Skip to main content

Háskólaráðsfundur 5. mars 2009

03/2009

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2009, fimmtudaginn 5. mars var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 9.30.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Brynjar Smári Hermannsson (varamaður Elínar Óskar Helgadóttur), Gunnar Einarsson, Gunnlaugur Björnsson, Hilmar Janusson, Sigríður Ólafsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Þórður Sverrisson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Áður en gengið var til dagskrár gerði rektor grein fyrir nokkrum viðburðum frá síðasta fundi ráðsins, þar á meðal a) tveimur styrkjum sem Samtök iðnaðarins veittu Háskóla Íslands í byrjun febrúar sl.. Annars vegar er um að ræða 60 m.kr. styrk til Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og hins vegar 7,5 m.kr. styrk til Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands, en báðir styrkirnir dreifast á næstu þrjú ár; b) undirritun samkomulags um samstarf milli Háskóla Íslands og ORF Líftækni hf. 9. febrúar sl.; c) fundi rektors með rektorum norrænna og þýskra háskóla í Berlín um miðjan febrúar sl.; d) opnum fundi rektors með starfsfólki 17. febrúar sl. þar sem farið var yfir helstu mál á döfinni í Háskóla Íslands; e) glæsilegri og afar vel sóttri námskynningu Háskóla Íslands 21. febrúar sl. og f) brautskráningu 368 kandídata frá Háskóla Íslands 28. febrúar sl. Þá greindi rektor frá nokkrum viðburðum framundan, þ.e. a) erindi sem rektor heldur á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins 5. mars; b) erindi sem rektor mun halda við Harvard háskóla í Cambridge, Massachusetts, í Bandaríkjunum í næstu viku; c) árshátíð Háskóla Íslands 20. mars nk.; d) háskólaþingi sem haldið verður 30. apríl nk., e) Háskóla unga fólksins sem starfræktur verður í júní skv. venju; f) fyrirhugaðri endurskoðun á skipulagi stofnana Háskólans og g) fyrirhugaðri stefnumótun um alþjóðastarf Háskólans.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1.    Mál á dagskrá

1.1    Fjárlagatillögur Háskóla Íslands fyrir árið 2010.
Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði um fjárlagatillögur Háskóla Íslands fyrir árið 2010. Málið var rætt ítarlega og komu fram ýmsar ábendingar sem tekið verður mið af við áframhaldandi mótun fjárlagatillagna Háskólans. Málið verður áfram á dagskrá ráðsins.

1.2    Nýtt skipulag Háskóla Íslands. Kynning á Verkfræði- og náttúruvísindasviði.
Inn á fundinn kom Kristín Vala Ragnarsdóttir, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, og kynnti skipulag, stefnu og starfsemi fræðasviðsins, deilda þess og rannsóknastofnana. Málið var rætt ítarlega og svaraði Kristín Vala spurningum ráðsmanna.

1.3    Tillögur starfshóps um þverfaglega rannsóknastofnun í fjölskyldufræðum sem kennd yrði við Ármann Snævarr, dags. 11. desember sl., sbr. samþykkt háskólaráðs 28. ágúst sl.
- Háskólaráð samþykkir að haldið verði áfram undirbúningi málsins og óskar eftir því að nánar verði gerð grein fyrir framtíðarfjármögnun, skipulagi og verkefnum hinnar fyrirhuguðu stofnunar.

1.4    Málefni Keldna.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

1.5    Stefna Háskólans í málefnum er lúta að nýsköpun.
Rektor gerði stuttlega grein fyrir málinu og verður það áfram á dagskrá ráðsins.

2.    Erindi til háskólaráðs

2.1    Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum:
a) Tillaga frá Heilbrigðisvísindasviði:
- inntökuskilyrði í Matvæla- og næringarfræðideild,
- fjöldatakmörkun í næringarfræði háskólaárið 2009-2010,
- framkvæmd á vali stúdenta sem fá að hefja nám til BS-prófs í næringarfræði.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir tillögunni sem var rædd ítarlega.
- Afgreiðslu tillögu Heilbrigðisvísindasviðs frestað. Óskað er eftir frekari upplýsingum og rökstuðningi fyrir tillögunni.

b) Tillaga frá lagadeild að breytingu á 3. gr. reglna um alþjóðlegt meistaranám í auðlindarétti og alþjóðlegum umhverfisrétti nr. 1055/2006.
Þórður gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Tillaga lagadeildar samþykkt einróma.

2.2    Verklagsreglur um launalaus leyfi starfsmanna Háskóla Íslands. Tillögur starfshóps háskólaráðs.
- Frestað.

2.3    Tillaga vísindanefndar háskólaráðs um endurskoðað matskerfi rannsókna.
Rektor gerði stuttlega grein fyrir málinu. Tillaga vísindanefndar hefur verið send til umsagnar fræðasviða og félaga kennara við Háskóla Íslands og er umsagnafrestur til 27. mars nk. Málið verður aftur á dagskrá háskólaráðs þegar umsagnir liggja fyrir og það verður einnig á dagskrá háskólaþings 30. apríl nk.

2.4    Stjórn Styrktarsjóða Háskólans, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir málinu og bar upp tillögu um að Sigurður Jóhannesson, aðjunkt við Hagfræðideild Félagsvísindasviðs, taki sæti í stjórn Styrktarsjóðanna tímabundið á meðan Gylfi Magnússon er í launalausu leyfi frá Háskóla Íslands til að gegna ráðherrastarfi.

2.5    Ársreikningur Rannsókna- og háskólanets Íslands hf. (RHnet) fyrir árið 2008 og tillaga um fulltrúa Háskóla Íslands í stjórn.
Fyrir fundinum lá ársreikningur Rannsókna- og háskólanets Íslands hf. (RHnet) fyrir árið 2008. Rektor bar upp tillögu um að fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn RHnets verði þau Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, Sæþór L. Jónsson, forstöðumaður Reiknistofnunar Háskóla Íslands, og Ebba Þóra Hvannberg, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild. Varafulltrúar verði þau Sigurður Jónsson, forstöðumaður Smiðju og tölvumála Menntavísindasviðs, Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, og Fjóla Jónsdóttir, dósent við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild.
- Samþykkt einróma.

3.    Mál til fróðleiks

3.1    Starfshópur menntamálaráðherra til að kanna fýsileika þess að sameina Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands, sbr. bréf ráðuneytis, dags. 12. febrúar sl.

3.2    Lokaskýrsla verkefnisstjórnar vegna sameiningar Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands.

3.3    Stefna Menntavísindasviðs um rannsóknir 1. júlí 2008 - 30. júní 2013.

3.4    Háskólafréttir, 1. tbl., 31. árgangur. Tímarit útgefið í tilefni Háskóladagsins 21. febrúar sl.

3.5    Háskóli í fremstu röð, kynningarbæklingur um nám við Háskóla Íslands háskólaárið 2009-2010.

3.6    Discover a Powerful Community, kynningarbæklingur um Háskóla Íslands fyrir erlenda stúdenta.

3.7    Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs ehf., ársreikningur 2008.

3.8    Ræða rektors við brautskráningu kandídata laugardaginn 28. febrúar 2009.

3.9    Samkomulag um samstarf milli Háskóla Íslands og ORF Líftækni hf., dags. 9. febrúar 2009.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 12.00.