Skip to main content

4. háskólafundur 23. febrúar 2001

4. háskólafundur haldinn 23. febrúar 2001 í hátíðasal Háskóla Íslands á 2. hæð í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13:00-17:00

Kl. 13:00 - Fundarsetning

Rektor setti fjórða háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Hann fór yfir dagskrá og tímaáætlun fundarins og gerði grein fyrir tildrögum hans.

Rektor skipaði Magnús Diðrik Baldursson, aðstoðarmann rektors, og Halldór Jónsson, framkvæmdastjóra rannsóknasviðs, ritara fundarins.

Kl. 13:10 - Dagskrárliður 1: Stefna Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum

Fyrir fundinum lá til kynningar yfirlit yfir alþjóðasamskipti og stúdentaskipti Háskóla Íslands. Þá lágu fyrir fundinum til umræðu og afgreiðslu drög að stefnu Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum. Með drögunum fylgdi skrifleg samantekt á umsögnum og tillögum alþjóðaráðs, deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi og undirbúningshóps rektors fyrir háskólafund. Rektor kynnti stefnudrögin og fyrirliggjandi gögn og lýsti meðferð málsins. Lagði rektor til að málsmeðferðin yrði með þeim hætti að hann færi yfir fyrirliggjandi umsagnir og tillögur lið fyrir lið og mælti síðan sjálfur fyrir einni þeirra og bæri hana undir atkvæði. Lagði rektor áherslu á að hér væri um vinnuaðferð að ræða og að allar tillögurnar væru til umræðu. Einnig minnti hann á að málið hefði verið rætt ítarlega á síðasta háskólafundi.

Næst bar rektor upp tillögur sínar um breytingar á fyrirliggjandi drögum að stefnu Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum:

1.) Í kaflanum um „stefnu“ verði bætt við nýrri setningu er hljóði svo: „Enn fremur er lögð áhersla á að taka vel á móti erlendum nemendum sem stunda nám við skólann.“
Samþykkt samhljóða.

2.) Í sama kafla verði í 5. setning felld niður orðin “kennurum og”. Setningin hljóði þá svo breytt: „Háskólinn ætlar að veita starfsfólki sínu sem best tækifæri til að taka þátt í alþjóðasamskiptum og rækja samstarf við erlend starfssystkin, enda sé sýnt að það muni nýtast starfsemi Háskólans.“
Samþykkt samhljóða.

3.) Í kaflanum um „framkvæmd og útfærslu“ verði í 2. stjörnumerkta liðnum bætt við orðunum „skiptinemendur“ í stað „nemendur“ og „á öllum stigum háskólanáms“ í stað „einkum á meistara- og doktorsstigi“. Einnig verði felld niður orðin „m.a. með því að bjóða upp á fjölbreytt úrval námskeiða á ensku“. Setningin hljóði þá svo breytt: „laða erlenda skiptinemendur að námi á öllum stigum háskólanáms“.
Samþykkt samhljóða.

4.) Í sama kafla verði bætt við nýjum stjörnumerktum lið er hljóði svo: „tryggja fullnægjandi framboð á námskeiðum á ensku og öðrum erlendum málum fyrir erlenda skiptistúdenta, sem koma vegna alþjóðlegra samninga sem Háskólinn á aðild að“.
Guðmundur K. Magnússon, forseti viðskipta- og hagfræðideildar tók til máls og bar fram þá breytingartillögu við tillögu rektors að orðið „erlenda“ félli niður. Setningin hljóði þá svo breytt: „tryggja fullnægjandi framboð á námskeiðum á ensku og öðrum erlendum málum fyrir skiptistúdenta, sem koma vegna alþjóðlegra samninga sem Háskólinn á aðild að“.
Tillagan svo breytt var samþykkt samhljóða.

5.) Í sama kafla verði 6. stjörnumerkti liðurinn látinn standa óbreyttur, en í umsögnum alþjóðaráðs og hjúkrunarfræðideildar hafði þeirri hugmynd verið hreyft, að tilgreint yrði ákveðið hlutfall af fjárveitingu deilda sem varið yrði til alþjóðasamskipta.
Rektor gaf orðið laust til almennrar umræðu. Karítas Kvaran, forstöðumaður Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins, tók til máls og lýsti stuttlega þróun og stöðu alþjóðasamskipta við Háskólann. Í umræðunni var m.a. fjallað um mikla fjölgun skiptinema á undanförnum árum og dreifingu þeirra eftir deildum. Í því sambandi kom m.a. fram að á síðasta háskólaári var í fyrsta sinn tekið á móti fleiri skiptinemum en voru sendir utan. Þá var rætt um samninga milli Háskóla Íslands og erlendra háskóla um nemendaskipti og framboð námskeiða á erlendum tungumálum.

Að lokinni umræðu bar rektor stefnu Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum, með breytingum, upp til samþykktar. Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, þau Guðmundur K. Magnússon, Karítas Kvaran, Reynir Tómas Geirsson og Snjólfur Ólafsson.

Kl. 13:30 - Dagskrárliður 2: Umhverfisstefna Háskóla Íslands

Fyrir fundinum lágu til umræðu og afgreiðslu drög að umhverfisstefnu Háskóla Íslands ásamt skriflegri samantekt á umsögnum og tillögum starfshóps undir stjórn forstöðumanns Umhverfisstofnunar Háskóla Íslands, deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi og undirbúningshóps rektors fyrir háskólafund. Rektor kynnti stefnudrögin og fyrirliggjandi umsagnir og tillögur og lýsti meðferð málsins. Lagði rektor til að málsmeðferðin yrði með sama hætti og við afgreiðslu stefnu Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum.

Næst bar rektor upp tillögur sínar um breytingar á fyrirliggjandi drögum að umhverfisstefnu Háskóla Íslands:

1.) Í kaflanum um „stefnu“ komi í 1. setningu orðin „á öllum sviðum umhverfismála og sérstaklega þeim sem varða Ísland“ í stað „um umhverfismál á Íslandi“. Setningin hljóði þá svo breytt: „Háskóli Íslands ætlar sér að vera í fararbroddi á sviði rannsókna, menntunar og fræðslu á öllum sviðum umhverfismála og sérstaklega þeim sem varða Ísland.“
Samþykkt samhljóða.

2.) Í sama kafla komi í 3. setningu orðin „Háskóli Íslands“ í stað orðsins „Hann“. Setningin hljóði þá svo breytt: „Háskóli Íslands miðlar almenningi, stjórnvöldum og fyrirtækjum af þekkingu sinni á umhverfismálum og veitir ráðgjöf og upplýsingar eftir því sem kostur er.“
Samþykkt samhljóða.

3.) Í sama kafla verði í 4. setningu bætt við orðunum „og við stefnumótun“. Setningin hljóði þá svo breytt: „Í daglegu starfi og við stefnumótun er leitast við að valda sem minnstri mengun og álagi á auðlindir og umhverfi.“
Samþykkt samhljóða.

4.) Í sama kafla verði 6. setningin látin standa óbreytt, en í umsögn heimspekideildar hafði verið lögð til orðalagsbreyting og í umsögn starfshóps forstöðumanns Umhverfisstofnunar hafði verið lagt til að setningin félli niður.
Samþykkt samhljóða.

5.) Í sama kafla verði tvær síðustu setningarnar látnar falla niður: „Við Háskóla Íslands eru stundaðar rannsóknir, kennsla, fræðsla og þjónusta, eftir því sem við verður komið, á öllum þáttum umhverfismála og sérstaklega þeim sem varða Ísland. Þá beitir hann sér fyrir auknu samstarfi við aðra Háskóla og rannsóknastofnanir um umhverfismál.“
Samþykkt samhljóða.

6.) Í kaflanum um „framkvæmd og útfærslu“ verði í 1. setningu látin falla niður orðin „þannig að hún valdi sem minnstri mengun og álagi á auðlindir og umhverfi“. Í sömu setningu komi orðið „Staðardagskrár“ í stað „Dagskrár“. Setningin hljóði þá svo breytt: „Öll starfsemi Háskóla Íslands á að taka mið af sjónarmiðum umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar í samræmi við markmið Staðardagskrár 21.“
Samþykkt samhljóða.

7.) Í sama kafla verði í 2. stjörnumerkta liðnum látin falla niður orðin „s.s. þverfaglegt nám til meistaraprófs“. Setningin hljóði þá svo breytt: „bjóða upp á nám í umhverfisfræðum“.
Samþykkt samhljóða.

8.) Í sama kafla komi í 4. stjörnumerkta liðnum orðin „nýta orku og aðföng sem best“ í stað orðanna „ná hámarks nýtingu og draga úr hvers kyns sóun verðmæta (t.d. orku og aðfanga)“. Í sömu setningu verði orðið „ávallt“ látið falla niður. Setningin hljóði þá svo breytt: „nýta orku og aðföng sem best, velja viðurkenndar umhverfisvænar vörur, endurnota og endurvinna úrgang sem fellur til í rekstri skólans eftir því sem kostur er, farga spilliefnum á viðeigandi hátt og tryggja að vinnuumhverfi starfsfólks og nemenda sé heilsusamlegt.“

Í umræðunni var m.a. bent á það að hugtakið „hámarks nýting“ orkaði tvímælis á ensku, því það mætti ýmist þýða sem „optimal“ eða „maximal“. Þá lagði Guðmundur K. Magnússon, forseti viðskipta- og hagfræðideildar, fram þá breytingartillögu við tillögu rektors að í stað orðanna „nýta orku og aðföng sem best“ komi orðin „stuðla að kjörnýtingu auðlinda og koma í veg fyrir verðmætasóun“. Setningin hljóði þá svo breytt: „stuðla að kjörnýtingu auðlinda og koma í veg fyrir verðmætasóun, velja viðurkenndar umhverfisvænar vörur, endurnota og endurvinna úrgang sem fellur til í rekstri skólans eftir því sem kostur er, farga spilliefnum á viðeigandi hátt og tryggja að vinnuumhverfi starfsfólks og nemenda sé heilsusamlegt“.
Tillagan svo breytt var samþykkt samhljóða.

9.) Í sama kafla verði 5. stjörnumerkti liðurinn látinn falla niður: „auðvelda nemendum og starfsfólki að nota almenningsfarartæki í ferðum til og frá Háskólanum og draga þar með úr notkun einkabíla og þörf fyrir bílastæði.“
Samþykkt samhljóða.

Rektor bar umhverfisstefnu Háskóla Íslands, með breytingum, upp til samþykktar. Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, þeir Guðmundur K. Magnússon, Valdimar K. Jónsson og Pétur Knútsson.

Að lokum tilkynnti rektor að hann myndi á næstunni skipa starfshópinn sem getið er um í kaflanum um „umsjón og ábyrgð“.

Kl. 13:45 - Dagskrárliður 3: Þróunaráætlanir deilda og stofnana sem eiga fulltrúa á háskólafundi. Staða málsins kynnt.

Rektor rifjaði upp aðdraganda málsins. Á 3. háskólafundi, sem haldinn var 16. og 17. nóvember 2000 var samþykkt áætlun um málsmeðferð stefnumótunarstarfs háskólafundar, sem gerði m.a. ráð fyrir því að um leið og deildir og stofnanir sem eigi fulltrúa á háskólafundi gefi umsögn um fyrirliggjandi drög að vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands, hefji þær vinnu að þróunaráætlunum sínum til næstu fimm ára. Þróunaráætlunin taki mið af því að verkefni deildanna eru kennsla, rannsóknir, fræðsla og þjónusta. Í kjölfar háskólafundarins hefði undirbúningshópur rektors hafist handa við að semja efnisyfirlit þróunaráætlananna og hafi hópurinn einkum stuðst við reglur menntamálaráðuneytisins um sjálfsmat deilda Háskólans. Með því að hafa þessar reglur til hliðsjónar væri komið í veg fyrir tvíverknað þar sem reglurnar yrðu notaðar við mat á deildum skv. kennslusamningi. Einnig var höfð hliðsjón af lögum, reglum og stefnuyfirlýsingum sem þegar eru í gildi, s.s. lögum um Háskóla Íslands, reglugerð fyrir Háskóla Íslands, drögum að vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands, starfsmannastefnu Háskóla Íslands, jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2000-2004 og drögum að stefnu Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum. Þá tók sameiginleg stjórnsýsla Háskólans saman ýmis gögn og tölfræðilegar upplýsingar sem að gagni mættu koma við gerð þróunaráætlana.

Í efnisyfirlitinu, sem er í raun eins konar gátlisti, væru tíunduð helstu efnisatriði sem til álita kæmu. Þær skyldu í senn fela í sér lýsingu á núverandi stöðu og áætlun til næstu fimm ára. Mikilvægt væri að áætlunin væri raunhæf og í samræmi við áætlaðar fjárveitingar á tímabilinu.

Á háskólafundinum nú myndu deildarforsetar og forstöðumenn stofnana gera stuttlega grein fyrir stöðu málsins en við það væri miðað að drög að þróunaráætlunum deilda og stofnana lægju fyrir á næsta háskólafundi 5. og 6. apríl 2001.

Kl. 14.20 – 14.40 - Kaffihlé

Að kaffihléi loknu gaf rektor orðið laust til almennrar umræðu. Lýstu deildarforsetar og forstöðumenn sig almennt ánægða með þetta verkefni, enda gæfi gerð þróunaráætlana deildum og stofnunum tækifæri til að skoða starfsemi sína og stefnu með skipulegri hætti en oft væri mögulegt í dagsins önn. Með því að samræma form þróunaráætlana og endurtaka þær reglulega fengist heildaryfirlit yfir starfsemi allra deilda og stofnana Háskólans um leið og kostur gæfist á því að meta árangur starfsins á milli ára og að bera saman einstakar deildir og stofnanir. Þannig gætu þróunaráætlanirnar orðið að öflugu gæðaeftirlitstæki við Háskólann. Í umræðunum kom fram að allar deildir og stofnanir væru byrjaðar að vinna að gerð þróunaráætlana sinna, þótt starfið væri mislangt á veg komið. Einnig kom fram að í flestum deildum og stofnunum hefði verið settir á laggirnar vinnuhópar til að sinna þessu starfi. Helstu erfiðleikarnir við gerð þróunaráætlana kæmu upp í skorarskiptum deildum, þar sem mörg og ólík sjónarmið réðu ferð. Þá kom skýrt fram í máli flestra deildarforseta og forstöðumanna stofnana að brýnasta vandamálið í starfi Háskólans væri alvarlegur skortur á húsnæði og aðstöðu.

Til máls tólu undir þessum lið, auk rektors, þau Ágústa Guðmundsdóttir, Ástráður Eysteinsson, Einar Sigurðsson, Guðmundur K. Magnússon, Guðrún Kvaran, Hjalti Hugason, Jón Torfi Jónasson, Kristín Jónsdóttir, Marga Thome, Páll Sigurðsson, Peter Holbrook, Reynir Tómas Geirsson, Sigurður Richter, Snjólfur Ólafsson, Stefán Arnórsson, Valdimar K. Jónsson, Vésteinn Ólason og Þórdís Kristmundsdóttir.

Kl. 15:20 - Dagskrárliður 4: Önnur mál

Rektor lagði fram og reifaði minnisblað sitt um nokkrar mikilvægar dagsetningar og ýmis mál sem eru á döfinni í Háskóla Íslands á yfirstandandi ári, sem er 90. afmælisár Háskólans.

Í lok fundarins greindi rektor frá því að fundargerð 4. háskólafundar yrði sett á netið á næstunni. Þá minnti rektor á að næsti háskólafundur er fyrirhugaður 5. og 6. apríl n.k. Á dagskrá er m.a. umræður og afgreiðsla vísinda- og menntastefnu Háskóla Íslands og þróunaráætlanir deilda og stofnana.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.00

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á háskólafundi 23. febrúar 2001:
1.    Dagskrá háskólafundar 23. febrúar 2001.
2.    Drög að stefnu Háskóla Íslands í alþjóðasamskiptum ásamt bréfi Magnúsar D. Baldurssonar, aðstoðarmanns rektors, dags. 9. febrúar 2001, til fulltrúa á háskólafundi og samantekt á umsögnum deilda og stofnana.
3.    Yfirlitsblöð yfir alþjóðasamskipti Háskóla Íslands.
4.    Drög að umhverfisstefnu Háskóla Íslands ásamt bréfi Magnúsar D. Baldurssonar, aðstoðarmanns rektors, dags. 9. febrúar 2001, til fulltrúa á háskólafundi og samantekt á umsögnum deilda og stofnana.
5.    Efnisyfirlit þróunaráætlana deilda og stofnana ásamt bréfi Magnúsar D. Baldurssonar, aðstoðarmanns rektors, dags. 19. janúar 2001, til deildarforseta og forstöðumanna stofnana.
6.    Minnisblað rektors, dags. 23. febrúar 2001.