Skip to main content

Háskólaráðsfundur 8. desember 2011

 12/2011

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2011, fimmtudaginn 8. desember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir. Börkur Hansen, Fannar Freyr Ívarsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Pétur Gunnarsson, Sigríður Ólafsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þórður Sverrisson. Hilmar B. Janusson boðaði forföll. Fundinn sat einnig Jón Atli Benediktsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1.    Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
    Rektor greindi frá nokkrum viðburðum frá síðasta fundi ráðsins.
a)    1. desember sl. haldin í fyrsta sinn hátíð brautskráðra doktora, en á tímabilinu frá 1. desember 2010 til 1. desember 2011 luku 50 einstaklingar doktorsprófi frá Háskóla Íslands.
b)    1. desember var þremur einstaklingum veitt heiðursdoktorsnafnbót frá jafnmörgum deildum Hugvísindasviðs við hátíðlega athöfn, þeim Marianne E. Kalinke frá Íslensku- og menningardeild, Kari Elisabet Børresen frá Guðfræði- og trúarbragðafræðideild og Jóhanni Páli Árnasyni frá Sagnfræði- og heimspekideild.
c)    Fyrir skömmu var stofnað formlega Lífvísindasetur sem er þverfræðilegt samstarf rannsóknaeininga í Læknagarði.
d)    Hinn 29. nóvember sl. úthlutaði stjórn Menningar- og framfarasjóðs Ludwigs Storr styrkjum til sex einstaklinga og fimm verkefna á sviði jarðefnarannsókna og verkfræði, samtals 20 m.kr. Daginn eftir var úthlutað 2. m.kr. úr Þórsteinssjóði sem hefur það að markmiði að styrkja sjónskerta og blinda nemendur til náms við Háskóla Íslands og rannsóknir sem aukið geta þekkingu á blindu og skertri sýn.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur og áætlun.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs.

a)    Skipting fjárveitinga.
Rektor bar upp tillögu um að frá og með árinu 2012 verði fjárveitingum deilt óskiptum til fræðasviða og það verði verkefni stjórnar fræðasviða að deila út fé til deilda.
- Samþykkt einróma.

b)    Fjárhagsáætlun fyrir árið 2012.
Fyrir fundinum lá minnisblað um fjármál og stöðu fjárhagsáætlana ársins 2012. Guðmundur og Sigurður gerðu grein fyrir minnisblaðinu og var það rætt ítarlega.
- Samþykkt að fela rektor að skipa starfshóp sem ræði við Félag professor við ríkisháskóla um skilgreiningu starfsskyldna prófessora. Starfshópurinn skili niðurstöðu fyrir 12. janúar 2012.

c)    Aldarafmælissjóður.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Bar rektor upp tillögu um skipun starfshóps sem taki þátt í að vinna, í samráði við rektor og forseta fræðasviða, að tillögum um ráðstöfun framlaga í Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands. Í hópnum eigi sæti Jón Atli Benediktsson, sem verði formaður, Fannar Freyr Ívarsson, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hilmar B. Janusson, og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir. Hópurinn leiti ráða innan og utan háskólans eftir því sem við á.
- Samþykkt einróma.

3.    Inntökukröfur og mögulegar aðgangstakmarkanir við Háskóla Íslands.
    Fyrir fundinum lá tillaga um þróun og mögulega innleiðingu aðgangstakmarkana með inntökuprófi. Tillagan verður lögð fyrir háskólaþing 9. desember 2011. Rektor og Jón Atli Benediktsson gerðu grein fyrir málinu og svöruðu spurningum ráðsmanna.

4.    Tillögur forseta fræðasviða um samkennslu og tölfræðihlaðborð, sbr. fund ráðsins 16. júní sl.
    Fyrir fundinum lá samantekt um hugmyndir fræðasviða um aukna samkennslu og breytt fyrirkomulag tölfræðinámskeiða við Háskóla Íslands. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
    - Samþykkt að fela forsetum fræðasviða að skila háskólaráði nánar útfærðum tillögum um samkennslu og tölfræðihlaðborð fyrir 1. febrúar nk., til að unnt verði að birta þær í kennsluskrá fyrir veturinn 2012/2013.

5.    Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum í kjölfar gildistöku nýrra laga, sameiginlegra reglna   og breytts skipulags Háskóla Íslands.

Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir tillögunum.

a)    Tillögur fræðasviða um fjöldatakmörkun í einstakar námsleiðir háskólaárið 2012-2013.
    Fyrir fundinum lágu eftirfarandi tillögur fræðasviða og deilda um takmörkun á fjölda nýnema háskólaárið 2012-2013 (tölur í sviga sýna fjölda nýnema háskólaárið 2011-2012):

I.    Heilbrigðisvísindasvið
a.    Læknadeild
-    læknisfræði      48   (48)
-    sjúkraþjálfun      25   (25)
-    lífeindafræði      30   (30)
-    meistaranám í talmeinafræði      15   ( -  )

b.    Hjúkrunarfræðideild
-    hjúkrunarfræði      85 (100)
-    ljósmóðurfræði      10   (10)
   
c.    Tannlæknadeild
-    tannlæknisfræði        7     (7)
-    tannsmíðar        5     (5)

a.    Sálfræðideild
-    cand. psych.       20   (20)

b.    Matvæla- og næringarfræðideild
-    BS nám í næringarfræði       30   (30)

II.    Félagsvísindasvið
c.    Félags og mannvísindadeild
-    MA nám í blaða- og fréttamennsku        21   (21)

d.    Félagsráðgjafardeild
-    MA nám í náms- og starfsráðgjöf       35   (35)
-    MA nám í félagsráðgjöf til starfsréttinda       30   (30)

III.    Menntavísindasvið
a.    Kennaradeild
-    Kennslufræði til kennsluréttinda       90   (90)
   
- Tillögur fræðasviða um fjöldatakmörkun í einstakar námsleiðir háskólaárið 2012-2013 samþykktar einróma sem og samsvarandi breytingar á reglum um takmörkun á inntöku nemenda í tilteknar námsgreinar við Háskóla Íslands nr. 153/2010 og reglum um val stúdenta til náms í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands nr. 502/2002.

b)    Reglur um doktorsnám við Heilbrigðisvísindasvið.
    - Samþykkt einróma.

c)    Nýjar námsleiðir (4) í meistaranámi við deildir Hugvísindasviðs.
    - Samþykkt samhljóða, með þeirri breytingu að fyrstu tvær námsleiðirnar beri heitin “Hagnýtt MA-nám í Evrópusögu, tungumálum og menningu” (90 ECTS) og “MA-nám í Evrópusögu, tungumálum og menningu” (120 ECTS). Fram kom að tillagan er samþykkt á þeirri forsendu að Hugvísindasvið ber fjárhagslega ábyrgð á hinum nýju námsleiðum.

d)    Breyting á reglum nr. 1055/2006 um alþjóðlegt meistaranám í auðlindarétti og alþjóðlegum umhverfisrétti (L.L.M. in Natural Resources Law and International Environmental Law) við lagadeild Háskóla Íslands.
    - Samþykkt einróma.

6.    Drög að svari við bréfi frá umboðsmanni Alþingis, dags. 7. nóvember 2011, sbr. fund ráðsins 17. nóvember sl.
Fyrir fundinum lágu drög að svari háskólaráðs við bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 7. nóvember 2011. Inn á fundinn kom Kristín Helga Markúsdóttir, lögfræðingur starfsmannasviðs. Rektor og Þórður Kristinsson gerðu grein fyrir málinu og var það rætt. Fram komu nokkrar ábendingar um atriði sem betur mega fara í svarbréfinu.
- Háskólaráð felur sviðsstjóra kennslusviðs og lögfræðingi starfsmannasviðs að ganga frá svari við bréfi umboðsmanns Alþingis með hliðsjón af ábendingum ráðsins.

7.    Mál til fróðleiks.
a)    Dagskrá háskólaþings föstudaginn 9. desember 2011.
b)    Samningur opinberra háskóla um gagnkvæman aðgang nemenda að námskeiðum 5. desember sl.
c)    Hátíð brautskráðra doktora 1. desember sl.
d)    Tilkynning frá rektor til starfsmanna Háskóla Íslands 7. desember 2011.

8.    Önnur mál.
a)    Málefni siðanefndar Háskóla Íslands.
    Fyrir fundinum lá bréf sem rektor sendi starfsmönnum Háskóla Íslands 7. desember sl. í tilefni af umræðum í fjölmiðlum um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010. Málið var rætt, en því var lokið af hálfu háskólaráðs á fundi ráðsins 13. október sl.

b)    Hátíð brautskráðra doktora.
    Rektor bar upp tillögu um að hátíð brautskráðra doktora, sem haldin var 1. desember sl., verði framvegis árlegur viðburður.
    - Samþykkt einróma.

c)    Tímasetning háskólaþings.
Fulltrúi stúdenta óskaði eftir að bókað yrði að fulltrúar stúdenta á háskólaþingi lýsa óánægju sinni með að háskólaþing skuli haldið á próftímabili og óska eftir því að komið verði í veg fyrir það í framtíðinni.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.10.