Skip to main content

Háskólaráðsfundur 2. desember 2010

11/2010

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2010, fimmtudaginn 2. desember var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Börkur Hansen, Fannar Freyr Ívarsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hilmar B. Janusson, Pétur Gunnarsson, Sigríður Ólafsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þórður Sverrisson. Fundinn sat einnig Jón Atli Benediktsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Áður en gengið var til dagskrár greindi rektor frá vel heppnuðum hátíðahöldum á fullveldisdaginn 1. desember. Vegleg dagskrá var á vegum stúdenta og síðdegis fór fram veiting heiðursdoktorsnafnbóta frá Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs til rithöfundanna Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, Matthíasar Johannessen og Thors Vilhjálmssonar. Þá var Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, nýlega kjörinn forseti félags innan IEEE (Institute of Electrical and Electronics Engineers) sem eru stærstu fagsamtök rafmagnsverkfræðinga í heiminum með um 400.000 meðlimi í yfir 160 löndum. Einnig greindi rektor frá því að eftir síðasta fund háskólaráðs hefði verið efnt til tveggja samráðsfunda með fulltrúum háskólaráðs, annars um stefnu Háskóla Íslands og hins um fjármál skólans.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1.     Mál á dagskrá

1.1    Stefna Háskóla Íslands 2011-2016, sbr. síðasta fund. Staða mála.
Jón Atli Benediktsson gerði grein fyrir framvindu stefnumótunarstarfsins frá síðasta fundi háskólaráðs, þ.e. framkomnum umsögnum frá fræðasviðum, deildum, starfsnefndum háskólaráðs, Stúdentaráði sameiginlegri stjórnsýslu o.fl. aðilum og úrvinnslu þeirra á vettvangi heildarstefnuhóps háskólans, fundum með ráðgefandi hópum og einstaklingum og útsendingu lokadraga að Stefnu Háskóla Íslands til fulltrúa á háskólaþingi. Málið verður á dagskrá þingsins 7. desember nk. og á fundi háskólaráðs 17. desember nk. Málið var rætt.

1.2    Fjármál háskólans. Staða, horfur og áætlun.
Inn á fundinn komu þeir Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs og gerðu grein fyrir framlögðu yfirliti um stöðu og horfur í fjármálum Háskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega og svöruðu Guðmundur og Sigurður spurningum ráðsmanna. Bauð rektor fulltrúum í háskólaráði að koma til sérstaks samráðsfundar um fjármál háskólans 9. desember nk. áður en fjárhagsáætlun 2011 verður afgreidd á fundi ráðsins 17. desember nk.

1.3    Framkvæmdaáætlun Háskóla Íslands 2010-2020, nýbyggingar o.fl.
Inn á fundinn komu Ögmundur Skarphéðinsson og Ólafur Hersisson, arkitektar hjá Hornsteinum arkitektum, og gerðu grein fyrir hönnun og undirbúningi nýbyggingar Húss íslenskra fræða sem mun hýsa Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeild Hugvísindasviðs Háskóla Íslands. Málið var rætt ítarlega og svöruðu Ögmundur og Ólafur spurningum ráðsmanna.

Þá fóru Guðmundur R. Jónsson og Sigurður J. Hafsteinsson yfir framlögð drög að framkvæmdaáætlun nýbygginga og fjármögnun þeirra fyrir tímabilið 2010-2020. Málið var rætt og svöruðu Guðmundur og Sigurður spurningum.

1.4    Tillögur starfshóps um samkennslu, sbr. síðasta fund. Umsagnir stjórna fræðasviða, kennslumálanefndar, fjármálanefndar og gæðanefndar.
- Frestað.

1.5    Samstarf opinberra háskóla, sbr. fund ráðsins 2. september sl. Staða mála.
Rektor gerði grein fyrir stöðu mála í verkefnisstjórn um samstarf opinberra háskóla á Íslandi. Málið var rætt og svaraði rektor spurningum ráðsmanna. Málið verður aftur á dagskrá ráðsins eftir áramót.

1.6    Háskólasjóður H/F Eimskipafélags Íslands og endurskoðaðar reglur um styrki til stúdenta í doktorsnámi við Háskóla Íslands.
Fyrir fundinum lá tillaga um breytingu á reglum um styrki úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands. Inn á fundinn komu Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs og Ingibjörg Halldórsdóttir, lögfræðingur háskólans og gerðu grein fyrir málinu og svöruðu spurningum.
- Samþykkt einróma.

2.    Erindi til háskólaráðs

2.1    Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum í kjölfar gildistöku nýrra laga, sameiginlegra reglna og breytts skipulags Háskóla Íslands.

Tillögur fræðasviða að breytingum á sameiginlegum reglum Háskóla Íslands nr. 569/2009:
a) Frá Heilbrigðisvísindasviði: Breyting á 97. gr.
b) Frá Hugvísindasviði: Breyting á 109., 111., 113. og 115. gr.
c) Frá Menntavísindasviði: Breyting á 119. og 121. gr.

Þórður Kristinsson gerði grein fyrir tillögunum.
- Tillögur Heilbrigðisvísindasviðs, Hugvísindasviðs og Menntavísindasviðs að breytingum á sameiginlegum reglum Háskóla Íslands nr. 569/2009 samþykktar einróma.

2.2    Stjórnir, nefndir og ráð: Stjórn styrktarsjóða Háskóla Íslands.
Rektor bar upp tillögu um að stjórn styrktarsjóða Háskóla Íslands verði skipuð þeim Gylfa Magnússyni dósent við Viðskiptafræðideild, sem verði formaður, Ásu Ólafsdóttur, lektor við Lagadeild, og Jóhanni Ómarssyni viðskiptafræðingi. Skipunartíminn er til loka ársins 2013.
- Samþykkt samhljóða, en einn sat hjá.

2.3    Erindi frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund. Álit millifundanefndar.
Börkur Hansen gerði grein fyrir umsögn millifundanefndar háskólaráðs vegna erindis stjórnar Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands, dags. 27. október 2010. Auk Barkar sátu í millifundanefndinni Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, fulltrúi í háskólaráði og Ingibjörg Halldórsdóttir, lögfræðingur háskólans. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þau Börkur, Tinna Laufey og Ingibjörg spurningum og athugasemdum ráðsmanna.
- Tillaga millifundanefndar háskólaráðs samþykkt einróma. Tekið verði mið af sjónarmiðum sem fram komu á fundinum við frekari úrvinnslu eftir því sem unnt er.

Rektor vék af fundi og Börkur Hansen, varaforseti háskólaráðs, tók við fundarstjórn.

2.4    Erindi frá Stúdentaráði um rétt nemenda til aðgangs að eldri prófum (barst 16. nóvember sl.) ásamt minnisblaði lögfræðings Háskóla Íslands, dags. 24. ágúst sl., um reglur upplýsingalaga um afhendingu prófúrlausna.
Ingibjörg Halldórsdóttir og Þórður Kristinsson gerðu grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega.
- Samþykkt einróma að fela kennslusviði að fara yfir málið og móta verklag um aðgang nemenda að prófverkefnum sem lögð hafa verið fyrir. Haft verði samráð við fulltrúa stúdenta.

3.    Mál til fróðleiks

3.1    Dagskrá háskólaþings 7. desember 2010.

3.2    Skýrsla Vinnumatssjóðs 2010 vegna verka ársins 2009.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.20.