Skip to main content

Til eflingar íslenskrar tungu

Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur var stofnaður við háskólann árið 2014 til minningar um Áslaugu og foreldra hennar, þau Sesselju Eiríksdóttur og Hafliða Jón Hafliðason. Sjóðurinn heyrir undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands

Áslaug arfleiddi Háskóla Íslands að fasteigninni að Bjarkargötu 12 í Reykjavík til minningar um foreldra sína. Bjarkargata 12 var æskuheimili Áslaugar og systur hennar, byggt af foreldrum hennar, og þar bjó hún alla tíð. Jafnframt ánafnaði hún háskólanum 25% af öllum bankainnstæðum og andvirði verðbréfa í hennar eigu. Stofnframlag sjóðsins nam samtals 120 milljónum króna.

Markmið Styrktarsjóðs Áslaugar Hafliðadóttur helgast af fyrirmælum í erfðaskrá Áslaugar og skal sjóðurinn notaður til eflingar íslenskri tungu með því skilyrði að lögð verði áhersla á að styrkja sérverkefni á sviði íslenskra fræða eða styðja þá sem leggja stund á íslensk fræði.

Bæði starfsmenn og nemendur Háskóla Íslands geta sótt um styrki, m.a. til rannsókna, þróunar, kennslu, þjálfunar, nýmæla eða tækja og búnaðar sem falla að markmiðum sjóðsins. Í stofnskrá sjóðsins segir að sérstaklega skuli stutt við verkefni sem lúta að ritfærni og þjálfun nemenda á öllum fræðasviðum háskólans í að beita íslensku máli og styrkja stöðu íslenskunnar í síbreytilegu tækniumhverfi. Úthlutað var úr sjóðnum fyrsta sinn í maí 2015. 

Áslaug Hafliðadóttir var fædd 1929 og lést í ágúst 2011. Hún stundaði nám í lyfjafræði við Lyfjafræðingaskóla Íslands og verknám í Ingólfs Apóteki og varð aðstoðarlyfjafræðingur. Þá hélt Áslaug til Danmerkur og lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Danmarks Farmaceutiske Höjskole 1957. Áslaug starfaði lengst af í Reykjavíkur Apóteki og Lyfjabúð Breiðholts og lagði þar m.a. mikla rækt við lyfjafræðinema frá Háskóla Íslands sem komu til verknáms undir hennar handleiðslu. Í Lyfjabúð Breiðholts starfaði Áslaug með Ingibjörgu Böðvarsdóttur apótekara. Þær tvær skrifuðu mikið saman um sögu lyfjafræði og voru auk þess ötulir hvatamenn að útkomu Lyfjafræðingatals.

Áslaug Hafliðadóttir

Áslaug Hafliðadóttir

Þá vann Áslaug merkilegt starf ásamt hópi lyfjafræðinga við að koma upp Lyfjafræðisafni við Nesstofu á Seltjarnarnesi. Hún var sæmd gullmerki Lyfjafræðingafélags Íslands á 60 ára afmæli félagsins árið 1992 og á 75 ára afmæli félagsins var hún útnefnd heiðursfélagi Lyfjafræðingafélagsins. Þá starfaði Áslaug í Íslenska esperantosambandinu í rúma þrjá áratugi og var lengi í stjórn Auroro, Reykjavíkurfélags esperantista. Auk Háskóla Íslands nutu Náttúruverndarsamtök Íslands velvilja Áslaugar en hún arfleiddi samtökin að sumarbústað sínum í landi jarðarinnar Hæðarenda í Grímsnesi, auk 12,5% af öllum bankainnistæðum og andvirði verðbréfa sem hún lét eftir sig.

Áslaug var ógift og barnlaus. Henni hefur verið lýst sem glaðværri konu sem hugsaði vel um sína. Áslaug var heimsmaður, ferðaðist mikið um lönd og álfur, auk þess sem hún var náttúruunnandi og naut þess að ferðast um Ísland. Í frístundum sínum stundaði hún göngur og sund af miklum móð og átti sinn fasta samastað í Vesturbæjarlauginni. Áslaug lifði sig inn í þjóðhætti annarra, tók mikið af myndum og sagði frá þegar heim kom. Eftir starfslok helgaði hún krafta sína lyfjafræðisafninu, sem var henni mjög hugleikið, og naut þess að vera þar með góðum vinum og samstarfsfólki.

Áslaugar Hafliðadóttur lyfjafræðings verður lengi minnst í Háskóla Íslands fyrir göfuglyndi og rausnarskap í þágu skólans. 

Frekari upplýsingar um Styrktarsjóði Háskóla Íslands er að finna á sjóðavef háskólans.
 

Stjórn Styrktarsjóðs Áslaugar Hafliðadóttur. Frá vinstri: Börkur Hansen, Katrín Jakosdóttir, formaður stjórnar, og Viðar Guðmundsson.
Fyrstu styrkþegarnir úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur eftir úthlutun 2015. Frá vinstri: Kristján Jóhann Jónsson, Höskuldur Þráinsson, Jón G. Friðjónsson og Eiríkur Rögnvaldssson.