Skip to main content

11. háskólafundur 7. nóvember 2003

11. háskólafundur haldinn 7. nóvember 2003 í Hátíðasal Háskóla Íslands á 2. hæð í Aðalbyggingu

Fundartími: Kl. 13:00-16:00

Dagskrá

Kl. 13:00 - 13:10  Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir framkomnum tillögum.
Kl. 13:10 - 13:55  Dagskrárliður 1. Rektor reifar hugmyndir um framtíð íslenska háskólakerfisins.
Kl. 13:55 - 14:25  Dagskrárliður 2. Siðareglur Háskóla Íslands og starfsreglur siðanefndar Háskólans, sbr. 9. háskólafund.
Kl. 14:25 - 14:45  Kaffihlé.
Kl. 14:45 - 15:45  Dagskrárliður 3. Málstefna Háskóla Íslands, sbr. 9. háskólafund.
Kl. 15:45 - 16:00  Dagskrárliður 4. Tillaga að breytingum á reglum um skipan og fundarsköp háskólafundar, sbr. 9. háskólafund.
 

Kl. 13:00-13:10: Rektor setur fundinn, fer yfir dagskrá og tímaáætlun og gerir grein fyrir framkomnum tillögum

Rektor setti 11. háskólafund Háskóla Íslands og bauð fundarmenn velkomna til starfa. Þá fór rektor yfir dagskrá og tímaáætlun fundarins sem og framlögð fundargögn. Engar tillögur til ályktunar bárust að þessu sinni. Fundarritarar voru, eins og áður, Magnús Diðrik Baldursson, aðstoðarmaður rektors, og Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri rannsóknasviðs.
 

Kl. 13:10-13:55 - Dagskrárliður 1: Rektor reifar hugmyndir um framtíð íslenska háskólakerfisins

Fyrir fundinum lá minnisblað frá fundi rektors með starfsfólki Háskólans 6. nóvember sl., minnisblað rektors um ný stefnumál, helstu framkvæmdir og verkefni, dags. 21. ágúst sl., minnisblað Magnúsar Diðriks Baldurssonar um framvindu stefnumótunarstarfs við Háskóla Íslands 1999-2003, dags. 21. ágúst sl., og minnisblað rektors um framtíð íslenska háskólakerfisins, dags. 21. ágúst sl. Rektor reifaði helstu efnisatriði minnisblaðanna og staðnæmdist sérstaklega við eftirtalin mál.

Innri mál
1. Vöxtur Háskólans. Nemendum við Háskóla Íslands hefur fjölgað miklu hraðar á síðustu árum en gert var ráð fyrir. Gildir þetta jafnt um grunnnám sem framhaldsnám. Þessi þróun hefur leitt til margháttaðra þrenginga og skorts á kennsluhúsnæði. Beindi rektor því til deilda Háskólans að þær gerðu áætlanir um væntanlega og æskilega fjölgun nemenda og umfang starfseminnar á næstu árum. Ekki er ósennilegt að hin mikla fjölgun leiði til þess að taka verði upp aðgangstakmarkanir í ríkara mæli en verið hefur.

2. Efling tiltekinna fræðasviða. Stjórnvöld hafa undanfarið unnið að breytingum á skipulagi rannsóknamála í landinu og hyggjast í því sambandi m.a. efla frjálsa samkeppnissjóði til hliðar við bein framlög til háskólarannsókna. Af þeim sökum er nauðsynlegt að Háskólinn móti sér skýra stefnu í uppbyggingu rannsókna innan stofnunarinnar. Slík stefnumótun getur m.a. falið í sér það nýmæli að lögð verði sérstök áhersla á tiltekin rannsóknasvið, þó án þess að það bitni á öðrum rannsóknum enda eru rannsóknir órjúfanlegur þáttur í starfi kennara við Háskólann. Málið snýst um að afla viðbótarfjármagns til að efla tiltekin fræðasvið, s.s. lífvísindi, jarðvísindi og miðaldafræði, enn frekar en verið hefur. Annað atriði sem til álita kemur er að auka sveigjanleika milli starfsþátta háskólakennara, eins og gert er ráð fyrir í reglum fyrir Háskóla Íslands og kjarasamningum. Sagði rektor að um þessar mundir sé verið að vinna að tillögum um þetta efni. Stjórnvöld hafa knúið á um að auka vægi kennslunnar á kostnað rannsókna, með hagræðingu að markmiði. Háskólinn verður hins vegar að gæta þess að aukinn sveigjanleiki í starfsskyldum háskólakennara verði ekki til þess að veikja rannsóknir við Háskólann. Meginmarkmið Háskóla Íslands er og verður að efla hann sem rannsóknaháskóla á alþjóðlega vísu, þ.m.t. að efla rannsóknatengt framhaldsnám.

Ytri mál
1. Tvenns konar lagarammi. Nú er hér tvenns konar lagarammi fyrir skóla á háskólastigi. Annars vegar er um að ræða lög sem gilda fyrir skóla sem eru ríkisstofnanir og hins vegar lög fyrir skóla sem reknir eru sem sjálfseignarstofnanir. Þessi munur á lagaumhverfi ríkisskólanna annars vegar og ríkisrekinna einkaskóla hins vegar skapar margs konar vandræði.

2. Betri löggjöf um háskólastigið. Háskólinn mun því á næstunni þurfa að beita sér fyrir því að starfsemi ríkisreknu einkaskólanna tengist meira því sem gerist í ríkisskólunum og að ríkisreknu einkaskólarnir gangist þar með undir ýmsar reglur sem ríkisskólarnir eru bundnir af, s.s. um dómnefndir við ráðningu akademískra starfsmanna. Einnig þurfa Háskóli Íslands og hinir ríkisskólarnir smám saman að fá aukið frelsi og rýmri lagaheimildir og færast þannig nær sjálfseignarstofnununum, þótt Háskóli Íslands verði að sjálfsögðu áfram í eigu ríkisins. Það er ekki markmið í sjálfu sér að breyta Háskólanum alfarið í sjálfseignarstofnun, þótt um þetta séu vissulega skiptar skoðanir innan skólans. Háskólinn á ekki að stefna að byltingu, heldur auka svigrúm sitt til athafna smátt og smátt, eftir því sem hann telur ástæðu til. Brýnt er að löggjafinn endurskoði hina almennu löggjöf, án þess að umbylta kerfinu.

Rektor gaf orðið laust.

Málið var rætt ítarlega. Tóku fundarmenn almennt undir það sjónarmið að skortur á samræmdri löggjöf fyrir háskólastigið væri mjög bagalegur. Svarið fælist þó ekki í því að taka upp sjálfseignastofnunarfyrirkomulagið í heild sinni, heldur þyrfti að samræma lagaumhverfi háskóla í ríkiseigu og háskóla sem reknir eru sem sjálfseignastofnanir, m.a. til að skapa jafnari samkeppnisforsendur. Í þessu skyni kæmi t.d. til greina að efla sjálfstæði fræðasviða Háskólans, ‘straumlínulaga' reksturinn og draga úr stofnanayfirbragði skólans. Einnig var varað við því að aukinn sveigjanleiki milli starfsþátta háskólakennara og sérfræðinga yrði notaður til að draga verulega úr rannsóknaskyldu sumra kennara og gera aðra að hreinum rannsóknamönnum. Dæmi frá erlendum háskólum sýndu að þetta gæti leitt til þess kennarar skiptust í tvo aðskilda hópa, sem skapaði aðeins ný vandamál í stað þeirra gömlu. Kennsla og rannsóknir væru órjúfanlega tengdir starfsþættir kennara, þannig að ef rannsóknir yrðu teknar frá sumum kennurum myndi kennslu þeirra hraka í kjölfarið og ef aðrir myndu eingöngu sinna rannsóknum myndi afrakstur þeirra ekki skila sér í kennslunni.

Einnig var rætt um nauðsyn þess að efla enn frekar rannsóknahlutverk Háskólans sem jafnframt gefur honum sérstöðu meðal innlendra skóla á háskólastigi. Þessu til stuðnings var á það bent, að álit Háskóla Íslands á alþjóðavettvangi færi að verulegu leyti eftir árangri nemenda hans annars vegar og birtum rannsóknaniðurstöðum hins vegar. Rannsóknirnar vægu þó líklega þyngra á metunum, ekki aðeins fyrir það orðspor sem færi af Háskóla Íslands heldur fyrir landið allt, því álit umheimsins á Íslandi færi að miklu leyti eftir tæknistigi og vísindalegum verkum.

Til að tryggja nægilegt fé til rannsókna væri hins vegar ekki skynsamlegt að leggja allt kapp á að efla samkeppnissjóði, eins og innlend stjórnvöld virtust vilja, heldur væri nauðsynlegt að leggja áherslu á hvort tveggja, árangurstengingu rannsókna innan skólans og samkeppnissjóði. Til staðfestingar á því, hversu hættulegt það gæti verið að efla einhliða samkeppnissjóði var bent á nokkrar tölulegar staðreyndir varðandi fjármögnun rannsókna við Háskólann. Rannsóknafé Háskólans væri nú í heild um 1.360 m.kr. Skiptist þessi upphæð þannig að um 700 m.kr. færu í föst laun, um 100 m.kr. í Rannsóknasjóð, um 100 m.kr. í Vinnumatssjóð, um 100 m.kr. í fastan kostnað vegna rannsóknamissera kennara og styrkja úr Sáttmálasjóði, og um 280 m.kr. í stjórnsýslu og rekstur fasteigna vegna rannsókna. Þessar tölur sýndu svo ekki yrði um villst að mestur hluti rannsóknafjárins færi í fastan grunnkostnað og ekki stæðu eftir nema um 80 m.kr. vegna einstakra rannsóknaverkefna. Í fjárlögum fyrir árið 2004 væri rannsóknaframlagið hins vegar lækkað um 100 m.kr. og jafnframt á það bent, að kennarar og sérfræðingar Háskólans gætu sótt um þessa peninga í samkeppnissjóði. Í ljósi þess að mestur hluti rannsóknafjár Háskólans færi í fastan grunnkostnað væri hins vegar ljóst að um raunverulega skerðingu væri að ræða. Styrkir úr samkeppnissjóðum væri ekki ætlaðir til að greiða grunnkostnaðinn.

Því var haldið fram að umræðan um rannsóknir á Íslandi væri á villigötum. Þegar Háskólinn og ríkisvaldið gerðu með sér rannsóknasamning fyrir nokkrum árum setti Háskólinn sér það markmið að á móti hverri krónu sem rynni til kennslu kæmi ein til rannsókna. Var í þessu sambandi stuðst við alþjóðlegar fyrirmyndir, en í erlendum rannsóknaháskólum væri iðulega litið á kennslu og rannsóknir sem jafngild verkefni eða rannsóknaþættinum jafnvel gert enn hærra undir höfði en kennslunni. Til dæmis miðuðu Svíar við þá reglu, að ein króna færi í kennslu, önnur í rannsóknir og sú þriðja kæmi frá samkeppnissjóðum.

Í framhaldi af umræðunni um lagaumhverfi háskóla á Íslandi og fjármögnun rannsókna var loks komið inn á skólagjaldamálið sem var til umræðu á 10. háskólafundi 8. september 2003. Var rektor þakkað fyrir að hafa í ræðu sinni við brautskráningu kandídata í Háskólabíói 25. október sl. og daginn eftir í viðtali við Morgunblaðið riðið á vaðið, með því að ræða fyrir opnum tjöldum hina ójöfnu samkeppnisaðstöðu innlendra skóla á háskólastigi og vekja um leið athygli á helstu rökum með og móti skólagjöldum. Bent var á að gagnlegt gæti verið fyrir Háskólann að hann fengi almenna heimild til að taka skólagjöld, auk heimildarinnar til að takmarka aðgang að náminu. Ekki væri sjálfgefið að Háskólinn nýtti sér slíka heimild þegar í stað, en hún gæti gagnast skólanum sem tæki sem hægt væri að grípa til ef framlög ríkisins yrðu áfram ófullnægjandi.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, þau Ólafur Þ. Harðarson, Eiríkur Tómasson, Ingjaldur Hannibalsson, Þorsteinn Loftsson, Rannveig Traustadóttir og Hörður Filippusson

 

Kl. 13:55-14:25 - Dagskrárliður 2: Siðareglur Háskóli Íslands og starfsreglur siðanefndar Háskólans, sbr. 9. háskólafund.

Næsti liður á dagskrá voru siðareglur Háskóla Íslands og starfsreglur siðanefndar Háskólans, en drög að þessum reglum voru fyrst lögð fram og rædd á 9. háskólafundi 23. maí 2003. Á þeim fundi var samþykkt að fela rektor og deildarforsetum að endurskoða drögin í ljósi umræðu og athugasemda á fundinum og leggja fram ný drög á næsta reglulega háskólafundi. Í kjölfar 9. háskólafundar var málið tekið upp á fundi rektors með deildarforsetum og samþykkt að fela Páli Skúlasyni, Stefáni B. Sigurðssyni, Vilhjálmi Árnasyni og Magnúsi D. Baldurssyni að undirbúa málið fyrir 11. háskólafund. Afrakstur þeirrar vinnu er fyrirliggjandi drög II að siðareglum Háskóla Íslands og starfsreglum siðanefndar Háskólans.

Vilhjálmur Árnason prófessor gerði grein fyrir málinu. Hóf Vilhjálmur mál sitt á því að lýsa ánægju sinni með að þessar siðareglur væru komnar fram. Sjálfur hefði hann komið fremur seint að þessu ferli en sér virtist að mjög vel hafi til tekist. Sérstaða þessara siðareglna miðað við mörg hliðstæð plögg fælist m.a. í því að hér væri ekki um að ræða siðareglur tiltekins faghóps heldur fjölmargra starfsmanna, kennara og nemenda, þ.e. háskólasamfélagsins alls.

Tók Vilhjálmur fram að siðareglur sem þessar væru ekki tilbúningur sérfræðinga, heldur væri með þeim dregið fram það sem fólk vissi í raun þegar um skyldur sínar og ábyrgð. Sumt væri sígilt og fælst í eðli starfsins, s.s. ákvæðin um vandvirkni og heiðarleg vinnubrögð, sem væru hluti af hugmyndinni um háskóla. Annað endurspeglaði sanngjarnar kröfur tímans, s.s. hugmyndir um jafnræði og tjáningarfrelsi.

Siðareglurnar væru eins konar sáttmáli háskólasamfélagsins um það hvernig störf skulu unnin; hvaða réttindi, skyldur og ábyrgð felast í því að vera þátttakandi í þessu samfélagi. Með þeim gerðu háskólaborgarar opinbert með hvaða hætti þeir skuldbinda sig til að vinna störf sín og bjóða því heim að verða metnir eftir því hvernig þeim tekst að standa við þær skuldbindingar. Þetta væri það mikilvæga við siðareglur og gagnið af þeim væri ekki síst fólgið í því að fara í gegnum ferlið sem fylgir því að yfirvega þá siðmenningu sem hér hefur mótast, þær hugsjónir sem háskólafólk vill halda í heiðri og setja þær í orð. Sjálf orðin væru síðan alltaf umdeild og umdeilanleg. Það væri mikil þjóðaríþrótt Íslendinga að deila um orðalag og það væri út af fyrir sig mikilvægt - en það væri líka mikilvægt að gleyma sér ekki í smáatriðunum á kostnað þess stærra sem mestu máli skiptir. Loks benti Vilhjálmur á að við málsmeðferðina væri stundum farin sú leið að samþykkja reglur sem þessar með því fororði að málfar yrði lagfært eftirá og lagði hann til að það yrði gert í þessu tilviki. Þá væru allar ábendingar vel þegnar.

Fyrir fundinum lágu fyrrnefnd drög II að siðareglum Háskóla Íslands og starfsreglum siðanefndar Háskólans, auk greinargerðar starfshóps rektors og deildarforseta. Sagðist Vilhjálmur ekki ætla að tíunda allar þær breytingar sem stæðu í greinargerðinni, heldur einungis nefna fáein meginatriði: Í fyrsta lagi vakti Vilhjálmur athygli á því að jafnræðisákvæðin hefðu hvarvetna verið færð fram, bæði til að gæta samræmis í framsetningu og til að undirstrika efnislegt mikilvægi þessa ákvæðis (ákvæði 1.3.2, 2.2.2 og 2.3.2). Í öðru lagi hefði verið leitast við að finna betra jafnvægi á milli skyldna við Háskólann og frelsi háskólamanna til að tjá sig án þess að takmarkast af hagsmunum Háskólans (ákvæði 1.2.2, 1.2.3 og 2.4.2). Í þriðja lagi hefði því verið bætt við að háskólafundur geti tjáð sig eða látið uppi álit fyrir hönd Háskólans, en ekki bara Háskólaráð og rektor (ákvæði 1.2.5). Í fjórða lagi hefði verið hnykkt á kröfunni um að fylgja máli eftir ef grunur leikur á misferli (ákvæði 2.2.7). Loks væri í fimmta lagi í starfsreglum siðanefndar nú lögð meiri áhersla á trúnað við málsaðila en áður og á formlega málsmeðferð sem er í samræmi við almennar meginreglur um óhlutdræga og vandaða málsmeðferð (1. gr. og 8. gr.).

Að endingu greindi Vilhjálmur frá því að hann væri nýkominn af ráðstefnu í Finnlandi þar sem rætt var um vísindalegan óheiðarleika og hagsmunaárekstra í rannsóknum. Á ráðstefnunni hefði komið fram að Finnar hefðu t.d. lagt niður fyrir sig viðmiðanir um „góð vísindaleg vinnubrögð" sem beri að halda í heiðri. Ákjósanlegt gæti verið í framhaldi af vinnunni við siðareglur háskólasamfélagsins að móta slíkar viðmiðanir hérlendis, t.d. í samstarfi við Háskólann á Akureyri, Kennaraháskóla Íslands og Rannís. Slíkar viðmiðanir væru eðlilegt framhald af siðareglum Háskólans, enda væri þar nú þegar ákvæði af þessu tagi (ákvæði 2.1.3).

Rektor gaf orðið laust.

Málið var rætt. Fyrstur kvaddi sér hljóðs formaður jafnréttisnefndar og greindi frá því að í nefndinni hefði komið upp það sjónarmið að jafnræðisákvæðið ætti hugsanlega ekki heima í siðareglunum sem ein meginstoð þeirra. Jafnræðisákvæðið væri að finna í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, í alþjóðlegum sáttmálum og víðar. Það varðaði við lög og því gæti verið tvíbent að væntanleg siðanefnd Háskólans hefði það til umfjöllunar. Þá greindi formaður jafnréttisnefndar frá því að nefndin væri að vinna að reglum um bann við hvers kyns mismunum, sem hún hygðist leggja fyrir háskólafund innan tíðar. Í svari til formanns jafnréttisnefndar bentu aðrir fundarmenn á að það væri bæði eðlilegt og óhjákvæmilegt að ýmis ákvæði í siðareglunum væru jafnramt lagareglur, enda væru hvorar tveggja reglurnar greinar af sama meiði sem væri siðferðis- og réttlætisvitund mannsins. Var í þessu sambandi m.a. minnt á formála að siðareglum Háskólans, þar sem segir m.a.: „Skráðar siðareglur eiga sér samsvörun í ýmsum lagareglum og eðli málsins samkvæmt er æskilegt að mest samræmi ríki þar á milli. Mikilvægasta hlutverk skráðra siðareglna er að veita almennari viðmiðanir um breytni og faglega ábyrgð en lagareglum er ætlað, enda gilda þær áfram þegar hinum lögfestu reglum sleppir." Mikilvægt væri að undirstrika jafnræðið og ekki hægt að sleppa því í siðareglunum. Ekki væri hætta á að siðanefnd færi út fyrir valdsvið sitt með því að takast á hendur dómsvald í lagalegum efnum, enda gerðu starfsreglur siðanefndar ráð fyrir því að nefndin taki eingöngu upp mál sem henni berast og byrji á því að gaumgæfa og skera úr um hvort um lögbrot sé að ræða.

Spurt var, hvort ekki hefði verið ástæða til að hafa í siðareglunum fleiri ákvæði um ábyrgð og skyldur stúdenta. Var því svarað að þessi ábending hefði komið fram á 9. háskólafundi og hefði hlutur stúdenta í reglunum verið aukinn verulega í kjölfarið. Þá væru í gildi sérstakar reglur um góða starfshætti við kennslu og próf sem beindust sérstaklega til stúdenta.

Tekið var undir þá hugmynd, sem Vilhjálmur Árnason varpaði fram í inngangsorðum sínum, að til viðbótar við hinar almennu siðareglur Háskólans verði settar sérstakar siðareglur vísinda sem Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Rannís og ef til vill fleiri standi saman að. Greindi rektor frá því að þegar væri byrjað að huga að þessu innan Háskólans.

Loks var varpað fram þeirri hugmynd að skipuleg fræðsla um siðfræði vísinda yrði gerð að föstum þætti í meistaranámi við Háskólann og var henni vel tekið.

Að umræðu lokinni bar rektor siðareglur Háskóla Íslands og starfsreglur siðanefndar Háskólans undir atkvæði, með því fororði að minniháttar breytingar á orðalagi yrðu gerðar eftirá eftir því sem ástæða væri til.

- Samþykkt samhljóða, en einn sat hjá.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Vilhjálms Árnasonar, þau Baldur Þórhallsson, Magnús Diðrik Baldursson, Eiríkur Tómasson, Helga Ögmundsdóttir og Rannveig Traustadóttir.
 

Kl. 14:45-15:45 - Dagskrárliður 3: Málstefna Háskóla Íslands, sbr. 9. háskólafund.

Í upphafi þessa dagskrárliðar rifjaði rektor upp að á 9. háskólafundi hafi málstefna Háskólans verið rædd og að þá hafi verið samþykkt að fela rektor og deildarforsetum að undirbúa málið fyrir frekari umræðu á næsta reglulega háskólafundi. Á fundi rektors með deildarforsetum  skömmu eftir háskólafundinn var síðan ákveðið að Sigurður Brynjólfsson, forseti verkfræðideildar, og Anna Agnarsdóttir, forseti heimspekideildar, tækju að sér að semja drög að málstefnu, og hefðu sér til fulltingis þau Kristján Árnason prófessor, Karítas Kvaran forstöðumann Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins, og Magnús Diðrik Baldursson, aðstoðarmann rektors. Fyrirliggjandi drög að málstefnu Háskólans eru afrakstur þeirrar vinnu.

Sigurður Brynjólfsson gerði grein fyrir málinu. Fyrst lýsti Sigurður uppbyggingu plaggsins sem greinist í þrjá kafla, stefnu, framkvæmd og útfærslu og umsjón og ábyrgð. Í stefnukaflanum kemur fram að meginhugsunin í málstefnunni sé sú að taka mið af tvíþættu hlutverki Háskóla Íslands sem þjóðlegrar vísinda- og menntastofnunar og hluta af hinu alþjóðlega fræðasamfélagi. Engu að síður er það leiðarljós málstefnunnar að talmál og ritmál Háskólans skuli vera íslenska, þótt víkja megi frá þessari meginreglu ef sérstök ástæða er til, s.s. við kennslu í erlendum málum, ef kennari er erlendur eða kennslan er einkum ætluð útlendingum. Einnig er gert ráð fyrir því að kennslumál og ritmál í framhaldsnámi verði íslenska, þótt gera megi ráð fyrir að fleiri mál verði notuð sökum þess að rannsóknum og framhaldsnámi fylgja iðulega mikil erlend samskipti. Þá er tekið fram að Háskólinn vilji stuðla að því að gera kennurum, fræðimönnum og nemendum kleift að tala og skrifa um öll fræði á íslensku og gera þau jafnframt aðgengileg almenningi eins og kostur er. Að endingu segir í stefnuhlutanum að málnotkun í Háskóla Íslands skuli vera til fyrirmyndar.

Kaflinn um framkvæmd og útfærslu skiptist í nokkra liði. Í fyrsta liðnum segir að fastráðnir kennarar og fræðimenn Háskólans skuli að jafnaði tala og rita íslensku. Í því skyni skuli erlendum kennurum og fræðimönnum standa til boða að sækja námskeið í íslensku. Í öðrum lið segir að Háskólinn hvetji starfsmenn sína til að sinna málrækt og umbuni þeim fyrir slík störf eftir því sem kostur er, t.d. með því að meta fræðirit og orðasöfn á íslensku að verðleikum. Hér er um að ræða almenna hvatningu til þeirra sem leggja rækt við að íslenska fræðin, en ekki tekin afstaða til þess hvernig þeim skuli umbunað. Í þriðja lið er fjallað um erlenda skiptistúdenta. Þar segir m.a. að Háskóli Íslands taki við erlendum skiptistúdentum sem til hans leita í skemmri tíma í samræmi við alþjóðlega samninga. Háskólinn leitist við að tryggja þessum erlendu skiptistúdentum nægilegt framboð af sérhæfðum námskeiðum á ensku, jafnframt því sem hann skilgreini lágmarkskröfur um enskukunnáttu fyrir erlenda skiptistúdenta til að tryggja að þeir geti nýtt sér það nám sem þeim stendur til boða. Með þessu ákvæði er brugðist við þeim vanda, sem stundum hefur komið upp, að til Háskólans komi erlendir skiptistúdentar sem hafa hvorki vald á íslensku né ensku. Til að koma í veg fyrir slíkt er nauðsynlegt að Háskólinn geti skilgreint æskilega lágmarkskunnáttu í ensku. Í fjórða lið er fjallað um erlenda stúdenta sem hyggjast leggja stund á nám við Háskólann á eigin vegum. Hér segir að þessir stúdentar skuli gangast undir stöðupróf í þeim tungumálum sem notuð eru við skólann áður er þeir fái samþykki um skólavist. Þetta felur í sér að erlendir stúdentar sem ætla að stunda nám sem fer fram á íslensku verða að standast stöðupróf í íslensku og að erlendir stúdentar sem ætla að stunda nám kennt á ensku þurfa að sýna fram á lágmarkseinkunn á viðurkenndu alþjóðlegu enskuprófi fyrir útlendinga. Þetta ákvæði tekur á hliðstæðum vanda og næsta ákvæði á undan. Til greina kemur að íslenskuprófið fari fram hér á landi, en notast má við staðlað enskupróf, s.s. hið svokallaða TOEFL-próf, sem stúdentinn getur teka í heimalandi sínu. Í fimmta lagi segir í þessum kafla að deildir Háskólans geti boðið upp á einstök námskeið og heilar námsleiðir í framhaldsnámi á erlendum málum, eftir því sem aðstæður leyfa. Íslenskir stúdentar skuli þó að jafnaði geta lokið meistaranámi á íslensku. Loks segir í sjötta lið að Háskólinn leitist við að bjóða stúdentum og starfsmönnum rithjálp í því skyni stuðla að betri málnotkun. Með þessu er átt við yfirlestur t.d. á ritgerðum og tímaritsgreinum, þótt ekki sé tekin afstaða til þess hver skuli greiða fyrir þjónustuna.

Í þriðja og síðasta hluta málstefnunnar segir loks að rektor beri ábyrgð á málstefnu Háskóla Íslands og deildir hafi umsjón með framkvæmd hennar.

Rektor gaf orðið laust.

Líflegar umræður sköpuðust um málstefnu Háskólans og komu fram mörg og ólík sjónarmið. Almennt skiptust fundarmenn í tvo hópa varðandi þá grundvallarspurningu, hvort mögulegt væri að sætta með fullnægjandi hætti þau tvö sjónarmið, að Háskólinn vildi annars vegar vera þjóðleg vísinda- og menntastofnun sem hefði sérstökum skyldum að gegna við íslenska tungu, og hins vegar alþjóðlegur rannsóknaháskóli sem þyrfti að taka mið af þeirri staðreynd að í vísindasamfélagi heimsins væri enska ráðandi tungumál.

Töldu sumir gagnrýnendur málstefnunnar að hún væri óraunhæf. Þessu til sannindamerkis væri nóg að benda á þá einföldu staðreynd að mikill hluti lesefnis, bæði í grunn- og framhaldsnámi, væri á ensku. Aðrir héldu því fram að málstefnan gerði íslenskri tungu of hátt undir höfði og setti starfsemi deilda og skora óeðlilegar skorður. Gengu einstakir fundarmenn svo langt að halda þeirri skoðun á lofti að fyrirliggjandi drög að málstefnu Háskólans væru ekki aðeins óþörf, heldur beinlínis skaðleg og innu gegn yfirlýstum markmiðum Háskólans sem alþjóðlegs rannsóknaháskóla. Ef Háskólinn ætlaði að geta keppt við erlenda skóla, m.a. um vinnuafl, mætti ekki setja notkun erlendra tungumála neinar skorður. Þá væri það efamál hvort sú kvöðin að erlendir kennarar skuli tala íslensku samræmdist atvinnufrelsisákvæðum EES. Það væri í raun sjálfsagt að metnaðarfullir fræðimenn töluðu íslensku og ensku, en um það þyrfti ekki að setja girðingar eða reglur. Loks héldu einstakir gagnrýnendur málstefnunnar því fram að það væri rökrétt að draga þá ályktun af þeim veruleika sem Háskóli Íslands býr við að gefa annað hvort deildum sjálfdæmi um það á hvaða tungumáli þær vildu kenna eða hreinlega lýsa því yfir að talmál og ritmál skólans væri bæði íslenska og enska.

Talsmenn málstefnunnar héldu því hins vegar fram að plaggið væri vel skrifað, hógvært og til þess fallið að ná sátt um það. Málstefnan inni gegn ofríki íslenskunnar og heimóttarskap með því að setja fram meginreglu sem samrýmdist sögu og hlutverki Háskólans sem þjóðskóla, um leið og notkun erlendra tungumála væri gefið svigrúm þar sem það ætti við. Í stefnunni væri því ekkert sem hindraði alþjóðleg samskipti og frelsi. Kæmi þetta t.d. fram í því að víða í málstefnunni væri notað orðalag eins og „að jafnaði", einmitt til að setja framhaldsnámi og rannsóknum ekki óeðlilegar skorður. Einnig bæri að hafa hugfast, að þótt Háskóli Íslands vildi vera alþjóðlegur rannsóknaháskóli yrðu fæstir stúdenta hans alþjóðlegir fræðimenn, en meirihlutinn hyrfi til starfa í þjóðfélaginu og þá skipti mestu að þeir töluðu og rituðu góða íslensku. Þá bæri til þess að líta að það væri Háskólanum ekki í sjálfsvald sett að móta sér málstefnu, því það ríkti ákveðin málstefna í landinu sem skólinn yrði að taka mið af. Þessi málstefna kæmi t.d. fram í því að langmestur hluti bókmennta á íslensku væri þýddur og svo hafi alltaf verið. Ástæðan væri sú að Íslendingar hefðu aldrei viljað láta bjóða sér annað en texta á móðurmálinu. Til dæmis hefði Jónasi Hallgrímssyni ekki dottið annað í hug en að fjalla um náttúrufræði á íslensku. Háskólinn yrði að gæta þess að vera í tengslum við fólkið í landinu í þessum efnum.

Auk þessarar almennu skoðanaskipta um málstefnuna var í umræðunni vikið að fjölmörgum einstökum hliðum málsins. Benti einn fundarmaður á að burtséð frá öllu karpi um ensku eða íslensku væri meginatriðið að málfar væri til fyrirmyndar, hvaða mál sem notað væri. Kennarar og nemendur ættu að geta tjáð sig á frambærilegan hátt í ræðu og riti.

Annar fundarmaður taldi að kaflinn um stefnu væri þrengri en kaflinn um framkvæmd og útfærslu, auk þess sem ósamræmi væri á milli kaflanna. Til dæmis segði í fyrrnefnda kaflanum að íslenska skyldi vera megin kennslumál og ritmál í framhaldsnámi, en í þeim síðarnefnda væri gert ráð fyrir að heilar námsleiðir í framhaldsnámi mættu vera á ensku.

Því var haldið því fram að ákvæðið um að Háskólinn ætti að „meta fræðirit og orðasöfn á íslensku að verðleikum“ byggði á þeim lífseigu fordómum, að við mat á ritverkum háskólakennara væru íslensk fræðirit vanmetin. Einföld úttekt á rannsóknamatskerfi Háskólans myndi leiða í ljós að svo væri alls ekki.

Á það var bent, að plaggið gerði í raun aðeins ráð fyrir tveimur tungumálum, ensku og íslensku, og útilokaði þar með önnur tungumál. Það væri hins vegar staðreynd að í meistaranámi við Háskólann væri einnig kennt á þýsku, dönsku, frönsku og öðrum málum, að ekki væri minnst á táknmál, sem væri kennt við skólann! Til að koma í veg fyrir óeðlilega takmörkun kæmi til álita að segja berum orðum í málstefnunni að um kennslu á öðrum tungumálum giltu ólíkar reglur.

Einn fundarmanna vakti athygli á því, að í plagginu væri gerð krafa til erlendra nemenda um að þeir töluðu góða ensku, en ekki væri gerð sama krafa um enskukunnáttu íslenskra stúdenta. Skyti þetta skökku við, því það væri ekki sjálfgefið að íslenskir stúdentar hefðu gott vald á ensku.

Tekið var fram að full ástæða væri fyrir því að í plagginu væri gerð sú krafa til erlendra kennara að þeir lærðu íslensku og að þeim yrði boðið upp á sérstök námskeið í því skyni. Til dæmis væri það vandamál í heimspekideild, þar sem flestir erlendir kennarar Háskólans starfa, að þeir gætu lítið tekið þátt í stjórnun vegna ónógrar íslenskukunnáttu. Annar fundarmaður benti á að lítið væri fengið með því að setja um þessi mál boð og bönn. Það væri ekki síður gagnlegt að vera skapandi við að finna lausnir á einstökum vandamálum. Til dæmis hefði einn erlendur kennari við Háskólann brugðið á það ráð að nota túlk á fundum.

Bent var á þann vanda að þrátt fyrir að nokkur hundruð erlendir stúdentar legðu stund á nám við Háskólann og gerðu kröfu um að geta sótt námskeið á ensku, væri upplýsingagjöf til þeirra ábótavant. Misbrestur væri á því að upplýsingar innan Háskólans kæmust til skila, því þær væru oft aðeins á íslensku. Það væri hins vegar sjálfsögð krafa að erlendir nemar fengju samantekt á ensku um allar mikilvægar upplýsingar.

Rektor þakkaði fundarmönnum fyrir gagnlega umræðu og beindi því til starfshópsins sem vann fyrirliggjandi drög að málstefnu Háskólans að hann legðist undir feld og gerði tillögu að endurskoðuðum drögum að málstefnu sem tæki mið af umræðum og athugasemdum á fundinum.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors og Sigurðar Brynjólfssonar, þau Anna Agnarsdóttir, Baldur Þórhallsson, Auður Hauksdóttir, Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Ingjaldur Hannibalsson, Gylfi Magnússon, Jón Atli Benediktsson, Jón Friðjónsson, Eiríkur Gíslason, Dagný Kristjánsdóttir, Ólafur Þ. Harðarson, Helga Ögmundsdóttir, Gunnlaugur A. Jónsson, Rannveig Traustadóttir, Ásgeir Brynjar Torfason, Hörður Filippusson og Einar Ragnarsson.

Kl. 15:45-16:00 - Dagskrárliður 4: Tillaga að breytingum á reglum um skipan og fundarsköp háskólafundar, sbr. 9. háskólafund.

Rektor gerði grein fyrir framlögðum tillögum að breytingum á reglum um skipan og fundarsköp háskólafundar, en þær voru fyrst kynntar á 9. háskólafundi. Sagði rektor að tillagan væri sett fram til að skýra og einfalda eldri reglur, en hún fæli ekki í sér efnislegar breytingar. Meginatriði breytinganna væru þrjú:

Í fyrsta lagi vörðuðu breytingarnar formsatriði við talningu fulltrúa deilda og stofnana á háskólafundi, en snertu ekki fulltrúatöluna. Undantekning frá þessu væri fulltrúatala raunvísindadeildar og læknadeildar, en af breytingartillögunum leiddi að starfsmenn Raunvísindastofnunar Háskólans teldust með við kjör viðbótarfulltrúa raunvísindadeildar á háskólafundi, en starfsmenn Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði að Keldum teldust á hinn bóginn ekki með við talningu fulltrúa læknadeildar á háskólafundi. Raunvísindastofnun og Tilraunastöðin myndu áfram eiga fulltrúa sinn á háskólafundi.

Í öðru lagi væri breytingunum ætlað að skýra vafaatriði við framkvæmd reglnanna. Með þessu væri (a) átt við hvernig telja ætti fjölda kennara og sérfræðinga að baki hverjum fulltrúa og hverjir skyldu teljast til hóps þessara starfsmanna hverrar deildar, (b) hvað teljist vera fullt starf í skilningi reglnanna, og (c) hverjir teljist til kennara og sérfræðinga í skilningi reglnanna.

Loks væri í þriðja lagi breytingunum ætlað að tryggja mætingu á háskólafundum. Fyrir lægi að erfiðlega hefði reynst á stundum að ná saman kjörnum fulltrúum deilda. Lagt væri til að brugðist yrði við þessu með tvennum hætti: (a) Þannig að hver deild kysi á tveggja ára fresti lista af viðbótarfulltrúum sem hefðu tvöfalt fleiri nöfn en sátu síðasta háskólafund áður en kjörið fór fram. Viðbótarfulltrúar deildar yrðu síðan boðaðir á háskólafund samkvæmt röð á listanum. Þetta fyrirkomulag tryggði að kalla mætti til viðbótarfulltrúa ef breytingar yrðu á fulltrúatölu á skipunartíma háskólafundar, en jafnframt að til staðar væru varamenn, t.d. vegna rannsóknamissera kennara. (b) Talið væri rétt að bregðast við með því að veita deildarforseta heimild til þess að kalla til deildarmann til setu á háskólafundi ef fjöldinn á listanum hrykki ekki til. Deildarmaður sem kallaður yrði til af deildarforseta hefði þó sömu réttindi og kjörnir viðbótarfulltrúar.

Þá væri lagt til að gerðar yrðu á reglunum fáeinar orðalagsbreytingar og að tekið yrði upp nákvæmt viðmið um það, hvaða tölur yrðu lagðar til grundvallar við ákvörðun um fjölda viðbótarfulltrúa deilda hverju sinni.

Rektor gaf orðið laust.

Málið var rætt stuttlega. Töldu fundarmenn breytingarnar almennt vera til bóta. Spurði einn fundarmanna, hvort Raunvísindastofnun hefði tvöfaldan rétt við kjör fulltrúa. Svaraði rektor því til að svo væri vegna sérstöðu stofnunarinnar, sem væri sjálfstæð stofnun með sjálfstæðan fjárhag en heyrði jafnframt undir deild. Því hafi verið talið sanngjarnt að tvítelja sérfræðinga stofnunarinnar við ákvörðun fulltrúatölu fundarins. Loks var á það bent að ef fulltrúum á háskólafundi héldi áfram að fjölga í takt við vöxt Háskólans gæti komið að því að Hátíðasalur reyndist ekki nógu stór til að halda þar háskólafund!

Rektor bar tillöguna undir atkvæði.

- Samþykkt einróma.

Til máls tóku undir þessum lið, auk rektors, Ólafur Þ. Harðarson og Gylfi Magnússon.

Að lokum þakkaði rektor fundarmönnum fyrir góðar umræður.

Fleira var ekki gert.

Rektor sleit fundi kl. 16:00 og bauð fundarmönnum að þiggja léttar veitingar í anddyri Hátíðasalar.

Listi yfir gögn sem lögð voru fram á 11. háskólafundi:

1. Fundargerð 10. háskólafundar 8. september 2003.
2. Dagskrá 11. háskólafundar.
3. Listi yfir fulltrúa á háskólafundi.
4. Minnisblað frá hádegisfundi rektors með starfsfólki Háskólans í Hátíðasal 6. nóvember 2003.
5. Minnisblað um ný stefnumál, helstu framkvæmdir og verkefni, dags. 21. ágúst 2003.
6. Minnispunktar varðandi lög um starfsemi íslenskra háskóla, dags. 21. ágúst 2003.
7. Minnisblað um framtíð íslenska háskólakerfisins, dags. 21. ágúst 2003.
8. Minnisblað um framvindu stefnumótunarstarfs við Háskóla Íslands 1999-2003, dags. 21. ágúst 2003.
9. Drög II að siðareglum Háskóla Íslands og starfsreglum siðanefndar Háskólans.
10. Greinargerð starfshóps rektors og deildarforseta með drögum II að siðareglum Háskóla Íslands og starfsreglum Háskólans.
11. Drög að málstefnu Háskóla Íslands.
12. Tillögur um breytingar á reglum um skipan og fundarsköp háskólafundar, ásamt minnisblaði.