Skip to main content

15. háskólafundur 12. nóvember 2004

15. háskólafundur haldinn 12. nóvember 2004 í Hátíðasal Háskóla Íslands á 2. hæð í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13.00-17.30

Dagskrá

Kl. 13.00 - 13.05  Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir framkomnum gögnum.
Kl. 13.05 - 13.25  Dagskrárliður 1. Rektor reifar stefnumál Háskóla Íslands.
Kl. 13.25 - 14.00  Dagskrárliður 2. Drög að endurskoðaðri starfsmannastefnu Háskóla Íslands.
Kl. 14.00 - 14.40  Dagskrárliður 3. Drög að stefnu Háskóla Íslands gegn mismunun.
Kl. 14.40 - 15.20  Dagskrárliður 4. Hugmynd að stigamatskerfi fyrir kennslu.
Kl. 15.20 - 15.35  Kaffihlé.
Kl. 15.35 - 16.10  Dagskrárliður 5. Niðurstöður könnunar á gildi og gagnsemi náms við Háskóla Íslands. (Í staðinn fyrir auglýstan dagskrárlið: Úttektir. Staða mála).
Kl. 16.10 - 16.50  Dagskrárliður 6. Breytt námsskipan til stúdentsprófs. Skýrsla starfshópa og verkefnisstjórnar menntamálaráðuneytis.
Kl. 16.50 - 17.30  Dagskrárliður 7. Fyrirkomulag og framkvæmd skriflegra prófa.
Kl. 17.30              Rektor slítur fundi.

Kl. 13.00: Fundarsetning

Rektor setti 15. háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Þá fór rektor yfir dagskrá og tímaáætlun og gerði grein fyrir fyrirliggjandi gögnum. Fundarritarar voru, eins og áður, Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri, og Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri rannsóknasviðs.

Áður en gengið var til dagskrár bar rektor upp dagskrártillögu um að í stað auglýsts dagskrárliðar 5, sem fjalla átti um úttektir á Háskóla Íslands, yrði gerð grein fyrir helstu niðurstöðum viðamikillar könnunar á gildi og gagnsemi náms við Háskóla Íslands sem Félagsvísindastofnun framkvæmdi fyrir skömmu að tilhlutan gæðanefndar. Ástæðan fyrir tillögunni væri sú að skil á niðurstöðum stjórnsýslu- og fjárhagsúttektar Ríkisendurskoðunar hefðu dregist á langinn.

Rektor gaf orðið laust. Enginn tók til máls og bar rektor dagskrártillögu sína undir atkvæði.

- Samþykkt einróma.

Kl. 13.05 - 13.25 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar stefnumál Háskóla Íslands

Vísinda- og menntastefna Háskóla Íslands
Rektor hóf mál sitt á því að ræða sameiginlega vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands sem samþykkt var á háskólafundi vorið 2001. Það væri eitt meginhlutverk fundarins að yfirvega stefnuna í sífellu og hvatti rektor fundarmenn til að halda henni á lofti og kynna hana sem víðast innan lands og utan. Þá gerði rektor að umtalsefni mikilvægasta stefnumál Háskóla Íslands, sem er uppbygging framhaldsnáms og rannsókna við Háskóla Íslands. Á þessu byggði Háskólinn m.a. tilkall sitt til að teljast fullburða rannsóknaháskóli sem stæðist samjöfnuð við hliðstæða háskóla í nágrannalöndum okkar. Þótt gríðarlega mikið hefði áunnist á þessu sviði á síðustu árum væri veiki hlekkurinn ennþá doktorsnámið sem almennt væri talið aðalsmerki hvers eiginlegs háskóla. Mörg úrlausnarefni biðu Háskólans á þessu sviði á allranæstu árum, s.s. fjármögnun styrkjakerfis fyrir doktorsnema, bætt rannsóknar- og starfsaðstaða fyrir nýdoktora, þ.e. rannsóknafólk sem nýlokið hefði doktorsnámi og hefði mikið að gefa til háskólasamfélagsins. Ýmislegt benti þó til þess að doktorsnámið væri að hefja sig til flugs um þessar mundir. Nú væru á annað hundrað doktorsnemar við Háskólann og á þessu ári stefndi í að doktorsvarnir yrðu a.m.k. tíu talsins. Þá markaði tímamót á þessu sviði að háskólafundur hefði samþykkt viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms.

Fjármál
Næst kom rektor inn á fjármál Háskólans. Sagði hann m.a. í því sambandi að Háskólinn ætti í stöðugum viðræðum við menntamálaráðuneytið um framtíðarfjármögnun háskóla á Íslandi almennt og fjármögnun Háskóla Íslands sérstaklega. Minnti rektor í þessu sambandi á nýafstaðið málþing um opinbera háskólastefnu sem vakið hefði verðskuldaða athygli og vonandi yrði framhald á slíkri umfjöllun. Hér væri á ferðinni eitt brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar sem ætti að vera að sama skapi fyrirferðamikið í opinberri umræðu á Íslandi.

Næst fór rektor nokkrum orðum um frumvarp ríkisstjórnarinnar til fjárlaga ársins 2005. Í frumvarpinu væri m.a. gert ráð fyrir 250 m.kr. hækkun á framlögum til Háskóla Íslands. Þetta dygði þó ekki til. Aðhaldsaðgerðir hefðu skilað miklum árangri en samt fjölgaði enn virkum nemendum auk þess sem fjárveiting vegna rannsókna yrði að hækka til samræmis við aukin umsvif og kostnað, m.a. vegna launa. Nú hefðu nokkrar deildir óskað eftir því að fá að taka inn nemendur í janúar, m.a. vegna þess að sumir framhaldsskólar brautskrá nemendur um áramótin, og hefði háskólaráð ákveðið að Háskólinn tæki við umsóknum þótt í því felist ekki loforð um skólavist. Á heildina litið hefði aðsókn að Háskólanum síst minnkað. Ástæðan væri einkum sú að aldurssamsetning nemendahópsins væri að breytast og eldri nýnemum að fjölga.

Úttekt Ríkisendurskoðunar
Síðastliðið vor fól menntamálaráðherra Ríkisendurskoðun að gera úttekt á fjárhagsstöðu, fjármögnun, árangri, gæðum, rekstrarformi og stjórnsýslu Háskólans. Úttektin samanstendur af þremur meginþáttum, (1.) greiningu Ríkisendurskoðunar á framangreindum þáttum, (2.) viðhorfskönnun meðal starfsfólks Háskólans og (3.) alþjóðlegum samanburði á völdum kennitölum og starfsþáttum. Rektor greindi frá því að upphaflega hafi verið áformað að niðurstöður úttektarinnar yrðu birtar í október, en verklok hefðu tafist og síðustu fréttir hermdu að þau yrðu ekki fyrr en eftir áramót.

Vísindagarðar í Vatnsmýrinni og Háskólatorg
Rektor fór stuttlega yfir stöðu mála varðandi væntanlega Vísindagarða Háskólans í Vatnsmýrinni. Eftir langan undirbúning væri málið nú að komast á skrið. Meðal annars myndi bráðlega fást heimild til að hefja formlegar samningaviðræður við væntanlega leigjendur. Varðandi Háskólatorg sagðist rektor vonast eftir að fá heimild til framkvæmdarinnar í væntanlegu fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þótt enn ætti eftir að ganga frá ýmsum lausum endum, s.s. væntanlegri sölu á húsnæði Félagsstofnunar stúdenta, væri aðeins tímaspursmál hvenær hafist yrði handa við bygginguna.

Kjarasamningar í haust
Að endingu minntist rektor á kjarasamninga Félags háskólakennara sem væru lausir nú í haust. Áhersla hefði verið lögð á að allir aðilar innan Háskólans tækju höndum saman svo málið fengi farsælar lyktir.

Kl. 13.25 - 14.00 - Dagskrárliður 2: Drög að endurskoðaðri starfsmannastefnu Háskóla Íslands

Fyrir fundinum lágu drög að endurskoðaðri starfsmannastefnu Háskóla Íslands sem Guðrún Þórhallsdóttir, dósent, gerði grein fyrir. Byrjaði Guðrún á lýsa stuttlega aðdraganda málsins. Drögin eru afrakstur starfshóps sem rektor skipaði og í sátu, auk Guðrúnar, Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir, starfsmannastjóri, Guðmundur R. Jónsson, formaður samráðsnefndar um kjaramál, Berglind Rós Magnúsdóttir, jafnréttisfulltrúi, Sigríður Björnsdóttir, fulltrúi Félags háskólakennara og Félags prófessora, Sigrún Valgarðsdóttir, starfsmannasviði, og Magnús Diðrik Baldursson, gæðastjóri. Jafnframt voru lögfræðingarnir Sólveig Bachmann og Tryggvi Þórhallson hópnum til aðstoðar. Tilefnið fyrir endurskoðuninni var að eldri starfsmannastefna var komin nokkuð til ára sinna auk þess sem ýmsar breytingar hefðu orðið í starfsmannamálum sem taka þurfti tillit til.

Næst rakti Guðrún helstu tillögur starfshópsins. Í fyrsta lagi hefur kaflaskipting verið endurskoðuð og nokkur efnisatriði flutt milli kafla. Þannig hafa t.d. atriði sem áður voru í niðurlagi stefnunnar, s.s. ákvæði um gildistöku og endurskoðun sem og skilgreining á því til hverra starfsmannastefnan tekur, verið flutt fram í 1. kafla. Í öðru lagi hafa verið lagfærð ýmis atriði samkvæmt ábendingum starfsmannasviðs er annast framkvæmd starfsmannastefnunnar. Dæmi um síðastnefndu breytinguna er ákvæði í kafla 7.6 um starfsmannasamtöl og endurskoðun á ákvæði um frammistöðumat. Þá hefur Háskólinn tekið upp formlegt gæðakerfi sem einnig þurfti að taka tillit til. Í þriðja lagi voru í eldri stefnu nokkur atriði sem aðeins eiga við hluta starfsmanna og voru felld niður þess vegna. Dæmi um þetta er eldra ákvæði um að starfsmaður skuli semja við yfirmann fyrir 1. febrúar ár hvert um hvenær á árinu hann tak orlof. Þetta á yfirleitt ekki við háskólakennara og því þótti óþarft að tiltaka það. Í fjórða lagi hefur á nokkrum stöðum verið bætt inn tilvísunum í jafnréttisstefnu Háskólans, s.s. í 6. kafla. Endaði Guðrún framsögu sína með því að greina frá því að innan starfshópsins hefði verið einhugur um breytingarnar og hefði hann haft það að leiðarljósi að allir starfsmenn Háskólans ættu að geta sammælst um þær.

Rektor þakkaði Guðrúnu fyrir framsöguna og gaf orðið laust.

Málið var rætt. Almennt var gerður góður rómur að fyrirliggjandi drögum að starfsmannastefnu og þótti fundarmönnum þau vera bæði skýr og skilmerkileg. Nokkuð var rætt um framkvæmd stefnunnar og í því sambandi m.a. bent á að dagleg umsjón og eftirlit væri á höndum starfsmannasviðs. Tóku fulltrúar sviðsins á fundinum fram að starfsmannastefnan væri nauðsynleg forsenda fyrir framkvæmd starfsmannamála í Háskólanum. Þá benti einn fundarmaður á að hnykkja mætti á því að ráðningarmál akademískra starfsmanna ættu að ganga hratt fyrir sig. Annar fundarmaður gerði að umtalsefni móttöku nýrra starfsmanna og mikilvægi þess að vel væri að þeim málum staðið. Benti hann sérstaklega á að erlendir starfsmenn þyrftu iðulega ekki aðeins á leiðbeiningu að halda heldur víðtækari aðstoð. Einnig var rætt um starfsþróunarmál og símenntun. Var á það bent að Háskólinn sem æðsta menntastofnun þjóðarinnar hefði sérstöku skyldum að gegna í þessu sambandi og ætti að vera öðrum til fyrirmyndar. Þá var vakin athygli á því að í starfsmannastefnunni væri fjallað sérstaklega um óskir fólks um starfslok og að Háskólinn vildi koma til móts við starfsmenn í þeim efnum, s.s. með breyttu starfshlutfalli eða starfsskyldum síðustu misserin í starfi. Jafnframt þyrfti að huga að ýmsum vandamálum sem í reynd kæmu upp í þessu sambandi, s.s. varðandi starfsaðstöðu. Spurt var, hvers vegna tekið væri fram í neðanmálsgrein 2 að starfsmannastefnan tekur ekki til nokkurra nafngreindra stofnana. Var því til svarað, að umræddar stofnanir væru ekki hluti af stofnanakerfi Háskólans, hvort sem þær ættu sér sína eigin starfsmannastefnu eða ekki.

Einn fundarmanna spurði, hvers vegna ekki væri minnst í kafla 6 um jafnrétti á stefnu Háskóla Íslands gegn mismunun, sem yrði til umfjöllunar síðar á fundinum. Svaraði jafnréttisfulltrúi Háskólans því til að þetta hefði verið rætt í vinnuhópnum sem samdi starfsmannastefnudrögin. Hefði hópurinn komist að þeirri niðurstöðu að etv. væri heppilegra að vísa ekki til annarar stefnu sem væri óafgreidd, heldur freista þess að starfsmannastefnan yrði samþykkt og gera frekar á henni umrædda breytingu síðar. Þetta atriði var rætt og bar Berglind Rós Magnúsdóttir loks upp tillögu um að ef stefna Háskóla Íslands gegn mismunun hlyti samþykki fundarins bættust við í upphafi 6. kafla starfsmannastefnunnar orðin: „þremur stoðum" og „stefnu gegn mismunun". Í heild myndi setningin þá hljóða svo: „Jafnréttisstefna Háskóla Íslands hvílir á þremur meginstoðum: Jafnréttisáætlun kynjanna, stefnu í málefnum fatlaðra og stefnu gegn mismunun.“

Loks vakti einn fundarmanna athygli á því að í lið 8.5 segði m.a.: „Háskóli Íslands er tóbaks-, áfengis- og vímuefnalaus vinnustaður.“ Þetta væri síðan útlistað svo: „Í þessu felst að óheimilt er að neyta tóbaks, áfengis eða vímuefna eða vera undir áhrifum áfengis og vímuefna í starfi.“ Ef þetta væri skilið bókstaflega mættu starfsmenn hreinlega ekki reykja á vinnutíma sem tæpast væri raunhæft. Tóku aðrir fundarmenn undir þetta og bar Gylfi Magnússon upp tillögu um að orðin „neyta tóbaks, áfengis eða vímuefna“ yrðu felld niður. Svo breytt hljóðaði setningin: „Í þessu felst að óheimilt er að vera undir áhrifum áfengis og vímuefna í starfi.“

Að umræðu lokinni bar rektor fyrst undir atkvæði breytingartillögu Berglindar Rós Magnúsdóttur.

- Samþykkt samhljóða.

Næst bar rektor undir atkvæði breytingartillögu Gylfa Magnússonar.

- Samþykkt samhljóða.

Loks bar rektor undir atkvæði fyrirliggjandi drög að starfsmannastefnu Háskóla Íslands í heild.

- Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Guðrúnar Þórhallsdóttur, þau Inga Jóna Þórðardóttir, Sigrún Valgarðsdóttir, Kristín Jónsdóttir, Hörður Filippusson, Jón Torfi Jónasson, Gylfi Magnússon, Oddný G. Sverrisdóttir, Kristín Ingólfsdóttir, Tryggvi Þórhallsson og Berglind Rós Magnúsdóttir.

Kl. 14.00 - 14.40 - Dagskrárliður 3: Drög að stefnu Háskóla Íslands gegn mismunun

Fyrir fundinum lágu drög að stefnu Háskóla Íslands gegn mismunun, sem lögð voru fram af jafnréttisnefnd skólans. Rektor bauð Hólmfríði Garðarsdóttur, formanni nefndarinnar, að gera grein fyrir málinu. Hóf Hólmfríður mál sitt á því að lýsa þeirri skoðun að Háskóli Íslands ætti að vera í fararbroddi í jafnréttismálum í þjóðfélaginu og jafnframt að vera fyrirmynd annarra. Markmiðið með framlögðum drögum að stefnu gegn mismunun væri að tryggja jafnrétti allra hinna ólíku einstaklinga og hópa innan háskólasamfélagsins og fyrirbyggja mismunun á grundvelli persónulegra eiginleika, s.s. aldurs, fötlunar, heilsu, kyns, kynhneigðar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, þjóðernis, uppruna, litarháttar eða menningar. Síðastliðin tvö ár hefði jafnréttisnefnd unnið að undirbúningi stefnunnar sem byggir á jafnræðisreglu stjórnarskrár Íslands („Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda“), alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og mannréttindayfirlýsingum. Ef stefnan hljóti samþykki verði hún því einskonar mannréttindayfirlýsing Háskóla Íslands á tímum margmenningar og sívaxandi fjölþjóðlegra samskipta og samvinnu.

Stefnunni væri ætlað að gera öllum kleift að njóta sín á jafnréttisgrundvelli og koma í veg fyrir mismunun sem lítilsvirðir eða misbýður einstaklingum eða hópum. Í stefnunni væri tekið á beinni og óbeinni mismunun, en í textanum segði m.a.: „Mismunun felst í hverri þeirri athöfn sem greinir á milli einstaklinga eða hópa á þann veg að það veitir sumum forréttindi eða dregur úr möguleikum annarra“. Samtímis væri tryggt að sértækar aðgerðir, s.s. aðgengi fatlaðra eða túlkaþjónusta fyrir heyrnarskerta, væri leyfileg í því skyni að tryggja jafnræði og jafnan aðgang allra að „björgum, gögnum og gæðum háskólasamfélagsins“.

Í stefnunni væri ennfremur áréttað að mismunum og fordómar haldast alla jafna í hendur. Munurinn á þessu tvennu væri sá að fordómar eru skoðanir og viðhorf, en mismunun er athöfn, stefnumótun eða framkvæmd. Mismunun væri atferli sem samræmist ekki markmiðum Háskóla Íslands.

Í fyrirliggjandi drögum að stefnu gegn mismunun væri lagt til að jafnréttisnefnd og jafnréttisfulltrúi hefðu yfirumsjón því að stefnunni væri fylgt eftir, en allt háskólasamfélagið kæmi til með að bera ábyrgð á framkvæmd einstakra ákvæða stefnunnar.

Að lokum gat Hólmfríður þess að í stefnunni er að finna sérstakan kafla um farveg mála er varða brot á ákvæðum stefnu gegn mismunun og þar er þess getið að fari svo - eftir að sáttaleiða hefur verið leitað m.a. með aðstoð sérfræðinga - að þolandi mismununar ákveði að kæra mál skuli kærunni beint til siðanefndar Háskólans.

Rektor þakkaði Hólmfríði fyrir framsöguna og gaf orðið laust.

Málið var rætt ítarlega og lýstu fundarmenn sig almennt ánægða með hugmyndina að baki stefnunni, þótt skiptar skoðanir hafi verið á útfærslunni. Greindi fyrrverandi formaður jafnréttisnefndar frá því að fyrirliggjandi drög að stefnu gegn mismunun ættu sér langan aðdraganda og hefði jafnréttisnefnd ráðfært sig við fjölmarga aðila við samningu textans. Í fyrstu jafnréttisáætlun Háskólans, sem enn væri í gildi, hefði t.d. verið tekið fram að semja ætti á gildistímanum stefnu sem hefði víðari skírskotun til jafnréttis en aðeins til jafnréttis kynjanna. Framkomin drög að stefnu gegn mismunun væri tímamótaplagg og hið fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Með því gæfi Háskólinn skýrt fordæmi sem gæti haft jákvæð áhrif á hugsunarhátt og afstöðu fólks innan sem utan háskólasamfélagsins. Þá greindi hann frá því að jafnréttisnefnd liti svo á að stefnan gegn mismunun væri þriðja meginstoðin sem jafnréttisstefna Háskólans hvílir á, en hinar tvær stoðirnar væru jafnréttisáætlun kynjanna og stefna í málefnum fatlaðra. Annar fundarmaður skýrði frá því að ástæðan fyrir því að valin hefði verið sú leið að fela siðanefnd að skera úr um hugsanleg ágreiningsmál væri að einfalda málsmeðferð og búa ekki til tvær kæruleiðir í skyldum málaflokkum innan Háskólans, s.s. hvort breyta þurfi starfsreglum siðanefndar til samræmis við stefnuna gegn mismunun. Þá varpaði einn fundarmanna fram þeirri spurningu, hvers vegna ekki væri gert ráð fyrir að yfirstjórn skólans komi að lausn ágreiningsmála, sbr. 5. kafla. Vel mætti hugsa sér að innan lítilla starfseininga væri sökum nálægðar erfitt um vik að leysa ágreiningsmál og því gæti verið gagnlegt að leita liðsinnis hjá yfirstjórn áður en farin væri kæruleið. Ennfremur kom fram það sjónarmið að sum atriði stefnunnar væru of nákvæmlega orðuð sem gæti jafnvel verið íþyngjandi og leitt til oftúlkunar er bitnaði t.d. á málfrelsi kennara og gæti skapað spennt andrúmsloft við kennslu í stórum hópum. Til dæmis um þetta var nefnt ákvæði um mismunun á grundvelli þjóðernis (kafli 4.7). Hér vaknaði t.d. sú spurning, hvort á grundvelli þessa ákvæðis sé hægt að fara fram á að krossapróf verði þýdd á öll tungumál sem nemendur tala? Einnig var spurt, hvort stefnunni væri almennt ætlað að bregðast við raunverulegum vanda innan Háskólans eða hvort henni væri ætlað að koma í veg fyrir slíkt fyrirfram. Í þessu sambandi benti fyrrverandi formaður jafnréttisnefndar á að þótt ekki hefðu borist formlegar kærur hefðu komið upp meint mismununarmál sem beint hefði verið óformlega til jafnréttisnefndar. Annar fulltrúi bætti því við að hafa verði í huga að fulltrúar ýmissa minnihlutahópa gætu upplifað hluti sem mismunun þótt fulltrúar meirihlutahópa áttuðu sig ekki alltaf á því. Í þessu sambandi væri gagnlegt að fá frekari upplýsingar um það frá jafnréttisnefnd, við hverju stefnan gegn mismunun væri að bregðast.

Sérstaklega var fjallað um ákvæði 4.6.4 („Kennurum ber sérstaklega að gæta þess að fjalla ekki á niðurlægjandi hátt um nein trúarbrögð í kennslu sinni.“). Hélt einn fundarmaður því fram að þetta ákvæði orkaði tvímælis, t.d. ef verið væri að fjalla um trúarbrögð sem sjálf væru kúgandi og fjölluðu á niðurlægjandi hátt um önnur trúarbrögð. Einnig var því sjónarmiði haldið fram, að ákvæðið ætti ekki að takmarkast við trúarskoðanir heldur ætti einnig að tiltaka stjórnmálaskoðanir. Á móti hélt annar fundarmaður því fram að vafasamt væri að tiltaka þessa þætti sérstaklega. Ekki ætti að fjalla á niðurlægjandi hátt um eitt eða neitt, einn eða neinn, og því væri betra að nota almennt orðalag í ákvæðinu.

Í umræðunni var komið inn á fjölmargar fleiri hliðar málsins, s.s. hvort hinn svonefndi aldursafsláttur eldri kennara feli hugsanlega í sér mismunun og hvort þörf sé á að skipa sérstakan alþjóðafulltrúa í hverri deild til að hafa umsjón með móttöku erlendra starfsmanna (sbr. grein 4.7.4). Í framhaldi af þessu var rætt um ákvæði 4.7.5 („Mikilvægar upplýsingar á heimasíðu skulu liggja fyrir á ensku, s.s. námskeiðslýsingar, tilkynningar og viðburðadagatal svo eitthvað sé nefnt.“). Bent var á að þetta gæti leitt til umtalsverðs þýðingarkostnaðar og að huga þyrfti að því hvernig þetta ákvæði færi saman við nýsamþykkta málstefnu Háskólans, þar sem erlendir kennarar eru hvattir til að sækja námskeið í íslensku. Einn fulltrúi stúdenta benti á að málið varðaði ekki aðeins starfsmenn heldur einnig nemendur. Þannig væri t.d. stundum misbrestur á því að mikilvægar upplýsingar og tilkynningar til nemenda væru aðgengilegar á ensku.

Að lokinni umræðu bar rektor upp tillögu um að fyrirliggjandi drög að stefnu Háskóla Íslands gegn mismunun verði send til deilda og stofnana til umsagnar með skilafresti til loka janúar svo málið geti komið fyrir næsta háskólafund til annarrar umræðu.

- Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Hólmfríðar Garðarsdóttur, þau Berglind Rós Magnúsdóttir, Baldur Þórhallsson, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Anna Pála Sverrisdóttir, Helgi Þorláksson, Björn Þ. Guðmundsson, Gylfi Magnússon, Inga Jóna Þórðardóttir, Sigurður Júlíus Grétarsson, Rannveig Traustadóttir, Eiríkur Tómasson, Oddný G. Sverrisdóttir og Jón Torfi Jónasson.

Kl. 14.40 - 15.20 - Dagskrárliður 4: Hugmynd að stigamatskerfi fyrir kennslu

Stefán B. Sigurðsson, prófessor og fulltrúi í kennslumálanefnd, gerði grein fyrir málinu. Í máli Stefáns kom m.a. fram að fyrirliggjandi hugmynd að stigamatskerfi fyrir kennslu væri lögð fram af kennslumálanefnd í því skyni að vera umræðugrundvöllur um það hvernig stuðla megi að því að kennsla verði metin til framgangs og launa við Háskóla Íslands á svipaðan hátt og gerist með rannsóknir. Á síðustu árum hefði sívaxandi áhersla verið lögð á rannsóknir innan Háskólans, t.d. við ráðningu, framgang og launaákvarðanir akademískra starfsmanna, og teldu sumir að því fylgdi viss hætta á að kennsluþátturinn sæti eftir á kostnað þeirrar samþættingar kennslu og rannsókna sem væri óumdeild undirstaða alls háskólastarfs. Við mat á kennslu mætti byggja á ýmsum atriðum, s.s. kennslukönnun í lok misseris, sjálfsmati kennara og þeim gögnum er hann leggur fram, árlegu starfsmannasamtali, kennsluskýrslu sem deildarforseti/skorarformaður staðfestir - eða stigamatskerfi eins og því sem lægi fyrir fundinum. Vissulega væri skiptar skoðanir um það hvort slíkt stigamatskerfi væri rétta leiðin til að styrkja kennsluþáttinn eða hvort heppilegra væri að fara aðrar leiðir að sama marki. Til dæmis hefði málið nýlega verið rætt á fundi rektors með deildarforsetum og hefði þá verið haft á orði að mörg atriði í stigamatskerfinu féllu í reynd undir kennsluskyldu kennara og þá hefði vaknað sú spurning, í hverju kennsluskyldan eiginlega felst. Í ljósi alls þessa væri hugmynd kennslumálanefndar að stigamatskerfi kennslu fyrst og fremst lögð fram til að vekja umræður um þetta mikilvæga málefni. Síðan fór Stefán yfir framlagðar hugmyndir kennslumálanefndar og staldraði sérstaklega við nokkrar þeirra með eftirfarandi hætti:

B1.2 Nám í kennslufræðum
Kennslufræði- og kennsluréttindanám, sem aflað er umfram nám á fagsviði, hefur ekki notið neinnar sérstakrar umbunar í stigamatskerfi kennara við Háskóla Íslands. Það er þó álitið eðlilegt, þó svo réttindanna sé ekki krafist við starfsveitingu. Miðað er við að eins árs nám til kennsluréttinda (30 einingar) umfram prófgráður á fagsviði gefi aukalega 10 stig eftir a.m.k. eitt ár í kennslu. Annað kennslufræðinám taki hlutfallslega mið af því stigamati.

B1.3 Viðurkennt námskeið í kennslutækni og/eða kennslufræði
Í evrópskum rannsóknum hefur komið fram að efnahagslegan hvata þurfi til þess að háskólakennarar noti upplýsingatækni í kennslu. Því geti þurft beitu á krókinn til að fá háskólamenn til að sækja námskeið þar sem bryddað er upp á nýbreytni í kennsluháttum (eða gamalreyndar aðferðir rifjaðar upp). Námskeið kennslumiðstöðvar væru fyrirfram metin til stiga og miðstöðin myndi meta námskeið sem tekin væru við aðrar stofnanir.

B1.4 Álag vegna dreifkennslunámskeiða
Taki vinnumat að öðru leyti ekki tillit til álags vegna dreifkennslu sé veitt stig vegna samskipta við nemendur í dreifkennslu. Samskipti við nemendur í dreifkennslu taka fyrirsjáanlega verulegan tíma og vinnu kennara, sem endast hugsanlega ekki til langframa nema með umbun.

B1.5 Álag vegna fjölda nemenda
Umdeild tillaga, en benda má á að minni líkur eru á að kennari námskeiða sem eru fjölmennari en um 50 manns leitist við fjölbreytni í námsmati og fái umbun fyrir það. Til greina kemur að veita 0,5 stig fyrir 50-100 nemendur en 1 stig þegar nemendur eru fleiri en 100.

B1.6 Álag vegna símats eða fjölbreytni í námsmati og kennslu
Nemendur kalla stíft eftir símati, aukinni verkefnavinnu og dæmatímum, sem eykur vissulega vinnuálag á kennara og því er rétt að umbuna fyrir það. Með mati á aukinni þjónustu við nemendur í hefðbundnum staðkennslunámskeiðum er m.a. komið til móts við stefnu Háskólans um virkt gæðamat á kennslu.

Viðbótarhugmynd vegna liða undir B1
Bæta við mati á notkun á vefkerfi háskólans, WebCT eða eigin heimasíðu til að miðla stuðningsefni til nemenda (1 stig á ári).

B2.2 Kennslurit og kennslubækur
Útvíkka liði B2.1 og B2.2 þannig að orðið „útgáfa“ vísi til birtingar á kennsluefni með vef-, hljóð- og margmiðlum, jafnt sem á bók, og að kennarar geti þar með fengið vinnu við vefsíðugerð, geisladiska, myndbönd, og margmiðlunarefni ýmiskonar metna til jafns við útgáfu smárita og bóka.

B2.3 Þróun og endurbætur kennsluefnis
Hér er gert ráð fyrir að um verulegar endurbætur og þróun á kennsluefni (skv. skilgreiningu á liðum B2.1-2) gildi sömu reglur og um endurútgáfu bóka í lið A.2 Bækur, í mats- og vinnureglum matshópa. Þar segir: „Ekki er gefið fyrir endurútgáfur, nema að um verulegar viðbætur eða breytingar sé að ræða.“

B3.4 Við kandídats-, B.A./B.S., 4.-árs og skiptinema verkefni
Miðað er við að umsækjandi sé einn umsjónarmaður með verkefninu og því sé lokið með fullnægjandi skilum til deildar/skorar. Undirbúningsvinna við styttri verkefni er oft hlutfallslega meiri en við stærri og því mun vænlegra fyrir kennara að vísa smærri verkefnum frá sér og velja þau stærri.. Fyrir 5 ein. verkefni fáist 0,5 stig, en 1 stig fyrir 10 ein. Með verkefnum skiptinemenda er vísað til skiptikennslu á vegum ERASMUS, NORDPLUS eða sambærilegra áætlana (kennslumagn yfir 20 stundir).

Rektor þakkaði Stefáni fyrir framsöguna og gaf orðið laust.

Málið var rætt ítarlega. Voru fundarmenn almennt á einu máli um það, að mjög þarft væri að ræða málefni kennslunnar og að tryggja að hún væri metin að verðleikum í háskólastarfinu og kennurum umbunað fyrir góða kennslu. Bent var á að þegar hafi verið stigið skref í þessa átt með veitingu viðurkenninga til framúrskarandi kennara á háskólahátíð að hausti. Fram kom það sjónarmið að fyrirliggjandi drög að stigamatskerfi kennslu legðu mesta áherslu á magn fremur en gæði. Á móti bentu aðrir á að stigamatskerfi sem þetta, sem hvetur kennara til vandaðrar kennslu, bættra kennsluhátta, þekkingar á kennslufræðum og margskonar nýmæla væri hentugt tæki til að meta gæði kennslu til jafns við gæði rannsókna. Mikilvægasta og útbreiddasta tækið í þessum tilgangi væri námskeiðsmat nemenda, en gagnsemi þess væri þó takörkum háð. Aðalatriðið væri að hafa hugfast að kennarar hafa bæði rannsóknaskyldu og kennsluskyldu og því er nauðsynlegt að þróa matskerfi einnig fyrir kennsluna, þótt það byggi ekki beinlínis á rannsóknamatskerfinu.

Vissulega væri hægara sagt en gert að meta gæði kennslu beinlínis og alþekkt væri að kennslumat nemenda væri ekki alskostar gallalaust tæki í því sambandi. Einn fundarmaður benti á að vandi háskólakennara varðandi kennslu væri ekki aðeins ónóg umbun heldur einnig of mikið álag. Því þyrfti að styðja við kennara með hvoru tveggja, hvetjandi punktakerfi og aukinni aðstoð. Í þessu sambandi mætti huga að því að nýta sístækkandi hóp framhaldsnema sem aðstoðarkennara. Varðandi spurninguna, hvort stigamatskerfi rannsókna og kennslu væru hliðstæð var á það bent, að þegar kennarar leggja fram birt hugverk til rannsóknastiga hefur þegar farið fram mat á gæðum verkanna, en þetta ætti ekki að sama skapi við um kennsluna. Einnig þyrfti háskólafólk að gera sér grein fyrir því að hvatakerfi kennslu myndi hafa víðtlk áhrif og gæti t.d. hleypt af stað launaskriði. Einnig blasti við að ef innleitt yrði nýtt stigamatskerfi fyrir kennslu þyrfti að núllstilla gamla kerfið og því fylgdu margskonar tæknileg vandamál.

Í umræðunni var komið inn á fjölmarga aðra þætti málsins. Einn fundarmanna varpaði fram þeirri spurningu hvort litlar ritgerðir (sbr. lið B3.2) hefðu hlutfallslega of mikið vægi. Einnig var á það bent að óljóst væri hvort allir meðlimir í doktorsnefndum (sbr. lið B3.3) ættu að fá 10 stig eða aðeins aðalleiðbeinandinn. Þá var spurt, hvort gert væri ráð fyrir að stigamatskerfið væri afturvirkt eða aðeins framvirkt og hvort það ætti að heyra undir kjaranefnd eins og stigamatskerfi rannsókna. Æskilegt væri að matið færi ekki of langt frá því sem gildir um prófessora. Því sjónarmiði var haldið fram að fyrirliggjandi drög að stigamatskerfi kennslu fælu í sér upptalningu á fjölmörgum einstökum hlutum sem eðlilegt væri að tekja til kennsluskyldu. Betra væri að einfalda kerfið og umbuna einkum fyrir meiri háttar verk, s.s. samningu umfangsmikill kennslurita. Einn fundarmanna vakti athygli á því að ekki væri gert ráð fyrir að meta sérstaklega klíníska kennslu, þótt hún væri í mörgum tilvikum meira krefjandi en hefðbundin kennsla. Samskonar ábending kom fram varðandi fjarkennslu. Þá var bent á að tengja þyrfti umræðuna um matskerfi kennslu við umræðu um aukinn sveigjanleika milli stafsþátta kennara, kennslu, rannsóknir og stjórnun.

Að lokum ítrekaði rektor að hér væri á ferðinni mikilvægt mál fyrir Háskólann sem nauðsynlegt væri að ræða frekar. Reynslan af stigamatskerfi rannsókna sýndi að það hefði haft veruleg áhrif á hegðun háskólakennara og því þyrfti að undirbúa málið vandlega og ekki flana að neinu. Að þessum orðum slepptum bar rektor upp tillögu um að fyrirliggjandi drögum að stigamatskerfi kennslu yrði vísað til umsagnar deilda og skora.

- Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Stefáns B. Sigurðssonar, þau Ásdís Magnúsdóttir, Gylfi Magnússon, Jón Torfi Jónasson, Rannveig Traustadóttir, Halldór Jónsson, Hörður Filippusson, Sigurður Brynjólfsson, Einar Sigurðsson og Kristín Ingólfsdóttir.
 

Kl. 15.35 - 16.10 - Dagskrárliður 5: Niðurstöður könnunar á gildi og gagnsemi náms við Háskóla Íslands.

Friðrik H. Jónsson, dósent og forstöðumaður Félagsvísindastofnunar, gerði grein fyrir málinu. Skýrði Friðrik frá því að snemma árs 2004 hefði Félagsvísindastofnun tekið að sér, samkvæmt beiðni gæðanefndar, að framkvæma viðamikla könnun á gildi og gagnsemi náms við Háskóla Íslands. Var þetta í fyrsta sinn sem ráðist er í svo viðamikla könnun, en áður höfðu verið gerðar nokkra minni kannanir í einstökum deildum. Markmið könnunarinnar var að afla vitneskju um undirbúning nemenda fyrir háskólanám, sjálft námið í Háskóla Íslands, umskiptin frá námi til starfs og hvernig námið hefur nýst nemendum í lífi og starfi. Byggt var á könnun sem framkvæmd var í 9 löndum Evrópusambandsins, Noregi, Tékklandi og Japan undir heitinu CHEERS (Careers after Higher Education: a European Research Study). Því er hægt að nota innlendu niðurstöðurnar í alþjóðlegum samanburði. Svarendur voru allir nemendur sem brautskráðust frá Háskóla Íslands árin 1993 (796 kandídatar) og 2001 (1061 kandídat). Könnunin var framkvæmd með þeim hætti að sendur var með pósti ítarlegur spurningalisti og bárust svör frá 45% þýðisins. Sökum umfangs könnunarinnar sagðist Friðrik einungis greina frá nokkrum völdum niðurstöðum, en niðurstöðuskýrslan verður gerð opinber í heild á næstunni. Eftirtalin atriði komu fram í máli Friðriks:

Upphaf náms við Háskóla Íslands
Könnunin leiddi m.a. í ljós að um þriðjungur nemenda innritaðist í Háskólann strax eftir stúdentspróf. Í árganginum 1993 var stúdentspróf 4,3 ára gamalt við upphaf háskólanáms hjá þeim sem ekki komu beint í Háskólann, en í árganginum 2001 var stúdentsprófið 5,1 árs hjá sama hópi.

Einkunnir og undirbúningur
Spurt var um mat svarenda á einkunnum sínum við upphaf háskólanáms og hvernig þeir teldu sig hafa verið undirbúna undir námið. Almennt töldu um tveir þriðju hlutar allra brautskráðra kandídata frá Háskóla Íslanda að undirbúningur þeirra hefði verið mjög góður eða góður.

Vinna með námi
Fram kom að atvinnuþátttaka stúdenta með námi hefur stóraukist á milli árganga og er á heildina litið afar mikil. Nánar tiltekið kom í ljós að í árganginum 1993 unnu 50,9% með námi og 26,6% þeirra voru í meira en 40% starfi. Í árganginum 2001 unnu 70,1% með námi og 37,0% voru í meira en 40% starfi. Í árganginum 2001 fækkaði þeim sem eru í minna en 20% starfi. Hlutfall þeirra sem eru í yfir 60% starfi var 16% og breyttist lítið frá 1993 til 2001. Jafnframt kom fram sú athyglisverða niðurstaða að námstími hefur ekki lengst og einkunnir í háskólanámi ekki versnað. Gæti þetta bent til þess að lítilsháttar verðbólga hafi hlaupið í einkunnagjöf, en jafnframt ber að hafa hugfast að meirihluti svarenda tók fram að vinnan tengdist námi þeirra beint og óbeint.

Mat á námi í Háskóla Íslands
Spurt var um fjölmarga þætti varðandi námið í Háskólanum, s.s. um gæði náms, námsaðstöðu, hagnýta reynslu og ráðgjöf kennara. Almennt voru niðurstöður jákvæðar, einkum varðandi mat á gæðum námsins og ráðgjöf kennara.

Mat á efnisþáttum í námi
Spurt var um sjálfstæði í námi, skipulag námsins, fræðilegar áherslur og hlut námsaðferða á borð við þrautalausnir. Á heildina litið voru einkunnir fyrir þessa þætti í meðallagi, þótt þær batni nokkuð á milli árganga.

Viðmót starfsmanna
Þá voru svarendur spurðir um viðmót og þjónustu starfsmanna Háskólans. Hér voru einkunnir ýmist háar eða mjög háar. Sérstaklega fær viðmót kennara góðan vitnisburð.

Ánægja með nám í Háskóla Íslands
Næst var spurt um ánægjuna með námið í Háskóla Íslands. Leiddi spurningin í ljós í fyrsta lagi að nemendur eru jafn ánægðir með námið í Háskólanum í dag og þegar þeir útskrifuðust. Í öðru lagi telja næstum allir brautskráðir kandídatar frá Háskólanum mjög líklegt að þeir mynda fara í Háskóla Íslands ef þeir væru að útskrifast með stúdentspróf í dag. Í þriðja lagi telja langflestir það frekar eða mjög líklegt að þeir myndu fara í sömu námsgrein. Í fjórða lagi telja einnig langflestir líklegt að þeir myndu fara í lengra nám. Í fimmta lagi telja langflestir það frekar eða mjög ólíklegt að þeir myndu fara í styttra nám. Í fimmta lagi sögðust 62% af 1993-árganginum hafa hug á frekara háskólanámi í framtíðinni, en í 2001-árganginum var samsvarandi tala 83%.

Atvinnuástand hjá svarendum
Könnunin leiddi í ljós að alls eru 92% svarenda í vinnu og aðeins um 0,4% þeirra atvinnulausir. Rétt rúmlega helmingur alls hópsins starfar hjá hinu opinbera. Um það bil 40% hafa hugleitt að fá sér vinnu erlendis, um 6% hafa fengið atvinnutilboð erlendis frá og um 11% hafa unnið erlendis.

Tengsl atvinnu og náms
Um 78% nota þekkingu og færni úr náminu í miklum og mjög miklum mæli í vinnunni. Þá kom fram að 73% svarenda telja að menntunin henti starfinu og um 83% eru ýmist mjög eða frekar ánægðir með stöðu sína á vinnumarkaði. Loks sýndi könnunin að um 60% svarenda hafa sótt endurmenntunarnámskeið síðan þeir útskrifuðust.

Að lokinni framsögu Friðriks gaf rektor orðið laust.

Málið var rætt og beindu fundarmenn nokkrum spurningum til Friðrik. Meðal annars var spurt hvort sambærilegar upplýsingar væru til frá öðrum háskólum hér á landi. Svaraði Friðrik því til að svo væri ekki. Þá var spurt hvort aðgangur væri frjáls að niðurstöðum könnunarinnar í öðrum löndum og sagði Friðrik svo vera. Loks hvatti Friðrik deildir til að kynna sér niðurstöður könnunarinnar vel og óska eftir nánari greiningu á einstökum spurningum.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Friðriks H. Jónssonar, þau Inga Jóna Þórðardóttir, Halldór Jónsson, Kristín Jónsdóttir og Jón Torfi Jónasson.
 

Kl. 16.10 - 16.50 - Dagskrárliður 6: Breytt námsskipan til stúdentsprófs. Skýrsla starfshópa og verkefnisstjórnar menntamálaráðuneytisins

Friðrik H. Jónsson gerði grein fyrir málinu. Skýrði Friðrik fyrst frá því að menntamálaráðuneytið hefði skipað þrjá starfshópa til að vinna tillögur um málið. Fjallaði einn hóðurinn um námskrár og gæðamál, annar um starfsmenn og sá þriðji um fjármál. Störfuðu hóparnir frá október 2003 til maí 2004 og hittu m.a. fulltrúa allra félaga bóknámskennara í framhaldsskólum, fulltrúa grunnskólakennara í íslensku, ensku, stærðfræði og dönsku, fulltrúa félags leikskólakennara og starfsgreinaráð. Einnig tóku starfshóparnir mið af umsögnum hagsmunaaðila og umræðu á svonefndri menntagátt.

Næst greindi Friðrik frá helstu tillögum starfshópanna um breytingar á stúdentsprófinu. Í fyrsta lagi er lagt til að skólaárið verði lengt úr 170 dögum í 180 daga sem svarar til fjölgunar kennsludaga úr 145 í 155. Í öðru lagi er lagt til að umfangi námseininga verði breytt. Núverandi stúdentspróf er 140 einingar og er lagt til að stúdentsprófið verði 111 nýjar einingar sem jafngildir 119 núverandi einingum. Í þriðja lagi er lagt til að til grunnskólans verði fluttar 12 einingar, þ.e. 3 einingar í hverri eftirtalinna greina: íslensku, stæðrfræði, ensku og dönsku. Þetta er viðkvæmasti hluti tillagnanna, því fram hafa komið efasemdir um að menntun kennara nægi til að koma þessu efni til skila. Loks er í fjórða lagi lagt til að nám til stúdentsprófs verði stytt um 7 einingar, sem jafngildir tveimur námskeiðum.

Þá vék Friðrik að inntaki hins nýja þriggja ára stúdentsprófs. Helstu atriði málsins eru þessi: Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að samsetning stúdentsprófsins verði óbrett, þ.e. kjarni (70%), kjörsvið (22%) og frjálst val (8%). Í öðru lagi verður nám til stúdentsprófs lítillega aukið á bóknámsbrautum vegna stækkunar eininga. Í þriðja lagi verður nám í stærðfræði á félagsfræðibraut aukið um 3 einingar. Í fjórða lagi verður nám í þriðja tungumáli minnkað um 3 einingar á félagsfræðibraut og málabraut og um 6 einingar á náttúrufræðibraut. Loks er í fjórða lagi gert ráð fyrir því að nám í náttúruvísindum verði minnkað um 3 einingar á bóknámsbrautum.

Að lokum sagði Friðrik að ekki væri um að ræða endurskoðun á aðalnámskrá framhaldsskólans frá 1999, heldur snúist málið aðeins um það hvernig megi stytta nám til stúdentsprófs um eitt ár. Aðalnámskráin frá 1999 var og er umdeild, einkum hin aukna sérhæfing sem í henni felst. Mikilvægasta spurningin væri, hvort þriggja ára undirbúningur til stúdentsprófs væri nægilegur. Einnig þyrfti að hafa í huga að mikill munur er á milli skóla og því er í reynd ekki til neitt sem heitir samræmt stúdentspróf. Þegar öllu er á botninn hvolft væri ekki við því að búast að með styttingu framhaldsskólans um eitt ár muni fleiri nemendur koma til Háskóla Íslands án þess að hafa nægilegan undirbúning.

Að framsögu Friðriks lokinni gaf rektor orðið laust.

Málið var rætt. Beindu nokkrir fundarmenn spurningum til Friðriks, s.s. hvernig einingar væru skilgreindar í framhaldsskólanum, hvenær búast megi við því að stytting framhaldsskólans verði að veruleika, hvort þurfa muni samræmt stúdentspróf til hliðar við hitt og hvernig tryggð verði fagmenntun kennaranna. Svaraði Friðrik því til að námseining í framhaldsskóla væri mjög svipuð og í Háskólanum, þ.e. ein eining stæði fyrir eina viku í námi, en með lengingu námsársins væru heldur fleiri dagar á bak við hverja einingu í framhaldsskólanum. Þá væri undirbúningur að framkvæmd þessara áforma hafinn, þótt málið hafi ekki hlotið formlegt samþykki. Búist væri við því að fyrstu nemendurnir muni útskrifast eftir nýja kerfinu árið 2011. Við undirbúning málsins hefði verið rætt um þörfina fyrir samræmd stúdentspróf, en þau munu takmarkast við ensku, stærðfræði og íslensku. Loks væri fagmenntun grunnskólakennara ekki tryggð fyrirfram en nauðsynlegt væri að vinna að henni.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Friðriks H. Jónssonar, þau Hörður Filippusson, Sigurður J. Grétarsson, Ásdís Magnúsdóttir og Oddný G. Sverrisdóttir.

Að lokum þakkaði rektor Friðrik H. Jónssyni fyrir framsöguna.

Kl. 16.50 - 17.30 - Dagskrárliður 7: Fyrirkomulag og framkvæmd skriflegra prófa

Sigurður J. Grétarsson, prófessor og formaður kennslumálanefndar, gerði grein fyrir tillögum starfshóps háskólaráðs um prófafyrirkomulag. Byrjaði Sigurður á því að fara í stuttu máli yfir forsögu málsins. Háskólaráð samþykkti nú í ársbyrjun að stofna starfshóp til þess að huga að fyrirkomulagi og framkvæmd skriflegra prófa í Háskóla Íslands. Í hópnum sátu fulltrúar fræðasviða í háskólaráði auk prófstjóra. Starfshópurinn skilaði drögum að tillögum í júní síðastliðnum sem háskólaráð sendi síðan til umsagnar deilda. Málið var einnig sent kennslumálanefnd til umsagnar. Kennslumálanefnd hefur haft umsagnir deilda til hliðsjónar við álitsgerð sína. Háskólafundi væri nú gerð grein fyrir málinu og það rætt á þeim vettvangi áður en kennslumálanefnd héldi áfram umfjöllun sinni. Málið yrði síðan sent háskólaráði.

Sigurður sagði starfshópinn gera grein fyrir tillögum sínum með því að tilgreina átta markmið og um tuttugu skref sem taka þarf til að ná markmiðunum. Þessi atriði lágu fyrir fundinum og fjallaði Sigurður um þau með eftirfarandi hætti:

Markmið og leiðir
Markmiðin sem stefnt er að eru þessi:
1. Samræma kennslualmanak Háskólans,
2. stuðla að dreifðu námsmati,
3. hraða einkunnaskilum,
4. gera próftöflugerð sjálfvirka,
5. tengja prófhald við skólaár þess náms sem prófað er í,
6. auka tæknivæðingu við prófahald,
7. draga úr kostnaði og
8. gera greiðslur fyrir prófahald og þjónustu sanngjarnari þannig að kostnaður falli á þá sem stofna til hans.

Leiðirnar má draga saman í þrjá flokka:
1. Komið verði á samræmdu kennslualmanaki með samræmdri stundatöflu í stokkakerfi og sérskilgreindum prófa- og prófayfirferðavikum í lok misseris en sérstöku kennsluhléi um miðbik misseris. Ágústpróf verði aflögð en stefnt að því að upptöku og sjúkrapróf fylgi þétt þeim misserum sem þau eiga við.
2. Námsmat verði dreifðara, lokapróf styttri og aðild kennara og aðstoðarkennara að prófhaldinu aukin.
3. Aukin verði fræðsla um gerð og fyrirlögn prófa og aukin þjónusta við yfirferð þeirra, bæði við skönnun á fjölvalsprófum og með aðild aðstoðarkennara, auknum möguleika á tölvu- og tæknivæðingu prófa. Í þessu efni sem öðrum verði þjónustu þannig hagað að þeir sem nota hana greiði fyrir.

Athugasemdir við markmið
Tillögur starfshópsins ásamt athugasemdum rúmast á tveimur blaðsíðum en ef til vill hefði verið fengur í greinargerð með skýrari lýsingu á markmiðunum og einhverri forgangsröð þeirra. Það er til dæmis ekki ljóst af hverju samræmt kennslualmanak Háskólans er mikilvægt markmið. Einnig er vafamál að sjöunda markmiðið um sparnað við prófahald samræmist vel öðrum markmiðum, til dæmis dreifðu námsmati eða aukinni aðild kennara að prófumsjón.

Þá hefði verið æskilegt að fá betri skilning á tilefni nefndarstarfsins. Það er til dæmis ljóst af umsögnum deilda að mörgum finnst núverandi prófafyrirkomulag ágætt og þeir hafa ekki áhuga á breytingum breytinganna vegna. Með öðrum orðum, ef tillögurnar eru viðbrögð við vanda, væri gott að vandinn væri skýrður betur. Annars má segja að umsagnir deilda, sem voru vel grundaðar og rækilegar, hafi ekki beinst svo mjög að markmiðunum sjálfum heldur útfærslu þeirra.

Athugasemdir við leiðir
Umsagnir deilda og umfjöllun kennslumálanefndar gefa ekki til kynna áhuga á samræmdu átaki til þess að hrinda tillögunum í heild í framkvæmd. Sáralítill eða enginn stuðningur er við slíkt heildarátak í skólanum. Deildir og kennarar gera til dæmis réttmætar athugasemdir við það að eins og tillögurnar líta nú út er ekki annað að sjá en þær feli í sér aukna vinnu fyrir kennara, lengingu kennslutímabila og auknar skyldur, þar sem ábatinn er mjög óljós. Og kerfið er ágætt eins og það er, að minnsta kosti eins og það veit við kennurum og deildum. Þar má reyndar segja að skortur á rökstuðningi með tillögunum komi meðal annars niður á röksemdum stjórnsýslu, sem kann til dæmis að hafa áhyggjur af sívaxandi og æ dýrara prófgæslu og próffyrirlagningakerfi.

En þó að heildinni sé hafnað er ekki svo að einstakar tillögur njóti ekki stuðnings og kunni að vera framfaraspor. Kennslumálanefnd telur að í tillögum starfshópsins sé hreyft mörgum mikilvægum málum og margar háskóladeildir lýsa yfir áhuga á að sumum þessara mála verði hrint í framkvæmd. Það væru því óheppileg málalok ef höfnun á tillögunum sem heildardagskrá fæli í sér að einstakir liðir þeirra væru þar með slegnir af.

Viðbrögð við megintillögum
1. Um samræmt kennslualmanak er ekki alhliða stuðningur. Það virðist fela í sér lengingu á misseri og fáir sjá eindregna kosti við það nema þeir sem hafa sérstakan áhuga á samstarfi deilda og lækkun deildarmúra. Allsherjarskipan í þessum efnum þyrfti mjög sterkan rökstuðning og mikla undirbúningsvinnu, sem vafamál er að ástæða sé til að leggja í.

 Kennsluhlé eru víða við lýði nú þegar, oftast með góðum árangri, en vafamál að það beri að festa þau í reglur.

 En margvísleg rök hníga að því að endurskoða próftímabil í ágúst og færa sjúkrapróf nær þeim misserum sem þau eiga við. Margar háskóladeildir lýsa sérstökum áhuga á því. Nýskipan í þeim efnum mundi kalla á umræðu um endurtektar- og upptökupróf, nauðsyn þeirra og hugsanlegar breytingar. Óhætt er að mæla með því að hugmyndir í þessa veru verði þróaðar betur.

2. Margt mælir með því að námsmat verði dreifðara og lokapróf styttri. Að minnsta kosti eru fjölmargir sem telja að próf í Háskóla Íslands séu óþarflega dramatískur atburður og vel megi draga úr þeirri áherslu. Enn eru fimm vikur af skólaárinu helguð sérstökum lokaprófum. Þó að ekki verði gerðar miklar stökkbreytingar mælir margt með því að kennurum, skorum eða deildum verði enn auðveldað að dreifa námsmati á misserið og halda lokapróf stutt og snjöll í lok kennslutímabils. Það er hins vegar ekki við því að búast að slík skipan verði alltaf ódýrari en núverandi fyrirkomulag - og þessum möguleika þarf að fylgja áætlun um einhvern ábata fyrir slíka skipan.

 Um aukna aðild kennara að prófhaldi er ljóst að kennarar í Háskóla Íslands hafna því að takast það verkefni á hendur í einum pakka, og það með margvíslegum og gildum rökum sem lúta bæði að auknu vinnuálagi og lítilli hagræðingu. En hér er þó rétt að nefna að vilji kennarar, skorir eða deildir ljúka áföngum með þeim hætti að kennari haldi sjálfur próf með aðstoðarmönnum sínum í lok misseris ætti að skapa öruggari ramma um slíka skipan en þann sem nú er.

 Einnig má nefna að hlutur aðstoðarkennara í gerð og yfirferð prófa er líkast til vannýttur kostur hér við skólann og það væri vænlegt framfaraspor í mörgum skilningi að þróa áfram þann möguleika.

3. Í þriðja flokki leiða er ekki um að ræða kerfisbreytingar heldur þróun á prófaaðferðum. Sumar þessara leiða vita helst við stórum og fjölmennum áfögnum, en þær ættu að geta nýst öllum. Óhætt er að mæla með að þessum tillögum hópsins sé gefinn sérstakur gaumur og þau efld.

 Líkast til er það líka eðlileg þróun að þjónusta við próf, prófahald, yfirferð og annað verði í auknum mæli gjaldfærð á þá sem nota þjónustuna og njóta góðs af henni. Ef skynsamlega tekst til við gerð gjaldskrár gætu þar falist hagræðingarmöguleikar sem allir teldu sig njóta góðs af. Til dæmis ef einstakir kennarar eða deildir, í góðu samráði við kennara, sparað sér fé með því að sjá um prófahald í tilteknum námskeiðum og þær semja skynsamlega um slíkt við starfsfólk sitt er vandséð af hverju slíkt ætti að vera óheimilt. Þar gæti til dæmis smæðar-hagkvæmni komið við sögu. Hin hliðin á þeim peningi er að vilji menn auka miðstýrt prófahald hlýtur að koma til þess að í það verði að veita meira fé.

Samantekt
Í samantekt er álit kennslumálanefndar að svo komnu máli að ekki sé ráðlegt að stefna að því að hrinda tillögunum í heild í framkvæmd, en sjálfsagt er að auka sveigjanleika við prófahald, huga að skipan sjúkraprófa og efla þjónustu við prófagerð og yfirferð. Samhliða breytingum og auknum sveigjanleika þarf að huga að skiptingu fjár til slíkra verkefna og að auka þá skipan að þeir greiði fyrir þjónustu sem nota hana.

Rektor þakkaði Sigurði fyrir framsöguna og gaf orðið laust.

Málið var rætt ítarlega og greindu deildarforsetar frá afstöðu sinna deilda. Forseti lagadeildar skýrði frá því að mikil andstaða væri við sumar tillögurnar í deildinni, ekki síst vegna þess að kennsla væri þar með allt öðrum hætti en í öðrum deildum. Prófafyrirkomulag ætti að sníða að þörfum námsins, en ekki öfugt. Almennt gildi að sá tími sem fer í próf megi ekki vera meiri en hann er í dag. Til greina komi að taka upp annarskonar námsmat en próf, þótt þau séu ef til vill. skásti mælikvarðinn sem við höfum. Ef viðhaft er prófnúmerakerfi og margir nemendur fara í próf, er tryggt visst jafnræði sem ekki verður tryggt með annarskonar námsmati. Nemendur bera sig gjarnan saman og þeir bera mikið traust til skriflegra prófa. Í munnlegum prófum er tortryggnin meiri. Þannig að þótt vilji sé fyrir því að draga úr vægi skriflegra prófa eru þau, eftir allt, kannski skásti kosturinn.

Forseti verkfræðideildar sagði að innan deildarinnar væru menn sammála um markmið tillagnanna, en útfærslurnar væru umdeildar. Til dæmis þyrfti að laga það sem segir um sjúkrapróf og taka verði tillit til þess að aðstæður eru misjafnar í deildum.

Forseti heimspekideildar lýsti efasemdum um mörg atriði í tillögunum. Almennt virtist vanta samræðu á milli þeirra sem sjá um framkvæmd prófa og deilda og nauðsynlegt væri að auka næmi fyrir ólíkum aðstæðum. Loks sé óljóst hvað það merkir, að sá sem stofni til kostnaðar vegna prófa skulu bera hann. Hver stofnar til kostnaðarins? Auglýsti forseti eftir sjónarmiðum fundarmanna um þetta atriði.

Forseti viðskipta- og hagfræðideildar sagðist ekki vera ánægður með tillögurnar. Raunar væru ýmis einstök atriði til bóta, en nauðsynlegt væri að skoða málið betur og velja úr þau atriði sem gang væri að. Um kostnaðarákvæðið sagði forseti að það ætti ekki bara að gilda um próf, heldur einnig um ýmsa þjónustu sem deildir fá miðlægt. Deildir ættu að fá tekjur til að standa undir þjónustunni og vera síðan rukkaðar fyrir eðlilegum kostnaði á móti. Almennt væri hér gengið alltof langt í samræmingu og miðstýringu. Námsmat og kennsluhættir ættu að vera á forræði deilda og skora.

Forseti læknadeildar sagði að tillögurnar hefðu komið róti á hugi deildarmanna, sem væri út af fyrir sig gott! Almennt væri þó alltof mikil miðstýringartilhneiging í tillögunum. Námsmat ætti heima í deildum og ekki annarstaðar. Þó taldi hann að einstök atriði tillagnanna væru vel þess virði að skoða þau nánar, t.d. hugmyndirnar um aukið símat.

Forseti raunvísindadeildar greindi frá því að deildarráð hefði gefið formlega umsögn um tillögurnar. Teldi ráðið ýmis rök fyrir því að hafa viss formlegheit í prófhaldi, líkt og forseti lagadeildar hefði tilgreint. Þá mætti hafa efasemdir um það hvort dreift námsmat væri af hinu góða. Sumum virtist gagnsemi þess sjálfgefin, en í sumum greinum, s.s. stærðfræði, væri því alls ekki svo farið. Þá væri ekki víst að samræmingin feli í sér hagkvæmni. Kannski leiddi hún til þess að kostnaði yrði velt á dýrari starfsmenn, þ.e. kennara, í stað ódýrari krafta. Loks væri lítið vit í þeirri tillögu að halda upptöku- og sjúkrapróf strax einni viku á eftir upphaflega prófinu.

Forseti tannlæknadeildar kvaðst ekki hafa miklar áhyggjur af tillögunum. Hins vegar hefði deildin áhyggjur af vaxandi ásókn útlendinga, t.d. frá Suður- og Austur-Evrópu, sem vildi fá starfsréttindi innan Schengen-svæðisins. Tannlæknadeild þyrfti að sannreyna prófskírteini þessa fólks og bæri af því mikinn kostnað.

Forseti guðfræðideildar fagnaði því að afgreiðslu málsins yrði frestað. Almennt væri deildin ekki hlynnt miklu prófahaldi, enda væri mikill munur milli deilda og greina hvað best hentaði í þeim efnum hverju sinni.

Fulltrúi félagsvísindadeildar greindi frá því að tillögurnar hefðu verið ræddar í deildinni og hefði nær algjör samstaða verið um að hafna þeim. Sumt í tillögunum kæmi sér illa fyrir meistaranemendur sem þurfa að vinna mikið með námi.

Auk deildarforseta tóku nokkrir aðrir fundarmenn til máls. Í umræðunni var m.a. ítrekað það sjónarmið að mikill munur væri á aðstæðum í deildum, skorum og nemendahópum og því væri varasamt að beita of mikilli miðstýringu. Einnig var bent á að mikilvægt væri að hugleiða tilgang prófa, þ.e. hvort þau séu mælitæki, verkstjórnartæki eða eitthvað allt annað. Í sumum námsgreinum væru t.d. haldnar vikulegar æfingar (símat), í öðrum greinum alls ekki. Í tillögunum þyrfti að draga þessa þætti alla fram. Loks greindi fulltrúi stúdenta frá þremur atriðum í þessu sambandi sem skiptu stúdenta miklu máli. Í fyrsta lagi legðu stúdentar mikla áherslu á að flýta einkunnaskilum, m.a. vegna námslána og skipulagningar námstímans. Í öðru lagi teldu stúdenta nauðsynlegt að próftafla liggi fyrir fyrr en verið hefur. Nemendur þurfi iðulega að velja fleiri námskeið en færri til að tryggja að þeir geti lokið vissum fjölda eininga. Í þriðja lagi styddu stúdentar þá hugmynd að hafa sjúkrapróf í janúar og júní. Miðað við núverandi fyrirkomulag væru ágústpróf í reynd að verða þriðja kennslumisserið.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Sigurðar J. Grétarssonar, þau Eiríkur Tómasson, Sigurður Brynjólfsson, Oddný G. Sverrisdóttir, Gylfi Magnússon, Rannveig Traustadóttir, Stefán B. Sigurðsson, Hörður Filippusson, Einar Ragnarsson, Einar Sigurbjörnsson og Jón Torfi Jónasson.

Að lokum þakkaði rektor fundarmönnum fyrir góðan fund og málefnalegar umræður.

Fleira var ekki gert.

Rektor sleit fundi kl. 17.30.

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 15. háskólafundi 12. nóvember 2004:

1. Dagskrá 15. háskólafundar 12. nóvember 2004.
2. Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
3. Fundargerð 14. háskólafundar 17. september 2004.
4. Starfsmannastefna Háskóla Íslands. Endurskoðuð drög.
5. Skýringar við ný drög að starfsmannastefnu.
6. Stefna Háskóla Íslands gegn mismunun. Drög.
7. Stigamat fyrir kennslu. Drög.
8. Stytting náms til stúdentsprófs um eitt ár. Minnisblað.
9. Tillögur starfshóps háskólaráðs um prófafyrirkomulag.
10. Vísinda- og menntastefna Háskóla Íslands í nýrri tvítyngdri útgáfu.