Skip to main content

Háskólaráðsfundur 8. apríl 2010

04/2010

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2010, fimmtudaginn 8. apríl var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Elín Ósk Helgadóttir, Gunnar Einarsson, Gunnlaugur Björnsson, Hilmar B. Janusson, Sigríður Ólafsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Silja Aðalsteinsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir (varamaður Önnu Agnarsdóttur), Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Þórður Sverrisson. Einnig sat fundinn Jón Atli Benediktsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

Áður en gengið var til dagskrár gerði rektor grein fyrir bréfi sem hún hafi fengið frá mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 15. mars 2010, þar sem hún er skipuð í áframhaldandi starf rektors frá 1. júlí 2010 til 1. júlí 2015. Þá greindi rektor frá árangri funda sem hún hefur haldið í öllum 25 deildum Háskólans og eftirfylgni með þeim. Rektor gerði grein fyrir vinnu innan skólans við að koma til móts við óskir stúdenta um sumarnám og sagði að menntamálaráðherra hafi beitt sér fyrir stóreflingu Nýsköpunarsjóðs námsmanna til að skapa sumarstörf fyrir stúdenta. Reykjavíkurborg kemur jafnframt að fjármögnun. Þá gerði rektor grein fyrir viðburðum framundan í apríl og dreifði yfirliti þar um.

1.     Mál á dagskrá

1.1    Ársreikningur Háskóla Íslands 2009.
Fyrir fundinum lá ársreikningur Háskóla Íslands fyrir árið 2009. Inn á fundinn kom Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerði grein fyrir málinu. Málið var rætt ítarlega og svaraði Sigurður spurningum fulltrúa í háskólaráði. Fram komu ábendingar um framsetningu ársreikningsins sem tekið verður mið af.

1.2    Fjármál Háskólans. Greinargerð og tillögur fjármálanefndar vegna niðurskurðar 2011.
Fyrir fundinum lá greinargerð og tillögur fjármálanefndar háskólaráðs vegna væntanlegs niðurskurðar á fjárveitingum árið 2011. Í greinargerðinni var gerð grein fyrir tillögum sem bárust frá háskólasamfélaginu, en rektor hafði beðið forseta fræðasviða, deildarforseta og formenn kjarafélaga kennara um tillögur að viðbrögðum við boðuðum niðurskurði í fjárveitingum. Áður höfðu fulltrúar stúdenta lagt fram tillögur sínar. Rektor og Sigurður J. Hafsteinsson gerðu grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Greindi rektor m.a. frá því að á næstunni yrði haldinn sérstakur fundur með Stúdentaráði og fulltrúum stúdenta í háskólaráði um sparnaðarleiðir í rekstri Háskólans. Að umræðu lokinni bar rektor upp tillögu um að skipuð verði millifundanefnd háskólaráðs sem hafi það hlutverk að fara yfir tillögur fjármálanefndar og móta þær áfram fyrir næsta fund ráðsins. Í nefndinni verði Gunnar Einarsson, Gunnlaugur Björnsson, Hilmar B. Janusson og Sigríður Ólafsdóttir. Með nefndinni starfi Guðmundur R. Jónsson, formaður fjármálanefndar, og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs.
- Samþykkt einróma.

1.3    Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir málinu. Málið var rætt og svöruðu Þórður og rektor spurningum ráðsmanna. Háskólinn mun fá frumvarpið til umsagnar eftir að mælt hefur verið fyrir því á Alþingi. Í frumvarpinu er m.a. gert ráð fyrir að fulltrúum háskólasamfélagsins í háskólaráði, sem kjörnir eru á háskólaþingi, verði þrír í stað tveggja eins og verið hefur. Að umræðu lokinni lagði rektor til svohljóðandi bókun: „Verði breytingartillögur frumvarpsins að lögum og breytingar á skipan háskólaráðs samþykktar, skal þriðji fulltrúi háskólasamfélagsins tilnefndur í háskólaráð frá 1. júlí 2010 vera sá, sem flest atkvæði hlýtur á háskólaþingi þann 7. maí nk., að hinum tveimur aðalmönnum frátöldum skv. núgildandi reglum Háskóla Íslands og skal hann jafnframt koma af öðru fræðasviði en þeir tveir. Varamenn fulltrúanna þriggja skulu vera þeir þrír sem hlotið hafa flest atkvæði að tilnefndum fulltrúum frátöldum. Að öðru leyti gildi ákvæði 4. mgr. 3. gr. reglna Háskóla Íslands um kjörið og hæfi fulltrúanna."
- Samþykkt einróma.

1.4    Tillaga Deildar erlendra tungumála, málvísinda og bókmennta og stjórnar Hugvísindasviðs um kjör heiðursdoktors.
Fyrir fundinum lá tillaga Deildar erlendra tungumála, málvísinda og bókmennta og stjórnar Hugvísindasviðs sem og umsögn heiðursdoktorsnefndar um að Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, verði sæmd heiðursdoktorsnafnbót við deildina. Málið var rætt.
- Samþykkt einróma.

1.5    Skýrsla starfshóps um nýsköpun, sbr. fund ráðsins 3. desember sl. Umsagnir fræðasviða.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Að umræðu lokinni bar rektor upp tillögu um að skipuð verði millifundanefnd háskólaráðs sem hafi það hlutverk að fara yfir skýrslu starfshóps um nýsköpun og gera tillögu um forgangsröðun og framkvæmd fyrir fund ráðsins í júní nk. Farið verði í heild yfir allt starf í skólanum sem snýr að stuðningi við nýsköpun. Í nefndinni verði Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, Þórður Sverrisson og Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, fulltrúar í háskólaráði, og Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri Háskólans.
- Samþykkt einróma.

2.    Erindi til háskólaráðs

2.1    Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum.
a) Beiðni Lagadeildar um að nýta ekki heimild til undanþágu frá formlegum inntökuskilyrðum háskólaárið 2010-2011, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir beiðni Lagadeildar og var hún rædd ítarlega.
- Samþykkt með 6 atkvæðum, en einn var á móti og þrír sátu hjá.

b) Verklagsreglur um könnun á kennslu og námskeiðum við Háskóla Íslands og meðferð hennar, endurskoðaðar á vettvangi kennslumálanefndar háskólaráðs og kennslusviðs.
- Háskólaráð staðfestir endurskoðaðar verklagsreglur um könnun á kennslu og námskeiðum við Háskóla Íslands og meðferð hennar.

2.2    Veiting akademískra nafnbóta, sbr. reglur nr. 838/2002 um viðurkenningu á akademísku hæfi starfsmanna á Landspítala-háskólasjúkrahúsi og veitingu akademískrar nafnbótar.
Rektor gerði grein fyrir málinu.
- Samþykkt einróma.

2.3    Stjórnir, nefndir, ráð.
a) Ársskýrsla Tern Systems hf. 2009 og kjör fulltrúa Háskóla Íslands í stjórn félagsins.

Fyrir fundinum lá ársreikningur Tern Systems hf. (áður Flugkerfi hf.) 2009. Engar athugasemdir voru gerðar við ársreikninginn. Rektor bar upp tillögu um að fulltrúi Háskóla Íslands í stjórn félagsins verði áfram Ebba Þóra Hvannberg, prófessor, og varafulltrúi verði Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs.
- Samþykkt einróma.

2.4    Próftökugjald í Læknadeild vegna inntökuprófa í læknisfræði og sjúkraþjálfun vorið 2010, sbr. síðasta fund. Umsögn fjármálanefndar.
Inn á fundinn kom Guðmundur Þorgeirsson, forseti Læknadeildar, og gerði rækilega grein fyrir málinu og svaraði spurningum fulltrúa í háskólaráði.
- Samþykkt samhljóða, en tveir sátu hjá.

3.    Mál til fróðleiks

3.1    Tækifæri til sóknar. Skýrsla starfshóps um þátttöku Íslands í alþjóðlegum samstarfsáætlunum.

3.2    Evrópska stigataflan um nýsköpun 2009 (European Innovation Scoreboard).

3.3    Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Matís ohf., 17. mars 2010.

3.4    Samningur Háskóla Íslands og Háskólans á Bifröst um meistaranám í menningarfræði, 22. mars 2010.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.15.