Skip to main content

Háskólaráðsfundur 4. febrúar 2010

02/2010

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2010, fimmtudaginn 4. febrúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00. 

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Elín Ósk Helgadóttir, Gunnar Einarsson, Gunnlaugur Björnsson, Hilmar B. Janusson, Sigríður Ólafsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Silja Aðalsteinsdóttir og Þórður Sverrisson. Einnig sat fundinn Jón Atli Benediktsson. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir boðaði forföll. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Áður en gengið var til dagskrár fór rektor stuttlega yfir nokkra atburði frá síðasta fundi og framundan. Um miðjan janúar sl. heimsótti rektor King's College, University of London í boði rektorsins, Rick Trainors. Talsvert samstarf er á milli King's College og Háskóla Íslands og er fyrirhugað að efla það enn frekar. Hinn 23. janúar sl. fór fram árleg japönsk hátíð á Háskólatorgi og var hún afar vel heppnuð og fjölsótt. Undirbúningur aldarafmælis Háskóla Íslands árið 2011 gengur vel og verða drög að dagskrá kynnt á næsta fundi háskólaráðs. Háskóladagurinn verður haldinn 20. febrúar nk., brautskráning kandídata fer fram í Háskólabíói 27. febrúar nk. og efnt verður til háskólaþings og haldin árshátíð Háskóla Íslands 26. mars nk. Loks vakti rektor athygli á upplýsingum sem lagðar voru fram til fróðleiks á fundinum, þ.e. yfirlit um úthlutanir til nýrra verkefna úr Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs 2010. Vísindamenn Háskóla Íslands fengu yfirgnæfandi meirihluta nýrra styrkja úr sjóðnum, þar af báða öndvegisstyrkina.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1. Mál á dagskrá

1.1 Fundir rektors með deildum Háskóla Íslands.    

Rektor greindi frá yfirstandandi heimsóknum sínum til allra 25 deilda Háskólans. Á fundunum er farið yfir árangur og gæði í starfsemi deildanna, helstu sóknafæri þeirra á sviði rannsókna og kennslu, viðhorf deildarmanna til stjórnkerfis- og skipulagsbreytinga Háskólans o.fl. Málið var rætt.   

1.2 Fjármál Háskóla Íslands.     
a) Afnám undanþágu vegna heimildar til rannsóknamissera og tímasetning umsókna vegna rannsóknamissera.    
Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerðu grein fyrir framlögðum tillögum frá samráðsnefnd háskólaráðs um kjaramál. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þeir Guðmundur og Sigurður spurningum ráðsmanna. 
- Samþykkt, en einn var á móti og einn sat hjá.

b) Greiðsla fyrir stundakennslu.
Guðmundur R. Jónsson og Sigurður J. Hafsteinsson gerðu grein fyrir málinu. Málið var rætt ítarlega og brugðust þeir Guðmundur og Sigurður við spurningum og athugasemdum ráðsmanna. 
- Framlögð tillaga um greiðslur fyrir stundakennslu samþykkt, en einn var á móti og tveir sátu hjá. Samþykktin gildir háskólaárið 2010-2011 og verður endurskoðuð vorið 2011. Háskólaráð beinir því til samráðsnefndar um kjaramál að leita leiða til að umbuna stundakennurum sérstaklega fyrir undirbúning námskeiða sem þeir kenna í fyrsta skipti. 

c) Kostnaður vegna skráningar og þjónustu.     
Frestað. 

1.3    Matskerfi opinberra háskóla, sbr. síðasta fund. Starfshópur um tengsl rannsókna og fjármála.
Rektor gerði grein fyrir málinu og bar upp tillögu um að skipaður verði þriggja manna starfshópur sem hafi það hlutverk að skoða tengsl matskerfis vegna árangurs í rannsóknum og deilingu fjár innan Háskóla Íslands. Í starfshópnum verði Sigríður Ólafsdóttir, fulltrúi í háskólaráði, Róbert H. Haraldsson prófessor, Þórólfur Þórlindsson prófessor, ásamt Halldóri Jónssyni, sviðsstjóri vísindasviðs og Guðmundi R. Jónssyni, framkvæmdastjóra fjármála og reksturs.
- Samþykkt einróma. Rektor mun setja hópnum erindisbréf og skal hann skila tillögum sínum fyrir 1. maí nk.

1.4 Nýbygging fyrir Landspítala og heilbrigðisvísindadeildir Háskóla Íslands.    
Inn á fundinn kom Ingjaldur Hannibalsson, formaður skipulagsnefndar háskólaráðs og fulltrúi Háskóla Íslands í verkefnisstjórn um nýbyggingu Landspítala. Gerði Ingjaldur ítarlega grein fyrir stöðu mála varðandi undirbúning nýbyggingar fyrir Landspítala og heilbrigðisvísindadeildir Háskólans. Málið var rætt ítarlega og svaraði Ingjaldur spurningum ráðsmanna.

1.5 Kynning á vísindastarfsemi Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir ýmsum aðgerðum og nýmælum Háskóla Íslands til að kynna fræðastarfsemi Háskólans og vísindaafrek starfsmanna hans. Málið var rætt. 

2. Erindi til háskólaráðs

2.1 Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir framlögðum tillögum að breytingum á reglum og að nýjum reglum. Tillögurnar voru ræddar og svaraði Þórður spurningum ráðsmanna.
 
a) Tillaga um fjöldatakmörkun í tannsmiðanám háskólaárið 2010-2011 og reglur um framkvæmd fjöldatakmörkunar.
Tillagan gerir ráð fyrir að fjöldi nemenda í tannsmíðum sem verði tekinn inn á annað misseri 1. árs háskólaárið 2010-2011 verði takmarkaður við fimm.
- Samþykkt samhljóða, en tveir sátu hjá.

b) Tillaga að breytingu á 84. gr. reglna Háskóla Íslands, skv. tillögu Félagsvísindasviðs f.h. Félags- og mannvísindadeildar. Tvær nýjar námsleiðir á sviði hnattrænna tengsla, fólksflutninga og fjölmenningarfræða.
- Samþykkt samhljóða, en einn sat hjá. Fram kom að verið er að undirbúa fyrir háskólaráð verklagsreglur um stofnun nýrra námsleiða.

c) Tillaga um fjórar breytingar á sameiginlegum reglum Háskóla Íslands nr. 569/2009.
Tillagan felur í sér fjórar breytingar. Í fyrsta lagi breytingu á 2. mgr. 22. gr. reglna Háskóla Íslands sem lýtur að því að fræðasviðum verði heimilt að kjósa fulltrúa á háskólaþing með rafrænni atkvæðagreiðslu. Í öðru lagi breytingar á 47. gr. og 50. gr. sem lúta að því að skerpa á orðalagi um málskotsrétt nemenda vegna ákvarðana um inntöku í nám. Í fjórða lagi að úr gildi falli reglur nr. 478/2006 um undanþágur frá auglýsingaskyldu vegna ráðningar í störf við Háskóla Íslands, en efnisatriði þeirra reglna hafa verið felld í sameiginlegar reglur Háskóla Íslands.
- Samþykkt einróma. 

2.2 Bókun um gildi framgangsreglna í deildum sem áður voru hluti Félagsvísindadeildar skv. eldri reglum.
Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu. 
- Samþykkt einróma. 

3. Mál til fróðleiks

3.1 Úthlutun úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands fyrir árið 2010.

3.2 Frá Rannís: Úthlutun til nýrra verkefna úr Rannsóknasjóði Vísinda- og tækniráðs 2010

Fleira var ekki gert.    
Fundi slitið kl. 16.00.