Skip to main content

Vísindamenn framtíðarinnar í mótun

Það skín áhugi, einbeiting, gleði og undrun úr svip og fasi skólabarna þegar litið er inn í Vísindasmiðju Háskóla Íslands, sem er til  húsa í Háskólabíói við Hagatorg. Þangað koma nemendur í eldri bekkjum grunnskóla í fylgd kennara sinna til að kanna undraheim vísindanna, gera tilraunir með hann og upplifa.

Markmið með starfi Vísindasmiðjunnar er að gefa nemendum tækifæri til að kynna sér raun- og náttúruvísindi á gagnvirkan og lifandi hátt, efla og glæða áhuga þeirra á vísindum og styðja framþróun í kennslu í náttúru- og raunvísindum.

Vísindasmiðja Háskóla Íslands var opnuð í mars 2012 og byggðist hún m.a. á frumkvöðlastarfi Orkuveitu Reykjavíkur sem starfrækti Rafheima í Elliðaárdal frá 1998 en þar var lögð áhersla á að efla áhuga grunnskólabarna á vísindum. Tugþúsundir grunnskólabarna heimsóttu Rafheima á sínum tíma og eflaust hefur sá neisti sem þar var kveiktur skilað Háskóla Íslands vísindamönnum nútíðar og framtíðar, með sama hætti og vænst er að Vísindasmiðjan geri til framtíðar.

Opnun Vísindasmiðjunnar á árinu 2012 fylgdi vegleg gjöf frá Orkuveitu Reykjavíkur, sem afhenti henni allan búnað og tæki sem áður tilheyrðu Rafheimum. Gjöfinni fylgdi fyrirheit frá hendi Háskóla Íslands um að búnaður og tæki yrðu notuð áfram til fræðslu ungmenna og yrðu hvati að fjölbreyttum og lifandi kennsluaðferðum. Samtök iðnaðarins lögðu Vísindasmiðjunni einnig lið í upphafi starfs hennar.

Úr starfi Vísindasmiðju Háskóla Íslands

Frá Vísindasmiðju Háskóla Íslands

Vísindasmiðjan hefur notið fádæma vinsælda meðal nemenda frá upphafi og er fullt út úr dyrum alla þá þrjá daga vikunnar sem hún er opin, en heimsóknir þangað eru nemendum og skólum að kostnaðarlausu.

Orkuveita Reykjavíkur hefur í gegnum tíðina sýnt Háskóla Íslands mikinn velvilja og stuðning og lagt áherslu á vísindi í starfi sínu m.a. með árlegum vísindadegi Orkuveitunnar. Margir framhaldsnemar Háskóla Íslands hafa að auki unnið lokaverkefni sín í samstarfi við fyrirtækið. Á árinu 2015 styður Orka Náttúrunnar verkefnið Ljósakassann, sem Háskóli Íslands heldur utan um í tilefni af Ári ljóssins, en Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað árið 2015 ljósinu.  Í Ljósakassanum verða ýmis kennslugögn sem ætluð eru til að efla kennslu í raungreinum  og fleiri fögum í grunnskólum. Verður kassanum dreift í skóla landsins haustið 2015.

Tengt efni