Skip to main content

Háskólaráðsfundur 5. nóvember 2009

10/2009

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2009, fimmtudaginn 5. nóvember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Elín Ósk Helgadóttir, Ellý Katrín Guðmundsdóttir (varamaður Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur), Gunnar Einarsson, Gunnlaugur Björnsson, Sigríður Ólafsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Silja Aðalsteinsdóttir og Þórður Sverrisson. Hilmar B. Janusson boðaði forföll og varamaður hans einnig. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson. 

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1. Mál á dagskrá

1.1 Fjármál Háskólans. 

a) Staða mála og aðgerðir vegna niðurskurðar fjárveitinga.
b) Fjárhagsstaða Háskólans 2009, yfirlit eftir níu mánuði.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs og gerðu grein fyrir minnisblaði um fjárveitingar til Háskóla Íslands fyrir árið 2010 og viðbrögð vegna niðurskurðar. Ennfremur gerðu þeir grein fyrir yfirliti um rekstur Háskólans á tímabilinu frá janúar til september 2009. Málið var rætt. Svöruðu Guðmundur og Sigurður spurningum ráðsmanna. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs, en á milli funda ráðsins verður haldinn verður sérstakur fundur um fjármál með háskólaráðsfulltrúum, Guðmundi og Sigurði.

1.2 Endurskoðað matskerfi Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá tillaga rektors og forseta fræðasviða að endurskoðuðu matskerfi fyrir Háskóla Íslands. Einnig var lagður fram undirskriftalisti 30 kennara Heilbrigðisvísindasviðs og Verkfræði- og náttúruvísindasviðs sem telja að tillagan gangi ekki nógu langt hvað varðar aukið vægi birtinga í ISI-tímaritum og ritverka þar sem höfundar eru fleiri en einn. Inn á fundinn kom Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs og gerði grein fyrir tillögunni. Málið var rætt ítarlega og svöruðu Halldór og rektor spurningum ráðsmanna. Að umræðu lokinni bar Ellý Katrín Guðmundsdóttir upp tillögu um að afgreiðslu málsins yrði frestað. Rektor bar upp tillögu að svohljóðandi bókun: 

„Endurskoðað matskerfi er niðurstaða umfangsmikillar umfjöllunar innan Háskóla Íslands. Endurskoðunin fór fyrst fram á vettvangi vísindanefndar háskólaráðs, síðan á vettvangi deilda, fræðasviða og kjarafélaga kennara og á háskólaþingi sl. vor. Þingið samþykkti einróma að fela rektor og forsetum fræðasviða að vinna áfram að endurskoðun matskerfisins á grundvelli Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011, tillögu vísindanefndar og að teknu tilliti til framkominna athugasemda, og staðfesti háskólaráð þá samþykkt. Unnið skyldi áfram að því að skilgreina mælikvarða fyrir vísindastörf sem best þykja á hverju fræðasviði. Endurskoðað matskerfi skyldi taka gildi 1. janúar 2010 og koma til framkvæmdar í ársbyrjun 2011.Háskólaráð samþykkir fyrirliggjandi tillögu um endurskoðað matskerfi Háskóla Íslands, en leggur áherslu á að matskerfið og umgjörð þess komi á ný til endurskoðunar þegar í byrjun næsta árs. Þá verði lögð enn frekari áhersla á að meta að verðleikum það sem best er gert á hverju fræðasviði, s.s. birtingar rannsókna í ISI-tímaritum, ERIH-tímaritum og á öðrum vettvangi sem gerir strangar fræðilegar kröfur. Leitað verði ráðgjafar erlendra sérfræðinga við endurskoðunina.Að fenginni niðurstöðu háskólaráðs verða tillögurnar sendar til nefndar á vegum fjármálaráðuneytisins, menntamálaráðuneytisins og opinberu háskólanna til lokaafgreiðslu.“

Rektor bar fyrst frestunartillögu Ellýjar Katrínar Guðmundsdóttur undir atkvæði. 

- Frestunartillagan felld með sjö atkvæðum gegn þremur.

Þá var tillaga rektors og forseta fræðasviða að endurskoðuðu matskerfi fyrir Háskóla Íslands sem og bókunartillaga rektors borin undir atkvæði. 

- Samþykkt með sjö atkvæðum en þrír voru á móti. 

Að atkvæðagreiðslu lokinni óskaði Ellý Katrín Guðmundsdóttir eftir því að eftirfarandi yrði bókað: 

„Allt frá árinu 2006 hefur verið unnið að endurskoðun á matskerfi fyrir Háskóla Íslands. Í dag eru lagðar fram tillögur fyrir háskólaráð sem eru metnar þannig að áhersla er lögð á að endurskoðun matskerfisins og umgjörð þess komi á ný til endurskoðunar þegar í byrjun næsta árs. Tillögur þessar voru senda fulltrúum ráðsins föstudaginn 30. október sl. Undirrituð gerir alvarlega athugasemd við það að háskólaráði sé gert að samþykkja eða synja þessu máli á fundi ráðsins í dag undir tímapressu þegar það hefur verið til endurskoðunar í svo langan tíma. Að mati undirritaðrar endurspegla tillögur að nýju matskerfi ekki nægilega þær áherslur sem koma fram í Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011 en matskerfið er afar mikilvægt tæki til þess að vinna að framgangi hennar. Vísa ég þar sérstaklega til aðalmarkmiðs stefnunar um „framúrskarandi rannsóknir“. Með vísan til ofangreinds, og þar sem ósk minni um frestun hefur verið synjað, getur undirrituð ekki samþykkt framlagðar tillögur.“

Loks báru fulltrúar stúdenta fram eftirfarandi bókun:

„Á háskólaþingi 15.  maí sl. var bókað að á vegum rektors og forseta fræðasviða yrði haldið áfram endurskoðun á matskerfi rannsókna við Háskóla Íslands á grundvelli "Greinargerðar um framkomnar athugasemdir um endurskoðun matskerfis við Háskóla Íslands og viðbrögð við þeim" með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram komu á fundinum. Er það afstaða nemenda að með þeirri bókun hafi forsetum fræðasviða ekki verið falið endanlegt vald til þess að móta reglur sem háskólaráði væri annað hvort gert að samþykkja eða hafna án nokkurrar efnislegrar umræðu í ráðinu. Nemendur átelja að þeim hafi ekki verið mögulegur sá kostur að bera upp breytingar á tillögu rektors og forseta fræðasviða. Slíkt hefði verið nauðsynlegt þar sem reglurnar útiloka meðal annars að fræðimenn fái metnar þær greinar sem skrifaðar eru í tímaritum ritstýrðum af nemendum þrátt fyrir að þær séu ritrýndar af sérfræðingum á viðkomandi sviði. Nemendur telja að hér sé vegið að þátttöku þeirra í fræðilegri útgáfustarfsemi innan veggja Háskóla Íslands. Þá harma nemendur að mál sem varðar jafn stórfellda hagsmuni hafi fengið svo skjóta meðferð innan ráðsins. Nemendur leggjast ekki gegn matskerfinu í sjálfu sér heldur þeirri meðferð sem afgreiðsla matskerfisins sætti.“

Að loknum dagskrárlið 1.2 viku Gunnar Einarsson og Þórður Sverrisson af fundi.

1.3 Tillaga starfshóps háskólaráðs um framtíðarfyrirkomulag stofnana, sbr. fund ráðsins 2. apríl sl.
Fyrir fundinum lá tillaga starfshóps háskólaráðs um ramma fyrir hlutverk og skipulag rannsóknastofnana sem heyra undir fræðasvið eða deild. Tillagan felur ennfremur í sér smávægilegar breytingar á orðalagi 27. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009, auk þess sem hún gerir ráð fyrir að rannsóknastofnanir sem heyrt hafa undir háskólaráð verði færðar undur fræðasvið. Starfshópinn skipa þau Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, sem er formaður, Gunnar Einarsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, fulltrúar menntamálaráðherra í háskólaráði, Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs, Ingibjörg Halldórsdóttir, lögfræðingur Háskólans og Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson og gerði grein fyrir málinu. Málið var rætt og svaraði Þórður spurningum ráðsmanna. 
- Samþykkt einróma.

1.4 Áætlun um endurskoðun sérreglna um stofnanir, um meistara- og doktorsnám og um aðrar sérreglur.
Rektor gerði grein fyrir málinu. 
- Samþykkt einróma. 

1.5 Heimsókn rektors til Japans í boði japanskra stjórnvalda.
Rektor greindi frá heimsókn sinni til japanskra háskóla og vísindastofnana nýverið sem var í boði japanskra stjórnvalda. 

2. Erindi til háskólaráðs

2.1 Inntaka nýnema í grunnnám í janúar 2010.
- Samþykkt að fela forsetum fræðasviða, í samráði við rektor, að ákveða hvort inntaka nýnema verður heimiluð í einstakar deildir í janúar 2010.

2.2 Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum.

a) Breyting á 19. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009, eftir umfjöllun í starfshópi um fyrirkomulag rannsóknastofnana. 
Breytingin felur í sér að deildarforseti eða varadeildarforseti geti komið úr hópi vísindamanna eða fræðimanna sem hafa umtalsverða kennslureynslu. 
- Samþykkt einróma.

b) Breyting (viðbót) á 44. gr. reglna Háskóla Íslands um að heimilt verði að hafa eina valnefnd á fræðasviði. Byggð á beiðni stjórnar Menntavísindasviðs.
- Samþykkt einróma.

c) Reglur um tilfærslu starfsþátta vegna árangurs í rannsóknum, sbr. samþykkt háskólaráðs 1. október sl., auk tengdra breytinga á reglum nr. 605/2006 um starfsskyldur kennara og sérfræðinga við Háskóla Íslands.
- Samþykkt einróma.

d) Breyting á 56. og 57. gr. reglna Háskóla Íslands, skv. tillögu kennslumálanefndar háskólaráðs, sbr. fund háskólaráðs 4. júní sl.
Breytingin felur í sér aðskilnað sjúkraprófa og endurtökuprófa.
- Frestað. 

e) Reglur um meistaranám í talmeinafræði, eftir umfjöllun í bráðabirgðanámsstjórn, sbr. ákvörðun háskólaráðs 7. maí sl.
- Samþykkt einróma. 

f) Reglur um Erfðafræðinefnd (endurskoðaðar), eftir umfjöllun á Heilbrigðisvísindasviði og í stefnunefnd Háskóla Íslands og Landspítala-háskólasjúkrahúss.
- Frestað. 

g)Verklagsreglur um kennsluskrá Háskóla Íslands, skv. tillögu ritnefndar og kennslusviðs, sbr. 23. gr. reglna Háskóla Íslands.
- Samþykkt einróma.

h) Breyting á 91. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009, skv. tillögu frá Lagadeild Félagsvísindasviðs.
Breytingin felur í sér einföldun og samræmingu við reglur annarra deilda. 
- Samþykkt einróma. 

i) Inntaka nemenda í lífeindafræði.
Tillagan felur í sér að 30 nemendur í stað 20, eins og verið hefur, verði teknir inn á 2. misseri 1. námsárs að loknu samkeppnisprófi í desember.
- Samþykkt einróma. 

2.3 Stjórnir, nefndir og ráð:

a) Heiðursdoktorsnefnd.
- Frestað.

b) Hugverkanefnd. 
Rektor lagði til, skv. tillögu forstjóra Landspítala, að Torfi Magnússon, læknir og ráðgjafi framkvæmdastjóra lækninga og framkvæmdastjóra vísinda-, mennta- og gæðasviðs á Landspítala, verði skipaður fulltrúi spítalans í stað Kristjáns Erlendssonar, framkvæmdastjóra vísinda-, mennta- og gæðasviðs á Landspítala og dósents við Læknadeild, sem beðist hefur lausnar frá störfum í nefndinni vegna skipulagsbreytinga á spítalanum. Skipunartími hugverkanefndar er til 31. ágúst 2011. 
- Samþykkt einróma. 

c) Stjórn Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun. 
- Samþykkt samhljóða að fela rektor að skipa tímabundið (til 30. júní 2010) stjórn Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun þar til lokið er endurskoðun framtíðarskipulags og reglna stofnunarinnar, sbr. lið 1.3. Ellý Katrín Guðmundsdóttir hefur setið í stjórn stofnunarinnar og sat því hjá. 

d) Stjórn Rannsóknastofnunar í kvenna- og kynjafræðum.
- Samþykkt einróma að fela rektor að skipa tímabundið (til 30. júní 2010) stjórn Rannsóknastofnunar í kvenna- og kynjafræðum þar til lokið er endurskoðun framtíðarskipulags og reglna stofnunarinnar, sbr. lið 1.3. 

e) Ráð um málefni fatlaðra.
- Samþykkt einróma að fela rektor að skipa tímabundið (til 30. júní 2010) ráð um málefni fatlaðra þar til lokið er endurskoðun reglna um sértæk úrræði. 

f) Stjórn sjóðs vegna tilfærslu starfsþátta (sbr. lið 2.2 c.)
- Samþykkt einróma að stjórn sjóðs vegna tilfærslu starfsþátta verði skipuð þeim Sigríði Ólafsdóttur, fulltrúa í háskólaráði, sem verði formaður, Halldóri Jónssyni, sviðsstjóra vísindasviðs, Sigurði J. Hafsteinssyni, sviðsstjóra fjármálasviðs. 

3. Mál til fróðleiks

3.1 Staða skráninga í Háskóla Íslands 2009-2010.

3.2 Drög að dagskrá háskólaþings 27. nóvember nk.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.15.