Skip to main content

Háskólaráðsfundur 4. mars 2010

03/2010

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2010, fimmtudaginn 4. mars var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Elín Ósk Helgadóttir, Gunnar Einarsson, Gunnlaugur Björnsson, Hilmar B. Janusson, Sigríður Ólafsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Silja Aðalsteinsdóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Þórður Sverrisson. Einnig sat fundinn Jón Atli Benediktsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1. Mál á dagskrá

1.1 Fjármál Háskólans. Fjárlagabeiðni fyrir árið 2011.
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs. Gerðu þeir grein fyrir helstu forsendum og sjónarmiðum varðandi fjárlagabeiðni Háskóla Íslands fyrir árið 2011, þ. á m. mögulegum leiðum til að mæta niðurskurði. Þá hefur rektor skrifað forsetum fræðasviða, deildarforsetum og formönnum Félags prófessora og Félags háskólakennara og beðið um tillögur að hagræðingu sem hægt væri að hrinda í framkvæmd bæði nú strax og á næstu árum. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þeir Guðmundur og Sigurður spurningum ráðsmanna. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

1.2 Stefna Háskóla Íslands 2006-2011. Endurskoðaðar reglur um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna, sbr. fund ráðsins 14. janúar sl.
Inn á fundinn kom Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs og gerði grein fyrir framlögðum endurskoðuðum reglum um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna. Drög höfðu áður verið send til umsagnar háskólasamfélagsins. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þeir Halldór og Jón Atli Benediktsson, formaður nefndar um endurskoðun reglna um framgang og ótímabundna ráðningu, spurningum ráðsmanna. Sigríður Ólafsdóttir lagði fram svohljóðandi bókun: „Árlega verði framgangsnefnd Háskóla Íslands falið að fara yfir ákvæði reglna þessara er varða lágmarksstig og matskerfi opinberra háskóla með tilliti til þess hvort þau þjóni stefnu og markmiðum Háskóla Íslands. Gerð verði grein fyrir þessum sjónarmiðum í árlegri skýrslu framgangsnefndar Háskóla Íslands.“
- Endurskoðaðar reglur um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna samþykktar einróma ásamt bókuninni. Einnig voru samþykktar eftirtaldar breytingar á reglum nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands vegna endurskoðunar á reglum um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna: Í 31. gr. (ráðningar) verður vísað til framgangsreglnanna varðandi feril við ákvörðun um ótímabundna ráðningu; í 38. gr. (framgangur kennara og sérfræðinga milli starfsheita) verða felldar niður 2.-6. mgr. og í stað þeirra vísað til framgangsreglnanna; í 41. gr. (mat dómnefndar á umsækjendum) verður aðgreindur ferill framgangs- og nýráðningarmála, auk þess sem gerðar verða aðrar smávægilegar breytingar á reglunum til að aðlaga þær ákvæðum framgangsreglnanna.

1.3 Undirbúningur aldarafmælis Háskóla Íslands árið 2011.
Inn á fundinn komu Guðrún Nordal, formaður afmælisnefndar Háskóla Íslands, og Ásthildur Sturludóttir, verkefnisstjóri aldarafmælisins, og gerðu ásamt Magnúsi Diðriki Baldurssyni grein fyrir undirbúningi aldarafmælis Háskóla Íslands árið 2011. Málið var rætt og svöruðu þau Guðrún, Ásthildur og Magnús og spurningum fulltrúa í háskólaráði. Lýstu ráðsmenn ánægju sinni með fyrirhugaða dagskrá aldarafmælisins.

1.4 Tillaga Jarðvísindadeildar um kjör tveggja heiðursdoktora.
Fyrir fundinum lá tillaga Jarðvísindadeildar og stjórnar Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, að fenginni umsögn heiðursdoktorsnefndar, um að þeir Haraldur Sigurðsson og Sigfús J. Johnsen verði sæmdir heiðursdoktorsnafnbót frá deildinni. Málið var rætt.
- Samþykkt einróma.

[Gunnar Einarsson vék af fundi.]

1.5 Embætti rektors frá 1. júlí 2010.
Rektor, Jón Atli Benediktsson og Magnús Diðrik Baldursson véku af fundi undir þessum dagskrárlið og tók Gunnlaugur Björnsson, varaforseti háskólaráðs, við fundarstjórn og -ritun. Gunnlaugur greindi frá því að 22. febrúar sl. hefði runnið út frestur til að sækja um embætti rektors Háskóla Íslands til næstu fimm ára, frá 1. júlí 2010 að telja. Fyrir fundinum lá umsókn dr. Kristínar Ingólfsdóttur, prófessors við Lyfjafræðideild Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og núverandi rektors. Mennta- og menningarmálaráðherra skipar háskólarektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs, sbr. 8. gr. laga um opinbera háskóla. Þar sem aðeins barst umsókn frá einum umsækjanda sem uppfyllir embættisgengi telst hann sjálfkjörinn og telst hafa hlotið tilnefningu til embættis rektors, sbr. 3. mgr. 7. töluliðar 6. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

- Í samræmi við framangreint tilnefndi háskólaráð dr. Kristínu Ingólfsdóttur prófessor sem rektor Háskóla Íslands til næstu fimm ára, frá 1. júlí 2010 að telja.

[Þórður Sverrisson vék af fundi.]

2. Erindi til háskólaráðs

2.1 Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson og gerði grein fyrir framlögðum tillögum að breytingum að reglum og að nýjum reglum.

a) Breytingar á úthlutunarreglum Sáttmálasjóðs Háskóla Íslands, sbr. 79. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands og bókun ráðsins 22. desember 2008.
Anna Agnarsdóttir lagði til tvær breytingar á framlögðum drögum að úthlutunarreglum Sáttmálasjóðs Háskóla Íslands: Í fyrsta lagi bætist við fyrstu setninguna orðin „gagnaöflunar vegna rannsókna". Í öðru lagi bætist við nýr c-liður sem hljóði svo: „Enn fremur er hægt að sækja um styrk til ferðar til þess að afla nauðsynlegra gagna til rannsókna í bókasöfnum/skjalasöfnum í útlöndum, enda sé ekki kostur á að afla þeirra með öðrum hætti. Rökstyðja skal það sérstaklega og lýsa vandlega nauðsyn á fyrirhugaðri gagnaöflun og ástæðum þess að ekki sé unnt að nálgast gögnin með öðrum hætti.“
- Samþykkt einróma, svo breytt.

b) Verklagsreglur um stofnun og skipulag nýrra námsleiða.
- Samþykkt samhljóða, en einn sat hjá. Kennslusviði og Miðstöð framhaldsnáms falið að fara yfir upptalningu námsleiða í reglum nr. 569/2009 fyrir Háskóla Íslands á grundvelli verklagsreglnanna.

c) Breyting á heiti námsgreina í Íslensku- og menningardeild og í Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda.
- Samþykkt einróma.

d) Nýjar námsleiðir á Hugvísindasviði.
Tvær námsleiðir á meistarastigi, Nytjaþýðingar, MA, (120e) og Ráðstefnutúlkun, MA (120e), bætast við upptalningu námsleiða í 109. gr. og 113. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009. Námsleiðirnar eru í samvinnu Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda (109. gr.) og Íslensku- og menningardeildar (113. gr.), og vísast til þess í reglugreinunum. Hið sama á við um meistaranám í þýðingarfræði sem áður var eingöngu á vegum Íslensku- og menningardeildar. Nýju námsleiðirnar tvær eru háðar fyrirvara um fjárveitingu frá íslenskum stjórnvöldum og/eða Evrópusambandinu, en á síðasta ári fól mennta- og menningarmálaráðuneytið Háskóla Íslands að annast það nám sem til þyrfti vegna nýrrar stöðu í Evrópumálum. Ný námsleið í Menningarfræði MA (90e) bætist jafnframt við upptalningu námsleiða Íslensku- og menningardeildar í 113. gr. reglna Háskólans. Námsleiðin er sett á stofn í samvinnu við Háskólann á Bifröst og verður endurskoðuð eftir tvö ár.
- Samþykkt samhljóða, en einn sat hjá við afgreiðslu tillögu um námsleiðina í Menningarfræði.

e) Nýjar námsleiðir á Menntavísindasviði.
Þrjár diplómaleiðir á meistarastigi í kennaradeild: Náms- og kennslufræði (60e), leikskólakennarafræði (60e) og kennslufræði háskóla (30e) rúmast innan heimildarákvæðis 7. mgr. 119. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009. Námsleiðin kennslufræði framhaldsskóla, M.Ed., (120e) kallar á breytingu á 3. mgr. 119. gr. sem orðist breytt þannig: Til M.Ed.-prófs: Náms- og kennslufræði og kennslufræði framhaldsskóla.
- Samþykkt einróma.

f) Verklagsreglur um verktakagreiðslur.
- Frestað.

g) Beiðni Lagadeildar um að nýta ekki heimild til undanþágu frá formlegum inntökuskilyrðum háskólaárið 2010-2011.
- Frestað.

2.2 Stjórnir, nefndir, ráð:
Fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn RHnets. Ársreikningur fyrir árið 2009 fylgir með.
- Samþykkt einróma að fulltrúar Háskóla Íslands í stjórn Rannsókna- og háskólanets Íslands hf. (RHnet) næsta starfsár verði þau Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, Sæþór L. Jónsson, forstöðumaður RHÍ, og Ebba Þóra Hvannberg prófessor. Varamenn verði Sigurður Jónsson, forstöðumaður Smiðju og tölvumála Menntavísindasviðs, Anna Soffía Hauksdóttir prófessor og Fjóla Jónsdóttir dósent.

2.3 Próftökugjald í Læknadeild vegna inntökuprófa í læknisfræði og sjúkraþjálfun vorið 2010. Umsögn fjármálanefndar.
- Frestað.

3. Mál til fróðleiks

3.1 Ræða rektors við brautskráningu kandídata 27. febrúar 2010.

3.2 Forval vegna nýbyggingar LSH.

3.3 Ríkisendurskoðun: Opinber innkaup. Áfangaskýrsla 2. Verktakagreiðslur við Háskóla Íslands. Febrúar 2010.

3.4 Yfirlit um akademíska gestakennara við Háskóla Íslands.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.10.