athugasemdir bárust um að skýra þyrfti betur hlutverk valnefnda og huga að samsetningu þeirra sem og ákvörðun um ótímabundna ráðningu.

Rektor þakkaði Halldóri Jónssyni fyrir framsöguna og gaf orðið laust.

Málið var rætt ítarlega og komu fram fjölmörg sjónarmið um málið. Almennt fögnuðu fundarmenn tillögunum og töldu þær vera til mikilla bóta. Næðu tillögurnar fram að ganga yrði það í senn til að einfalda og hraða ráðningarmálum Háskólans og til að bæta málsmeðferðina. Einnig væri það mikið framfaraspor að færa ákvörðunarvaldið í ráðningarmálum frá deildarfundum til dómnefnda.

Taldi einn fundarmanna að sú staðreynd ein að ráðningarferlið myndi að jafnaði styttast úr 28 í 8 vikur segði meira en mörg orð. Málið varðaði ekki aðeins stjórnsýslu heldur væri hér einnig um mikilvægt ímyndarmál að ræða.

Forseti raunvísindadeildar gerði að umtalsefni reynslu deildarinnar af svipuðu ráðningarkerfi og því sem væri til umræðu á fundinum. Fyrsta skrefið væri að taka ráðningarvaldið úr höndum deildarfundar, en í raunvísindadeild væru skorir í hlutverki valnefnda. Dómnefndarálit hefðu verið stutt og skýr og komið að góðum notum þegar málin kæmu til skora sem síðan ræddu sig til niðurstöðu þegar kæmi að ákvörðun um ráðningu. Oftast hefðu hæfustu kandídatarnir komið á fund með skorarmönnum og kynnt fyrir þeim hugmyndir sínar um kennslu og rannsóknir. Loks væri rökstudd tillaga lögð fram á deildarfundi til staðfestingar eða synjunar. Þegar tillaga skorarformanns lægi fyrir væri hún vanalega samþykkt. Með þessu móti næði skorin sátt um ráðninguna sem væri einnig mikilvægt fyrir þann sem ráðinn yrði. Raunvísindadeild vildi halda þessu kerfi þannig að skorirnar kæmu áfram að valinu. Var því til svarað að valnefndafyrirkomulagið samkvæmt tillögum starfshópsins hefði í fyrsta lagi þann kost umfram valnefndarfyrirkomulag raunvísindadeildar að í nýja kerfinu ættu deildarforsetar og skorarformenn alltaf fast sæti sem yki stjórnendaábyrgð. Þá væri gert ráð fyrir að rektor tilnefni alltaf fulltrúa í valnefnd sem tryggði ytra hlutleysi og aðhald. Nokkrir fundarmenn bentu á að mikilvægt væri að gera sömu gæðakröfur og nota sama ráðningarkerfi í öllum deildum Háskólans.

Því sjónarmiði var haldið fram að þótt tillögur starfshópsins væru til bóta miðað við það kerfi sem notast hefur verið við gengju þær ef til vill ekki nógu langt. Ekki væri nóg að miða við að tillögurnar þyrftu að rúmast innan núverandi lagaramma heldur þyrfti jafnframt að setja fram skýra framtíðarsýn um hvernig Háskóli Íslands geti ráðið til sín afburðafólk. Alltént ætti slík sýn að vera leiðarljós við næstu endurskoðun laga um Háskóla Íslands. Til dæmis væri mikilvægt að byggja ekki ráðningar alfarið á auglýsingum heldur þyrfti Háskólinn einnig að geta haft frumkvæði að því að leita að hæfum einstaklingum og bjóða þeim störf. Að ráða einkum lektora, byggja á auglýsingum og ráða tímabundið mælti allt gegn þessu markmiði.

Fleiri fundarmenn tóku undir það sjónarmið að ekki væri heppilegt að miða við að ráða í lektorsstarf að jafnaði, t.d. þegar um væri að ræða einstaklinga sem hefðu gegnt akademískum störfum við virta erlenda háskóla. Í slíkum tilvikum væri einnig of veikt að bjóða upp á tímabundna ráðningu. Á móti var á það bent að hér væri ekki um ófrávíkjanlega kröfu að ræða. Tillögur starfshópsins gerðu áfram ráð fyrir sveigjanleika í þessu efni, enda væri rektor í vissum tilvikum heimilt að ráða beint í starf dósents eða prófessors, t.d. ef um væri að ræða reyndan fræðimann frá virtum erlendum háskóla. Slík frávik þyrfti þó að rökstyðja sérstaklega.

Nokkrir fundarmenn höfðu orð á því að það væri veruleg framför að hætt yrði að fjalla ítarlega um allar umsóknir og eyða púðri í að greina veikustu umsækjendurna frá þeim sem uppfylltu settar hæfiskröfur.

Fjallað var um það atriði í tillögum starfshópsins að auglýsa störf að jafnaði á alþjóðlegum vettvangi. Þetta hefði ekki aðeins kosti heldur fylgdu því einnig vandamál sem þyrfti að gaumgæfa vel. Til dæmis mætti gera ráð fyrir því að þegar laus störf yrðu auglýst alþjóðlega myndi umsóknum fjölga og þá ylti mikið á því að kerfið væri sem einfaldast án þess að slakað yrði á gæðakröfum. Einnig þyrfti Háskólinn að vera undir það búinn að taka upp ensku sem stjórnsýslumál. Sífellt fleiri háskólar í nágrannalöndum okkar hefðu nú þegar stigið þetta skref og flest benti til þróunin yrði sú sama hér á landi til lengri tíma litið. Það væri hins vegar staðreynd að þetta myndi stórauka álag á stjórnsýslu Háskólans. Formaður jafnréttisnefndar greindi frá því að nefndin hefði nú þegar skipað starfshóp til að fjalla sérstaklega um málefni erlendra starfsmanna við Háskóla Íslands.

Bent var á að mikilvægt væri að draga úr fjölda ritverka sem umsækjendur létu fylgja umsóknum sínum. Slíkt væri illframkvæmanlegt þegar umsækjendur kæmu víða að, enda væri það viðtekin venja í erlendum háskólum að takmarka fjölda framlagðra ritverka eða láta ritaskrá nægja. Mikilvægt væri samt að gæta þess að fækkun innsendra gagna leiddi ekki til ómalefnalegrar niðurstöðu.

Skiptar skoðanir voru um hlutverk dómnefnda samkvæmt tillögum starfshópsins. Almennt voru fundarmenn þó þeirrar skoðunar að í núverandi kerfi væru dómnefndir of margar og nauðsynlegt að fækka þeim til muna. Það vinnulag að skipa nýja dómnefnd fyrir hvert ráðningarmál krefðist mikillar þjálfunarvinnu og byði heim hættunni á ósamræmi og mistökum í vinnubrögðum. Í framhaldi af þessari umræðu var spurt hvort tillögurnar gerðu dómnefndir í reynd óþarfar með því að þeim væri einkum ætlað að meta umsækjendur m.t.t. stigamatskerfis Háskólans. Í þessu sambandi lýsti einn fundarmanna þeirri skoðun að í tillögum starfshópsins toguðust á tvö sjónarmið, skilvirkni og málsmeðferðarhraði annars vegar og fagleg rýni m.t.t. hæfis hins vegar. Stigamatið ætti að vera grunnur að hæfismatinu, en það hentaði ekki til þessa. Upphaflega hefði stigamatskerfið verið sett fram til að hvetja til afkasta en ekki til að meta hæfi. Í reynd væri mögulegt að safna fjölda stiga með minniháttar birtingum í stað bitastæðra verka. Af þessum sökum væri óheppilegt að einblína á stigamat og stigaþröskulda við nýráðningar. Á móti var á það bent að dómnefndunum væri einungis ætlað að nota stigamatið sem grófa viðmiðun á frumstigi málsmeðferðarinnar. Þetta væri mikilvægt til að þess að greina strax í upphafi ferilsins veikustu umsækjendurna frá þeim sem raunverulega þættu koma til greina. Með þessu móti gætu valnefndirnar einbeitt sér að því að velja hæfustu einstaklingana. Til viðbótar væri horft á aðra hæfisþætti, auk þess sem gert væri ráð fyrir að hæfustu umsækjendunum yrði boðið að halda fyrirlestur og koma í viðtal. Einnig var ítrekað að framlagðar tillögur starfshópsins tækju einungis til ráðningarferlisins, en eftir væri að skilgreina faglegar kröfur við nýráðningu og framgang. Í þeirri vinnu gæfist tækifæri til að skilgreina hvernig lágmarksstigafjöldi fyrir nýráðningu verði samsettur, hvaða kröfur verði gerðar við ráðningar og framgang í hvert starfsheiti fyrir sig og þar fram eftir götunum.

Nokkuð var rætt um þá tillögu starfshópsins að nýráðningar yrðu almennt tímabundnar og til fimm ára. Varpaði einn fundarmanna því fram, hvort slíkt fyrirkomulag gæti verið íþyngjandi fyrir konur, enda bæru þær iðulega meiri fjölskylduábyrgð en karlar og því væri starfsferill kvenna iðulega ekki jafn samfelldur og þegar karlar ættu í hlut. Vísaði fulltrúi lagadeildar á reglur stjórnsýslulaga um andmælarétt umsækjenda og rökstuðning fyrir niðurstöðu valnefndar og rektors og sagði að þær væru til þess að virða rétt umsækjenda og tryggja að niðurstaðan yrði sem málefnalegust og hlutlægust. Formaður jafnréttisnefndar greindi frá því að gögn sýndu að kvenkyns fræðimenn við Háskóla Íslands skiluðu jafnvel heldur fleiri rannsóknastigum en karlkyns jafnaldrar þeirra.

Spurt var, hvað gerðist ef starfsmaður reyndist ekki standa undir settum kröfum meðan á fimm ára tímabundinni ráðningartíma stæði. Var því til svarað að í því tilviki yrði einfaldlega ekki gerður ótímabundinn ráðningarsamningur. Þegar hins væri um að ræða ótímabundna ráðningu gerðu starfsmannalög opinberum háskólum erfitt um vik að víkja einstaklingum úr starfi þótt vissulega væri hægt að beita áminningarferli.

Að umræðu lokinni bar rektor upp tillögu um að starfshópi um endurskoðun á ráðningarferli akademískra starfsmanna verði, í samráði við rektor, falið að ganga frá tillögum um breytingar á sameiginlegum reglum Háskólans vegna endurskoðunar ráðningarferlis akademískra starfsmanna til háskólaráðs, með hliðsjón af framkomnum athugasemdum og ábendingum á fundinum og í umsögnum deilda og gæðanefndar. Jafnframt undirbúi starfshópurinn tillögur um endurskoðað framgangskerfi akademískra starfsmanna og kröfur við nýráðningu og framgang eins og erindisbréf hans gerir ráð fyrir.

- Samþykkt einróma.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Halldórs Jónssonar, þau Sigurður Brynjólfsson, Oddný G. Sverrisdóttir, Hörður Filippusson, Einar Stefánsson, Anna Agnarsdóttir, Rúnar Vilhjálmsson, Jón Atli Benediktsson, Andri Stefánsson, Þorgerður Einarsdóttir, Kristján Erlendsson, Eiríkur Tómasson, Inga Jóna Þórðardóttir, Friðrik Már Baldursson, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Hólmfríður Garðarsdóttir, Gunnar Harðarson og Rannveig Traustadóttir.
 

Kl. 15.50 - 17.40 - Dagskrárliður 5: Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Endurskoðun á skiptingu Háskóla Íslands í deildir og skorir

Rektor kynnti málið. Greindi rektor m.a. frá því að ytri úttektir á Háskóla Íslands sem framkvæmdar voru á árunum 2004-2005 hefðu sýnt fram á að til þess að skólinn gæti þróast áfram í samræmi við þær kröfur sem til hans eru gerðar þyrfti m.a. að endurskoða formlegt skipulag og stjórnkerfi hans. Þá lægi fyrir að stefnt væri að sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands í því skyni að styrkja í senn menntun kennara, uppeldisvísindi og Háskóla Íslands sem heild. Framlagðar frumhugmyndir starfshóps um endurskoðun á skiptingu Háskóla Íslands í deildir og skorir hefðu verið ræddar á fundi rektors með deildarforsetum 16. október sl., á fundi háskólaráðs 19. október sl. og svo aftur á forsetafundi 13. nóvember sl. Ennfremur hefðu hugmyndirnar verið kynntar fyrir rektor Kennaraháskólans og í deildum Háskóla Íslands. Hér væri á ferðinni mjög stórt mál sem krefðist vandlegs undirbúnings og ítarlegrar umræðu til þess að hægt yrði að leiða það farsællega til lykta. Því væri gert ráð fyrir að málið yrði á dagskrá á báðum háskólafundum komandi vormisseris. Mikilvægasta forsenda endurskoðunarinnar á skipulagi og stjórnkerfi Háskólans væri að styrkja hvort tveggja, Háskóla Íslands sem heild og grunneiningar hans, jafnt í faglegu, stjórnunarlegu og rekstrarlega tilliti.

Að þessum orðum sögðum bauð rektor Ólaf Þ. Harðarson, prófessor, forseta félagsvísindadeildar og varaforseta háskólaráðs, formann starfshóps um endurskoðun á skiptingu Háskóla Íslands í deildir og skorir, að gera grein fyrir framlögðum hugmyndum starfshópsins.

Hóf Ólafur mál sitt á því að greina frá skipun starfshópsins, en í honum sitja, auk formanns, eftirtaldir einstaklingar:

 • Inga Jóna Þórðardóttir, viðskiptafræðingur og fulltrúi þjóðlífs í háskólaráði,
 • Ingjaldur Hannibalsson, prófessor í viðskipta- og hagfræðideild,
 • Jón Atli Benediktsson, prófessor í verkfræðideild, þróunarstjóri og aðstoðarmaður rektors,
 • Róbert H. Haraldsson, dósent og varaforseti hugvísindadeildar,
 • Rögnvaldur Ólafsson, dósent í raunvísindadeild og fulltrúi í nefnd menntamálaráðherra um sameiningu HÍ og KHÍ,
 • Sigurður Örn Hilmarsson, formaður Stúdentaráðs,
 • Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor í lyfjafræðideild og fulltrúi heilbrigðisvísindasviðs í háskólaráði,
 • með nefndinni starfa Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs, Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri, og Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs.

Þá rakti Ólafur grunnatriðin í stefnu Háskóla Íslands 2006-2011, þ.e. að skólinn hygðist bjóða upp á framúrskarandi rannsóknir, framúrskarandi kennslu og framúrskarandi stjórnun og stoðþjónustu. Sagði Ólafur að stefna Háskólans fæli í sér róttæka stefnubreytingu sem kallaði á stóraukin fjárframlög. Til þess að stefnan næði fram að ganga þyrfti áfangahækkun ríkisframlaga uns þau yrðu 5 milljörðum króna hærri en nú að 5 árum liðnum. Jafnframt væri ákveðið að gera umtalsverðar breytingar á innra starfi Háskólans sem fæli m.a. í sér þá spurningu, hvaða skipulag hentaði stefnumiðum hans best. Í öllu þessu væri mikilvægt að hafa í huga að spurningin um skipulag fjallaði um tæki til að ná markmiðum Háskólans, en hún væri ekki markmið í sjálfu sér.

Því næst varpaði Ólafur fram þeirri spurningu, hvort núverandi skipulag Háskólans hentaði til þess að skólinn næði markmiðum sínum. Svarið við þessari spurningu væri ótvírætt að svo væri ekki, hvort sem horft væri til niðurstaðna úttektar Ríkisendurskoðunar eða Samtaka evrópskra háskóla (EUA), tillagna starfshóps rektors sem fór yfir niðurstöður úttektanna árið 2005 eða stefnu Háskóla Íslands 2006-2011. Líta beri á þetta sem tækifæri fyrir skólann til að hugsa skipulag og stjórnkerfi sitt upp á nýtt. Hér væri á ferðinni einstakt tækifæri til að gera tímabærar breytingar.

Næst vék Ólafur að vinnulagi og niðurstöðum starfshópsins. Skýrði hann frá því að hópurinn hefði leitað víða fanga og meðal annars athugað hjá þeim háskólum sem Háskóli Íslands ber sig saman við, hvort til væru hentug dæmi um skipulag sem styðjast mætti við. Hefði hópurinn komist að þeirri niðurstöðu að þótt ýmislegt mætti læra af þessum skólum væri ekki hægt að taka neinn þeirra beinlínis til fyrirmyndar. Í öllum tilvikum glímdu skólarnir við svipuð vandamál og Háskóli Íslands og skipulag þeirra væri tilkomið af samblandi úr rökstuddum ákvörðunum og sögulegum tilviljunum. Því blasti við að Háskóli Íslands þyrfti að ígrunda og leiða málið til lykta á sínum eigin forsendum.

Þá tiltók Ólafur helstu stjórnstig Háskóla Íslands og hliðstæður þeirra í háskólum enskumælandi landa og lagði um leið áherslu á að í umræðunni um þessi stjórnstig yrði greint á milli heita og inntaks:

Háskóli: University - (rektor)
Deildir: Faculties/Colleges/Schools - (Deans) => skólar?
Skorir: Departments - (Chairs) => deildir?

Ein fyrsta spurningin sem vaknaði í þessu sambandi væri, hvers vegna greint væri á milli faculties/schools og ekki væri látið nægja að hafa departments. Ástæðurnar væru nokkrar:

Einfaldara heildarskipulag,
sterkari einingar,
öflugri stoðþjónusta,
auðveldari samnýting kennslu,
ákvarðanir nær vettvangi.

Núverandi faculties við Háskóla Íslands væru
of margar,
margar of litlar,
afar mismunandi að stærð (á milli stærstu og smæstu deilda skólans væri 15-faldur munur á fjölda nemenda og 10-faldur munur á fjölda kennara),
sumar faculties væru í rauninni departments

Hugmyndir starfshópsins um faculties/schools gerðu ráð fyrir að þær væru
fimm, sex eða sjö,
allar með lágmarksfjölda nemenda og kennara,
spurt væri hvaða departments (eða greinar) eiga faglega mesta samleið.

Fyrstu hugmyndir starfshópsins um departments væru
að mestu byggðar á núverandi deilda- og skoraskiptingu,
en engin væri vinna hafin við skiptingu uppeldisvísindaskóla í departments.

Til að skilgreina hvaða departments ættu að vera í hinum nýju skólum þyrfti að fara fram mikil og öflug grasrótarvinna.

Næstu skref væru þessi:
Almenn umræða um faculties og departments - frekari útfærslur og tillögur,
umræða um rannsóknastofnanir og tengsl þeirra við faculties og departments,
framsetning fyrstu tillagna um stjórnskipulag og skýring á verkaskiptingu þriggja stjórnstiga í samræmi við dreifræðisregluna (subsidiarity principle).

Rektor þakkaði Ólafi fyrir kynninguna og gaf orðið laust.

Málið var rætt ítarlega og komu fjölmörg ólík sjónarmið fram.

Rætt var um forsendur fyrirliggjandi hugmynda um skiptingu Háskóla Íslands í skóla og deildir. Ítrekað var að markmiðið með endurskoðuninni væri að styrkja Háskólann í heild og um leið einstakar einingar hans. Ekki væri til umræðu að brjóta Háskóla Íslands upp í algjörlega sjálfstæða skóla sem semdu hver fyrir sig við ríkisvaldið um fjárveitingar, heldur að styrkja faglegt starf og rekstrarlega ábyrgð eininganna. Áfram væri gert ráð fyrir að mikilvægir málaflokkar á borð við gæðamál yrðu sameiginlegir.

Rætt var um vinnulag við endurskoðunina. Töldu sumir heppilegt að byrja á því að ræða skiptinguna í skóla og deildir út frá faglegum sjónarmiðum og beina sjónum að því búnu að umræðunni um stjórnkerfi og stjórnskipulag, þ.m.t. sjálfstæði skólanna og verkaskiptingu á milli sameiginlegrar yfirstjórnar og stjórnar þeirra. Aðrir héldu fram þeirri skoðun að erfitt væri að taka afstöðu til skiptingar í skóla og deildir nema vita fyrirfram hvert sjálfstæði og hlutverk þeirra væri. Í þessu sambandi skipti t.d. máli að vita hvert yrði valdajafnvægið á milli deilda innan hinna einstöku skóla. Nýja fyrirkomulagið kæmi með ólíkum hætti við núverandi skorir annars vegar og núverandi óskorarskiptar deildir hins vegar. Skorirnar væru vanar því að vera einingar innan stærri heildar, en frá sjónarhóli óskorarskiptra deilda gæti hinn nýji skóli virtist sem nýtt stjórnstig á milli þeirra og yfirstjórnar Háskólans. Með því kynnu boðleiðir að lengjast. Alltént væri afar mikilvægt að horfa til margra þátta þegar kæmi að því að skilgreina hinar nýju deildir, s.s. fjölda skráðra og virkra nemenda, fjölda nemenda í grunnnámi annars vegar og framhaldsnámi hins vegar, peningaveltu, rannsóknaumsvif o.fl.

Bent var á að Háskóli Íslands stæði nú á tímamótum og að fyrirhuguð endurskoðun á skipulagi skólans fæli í sér einstakt tækifæri. Mikilvægast væri að hver grein skoðaði sína stöðu fordómalaust og með það að markmiði að hún yrði sem sterkust og að Háskólinn allur styrktist sem mest. Engin ein lausn væri rétt og margar deildir gætu átt heima víða í nýju skipulagi. Hvernig svo sem málinu lyktaði í einstökum atriðum gætu einingarnar haft auðugt samstarf hver við aðra. Aðalatriðið væri að Háskóli Íslands héldi áfram þeirri sókn á sviði rannsókna sem nú væri hafin.

Einn fulltrúi hélt því fram, að í framlögðum hugmyndum starfshópsins vantaði skýrar efnislegar forsendur. Kjarnastarfsemi Háskólans væri kennsla og rannsóknir og þeirri spurningu væri ekki svarað, hvort þessir þættir myndu eflast við nýtt skipulag. Sama mætti segja um fyrirhugaða sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Fyrir lægju skýrslur um sameininguna, en þær fjölluðu einkum um formlega þætti og í minna mæli um faglega hlið málsins. Mikilvægasta spurningin væri, hvort gæði starfseminnar myndu aukast við breytinguna.

Rætt var um mögulegar forsendur fyrir skiptingu fræðasviða í skóla. Nefndur var sá möguleiki að styðjast við þá fjórskiptingu fræðasviða sem t.d. væri lögð til grundvallar skipun fulltrúa í háskólaráði, þ.e. hugvísindasvið, félagsvísindasvið, raunvísindasvið og heilbrigðisvísindasvið. Einnig var vísað til hins svonefnda Frascati Manual, sem er leiðarvísir OECD um flokkun á sviði rannsókna og þróunar. Í þessu sambandi var einnig fjallað um það, hversu sjálfstæðir skólarnir ættu að vera í faglegum málum, t.d. hvort hver skóli um sig ætti að hafa sitt eigið rannsóknamatskerfi, ráðningarkerfi o.s.frv. Töldu fundarmenn almennt að fara ætti varlega í slíka dreifingu, enda hefðu þessi kerfi gefið býsna góða raun.

Nánar tiltekið beindu fundarmenn sjónum að mögulegri sameiningu núverandi raunvísindadeildar og verkfræðideildar í skóla, sameiningu núverandi heilbrigðisvísindadeilda í einn heilbrigðisvísindaskóla og sameiningu núverandi lagadeildar, viðskipta- og hagfræðideilda og félagsvísindadeildar í einn félagsvísindaskóla. Sérstaklega var fjallað um það, hvort lífvísindagreinar ættu heima í verk- og raunvísindaskóla eða í heilbrigðisvísindaskóla. Fram komu ólík sjónarmið um þetta atriði, s.s. hvort þessar greinar ættu allar að vera saman í einum skóla eða hvort greina ætti í sundur klínísk lífvísindi, sem hafa með umsýslu sjúklinga að gera, og líffræðileg grunnvísindi. Í þessu sambandi var einnig varpað fram þeirri hugmynd að stofnaður yrði skóli sem veitti frjálst grunnnám annars vegar og skólar sem kenndu til starfsréttinda á framhaldsstigi hins vegar. Forseti raunvísindadeildar andmælti þeirri hugmynd að lífvísindunum yrði skipt upp og sameindalífvísindum komið fyrir í heilbrigðisvísindaskóla en öðrum lífvísindum í raunvísindaskóla. Raunvísindi og lífvísindi væru nátengd fræðasvið sem gætu hvorugt án hins verið. Hins vegar mætti skoða ýmsar leiðir til að auka samvinnu á milli lífvísinda í raunvísindaskóla og heilbrigðisvísindaskóla, a.m.t. Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Annar fundarmaður benti á að þótt sameindalífvísindi mynduðu kröftugt fræðasvið innan Háskóla Íslands og tengdra stofnana væri það dreift í raunvísindadeild, læknadeild, lyfjafræðideild, Keldum, Landspítalanum, Krabbameinsfélaginu og fleiri stofnunum. Afleiðingin væri litlar og veikar einingar sem nauðsynlegt væri að sameina innan vébanda Háskólans í sameindalífvísindadeild innan heilbrigðis- og lífvísindaskóla. Til stæði að flytja starfsemi Keldna á háskólalóðina og í því fælist stórt tækifæri. Í vetur hefðu nokkrir einstaklingar úr líffræðiskor og læknisfræðiskor hist og komist að því að helst mætti gera fræðasviðið sýnilegra með því að skipuleggja innan þess sameiginlegt framhaldsnám. Þannig gætu allir þessir kraftar tengst, jafnvel innan núverandi skipulags. Skólaskiptingin gæti hins vegar auðveldað þetta til muna. Einnig væri mikilvægt að hugsa málið í tengslum við þróun Landspítalans.

Forseti guðfræðideildar benti á það að hafa þyrfti í huga að deildir Háskólans hefðu þróast með ólíkum hætti og ættu sér mislanga sögu. Í gamalli, óskorarskiptri deild á borð við guðfræðideild hefði þróast allt önnur menning en í stórum, skorarskiptum deildum, og því vaknaði sú spurning, hvað deildin myndi halda miklu sjálfstæði varðandi rannsóknaráherslur, kennsluskipulag og slíka þætti ef hún yrði gerð að einingu í stærri skóla. Einnig benti forseti guðfræðideildar á að þótt deildinni væri skipað í hugvísindaskóla samkvæmt hugmyndum starfshópsins væri það ekki jafn sjálfsagt og kynni að virðast við fyrstu sýn. Engu að síður væri yfirstandandi endurskoðun á skiptingu Háskóla Íslands í deildir og skorir dýrmætt tækifæri til að skoða sjálfsmynd deildarinnar og huga að grundvallarmálum. Hlutverk deildarinnar væri að fjalla um trú í félagslegu samhengi og því mælti sitthvað með sameiningu við félagsvísindaskóla. Miklu máli skipti þó í þessu sambandi hvort sálfræðin yrði í félagsvísindaskóla eða heilbrigðisvísindaskóla.

Fulltrúi stúdenta varpaði fram þeirri spurningu, hvort gert væri ráð fyrir því að skólarnir gætu tekið upp skólagjöld. Var því til svarað að í framlögðum hugmyndum starfshópsins væri engin afstaða tekin til þessarar spurningar.

Skiptar skoðanir voru um heitið „skóli“. Töldu sumir að þetta væri vanalega notað sem yfirheiti og gæfi því til kynna að um algjörlega sjálfstæðar einingar væri að ræða. Bent var á önnur möguleg heiti á borð við „miðstöð“ eða „svið“.

Ýmislegt fleira bar á góma í umræðunni, s.s. hvort rannsóknastofnanir yrðu innan skólanna eða hvort þær yrðu þverfræðilegar miðstöðvar á milli skólanna, mikilvægi þess að huga vel að þverfræðilegum rannsóknum og að koma í veg fyrir múra á milli skólanna, hvort framlagðar hugmyndir fælu í sér verulegt valdaframsal frá rektor til stjórnenda skólanna, hvort hver skóli fyrir sig myndi brautskrá sína nemendur, hvort hugsanleg heimild til innheimtu skólagjalda myndi gilda um suma skóla eða alla og hver væri æskileg lágmarksstærð fyrir deild.

Að umræðu lokinni bar rektor upp tillögu um að starfshópnum um endurskoðun á skiptingu Háskóla Íslands í deildir og skorir verði falið að vinna ný drög að tillögu um skiptingu Háskóla Íslands í skóla og deildir, m.a. með hliðsjón af athugasemdum og ábendingum sem fram hefðu komið á fundum rektors með deildarforsetum, fundi háskólaráðs og háskólafundi. Jafnframt verði leitað umsagnar allra starfseininga Háskólans og tekið tillit til þeirra við endurskoðun tillögunnar. Loks geri hópurinn drög að tillögu um stjórnskipulag skólanna og hlutverk deilda innan þeirra. Málið verði áfram á dagskrá háskólafundar vorið 2007 og í kjölfar hans verði leitað umsagnar deilda, skora og stofnana.

- Samþykkt einróma.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Ólafs Þ. Harðarsonar, þau Hörður Filippusson, Hafliði Pétur Gíslason, Rúnar Vilhjálmsson, Torfi Stefán Jónsson, Hjalti Hugason, Eiríkur Steingrímsson, Inga Þórsdóttir, Oddný G. Sverrisdóttir, Sigurður Brynjólfsson, Jón Atli Benediktsson, Sigurrós Eiðsdóttir, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Kristján Erlendsson, Anna Agnarsdóttir og Eiríkur Tómasson.

 

Kl. 17.40-18.00 - Dagskrárliður 6: Tillaga að útfærslu á siðareglum Háskóla Íslands, sbr. háskólafundi 26. maí og 17. nóvember 2005.

Rektor bauð Vilhjálmi Árnasyni, prófessor í hugvísindadeild, að kynna málið í fjarveru Einars Sigurbjörnssonar, prófessors og forseta guðfræðideildar, formanns siðanefndar.

Byrjaði Vilhjálmur á því að fara yfir forsögu málsins. Rifjaði hann upp að siðareglur Háskóla Íslands og starfsreglur siðanefndar Háskólans hefðu verið samþykktar á háskólafundi í nóvember 2003. Í ágúst 2004 hefði Héraðsdómur Reykjavíkur síðan fellt úrskurð sem véfengdi lögmæti og formlegt umboð siðareglnanna og siðanefndarinnar. Í kjölfar þessa hefði rektor skipað starfshóp um hvernig treysta mætti siðareglur og siðanefnd formlega í sessi og hefði hópurinn skilað af sér tillögum 5. maí 2005. Í starfshópnum áttu sæti Róbert H. Haraldsson, dósent í hugvísindadeild, Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar, Sigurður Líndal, prófessor í lagadeild, Tryggvi Þórhallsson, lögfræðingur Háskólans, og Vilhjálmur Árnason, prófessor í hugvísindadeild. Í framhaldi af þessu hefði málið verið lagt fyrir háskólafund 26. maí 2005 þar sem kosin var nýr starfshópur til að útfæra tillögur fyrri hópsins og hefði hann skilað áliti 18. október 2005. Í þessum starfshópi áttu sæti Einar Sigurbjörnsson, prófessor í guðfræðideild og formaður siðanefndar Háskólans, María Þorsteinsdóttir, dósent í læknadeild, Rannveig Traustadóttir, prófessor í félagsvísindadeild, og Vilhjálmur Árnason, prófessor í hugvísindadeild. Næst hefðu niðurstöður síðari starfshópsins verið sendar deildum, stofnunum, Félagi prófessora og Félagi háskólakennara til umsagnar. Þegar umsagnirnar hefðu borist hefði rektor falið síðari starfshópnum að fara yfir þær og undirbúa afgreiðslu málsins á háskólafundi. Skilaði hópurinn tillögum sínum með bréfi til rektors 30. október 2006.

Meginatriði málsins væru þessi:
 

 • Málið varðaði málsmeðferð en ekki efnisatriði siðareglna Háskóla Íslands og starfsreglna siðanefndar Háskólans.
 • Lögmæti siðareglnanna hefði verið dregið í efa með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur.
 • Til að bregðast við þessu þyrfti að styrkja umboð siðareglnanna og starfsreglnanna í samfélagi Háskólans.
 • Ennfremur væri þörf á að sundurgreina betur siðareglur um háskólasamfélagið á Íslandi.

Lögmæti:

 • Með ákvæði í lögum nr. 63 13. júní 2006 um háskóla hefði þegar verið brugðist við lögmætiskröfunni, því þar stæði: „Háskólar hafa sjálfdæmi um starfsemi sína að öðru leyti en því sem kveðið er á um í lögum, reglum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum sem veitt eru á grundvelli þeirra. Háskólar skulu setja sér siðareglur, m.a. um fræðilegt sjálfstæði starfsmanna." (2. gr.)
 • Til að styrkja lögmæti siðarelgnanna enn frekar legði starfshópurinn til að leitað verði formlegrar staðfestingar háskólaráðs á siðareglum þeim sem háskólasamfélagið hefur sett sér á háskólafundi.

Umboð:

 • Fjallað var um siðareglurnar á sínum tíma í deildum háskólans.
 • Félag háskólakennara og Félag prófessora hafa samþykkt tillögur nefndarinnar.
 • Rétt væri að bera siðareglurnar einnig undir nemendasamfélagið og félag starfsfólks í stjórnsýslu
 • Rétt væri að bera siðareglurnar einnig undir nemendasamfélagið.
 • Félögin ættu framvegis að skipa fulltrúa í siðanefnd.

Þetta hefði í för með sér að gera þyrfti eftirtaldar breytingar á 2. gr. starfsreglna Siðanefndar:

Nefndarskipun.
Formaður siðanefndar er skipaður af háskólaráði samkvæmt tilnefningu rektors. Félag háskólakennara og Félag prófessora skipa hvort um sig einn nefndarmann. Þegar fram kemur kæra um brot á siðareglum (eru tveir menn skipaðir í nefndina) getur rektor skipað tvo menn að auki eftir eðli máls til þess að fjalla um kæruna ásamt (formanni) fastamönnum. Í umboði háskólaráðs skipar rektor þessa tvo menn að fengnum tilnefningum formanns nefndarinnar.
Skipunartími formanns og fulltrúa kennarafélaganna er þrjú ár, en skipun annarra nefndarmanna tekur einungis til fyrirliggjandi máls.
Rektor skipar nefndinni ritara úr hópi starfsmanna Háskólans."

Útfærsla

 • Núverandi siðareglur séu leiðarljós alls háskólasamfélagins.
 • Háskóli Íslands hafi frumkvæði að því að settar verði ítarlegri siðareglur um vísindaleg vinnubrögð, heiðarleika og hagsmunaárekstra í íslensku fræðasamfélagi (t.d. í samvinnu við Rannís).
 • Unnið verði að siðareglum á einstökum fræðasviðum Háskólans um rannsóknir á viðfangsefnum þar sem sérstakrar varúðar er þörf (félagsvísindadeild hefur nú þegar gert þetta).

Að lokum varpaði Vilhjálmur eftirfarandi atriðum fram til umhugsunar:

 • Efnisatriði Siðareglna Háskóla Íslands eru eðli málsins samkvæmt stöðugt til endurskoðunar
 • Ný siðanefnd hugi sérstaklega að starfsreglum sínum og geri tillögu til háskólaráðs um þær.
 • Huga þarf að stöðu álita siðanefndar og tengslum þeirra við stjórnsýslulegar ákvarðanir.

Lauk Vilhjálmur máli sínu á því að geta þess að ef framangreindar tillögur yrðu samþykktar væri búið að koma siðareglum Háskóla Íslands aftur í eðlilegan farveg.

Rektor þakkaði Vilhjálmi fyrir kynninguna og gaf orðið laust.

Aðeins einn fundarmaður tók til máls og benti hann á að úrskurðir siðanefndar þyrftu að vera tengdir öðrum stjórnsýsluákvörðunum.

Að umræðu lokinni bar rektor upp svohljóðandi tillögu: Framlagðar niðurstöður nefndar háskólafundar, dagsettar 28. október 2005, þ.e. liði 1b)-d) og liði 2 og 3 verði samþykktar. Jafnframt verði fulltrúum stúdentasamfélagsins og Félagi starfsfólks í stjórnsýslu bætt við lið 1c). Til samræmis verði 2. gr. starfsreglna siðanefndar Háskóla Íslands breytt sem hér segir: Í 1. málsgrein bætist við nýr 2. málsliður er hljóði svo: „Félag háskólakennara og Félag prófessora skipa hvort um sig einn nefndarmann." Í næstu setningu á eftir falli annars vegar niður orðin „eru tveir menn skipaðir í nefndina“ og í staðinn komi „getur rektor skipað tvo menn að auki eftir eðli máls“, og hins vegar bætist við í lok setningarinnar orðin „og fulltrúum kennarafélaganna.“ Í 2. málsgrein bætist við orðin „og fulltrúa kennarafélaganna“. Svo breytt hljóði 2. grein þannig:

„Nefndarskipun. Formaður siðanefndar er skipaður af háskólaráði samkvæmt tilnefningu rektors. Félag háskólakennara og Félag prófessora skipa hvort um sig einn nefndarmann. Þegar fram kemur kæra um brot á siðareglum getur rektor skipað tvo menn að auki eftir eðli máls til þess að fjalla um kæruna ásamt formanni og fulltrúum kennarafélaganna. Í umboði háskólaráðs skipar rektor þessa tvo menn að fengnum tilnefningum formanns nefndarinnar.
Skipunartími formanns og fulltrúa kennarafélaganna er þrjú ár, en skipun annarra nefndarmanna tekur einungis til fyrirliggjandi máls.
Rektor skipar nefndinni ritara úr hópi starfsmanna Háskólans.“
Rektor verði falið að fylgja málinu eftir.

- Samþykkt einróma.

Til máls tók undir þessum lið, auk rektors og Vilhjálms Árnasonar, Rúnar Vilhjálmsson.

Að lokum þakkaði rektor fulltrúum á háskólafundi fyrir góða og málefnalega umræðu og bauð þeim að þiggja léttar veitingar í anddyri Hátíðarsalar.

Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 18.00.

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 21. háskólafundi 17. nóvember 2006:

1. Dagskrá og tímaáætlun 21. háskólafundar 17. nóvember 2006.
2. Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
3. Fundargerð 20. háskólafundar 5. maí 2006.
4. Áætlun um sameiningu KHÍ og HÍ. Skýrsla starfshóps skipuðum af menntamálaráðherra 17. ágúst 2006.
5. Dagatal Háskóla Íslands 2006-2007.
6. Tillaga að breytingu á reglum um skipan og fundarsköp háskólafundar.
7. Tillögur gæðanefndar háskólaráðs um mótun fyrirkomulags um akademísk gestastörf, ásamt greinargerð.
8. Tillögur starfshóps rektors um breytingar á sameiginlegum reglum Háskólans vegna endurskoðunar ráðningarferlis akademískra starfsmanna.
9. Tillaga starfshóps rektors um endurskoðun á skiptingu Háskóla Íslands í deildir og skorir.
10. Gögn um útfærslu á siðareglum Háskóla Íslands: 1.) Skilagrein nefndar sem kosin var á háskólafundi 26. maí 2005 til að útfæra tillögur starfshóps rektors um stöðu siðareglna Háskóla Íslands, dags. 30. nóvember 2006. 2.) Umsögn Félags prófessora um upphaflega niðurstöðu nefndarinnar, dags. 18. október 2006. 3.) Tillaga nefndarinnar sem kosin var á háskólafundi 26. maí 2005 til að útfæra tillögur starfshóps rektors, dags. 28. október 2005.