Skip to main content

10. háskólafundur 8. september 2003

10. háskólafundur haldinn 8. september 2003 í Hátíðasal Háskóla Íslands á 2. hæð í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13.00-17.00

Dagskrá

Kl. 13:00 - 13:10  Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir framkomnum tillögum.
Kl. 13:10 - 14:40  Dagskrárliður 1. Tillaga viðskipta- og hagfræðideildar um að deildin fái heimild til að innheimta skólagjöld fyrir meistaranám.
Kl. 14:40 - 15:00  Kaffihlé.
Kl. 15:00 - 16:00  Dagskrárliður 1 (frh.). Tillaga viðskipta- og hagfræðideildar um að deildin fái heimild til að innheimta skólagjöld fyrir meistaranám.
Kl. 16:00 - 16:45  Dagskrárliður 2. Endurskoðun laga og reglna um dómnefndir og fleiri þætti ráðningarmála.
Kl. 16:45 - 17:00  Dagskrárliður 3. Rektor leggur fram minnisblað um ný stefnumál Háskóla Íslands.
Kl. 17:00  Rektor slítur fundi.
 

Kl. 13.00-13.10: Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir framkomnum tillögum.

Rektor setti 10. háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Þá fór rektor yfir dagskrá og tímaáætlun sem og framlögð fundargögn. Engar tillögur til ályktunar bárust að þessu sinni. Fundarritarar voru, eins og áður, Magnús Diðrik Baldursson, aðstoðarmaður rektors og Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri rannsóknasviðs.

 

Kl. 13.10-14.40 og 15.00-16.00 - Dagskrárliður 1: Tillaga viðskipta- og hagfræðideildar um að deildin fái heimild til að innheimta skólagjöld fyrir meistaranám

Rektor greindi frá því að tillaga viðskipta- og hagfræðideildar væri ekki lögð fyrir fundinn til samþykktar. Sökum þess hversu mikilvægt mál hér væri á ferð hefði verið ákveðið að boða til þessa auka háskólafundar til að rökræða málið. Ljóst er að framkvæmd tillögunnar myndi kalla á lagabreytingu auk þess sem um verulega stefnubreytingu væri að ræða. Hvatti rektor fundarmenn til að vera málefnalegir og leitast við að dýpka skilning á viðfangsefninu.

Fyrir fundinum lá tillaga viðskipta- og hagfræðideildar um að deildin fái heimild til að innheimta skólagjöld fyrir meistaranám, dags. 30. maí 2003, umsögn starfsnefnda háskólaráðs um tillögu viðskipta- og hagfræðideildar, dags. 8. september 2003, og minnisblað akademískrar stjórnsýslu um skólagjöld í meistaranámi, lagt fyrir fund háskólaráðs 11. júní 2003.

Rektor bað Ágúst Einarsson, forseta viðskipta- og hagfræðideildar, um að kynna tillögu deildarinnar.

Hóf Ágúst mál sitt á því að taka fram að með tillögu sinni væri viðskipta- og hagfræðideild einungis að óska eftir heimild til að innheimta skólagjöld fyrir meistaranám í deildinni og að málið snérist í raun um það, hvað almannavaldið tæki að sér fyrir þegnana. Innheimta skólagjalda myndi sennilega hafa lítil áhrif á kostnað við námið, en spurningin væri sú, hver bæri þennan kostnað, skattborgarar sem heild eða skattborgarar með þátttöku viðkomandi nemenda. Viðskipta- og hagfræðideild væri ekki að leggja til að Háskóli Íslands sem slíkur legði á skólagjöld og það væri skoðun deildarinnar að afstaða til skólagjalda þyrfti ekki að vera samræmd á milli deilda Háskólans.

Skólagjöld í framhaldsnámi og/eða grunnnámi?
Ágúst sagði viðskipta- og hagfræðideild gera skýran greinarmun á skólagjöldum í framhaldsnámi og grunnnámi. Sökum hækkandi menntunarstigs íslensku þjóðarinnar væri nú svo komið að fyrsta háskólagráða (BA- eða BS-gráða) hefði svipað gildi og stúdentspróf hafði fyrir u.þ.b. 40 árum. Sterk rök væru fyrir því að fjármögnun náms til slíkrar námsgráðu ætti áfram að vera verkefni almannavaldsins, eins og grunn- og framhaldsskólinn. Öðru máli gegndi hins vegar um framhaldsnám sem leiðir til annarrar háskólagráðu (MA- eða MS-gráðu).

Hver borgar brúsann?
Benti Ágúst á það misræmi að almannavaldið leggur mun minna af mörkum til fyrsta skólastigsins, þ.e. leikskólans en til framhaldsnáms í háskóla. Þannig kosti yfir 30.000 kr. að hafa barn á leikskóla í einn mánuð sem er svipuð upphæð og innritunargjald í Háskóla Íslands í eitt ár. Það væri hins vegar rangt að draga af þessu þá ályktun að framhaldsnámið væri í sjálfu sér ódýrara en leikskólinn. Málið snérist um það, hvort einstaklingarnir greiði beint fyrir tiltekna þjónustu eða hvort almannavaldið greiði fyrir hana af skatttekjum. Ríkið væri jú ekkert annað en almenningur í landinu.

Rök með skólagjöldum í meistaranámi
Næst vék Ágúst að ástæðunum fyrir því að innheimta skólagjöld fyrir meistaranám í viðskipta- og hagfræðideild. Helsta ástæðan væri sú að deildin vildi geta aflað sér aukins fjár í því skyni að bæta þjónustu við meistaranema, t.d. með því að fækka nemendum í námskeiðum, efla stoðkerfi og aðstöðu og veita nemendum aðstoð við rannsóknir. Nú væru um 1.000 manns í meistaranámi í Háskólanum og ljóst væri að hluti þessa hóps væri í raun og veru að sækja sér ódýra endurmenntun. Þessu til staðfestingar mætti t.d. benda á að fyrir 32.500 kr., sem er sú upphæð sem stúdentar við Háskóla Íslands greiða í innritunargjald, fengist ekki einu sinni keypt eitt Excel-námskeið á frjálsum markaði. Skólagjöld í meistaranámi myndu hins vegar efla kostnaðarvitund nemenda og stuðla að því að til Háskólans leituðu stúdentar sem hygðust leggja stund á framhaldsnám af fullri alvöru. Hinir ættu frekar erindi til Endurmenntunar Háskólans og þar væri tekið gjald af hverjum nemanda sem dygði fyrir öllum kostnaði.

Hversu há skólagjöld?
Fram kom hjá Ágústi að viðskipta- og hagfræðideild hefði ekki í hyggju að innheimta há skólagjöld. Samkeppnisskólar Háskólans, sem reknir væru sem sjálfseignarstofnanir og hefðu heimild til að innheimta skólagjöld, tækju 300-500 þús.kr. á ári í skólagjöld. Þá tæki Háskóli Íslands m.a.s. 1,5 m.kr. í skólagjöld fyrir tveggja ára MBA-nám í viðskipta- og hagfræðideild. Á þessari stundu væri gert ráð fyrir að gjald fyrir meistaranám yrði um 200 þús.kr. á ári, sem væri sanngjörn upphæð fyrir rannsóknatengt framhaldsnám. Aðrar deildir Háskólans yrðu að gera það upp við sig hvort þær vildu fá sömu heimild og hvaða gjald þær teldu hæfilegt.

Sama gjald í öllum deildum?
Sagði Ágúst það sína skoðun að fráleitt væri að innheimta sama gjald fyrir meistaranám í öllum deildum Háskólans. Nám væri misdýrt eins og best mætti sjá á því að ríkisvaldið greiðir vegna kennslu frá 350 þús.kr. upp í tæpar 2 m.kr. fyrir hvern nemanda á ári eftir námsgreinum.

Breytt rekstrarform og lagaumhverfi
Deildir væru grunneiningar Háskólans og aðstaða og viðhorf innan þeirra væru ólík. Viðskipta- og hagfræðideild væri í beinni samkeppni við aðra skóla á háskólastigi, bæði innanlands og utan, og þyrfti sífellt að bæta þjónustuna til að styrkja samkeppnisstöðu sína. Í samræmi við álit akademískrar stjórnsýslu, sem lá fyrir fundinum um samþykkt deildarinnar, væru þrjár leiðir færar við lagatæknilega útfærslu, þ.e. (1) að fá heimild til almennrar gjaldtöku, (2) að leggja á gjald í formi skatts og (3) að breyta rekstrarformi og stjórnskipulegri stöðu Háskóla Íslands. Taldi Ágúst að þriðja leiðin væri skynsamlegust og um hana þyrfti að ræða af fullri alvöru á næstunni.

Lánasjóður íslenskra námsmanna
Skólagjöld væru lánshæf úr Lánasjóði íslenskra námsmanna og reynslan sýndi að aðeins um helmingur raunvirðis lánanna rynni til baka til sjóðsins. Í námslánum væri því í reynd fólgið umtalsvert framlag almannavaldsins til námsmanna. Þar sem ríkið greiddi óbeint með LÍN um helming skólagjaldanna væri skiljanlegt að það velti fyrir sér þróun þessara mála.

Jafnræði til náms
Þegar rætt væri um skólagjöld væri því iðulega haldið fram að helstu mótrökin væru að þau ógnuðu jafnræði til náms. Taldi Ágúst þessi mótrök ekki standast skoðun, (1) vegna þess að gjaldið sem viðskipta- og hagfræðideild hefði í huga næmi aðeins hluta af kostnaði við námið og (2) sökum þess að sumir innlendir skólar á háskólastigi tækju nú þegar skólagjöld. Kandídatar með meistarapróf gætu búist við því að fá betur launuð störf en aðrir að námi loknu, svo námið væri í raun fjárfesting fyrir einstaklingana, ekki síður en fyrir land og þjóð. Ekkert ójafnræði væri fólgið í því að einstaklingarnir tækju beinan þátt í kostnaði við námið, enda gerðu þeir það hvort eð er með einhverjum hætti, t.d. vegna búsetu og annarra þátta.

Niðurfelling skólagjalda til góðra nemenda
Skólagjöld tíðkist víða og algengt væri að góðir nemendur fengju þau felld niður. Viðskipta- og hagfræðideild hefði í hyggju að gera slíkt hið sama í meistaranáminu. Það ætti að vera eftirsóknarvert að koma til deildarinnar og fá góða kennslu í rannsóknatengdu framhaldsnámi.
 
Lækkar ríkið framlag sitt á móti?
Önnur rök gegn skólagjaldi í meistaranámi væru þau að ríkið myndi einfaldlega lækka framlög sín á móti þeim tekjum sem Háskólinn hefði af skólagjöldum. Taldi Ágúst ekki ástæðu til að ætla að þetta yrði raunin við Háskóla Íslands frekar en t.d. við Háskólann í Reykjavík. Á heildina litið væri um tiltölulega lágar fjárhæðir að ræða, enda einungis 10-15% af nemendum skólans í framhaldsnámi. Þeir nemendur sem hygðust nota framhaldsnámið sem einskonar ódýra endurmenntun myndu líklega hverfa frá. Betri þjónusta við meistaranema myndi efla rannsóknir og bæta hagvöxt sem aftur yki skatttekjur ríkisins. Það væri því ekki ástæða til að ætla að ríkið brygðist illa við þessari samþykkt.

Auknar kröfur til námsins
Skólagjöld í meistaranámi myndu væntanlega hafa í för með sér að stúdentar öðluðust aukna kostnaðarvitund og gerðu meiri kröfur til námsins, sem væri í fullu  samræmi við vilja deildarinnar. Meiri kröfur væru af hinu góða, en ekki væri hægt að mæta þeim nema með auknu fé. Sagðist Ágúst ekki vera talsmaður þess sjónarmiðs að fjöldatakmarkanir ættu að vera meginregla í háskólanámi á Ísland, þótt vissulega gæti komið upp sú staða að Háskóli Íslands yrði neyddur til að grípa til þeirra.

Hver á að móta stefnuna í skólagjaldamálinu?
Síðan vék Ágúst að þeirri spurningu, hver ætti að móta stefnuna í skólagjaldamálinu og hvernig ætti að fjalla um það. Lagði Ágúst áherslu á að Háskólinn vandaði sig í umræðunni. Stjórnvöld reyndu iðulega að varpa ábyrgðinni á skólann í erfiðum málum en færu síðan sínu fram í öðrum. Skólagjaldaumræðan væri klassískt dæmi um það, hvernig stjórnvöld reyndu í raun að skorast undan sinni ábyrgð þótt þau segðust gera það sem skólinn vildi. Þetta væri gömul aðferð stjórnvalda í meðferð óþægilegra mála sem væru til þess fallin að valda pólitískum deilum. Sér væri til efs að háskólafólk væri reiðubúið til að taka þennan kaleik frá stjórnmálamönnum. Háskólinn vildi fá stjórnvöld til að fallast á ýmsar kröfur, s.s. leiðréttingu á launastikunni svonefndu, breytingar á reiknilíkaninu og meira fé, en þá gerðu stjórnvöld ekki það sem skólinn vildi. Taldi Ágúst að skólagjaldamálið þyrfti ekki að leiða til deilna við stjórnvöld.

Samkeppnisstaða viðskipta- og hagfræðideildar
Tillaga viðskipta- og hagfræðideildar væri til komin vegna fjárhags- og samkeppnisstöðu deildarinnar. Við deildina væru um 1.400 nemendur, þar af um 1.100 í grunnnámi, um 250 í rannsóknatengdu meistaranámi og um 50 í MBA-námi. Deildin væri því á við allra stærstu framhaldsskóla í landinu. Í MBA-náminu væru biðlistar þótt skólagjöldin næmu 1,5 m.kr. á tveimur árum. Deildin væri í harðri samkeppni við aðra skóla sem fengju sömu nemendaframlög vegna kennslu frá ríkinu, en hefðu einnig heimild til að innheimta til viðbótar skólagjald bæði í grunnnámi og framhaldsnámi og sæktu nú að auki eftir rannsóknafé eins og Háskóli Íslands. Viðskipta- og hagfræðideild hygðist innheimta gjald sem væri um eða innan við helmingur af því sem aðrir skólar tækju. Slíkt gjald gæti hvorki talist ósanngjarnt né verulega íþyngjandi gagnvart nemendum.

Það væri staðreynd að nokkrar deildir Háskólans væru í harðri samkeppni. Í þeim efnum gilti, að sá sem hefði meira fé gæti boðið hærri laun og betri þjónustu og til lengdar unnið samkeppnina um kennara, nemendur og rannsóknir. Viðskipta- og hagfræðideild hefði mætt samkeppninni með bættri þjónustu, öflugri kynningu, efldri kennslu og rannsóknum og með því að styrkja innviði deildarinnar. Slíkt umbótastarf væri þó ekki auðvelt þegar samkeppnisaðilarnir byggju við rýmri fjárhag og sveigjanlegri reglur. Lagadeild hefði lent í sambærilegri stöðu og jafnvel misst hæfa kennara án þess að geta brugðist við vegna fjárskorts. Þannig skekktu ójafnar rekstrarforsendur samkeppnisstöðuna sem á endanum gæti leitt til þess að Háskóli Íslands færi halloka.

Hugmyndir
Hvatti Ágúst til þess að Háskólinn nýtti sér tillögu viðskipta- og hagfræðideildar í því skyni að skerpa umræðuna um framtíð skólans og samskipti hans við stjórnvöld. Skólagjöld í meistaranámi væri aðeins einn þáttur í þessari umræðu en að mörgu þyrfti að hyggja í breyttu skipulagi. Nefndi Ágúst nokkur atriði til umhugsunar í þessu sambandi:
· Skipulag háskóla ætti að vera fjölbreytt og ráðast af vilja skólanna sjálfra.
· Ekkert skipulagsform væri æðra öðru og samkeppni ætti að ríkja milli háskóla og innan háskóla.
· Ríkisvaldið ætti að nota sambærilegar aðferðir við fjármögnun skóla á háskólastigi og mismuna þeim ekki.
· Skólar á háskólastigi og háskóladeildir gætu ýmist verið ríkisskólar eða sjálfseignarstofnanir. Háskóli Íslands ætti að fá heimild til þess að deildir, einar eða fleiri saman, væru reknar sem sjálfseignarstofnanir.
· Háskóli Íslands ætti að vera regnhlífarstofnun sem margar deildir eða skólar, t.d. Háskólinn á Akureyri, Kennaraháskóli Íslands, Viðskiptaháskólinn á Bifröst, Háskólinn í Reykjavík o.fl. gætu átt aðild að. Aðild að regnhlífinni „Háskóli Íslands“ fengju einungis þeir skólar sem lytu gæðakerfi skólans og notuðu rannsóknamatskerfi hans við nýráðningar og starfsheiti.
· Ríkisvaldið ætti að gera samninga um kennslu og rannsóknir við einstaka háskóla og háskóladeildir þar sem vægi þessara þátta gæti verið mismikið, enda legðu sumir skólar eða deildir megináherslu á kennslu en aðrar á rannsóknir.
· Eitt mikilvægasta verkefni Háskóla Íslands sem regnhlífar væri að tryggja sem mesta viðurkenningu erlendis á prófgráðum deilda og skóla.
· Skólar á háskólastigi og háskóladeildir fengju almenna heimild til að innheimta skólagjöld í meistaranámi ef æðsta stofnun viðkomandi einingar samþykkti slíkt.

Tók Ágúst fram að þótt þessar hugmyndir væru ekki allar nýjar teldi hann brýnt að Háskólinn brygðist við breyttum aðstæðum og yki sveigjanleika á öllum sviðum. Tillaga viðskipta- og hagfræðideildar um að óska eftir heimild til að mega innheimta skólagjöld fyrir meistaranám væri liður í því að bregðast við breyttum aðstæðum.

Markmið umræðunnar
Með tillögu sinni vildi viðskipta- og hagfræðideild freista þess að ná fram tvennu: Í fyrsta lagi vildi deildin fá skilning og samstöðu um að hægt væri að greina á milli grunnnáms og framhaldsnáms í umræðunni um skólagjöld. Sumir væru á móti skólagjöldum á báðum skólastigum, aðrir styddu skólagjöld á báðum stigum og enn aðrir styddu skólagjöld í meistaranámi en hefðu efasemdir um þau í grunnnámi. Viðskipta- og hagfræðideild tæki hins vegar ekki afstöðu til skólagjalda í grunnnámi. Í öðru lagi vildi deildin fá skilning og samstöðu um, að fái skólinn heimild til að innheimta skólagjöld væri beiting slíkrar heimildar á forræði deilda að fengnu samþykki háskólaráðs. Deildir væru í ólíkri aðstöðu gagnvart þessu máli. Ef deild kæmist að þeirri niðurstöðu að hún vildi taka skólagjöld ætti hún að geta það að fengnu samþykki háskólaráðs. Slík gjaldtaka hefði ekki áhrif á aðrar deildir og væri málið sambærilegt við það þegar deildir óskuðu eftir breytingum á reglum sínum.

Að lokum sagði Ágúst að viðskipta- og hagfræðideild væri þriðja stærsta deild skólans mælt í ársverkum nemenda, á eftir félagsvísindadeild og heimspekideild. Viðskipta- og hagfræðideild væri með flesta nemendur á hvern kennara af deildum skólans, með næst minnstan kostnað á hvern nemanda af deildum skólans og nær eina deildin sem hin síðari ár hefði haldið sig innan fjárheimilda. Deildin gæti ekki lengur búið við þessar aðstæður í því samkeppnisumhverfi sem hún væri í nema með því að styrkja stöðu sína á tilteknum sviðum. Þetta ætti einkum við um rannsóknasviðið þar sem deildin vildi efla og bæta framhaldsnámið. Þar muni sérstaða hennar verða í framtíðinni, þótt hún ætlaði ekki að slá slöku við í grunnnáminu.

Rektor þakkaði Ágústi Einarssyni fyrir framsöguna og bað Ingjald Hannibalsson formann fjármálanefndar háskólaráðs um að kynna fyrirliggjandi umsögn starfsnefnda háskólaráðs um tillögu viðskipta- og hagfræðideildar.

Almenn heimild
Ingjaldur byrjaði á því að lýsa verklagi við gerð umsagnarinnar, en hún var unnin í samstarfi fjármálanefndar, vísindanefndar og kennslumálanefndar. Þá skýrði Ingjaldur frá því að nefndirnar teldu æskilegt að verði skólagjöld lögð á stúdenta nái þau til alls náms á háskólastigi, en ekki aðeins til framhaldsnáms, á einum stað eða fleirum. Það væri síðan háskólanna hvers fyrir sig að útfæra hvernig þeir nýttu heimildina. Ýmsar útfærsluleiðir kæmu til greina við Háskóla Íslands, en hugsanlegt væri að fyrstu þrjú námsárin yrðu án skólagjalda. Einnig væru nefndirnar sammála um að til að jafna samkeppnisstöðu háskólanna þyrftu háskólar í eigu ríkisins að búa við sömu starfsskilyrði og háskólar sem reknir væru sem sjálfseignarstofnanir. Til að jafna stöðu háskólanna í samkeppnisumhverfi væri ennfremur mikilvægt að tryggja að samræmt eftirlit væri með gæðum kennslu og rannsókna, en á því hefði verið misbrestur af hálfu yfirvalda menntamála í landinu. Óviðunandi væri að sjálfseignarstofnanir fengju fjárveitingu til kennslu á sama grundvelli og ríkisháskólar og hefðu jafnframt heimild til þess að afla skólagjalda. Þá teldu nefndirnar ljóst að breyta þyrfti lögum ef til þess kæmi að almenn skólagjöld yrðu innheimt fyrir nám við ríkisháskólana. Í því efni væru fyrir hendi tvær leiðir: Annað hvort að skólagjöld yrðu lögð á nemendur sem markaður tekjustofn skv. lögum eða að skólagjöld yrðu innheimt sem þjónustugjöld til að mæta tilteknum kostnaðarliðum við kennsluna.

Fjögur atriði til athugunar
Næst fór Ingjaldur yfir ábendingar starfsnefnda háskólaráðs um atriði sem huga þyrfti að ef til þess kæmi að háskólar í eigu ríkisins myndu taka upp skólagjöld. Nefndi hann fjögur atriði í þessu sambandi: (1) Í fyrsta lagi þyrfti að tryggja að skólagjöld myndu ekki leiða til misréttis meðal stúdenta til aðgangs að háskólanámi. Til dæmis mætti koma í veg fyrir misrétti með því að nemendur hefðu kost á opinberri aðstoð við að mæta gjöldum vegna námsins og til að jafna námsmöguleika. (2) Í öðru lagi mætti reikna með því að nemendum myndi fækka í kjölfar þess að tekin yrðu upp skólagjöld. Meta þyrfti áhrif þessa á fjárveitingar til skólans, á fámennar greinar og á menntunarstig þjóðarinnar. (3) Í þriðja lagi væri ljóst að yrðu lögð á skólagjöld við Háskóla Íslands þyrfti að bjóða upp á styrki til nemenda sem næðu góðum námsárangri, að öðrum kosti væri hætt við að þessi hópur hrektist frá námi, a.m.k. á Íslandi. (4.) Í fjórða lagi væri mikilvægt að kanna ítarlega hvort skólagjöld í ríkisháskólum hefðu áhrif á aðgang íslenskra stúdenta að námi erlendis, einkum á Norðurlöndunum þar sem skólagjöld væru að jafnaði ekki innheimt í almennu háskólanámi. Hafa bæri í huga að Norðurlöndin væru eitt menntunarsvæði.

Hver á að hefja umræðuna?
Þá greindi Ingjaldur frá því að nefndirnar hefðu verið sammála um að þótt skólagjöld væru rædd innan Háskólans væri um pólitíska ákvörðun að ræða og því væri það stjórnvalda að hafa frumkvæði í málinu, ef til kæmi. Með hliðsjón af síaukinni aðsókn að háskólanámi þyrfti ljóslega að verja auknu fé til þessa málaflokks ef ekki ætti að draga úr gæðum kennslu og náms. Það væri verkefni stjórnvalda að ákveða með hvaða hætti fjárins væri aflað, en mikilvægast væri að, hvaða leið sem valin yrði, myndi hún styrkja starfsemi og fjárhagslegar forsendur háskólanna. Ef til innheimtu skólagjalda kæmi þyrfti að tryggja að ekki yrði dregið úr fjárveitingum til Háskólans vegna aukinna sértekna í formi skólagjalda.

Endurskoðun á samningi um fjármögnun kennslu
Næst greindi Ingjaldur frá yfirstandandi viðræðum við stjórnvöld um endurskoðun á samningi um fjármögnun kennslu við Háskóla Íslands. Helstu kröfur Háskólans í viðræðunum eru þessar: (1.) Hækka þarf launastiku, en samkvæmt samningi er hún 232.500 kr. meðan raunveruleg meðallaun eru nú 305 þús. kr. (2.) Grunnforsenda reiknilíkans er að það séu 30 virkir nemendur að meðaltali á hverju fræðasviði. Í Háskóla Íslands er meðaltalið undir 20 virkum nemendum og þarf að laga reiknilíkanið að þessari staðreynd. (3.) Við Háskóla Íslands stunda fleiri nemendur nám en skólinn fær greidd nemendaframlög fyrir. Hækka þarf heildarhámark virkra nemenda úr 4.300 skv. upprunalegum samningi í 6.500 á árinu 2006 með nýjum samningi. (4.) Til samræmis við reiknireglur Svía óskar Háskólinn eftir því að greitt verði fyrir nám í hjúkrun, sjúkraþjálfun og tölvunarfræði samkvæmt reikniflokki 5. Jafnframt er óskað eftir að klínískt nám í sálfræði verði flutt í reikniflokk 6 eins og gert er í Svíþjóð. (5.) Nám í námsráðgjöf, félagsráðgjöf, bókasafnsfræði og hagnýtri fjölmiðlun verði í reikniflokki 4 eins og nám í kennslufræði. (6.) Nauðsynlegt er að Háskólinn fái aukafjárveitingu vegna fjárbindingar í öllu kennsluhúsnæði. (7.) Nauðsynlegt er að Háskólinn fái annaðhvort fjárveitingu utan reiknilíkans vegna starfsþjálfunar utan skólans eða að viðkomandi stofnanir kosti þjálfunina.

Aukin fjárþörf og fjölgun virkra nemenda
Þá brá Ingjaldur upp mynd sem sýndi áætlaða fjárþörf Háskólans til ársins 2006. Á myndinni kom m.a. fram að Háskólinn þarf 990 m.kr. hækkun á fjárveitingu til kennslu þegar á árinu 2004 og gerir útreikningurinn þó ekki ráð fyrir að launastikan hækki upp í nema 90% af raunverulegum meðallaunum kennara skólans. Forsenda þessarar áætlunar er hækkun kennslufjárveitingar vegna framangreindra óska um breytingar á kennslusamningi. Næst sýndi Ingjaldur mynd af spá um fjölgun virkra nemenda. Sýndi myndin að gera má ráð fyrir að virkir nemendur verði orðnir 6.500 árið 2006. Loks varpaði Ingjaldur upp tveimur myndum sem sýndu fjórar stoðir fjármögnunar Háskólans árið 2003, kennslusamning, rannsóknasamning, skrásetningargjöld og styrki og sértekjur, og fjárhagslegar afleiðingar óska um breytingar á kennslusamningnum.

Valkostir
Að endingu fór Ingjaldur nokkrum orðum um stöðu samningaviðræðna við fulltrúa menntamálaráðuneytisins vegna nýs kennslusamnings. Lýsti Ingjaldur þeirri skoðun sinni að ef ráðuneytið gæti eða vildi ekki verða við rökstuddum óskum Háskólans um verulega hækkun á fjárveitingum skv. nýjum samningi samhliða síaukinni eftirspurn eftir námi blöstu við tveir kostir: Skólagjöld eða aðgangstakmarkanir.

Að framsögum þeirra Ágústar og Ingjalds loknum gaf rektor orðið laust.

Málið var rætt ítarlega og lýstu flestir fundarmenn ánægju sinni með að efnt skyldi til sérstaks háskólafundar til að ræða þetta mikilvæga mál. Í umræðunni var fjallað um margar hliðar skólagjaldamálsins og komu fram ólík sjónarmið.

Hvernig og hvenær á að ræða málið?
Almennt voru fundarmenn þeirrar skoðunar að þótt nauðsynlegt og gagnlegt væri að fjalla um skólagjöld innan Háskólans væri hér á ferðinni pólitískt mál sem stjórnvöld bæru ábyrgð á að taka upp og leiða fram á vettvangi Alþingis.

Jafnframt létu einstakir fundarmenn í ljós þá skoðun að málið varðaði fyrst og fremst Háskólann og því ætti hann að taka afstöðu til þess að eigin frumkvæði.

Á það var bent að skólagjaldamálið snerti hvorki stjórnvöld ein og sér né Háskólann einan og sér heldur þjóðina alla og því væri nauðsynlegt að efna til opinskárrar umræðu um málið með þátttöku almennings, stjórnmálamanna, stúdenta, kennara og hagsmunaaðila í þjóðfélaginu.

Einnig var rætt um það, hvenær rétti tíminn væri til að taka skólagjaldamálið til umræðu. Töldu sumir að umræðan væri ótímabær eða tímasetningin óheppileg, m.a. með hliðsjón af yfirstandandi viðræðum milli Háskólans og stjórnvalda um nýjan kennslusamning. Aðrir héldu því fram að umræðan færi fram of seint, stjórnvöld hefðu brugðist hlutverki sínu með því að skorast undan því að taka opinberlega á málinu og því væri Háskólanum sá kostur nauðugur að taka sjálfur af skarið og óska eftir heimild til þess að fá að innheimta skólagjöld.

Um hvað snýst málið?
Fram komu ólík sjónarmið um þá spurningu, hversu víðtækt umfjöllunarefni fundarins væri.

Héldu sumir fundarmenn því fram að skólagjaldamálið varðaði eingöngu einstakar greinar, deildir eða námsstig, t.d. meistaranám í viðskipta- og hagfræðideild, eða þær deildir sem væru í beinni samkeppni við aðra háskóla.

Aðrir töldu málið snúast um það, hvort réttara væri að taka skólagjöld í meistaranámi yfirleitt eða í grunnnámi yfirleitt, ef til kæmi.

Voru ýmsar útfærslur þessara leiða ræddar. Flestir fundarmenn voru þó þeirrar skoðunar að það væri hvorki skynsamlegt né mögulegt að takmarka viðfangsefnið með þessum hætti. Hér væri á ferðinni grundvallarstefnumál sem ræða þyrfti sem slíkt. Reynslan myndi hvort eð er leiða í ljós að ef ein grein eða deild myndi innleiða skólagjöld myndu margar eða jafnvel allar hinar fylgja í kjölfarið.

Einnig komu fram ólík sjónarmið um efnislegt inntak skólagjaldaumræðunnar.

Töldu flestir fundarmenn að umræðuna um skólagjöld við Háskóla Íslands mætti rekja til ójafnrar samkeppnisstöðu háskóla á Íslandi. Stjórnvöld hefðu tekið þá afstöðu að heimila skólum á háskólastigi sem reknir eru sem sjálfseignarstofnanir að innheimta skólagjöld til viðbótar við nemendaframlög frá ríkinu, meðan háskólum í eigu ríkisins væri ekki heimilt að taka skólagjöld. Með þessari ákvörðun hefðu stjórnvöld fest í sessi ójafna samkeppnisstöðu skólanna. Um slíka mismunun væri þó hvergi fjallað í almennu háskólalögunum, heldur ætti hún rætur að rekja til samninga sem menntamálaráðherra hefði gert við hvern skóla fyrir sig í krafti valds síns. Þessa stefnu hefði ráðherrann mótað án nokkurrar undangenginnar umræðu, hvorki á Alþingi né á opinberum vettvangi, og gengi hún í berhögg við það sem tíðkaðist í nágrannalöndum okkar, einkum á Norðurlöndum. Þar ættu einkaskólar á háskólastigi val milli þess að fjármagna starfsemi sína með ríkisframlögum á sama grunni og ríkisháskólar eða því að innheimta skólagjöld. Skólar sem innheimta skólagjöld fá vanalega engin, eða skert ríkisframlög, og óþekkt er enn sem komið er að ríkisháskólar innheimti skólagjöld. Hin ‘séríslenska leið' í málefnum háskóla væri komin í öngstræti og úr því sem komið væri einungis um tvo valkosti að ræða: Að stjórnvöld skerði eða felli niður ríkisframlög til einkaskólanna eða að ríkisskólar fái heimild til að taka skólagjöld. Samkeppni í skólastarfi væri af hinu góða, en ef grundvöllur samkeppninnar er skakkur leiðir það til verri niðurstöðu en ef engin samkeppni ríkti.

Tóku stúdentar í sama streng og sögðu umræðuna um skólagjöld við Háskóla Íslands á villigötum vegna óskýrrar stefnu stjórnvalda. Las fulltrúi stúdenta upp svohljóðandi samþykkt stúdentaráðs:

"Stúdentaráð mótmælir skólagjöldum við Háskóla Íslands

Stúdentaráð Háskóla Íslands fagnar allri umræðu um rekstrarumhverfi skólans, en telur að umræða um skólagjöld við skólann sé á villigötum í ljósi þess að stjórnvöld hafa hingað til ekki markað nægilega skýra
stefnu í málefnum háskólastigsins á Íslandi. Háskóli Íslands stendur vissulega frammi fyrir fjárhagsvanda sem verður að leysa. Það verður aðeins gert í náinni samvinnu stjórnvalda og háskólayfirvalda. Háskóla Íslands er lögum samkvæmt ætlað að halda uppi kennslu í fjölmörgum greinum. Þar á meðal fámennum greinum þar sem framlag ríkisins er mjög vanáætlað. Þar sem lög skuldbinda Háskólann á þennan hátt verður ríkið að taka ábyrgð á að hann fái nægt fjármagn. Stúdentaráð skorar á stjórnvöld að leiðrétta fjárframlög til Háskóla Íslands þannig að þau verði í samræmi við raunverulegan kostnað við kennslu. Ennfremur bendir Stúdentaráð á mikilvægi þess að mörkuð verði mun skýrari stefna í málefnum háskólastigsins á Íslandi. Sú leið að velta fjármögnun Háskóla Íslands yfir á herðar stúdenta er ekki endanleg lausn á vanda háskólasamfélagsins. Þvert á móti býður hún heim nýjum vandamálum sem mun erfiðara yrði að leysa. Stúdentaráð tekur eindregna afstöðu gegn skólagjöldum við Háskóla Íslands. Fjármunum ríkisins er vel varið til eflingar menntunar í landinu. Leita á leiða til að auka fjárframlög til menntunar, nýta þau betur og vinna markvisst að áframhaldandi sókn háskólastigsins."

Einnig var á það bent að umræðan um skólagjöld snérist, þegar öllu væri á botninn hvolft, um þá pólitísku grundvallarspurningu, hversu miklum fjármunum skuli varið til menntamála og hver ætti/hverjir ættu að greiða kostnaðinn. Ástæðan fyrir því að skólagjaldaumræðan væri nú komin á kreik væri ekki síst sú að ásókn í háskólanám og vöxtur háskólanna hefði farið fram úr öllum áætlunum. Hér væri ekki séríslenskt vandamál á ferð, heldur væri um að ræða alþjóðlega þróun sem stafaði m.a. af stóraukinni þörf þjóðfélagsins fyrir menntað vinnuafl. Þegar svo væri komið gerðist sú spurning áleitin, hvort þeir einstaklingar sem sköpuðu sér umtalsvert hærri tekjur með því að ljúka háskólanámi ættu að fá að stunda námið á kostnað almennings eða hvort sanngjarnt væri að þeir tækju sjálfir þátt í kostnaðinum með einhverjum hætti. Loks var á það bent, að skólagjöld væru sannarlega engin töfralausn, hvorki fyrir fjárhag Háskólans né ríkisins, enda væru skólagjöld lánshæf og myndu því aðeins færast á hendur LÍN og þar með óbeint á ríkið, a.m.k. meðan ekki væri rekið öflugt styrkjakerfi fyrir góða nemendur.

Einnig var spurt, hvort tekjurnar sem skólarnir myndu afla sér með innheimtu skólagjalda kæmu skólunum til góða eða hvort ríkið myndi draga úr framlögum sínum á móti. Skiptar skoðanir voru um þetta. Töldu sumir fundarmenn líklegt að þegar svo væri komið að allir háskólar á Íslandi væru farnir að taka skólagjöld myndi fjárveitingarvaldið draga úr framlögum sínum á móti sem aftur myndi leiða til þess að skólagjöldin hækkuðu smátt og smátt. Aðrir héldu því fram að ríkisframlögin myndu ekki lækka og vísuðu þessu til stuðnings á reynslu þeirra skóla á háskólastigi hérlendis sem tekið hafa skólagjöld fram að þessu. Loks var stuttlega rætt um það, hvort hugsanleg skólagjöld ættu að vera jafn há í öllum deildum Háskólans, eða hvort deildir ættu að hafa sjálfdæmi í þessu efni. Var í þessu sambandi m.a. bent á að með kennslusamningnum væri nú þegar gerður skýr greinarmunur á kostnaði vegna einstakra námsgreina.

Þá var talsvert rætt um tengsl skólagjalda annars vegar og gæða náms og þjónustu við nemendur hins vegar. Bent var á að það væri frumskylda Háskólans að veita nemendum góða þjónustu. Nútímaháskólar þyrftu hins vegar að veita allt aðra og meiri þjónustu en áður var og ef Háskólinn stæði frammi fyrir þeim afarkostum að geta ekki rækt þessa skyldu sína við nemendur nema með innheimtu skólagjalda yrði svo að vera. Í þessu sambandi var einnig fjallað um það vandamál að talsverður hluti nemenda í Háskólanum væri ekki fullvirkur í námi. Þessir nemendur nýttu sér alla aðstöðu og stoðþjónustu skólans, þ.m.t. nettengingu, lesaðstöðu o.fl., án þess að stunda námið með það fyrir augum að ljúka því á eðlilegum tíma. Leiða mætti líkur að því að ef tekin yrðu upp skólagjöld myndi þeim nemendum fækka sem stunda námið í hjáverkum og þjónusta við virku nemendurna batna. Þessu til staðfestingar var m.a. bent á að í MBA-námi viðskipta- og hagfræðideildar, sem kostaði um 1,5 m.kr. á tveimur árum, væri virkni nemenda mun meiri en í hefðbundnu námi. Um 80-90% nemenda sem hæfu MBA-nám lykju því, en aðeins um 50% nemenda í hefðbundnu námi. Í skipulagi Háskólans væri fátt sem hindraði nemendur í að draga námið á langinn. Aðgengi nemenda að námi væri of auðvelt, þeir gætu skráð sig þar sem þeim sýndist og hætt við að vild. Þetta gerði alla skipulagningu náms erfiðari og ylli ómældum kostnaði sem annars myndi nýtast til að bæta gæði náms og þjónustu. Skólagjöld gætu verið hvati til að skilja og skynja verðmæti námsins.

Loks var rætt um áhrif skólagjalda á jafnrétti til náms. Bentu einkum fulltrúar stúdenta á þá hættu að skólagjöld gætu stuðlað að námslegu misrétti. Ef ekki kæmi til öflugt styrkjakerfi eða aðrar jöfnunarleiðir gætu skólagjöld leitt til þess að háskólanám yrði forréttindi efnaðra stúdenta en hinir efnaminni leituðu annað. Einnig var nefnt að margir framhaldsnemar hefðu ekki tök á að greiða skólagjöld og myndi því leita til annarra landa, einkum Norðurlanda og Bandaríkjanna, þar sem góðir nemendur fengju niðurfelld skólagjöld og jafnvel laun meðan á námi stæði. Loks var þess getið að ýmsir fleiri þættir en tekjur hefðu áhrif á jafnrétti til náms, s.s. búseta, kynferði o.fl. Skólagjöld kæmu mismunandi við nemendur eftir kyni, t.d. væri líklegt að ungar mæður myndu síður vilja skuldsetja sig vegna náms og því varðaði skólagjaldamálið einnig jafnrétti kynjanna.

Auk framangreindra sjónarmiða var stuttlega vikið að ýmsum öðrum hliðum málsins, s.s. mögulegri útfærslu á innheimtu skólagjalda í formi tryggingargjalds sem nemendur myndu greiða þegar þeir skrá sig í nám en fengju endurgreitt ef þeir gengjust undir próf, betri samþættingu almenns náms og endurmenntunar við Háskólann með innleiðingu almennra skólagjalda, rekstrarform háskóla, þ.e. kosti og galla ríkisstofnunar og sjálfseignarstofnunar, mögulegar hagræðingarleiðir, t.d. með niðurfellingu fámennra námskeiða svo og sérstöðu erlendra stúdenta við Háskólann. Varðandi síðasttalda atriðið var á það bent að erlendum stúdentum við Háskólann hefur fjölgað mikið undanfarin misseri og það vekti þá spurningu, hvort meðhöndla skuli þá eins og íslenska stúdenta.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, Ágústs Einarssonar og Ingjalds Hannibalssonar, þau Ólafur Þ. Harðarson, Þorsteinn Loftsson, Anna Agnarsdóttir, Ingjaldur Hannibalsson, Hörður Filippusson, Davíð Gunnarsson, Hjalti Hugason, Jón Torfi Jónasson, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Jón Atli Benediktsson, Jóhann Malmquist, Sigurður Brynjólfsson, Eiríkur Tómasson, Helga Ögmundsdóttir, Gunnlaugur A. Jónsson, Guðmundur Magnússon, Gylfi Magnússon, Kristín Jónsdóttir, Jón Friðjónsson, María Guðmundsdóttir, Dagný Kristjánsdóttir, Stefán B. Sigurðsson og Auður Hauksdóttir.

Rektor þakkaði fundarmönnum fyrir góða og gagnlega umræðu.

 

Kl. 16.00-16.45 - Dagskrárliður 2: Endurskoðun laga og reglna um dómnefndir og fleiri þætti ráðningarmála.

Fyrir fundinum lá niðurstaða nefndar um endurskoðun laga og reglna um dómnefndir og fleiri þætti ráðningarmála, dags. 10. júní 2003, og minnisblað akademískrar stjórnsýslu til háskólaráðs um efnisatriði við endurskoðun á fyrirkomulagi dómnefndarmála, dags. 25. júní 2003. Í nefndinni áttu sæti Páll Hreinsson prófessor, formaður, Hörður Filippusson, forseti raunvísindadeildar, Ólafur Þ. Harðarson, forseti félagsvísindadeildar, Jóhannes R. Sveinsson, dósent og fulltrúi Félags háskólakennara og Félags prófessora og Þórdís Kristmundsdóttir, forseti lyfjafræðideildar og gerði Hörður grein fyrir niðurstöðum hennar í fjarveru Páls.

Hörður gerði grein fyrir niðurstöðum nefndarinnar Hann byrjaði á því að lýsa þeirri skoðun sinni að niðurstöður nefndarinnar væru ekki líklegar til að valda ágreiningi. Ef tillögurnar hlytu samþykki fundarins gætu þær leitt til verulegra bóta á ráðningarkerfi Háskólans og aukið sjálfstæði hans til athafna á því sviði.

Niðurstaða nefndarinnar er sett fram í formi stutts lagafrumvarps sem tekur á tveimur atriðum er varða ráðningarmál. Hið fyrra fjallar um dómnefndir og felur í sér eftirfarandi breytingu á 12. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands. Núgildandi 3. mgr. 12. gr. hljóðar svo:

"Rektor skipar þriggja manna dómnefnd til þess að dæma um hæfi umsækjanda til að gegna kennarastarfi eða vísinda- og fræðistörfum. Háskólaráð tilnefnir einn nefndarmann, menntamálaráðherra annan og deild sú eða stofnun sem hann á að starfa við þann þriðja, og skal hann jafnframt vera formaður dómnefndar. Í dómnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi eða hliðstæðu prófi úr háskóla. Háskólarektor skipar ritara dómnefnda sem fylgist með störfum nefndanna og er þeim til aðstoðar".

Frumvarpið gerir ráð fyrir að fyrsti málsliður þessarar greinar verði óbreyttur en það sem á eftir kemur falli niður. Þar með stæði aðeins eftir í 3. mgr. 12.gr.:

„Rektor skipar þriggja manna dómnefnd til þess að dæma um hæfi umsækjanda til að gegna kennarastarfi eða vísinda- og fræðistörfum“.

Rektor væri þar með falið að skipa dómnefndir án tilnefningar. Jafnframt væru nánari ákvæði um starfshætti dómnefnda þannig einungis í sameiginlegum reglum Háskólans en ekki bundin í lögum.

Síðara atriðið lýtur að skyldu skólans til að auglýsa störf. Lögð er til viðbót við 7. mgr. 12. gr. laganna, en málsgreinin hljóðar svo í núverandi mynd:

„Háskólaráð setur nánari reglur um nýráðningar, auglýsingar um störf, umsóknir og meðferð þeirra, skipan og störf dómnefnda, framgang kennara, sérfræðinga og fræðimanna og tilflutning starfsmanna“.
 
Nefndin leggur til að við bætist eftirfarandi texti:

“Háskólaráð getur mælt svo fyrir í reglunum að undanþiggja megi auglýsingu um störf sem byggja á sérstökum tímabundnum styrkjum, störf sem tengjast sérstökum tímabundnum verkefnum, störf sem nemendur stunda við skólann samhliða rannsóknatengdu framhaldsnámi og störf við skólann sem tengjast tilteknu starfi utan hans á grundvelli samstarfssamnings“.

Fram kom hjá Herði að rök fyrir þessum breytingum ættu að vera flestum háskólamönnum augljós, en þau eru rakin ítarlegar í þeim plöggum sem lögð hafa verið fram undir þessum dagskrárlið.

Í fyrsta lagi væri nauðsynlegt að gera ráðningarferli háskólakennara og annarra sem ráðnir væru að undangengnum hæfisdómi skilvirkara og einnig væri eðlilegt að færa það alveg inn fyrir veggi Háskólans, auk þess sem skynsamlegt væri að ákvæði um skipan og samsetningu dómnefnda væri í reglum fremur en í lögum. Mikilvægt væri að taka fram að með þessu yrði ekki slegið af kröfum til umræddra starfa.

Í öðru lagi væri bráðnauðsynlegt að veita Háskólanum og stofnunum hans svigrúm til að ráða án auglýsingar í ýmis störf í tilvikum sem byggðust á sérstöðu starfa við Háskólann og þeirri sérstöðu sem leiddi af tímabundinni fjármögnun tiltekinna starfa með styrkjum, samningum og slíku. Lagði Hörður áherslu á að ávallt yrði um að ræða undantekningar frá þeirri meginreglu að störf við skólann yrði alla jafna skylt að auglýsa. Helstu undantekningartilvik sem um gæti verið að ræða væru tíunduð í skýringum við frumvarpið.

Ljóst væri, hélt Hörður áfram, að yrði framlagt frumvarp að lögum leiddi af því að setja yrði nýjar eða breyttar reglur um skipan og störf dómnefnda. Nefndin hefði unnið talsvert starf við að setja saman tillögur að slíkum reglubreytingum. Meginatriði þess sem nefndin hefði orðið ásátt um væri skilmerkilega dregið saman í minnisblaði akademískrar stjórnsýslu sem lægi fyrir fundinum.

Í meginatriðum væri hugmyndin að ráðningarferillinn yrði þessi:
· Fjórar dómnefndir yrðu starfandi við skólann, ein á hverju meginfræðasviði - formaður og varaformaður yrðu skipaðir til þriggja ára en í hverju ráðningar- eða framgangsmáli yrði þriðji nefndarmaður tilnefndur af viðkomandi deild sem einskonar sérfróður aðili. Formenn þessara dómnefnda gerðu tillögu til rektors um verklagsreglur um form og framsetningu dómnefndarálits til að tryggja samræmi.
· Gert væri ráð fyrir að dómnefndir hefðu í upphafi til hliðsjónar bráðabirgðagrunnmat, unnið af rannsóknasviði strax og umsóknir bærust, að nefndirnar úrskurðuðu einungis um hæfi umsækjenda en röðuðu þeim ekki og að þær skiluðu drögum að áliti innan 30 daga frá því að gögn lægju fyrir.
· Loks væri miðað við að deildir settu sérreglur um hvernig staðið skuli að því að velja úr hæfum umsækjendum og gerðu tillögu til rektors um ráðningu í starf. Hið raunverulega val færi því fram í deildum. Nú þegar hefðu sumar deildir sett sér slíkar reglur - læknadeild hefði sett á stofn valnefnd en raunvísindadeild hefði falið skorum að gera tillögu um ráðningu, svo tvö dæmi séu tekin.

Að framsögu Harðar lokinni gaf rektor orðið laust.

Málið var rætt allítarlega og lýstu flestir fundarmenn ánægju sinni með niðurstöður nefndarinnar. Í umræðunni var m.a. tekið undir að ef frumvarpið yrði að lögum fengi Háskólinn aukið sjálfstæði og að mikilvægt væri að færa ákvæði um þetta úr lögum í reglur. Aðrir töldu að frumvarpið gengi ekki nógu langt og að hugmyndin um bráðabirgðamat væri ekki til bóta, heldur fæli í sér aukna skriffinnsku. Þá var þeim spurningum beint til Harðar, hvort nýja fyrirkomulagið fæli í sér hættu á að færri utanskólamenn kæmu að matinu en áður og hvort það tæki bæði til nýráðninga og framgangs. Svaraði Hörður því til að ekkert væri því til fyrirstöðu að fá utanskólamann í dómnefndirnar og að við framgang yrði áfram farið eftir sömu reglum og hingað til. Bent var á að grunnmatið gæti verið býsna flókið í framkvæmd og til greina kæmi að taka sér vinnuaðferðir á Norðurlöndum til fyrirmyndar, en þar legðu umsækjendur aðeins fram fimm helstu verk sín til mats. Loks var bent á að til álita kæmi að hafa dómnefndirnar fleiri, því illgerlegt væri að vinna mat á 30 dögum ef umsækjendur væru margir. Í lok umræðunnar minnti rektor á að endanleg drög að reglum frá nefndinni myndu koma fyrir næsta háskólafund. Nú væri hins vegar brýnt að afgreiða lagabreytingartillöguna.

Að umræðu lokinni bar rektor tillögu nefndar Páls Hreinssonar um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 41/1999 um Háskóla Íslands, undir atkvæði.

- Samþykkt samhljóða.

Málið fer nú til háskólaráðs til afgreiðslu.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Harðar Filippussonar, þau Ólafur Þ. Harðarson, Sigurður Brynjólfsson, Gylfi Magnússon, Helgi Þorláksson, Guðmundur Magnússon, Ágúst Einarsson og Anna Agnarsdóttir.

 

Kl. 16.45-17.00 - Dagskrárliður 3: Rektor leggur fram minnisblað um ný stefnumál Háskóla Íslands

Rektor reifaði framlagt minnisblað sitt um ný stefnumál, helstu framkvæmdir og verkefni, dags. 21. ágúst 2003. Einnig var lagt fram minnisblað Magnúsar Diðriks Baldurssonar um framvindu stefnumótunarstarfs við Háskóla Íslands 1999-2003, frá því að ný lög um Háskóla Íslands tóku gildi.

Byrjaði rektor á að taka fram að minnisblaðið væri lagt fram til almennrar kynningar og ekki yrði farið ítarlega ofan í saumana á einstökum atriðum, enda yrðu sum þeirra á dagskrá næstu háskólafunda. Minnisblað rektors skiptist í þrjá hluta sem hver skiptist í nokkra undirliði.

I. Ný stefnumál

Ia. Á Háskólinn að fá heimild til að innheimta skólagjöld (í meistaranámi)? Sagði rektor að ekki væri ástæða til að fjölyrða um þennan lið, enda hefði hann verið til ítarlegrar umfjöllunar fyrr á fundinum.

Ib. Hver á vöxtur Háskólans að vera næstu fimm árin? Í máli rektors kom m.a. fram að vöxtur Háskólans og aðsókn að háskólanámi á undanförnum árum hefði farið fram úr öllum áætlunum. Þótt segja mætti að það hefði sumpart verið kostur íslenska háskólakerfisins að vera mjög sveigjanlegt, væri nú svo komið að vöxturinn reyndi til hins ítrasta á þanþol Háskólans og því vaknaði sú spurning, hvort Háskólinn ætti að reyna að stjórna vextinum, almennt eða sérstaklega í grunnnámi, meistaranámi, doktorsnámi eða starfstengdu námi. Hvatti rektor fundarmenn til að velta þessari spurningu fyrir sér, sérstaklega með tengsl vaxtar og gæða í huga.

Ic. Á að leggja sérstaka áherslu á ákveðin fræðasvið næstu fimm árin? Tók rektor skýrt fram að með þessari spurningu væri ekki verið að leggja til að dregið verði úr frelsi háskólamanna og nemenda til að velja sér fræðasvið og samstarfsaðila. Hins vegar benti margt til þess að Rannís og hið nýja vísinda- og tækniráð myndu í fyrirsjáanlegri framtíð velja tiltekin áherslusvið, sem myndi hafa bein og óbein áhrif á Háskóla Íslands. Því gæti verið æskilegt að Háskólinn hefði frumkvæði að því að móta sér skoðun á þessu máli og væri þannig virkur þátttakandi í stefnumótun framangreindra aðila. Einnig væri eðlilegt að Háskólinn spyrði sig, hvar hann gæti staðið sig sérstaklega vel á alþjóðlegum vettvangi. Málið tengist m.ö.o. alþjóðasamskiptum Háskólans og þeirri spurningu, hvort skólinn ætti að efla tengsl sín við tiltekna erlenda háskóla.

Id. Hvernig má styrkja stjórn grunneininga og sameiginlegrar stjórnsýslu? Sagði rektor að með þessari spurningu væri vakið máls á því, hvernig styrkja mætti deildir og stjórn þeirra, m.a. starf deildarforseta. Stjórnendur Háskólans þyrftu sífellt að leita leiða til að styrkja og bæta stjórnkerfið og væri mikilvægt í því sambandi að velta ýmsum möguleikum fordómalaust fyrir sér, þ.m.t. mögulegum samruna deilda. Með spurningunni væri einnig horft til þess, hvernig halda mætti áfram að bæta samstarf deilda og sameiginlegrar stjórnsýslu.

Ie. Framtíð íslenska háskólakerfisins. Þetta mál, sem m.a. tekur til samkeppnisstöðu háskóla á Íslandi, hefur verið til umræðu í háskólaráði undanfarið og verður þar áfram á dagskrá. Skýrði rektor frá því að málið yrði væntanlega rætt á næsta háskólafundi í nóvember nk.

If. Breytingar á reiknilíkani. Þetta mál hefur verið á dagskrá í viðræðum Háskólans og menntamálaráðuneytisins um endurskoðun kennslusamningsins. Lýsti rektor þeirri skoðun sinni að hér væri á ferðinni stórmál sem varðaði ekki aðeins Háskóla Íslands heldur alla háskóla í landinu.

Ig. Menningar- og málstefna Háskólans. Málstefna Háskólans var til umræðu á 9. háskólafundi í maí sl. og var því vísað til deildarforseta. Á næstunni mun starfshópur deildarforseta og annarra undirbúa málið fyrir 11. háskólafund í nóvember nk.

II. Framkvæmdir

· Náttúrufræðahús. Greindi rektor frá því að lokaframkvæmdir við Náttúrufræðahúsið stæðu nú sem hæst og stefnt væri að því að hornsteinn að því yrði lagður í september eða október nk.. Einnig myndu áætlanir um að flutt verði inn fyrir áramót að líkindum standast.
· Háskólatorg. Skipuð hefur verið bygginganefnd Háskólatorgs. Miðað hefur verið við að húsið verði staðsett milli Aðalbyggingar og Íþróttahúss, en hlutverk nefndarinnar er m.a. að gera tillögu að deiliskipulagi háskólalóðar vestan Suðurgötu og tillögu að breytingum á deiliskipulagi austan Suðurgötu.
· Skrifstofu- og kennsluhúsnæði. Rektor sagði að þrátt fyrir tilkomu Náttúrufræðahússins og áform um Háskólatorg væri ljóst að ýmsar deildir Háskólans, einkum félagsvísindadeild og viðskipta- og hagfræðideild, hefðu mjög brýna þörf fyrir aukið kennsluhúsnæði. Til skoðunar væri að leysa bráðan húsnæðisvanda þessara deilda í tengslum við Háskólatorg.
· Aðstaða til heilsuræktar og íþrótta. Hér er á ferðinni mjög mikilvægt mál fyrir háskólasamfélagið, sem ekki hefur verið sinnt sem skyldi á undanförnum árum. Hefur rektor skipað Guðmund R. Jónsson, prófessor í verkfræðideild og væntanlegan eftirmann Ingjalds Hannibalssonar sem framkvæmdastjóra rekstrar- og framkvæmdasviðs sameiginlegrar stjórnsýslu, formann nefndar sem hefur það hlutverk að skipuleggja og bæta aðstöðu háskólafólks til heilsuræktar og íþrótta.

III. Mikilvæg verkefni

· Gæðamál. Fram kom hjá rektor að frá því að háskólaráð samþykkti formlegt gæðakerfi Háskólans árið 2002 hefði mikið starf verið unnið við framkvæmd og útfærslu þess. Benti rektor í þessu sambandi á að í raun tæki gæðakerfið til miklu fleiri þátta en þeirra, sem tilgreindir væru í hinu formlega gæðakerfi. Til dæmis væri það umhugsunarefni, hvort hin fjölmörgu hvatakerfi Háskólans væru í raun eiginleg gæðakerfi.
· Starf út um land. Á undanförnum árum hefur starfsemi Háskólans á landsbyggðinni vaxið hröðum skrefum og er nú svo komið að nauðsynlegt er að samræma og samhæfa starfið betur. Hefur Rögnvaldi Ólafssyni verið falið að halda utan um þetta starf.
· Markaðs- og kynningarmál. Í ársbyrjun 2002 skilaði starfshópur um markaðs- og kynningarmál Háskólans, sem Ólafur Þ. Harðarson stýrði, áliti og tillögum um framtíðarskipan þessara mála við Háskólann. Unnið hefur verið eftir tillögum starfshópsins og er ljóst að efla þarf þennan málaflokk til muna innan skólans.
· Menningarmál. Að endingu sagði rektor frá því að menningarmál Háskólans hefðu verið til nokkurrar umræðu, m.a. á háskólafundi, og að verið væri að gera áætlun um stefnu og einstök verkefni á þeim vettvangi.

Að lokum þakkaði rektor fundarmönnum fyrir málefnalegar umræður og minnti á að 11. háskólafundur fer fram föstudaginn 7. nóvember nk. Einnig þakkaði rektor þeim sem tóku þátt í undirbúningi fundarins.

Fleira var ekki gert.

Rektor sleit fundi kl. 17.00 og bauð fundarmönnum að þiggja léttar veitingar í anddyri Hátíðasalar.
 

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 10. háskólafundi:

1. Dagskrá 10. háskólafundar 8. september 2003.
2. Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
3. Tillaga viðskipta- og hagfræðideildar H.Í. um að deildin fái heimild til að innheimta skólagjöld fyrir meistaranám.
4. Minnisblað akademískrar stjórnsýslu um skólagjöld í meistaranámi. Lagt fyrir fund háskólaráð 11. júní 2003.
5. Umsögn starfsnefnda háskólaráðs um tillögu viðskipta- og hagfræðideildar um að deildin fái heimild til að innheimta skólagjöld fyrir meistaranám.
6. Glærur við greinargerð Ingjaldar Hannibalssonar um umsögn starfsnefnda háskólaráðs, sbr. lið 5.
7. Niðurstaða nefndar um endurskoðun laga og reglna um dómnefndir og fleiri þætti ráðningarmála ásamt frumvarpi til laga um breytingar á lögum nr. 41/1999 um Háskóla Íslands.
8. Minnisblað akademískrar stjórnsýslu til háskólaráðs um efnisatriði við endurskoðun á fyrirkomulagi dómnefndamála.
9. Minnisblað rektors um ný stefnumál, helstu framkvæmdir og verkefni.