Skip to main content

Háskólaráðsfundur 2. apríl 2009

04/2009

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2009, fimmtudaginn 2. apríl var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Brynjar Smári Hermannsson (varamaður Elínar Óskar Helgadóttur), Gunnlaugur Björnsson, Hilmar Janusson, Sigríður Ólafsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir (varmaður Önnu Agnarsdóttur), Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Þórður Sverrisson. Forföll boðuðu Gunnar Einarsson og Valgerður Bjarnadóttir. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1.    Mál á dagskrá

1.1     Fjármál Háskóla Íslands:
a) Fjárlagatillögur Háskóla Íslands fyrir árið 2010.
Inn á fundinn kom Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og gerði grein fyrir framlögðum endurskoðuðum drögum að fjárlagatillögum Háskóla Íslands fyrir árið 2010. Málið var rætt ítarlega og svöruðu rektor og Guðmundur framkomnum spurningum og athugasemdum. Voru tillögurnar afgreiddar frá ráðinu með fáeinum orðalagsbreytingum.

b) Eftirfylgni með niðurskurði í fjárlögum fyrir árið 2009.
Guðmundur fór yfir framlagt minnisblað um eftirfylgni með niðurskurði á framlögum til Háskóla Íslands árið 2009. Málið var rætt.

1.2     Nám stúdenta sumarið 2009.
Við upphaf fundar afhentu stúdentar fulltrúum í háskólaráði yfirlýsingu þar sem óskað er eftir því að boðið verði sumarnám við Háskólann.
Fyrir fundinum lá minnisblað þar sem reifaðir eru þeir möguleikar sem eru til skoðunar innan Háskólans um hvernig koma megi til móts við stúdenta í sumar. Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Rektor og Þórður gerðu grein fyrir málinu. Fram kom m.a. að ákveðið hefur verið að stúdentum gefist kostur á að nýta húsnæði og aðstöðu í Háskólanum í sumar til að vinna að námi sínu. Einnig liggur fyrir að Háskóli Íslands og Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur ehf., munu vinna að því í sameiningu að aðstoða stúdenta sem fá styrk frá Nýsköpunarsjóði stúdenta til að vinna að nýsköpunarverkefnum í sumar. Þá er verið að kanna möguleika á að bjóða upp á valin námskeið og að halda skrifleg próf í ágúst í völdum greinum. Í þessu sambandi er í mörg horn að líta, s.s. varðandi kostnað, námskeiðaval, gæðakröfur og umsýslu. Ennfremur ber að hafa í huga að óháð því hvað gert verður í sumar er ljóst að Háskólinn fær ekki á þessu ári fjárveitingu til kennslu um 1.400 nemenda skólans sem hófu nám um sl. áramót. Loks ber að geta þess að andstætt einkareknum háskólum hefur Háskóli Íslands ekki heimild til að taka gjald af nemendum fyrir kennslu í sumar. Framboð Háskólans á námi og prófum í sumar er því háð því að sérstök fjárveiting fáist og hefur rektor óskað eftir viðræðum við stjórnvöld um það. Ekki er unnt að taka frekari ákvarðanir fyrr en niðurstaða þeirra viðræðna liggur fyrir. Málið var rætt ítarlega og lýstu fulltrúar í háskólaráði ríkum vilja til þess að finna í samvinnu við stúdenta og stjórnvöld farsæla og skjóta lausn á málinu.

1.3    Aldarafmæli Háskóla Íslands. Tillögur afmælisnefndar og viðbrögð fræðasviða.
Rektor greindi frá því að Guðrún Nordal, prófessor og formaður afmælisnefndar Háskóla Íslands, muni koma á næsta fund háskólaráðs til að gera grein fyrir tillögum nefndarinnar.

1.4    Nýtt skipulag Háskóla Íslands. Kynning á Heilbrigðisvísindasviði.
Inn á fundinn kom Sigurður Guðmundsson, forseti Heilbrigðisvísindasviðs, og kynnti skipulag, stefnu og starfsemi fræðasviðsins, deilda þess og rannsóknastofnana. Málið var rætt ítarlega og svaraði Sigurður spurningum ráðsmanna.

1.5    Stefna Háskólans í málefnum er lúta að nýsköpun, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Rektor bar upp tillögu um að settur verði á laggirnar starfshópur um mótun stefnu Háskóla Íslands í málefnum er lúta að nýsköpun. Starfshópurinn verði skipaður þeim Ebbu Þóru Hvannberg, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, sem verði formaður, Andra Heiðari Kristinssyni, framkvæmdastjóra Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs ehf. og meistaranema í hagfræði, sem verði fulltrúi stúdenta, Eggert Þór Bernharðssyni, dósent við Sagnfræði- og heimspekideild Hugvísindasviðs, Einari Stefánssyni, prófessor við Læknadeild Heilbrigðisvísindasviðs, Eiríki Hilmarssyni, framkvæmdastjóra Vísindagarða Háskóla Íslands ehf., Gísla Þorsteinssyni, lektor við Kennaradeild Menntavísindasviðs, Hilmari B. Janussyni, efnafræðingi og framkvæmdastjóra rannsókna- og þróunarsviðs Össurar hf., fulltrúa í háskólaráði, Kristínu Völu Ragnarsdóttur, forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, Margréti Sigrúnu Sigurðardóttur, aðjunkt við Viðskiptafræðideild Félagsvísindasviðs, og Sigríði Ólafsdóttur, lífefnafræðingi og ráðgjafa, fulltrúa í háskólaráði. Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs og Magnús Diðrik Baldursson, gæðastjóri og skrifstofustjóri rektorsskrifstofu, starfa með hópnum.
- Samþykkt einróma. Rektor setur starfshópnum erindisbréf. Miðað er við að hópurinn skili tillögum sínum fyrir 1. júlí nk.

1.6     Framtíðarfyrirkomulag stofnana Háskólans.
a) Þjónustustofnanir.
b) Rannsóknastofnanir.

Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt. Lagði rektor til að vinnunni við undirbúning tillagna um framtíðarfyrirkomulag stofnana Háskólans verði skipt í tvo hluta, þannig að rektor feli aðilum í sameiginlegri stjórnsýslu að undirbúa málefni þjónustustofnana en málefni rannsóknastofnana verði undirbúin af starfshópi skipuðum þeim Jóni Atla Benediktssyni, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, sem stýri starfinu, forsetum fræðasviðanna fimm, tveimur fulltrúum þjóðlífs í háskólaráði, þeim Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur og Gunnari Einarssyni, Þórði Kristinssyni, sviðsstjóra kennslusviðs, Halldóri Jónssyni, sviðsstjóra vísindasviðs og Ingibjörgu Halldórsdóttur, lögfræðingi Háskólans.
- Samþykkt einróma.

2.      Erindi til háskólaráðs

2.1    Heildarendurskoðun reglna Háskóla Íslands, drög kafla I-XI.
Fyrir fundinum lágu drög að endurskoðuðum köflum I-XI reglna Háskóla Íslands sem unnin voru af Þórði Kristinssyni í samráði við starfshóp háskólaráðs skipuðum þeim Önnu Agnarsdóttur, Sigríði Ólafsdóttur og Sigrúnu Ingibjörgu Gísladóttur, fulltrúum í ráðinu, en til aðstoðar var Kristín Benediktsdóttir, doktorsnemi í Lagadeild. Gerði Þórður grein fyrir málinu og var það rætt ítarlega. Óskaði rektor eftir því að fulltrúar í háskólaráði komi frekari ábendingum og tillögum á framfæri við Þórð eigi síðar en 14. apríl nk. Þá verða regludrögin send út til umsagnar í háskólasamfélaginu áður en þau koma aftur til meðferðar í háskólaráði. Í framhaldi af því verða regludrögin lögð fram til umsagnar á háskólaþingi 15. maí nk. og loks er stefnt að afgreiðslu reglnanna í háskólaráði í júní nk.

2.2    Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum:
a)    Tillögur frá Heilbrigðisvísindasviði, sbr. síðasta fund:
- inntökuskilyrði í Matvæla- og næringarfræðideild,
- fjöldatakmörkun í næringarfræði háskólaárið 2009-2010,
- framkvæmd á vali stúdenta sem fá að hefja nám til BS-prófs í næringarfræði.

Sigurður Guðmundsson og Þórður Kristinsson gerðu grein fyrir tillögum Heilbrigðisvísindasviðs.
- Samþykkt einróma.
b)    Tillaga frá þremur deildum Félagsvísindasviðs um endurskoðaðar reglur fyrir Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.
Þórður gerði grein fyrir tillögunni.
- Samþykkt einróma.
c)    Tillögur að nýjum námsleiðum á Hugvísindasviði:
- BA-nám í fornleifafræði sem aðalgrein til bæði 120 og 180 eininga.
- MA-nám í Norðurlandafræðum til 120 eininga.
- Þýska í ferðaþjónustu. 90 eininga nám á meistarastigi.

Rektor gerði grein fyrir tillögunum og voru þær ræddar.
- Samþykkt að fela rektor að afgreiða tillögur Hugvísindasviðs að fenginni umsögn fjármálanefndar um fjárhagslegan grundvöll námsleiðanna.

2.3    Endurskoðuð tillaga læknadeildar um próftökugjald fyrir inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun vorið 2009, sbr. síðasta fund.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Samþykkt einróma að heimila ekki próftökugjald í læknisfræði og sjúkraþjálfun vorið 2009. Afstaða til próftökugjalds fyrir árið 2010 verður tekin síðar.

2.4    Verklagsreglur um launalaus leyfi starfsmanna Háskóla Íslands. Tillögur starfshóps háskólaráðs, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Guðmundur Ragnarsson, starfandi sviðsstjóri starfsmannasviðs, og gerði grein fyrir framlögðum drögum að verklagsreglum um launalaus leyfi starfsmanna Háskóla Íslands. Verklagsreglurnar voru samdar af starfshópi skipuðum þeim Róbert R. Spanó, prófessor við Lagadeild Félagsvísindasviðs og settum umboðsmanni Alþingis, sem var formaður, Guðrúnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, sviðsstjóra starfsmannasviðs, Rúnari Vilhjálmssyni, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Heilbrigðisvísindasviðs, og Snorra Þór Sigurðssyni, prófessor við Raunvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasviðs. Málið var rætt. Fram komu nokkrar athugasemdir og ábendingar, einkum varðandi þrjú atriði í 5. gr. regludraganna. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir hélt fram því sjónarmiði að í 4. gr. ætti að geta um rannsóknir sem mögulega ástæðu fyrir launalausu leyfi. Á móti var á það bent að þetta ætti ekki við, enda væri fjallað um leyfi vegna rannsóknastarfa í 6. gr., auk þess sem sérstaklega væri kveðið á um rannsóknamisseri og skiptingu vinnuskyldna akademískra starfsmanna í öðrum reglum Háskóla Íslands. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir spurði hvers vegna í 1. tölul. 5. gr. væri gert ráð fyrir 5 ára launalausu leyfi til að gegna þingmennsku en miðað væri við kjörtímabil þegar um aðra kjörna fulltrúa væri að ræða. Sigríður Ólafsdóttir spurði hvaða rök væru fyrir því að í 4. tölul. 5. gr. væri gert ráð fyrir því að veita mætti launalaust leyfi til allt að 4 ára til að gegna starfi ráðuneytisstjóra. Þar sem ekki lágu fyrir fundinum upplýsingar til að geta svarað tveimur síðastnefndu spurningunum var ákveðið að afla þeirra eftir fundinn og afgreiða málið með tölvupósti í kjölfar hans. Í framhaldinu voru fulltrúum í háskólaráði sendar skýringar og svohljóðandi breytingartillaga rektors við 5. gr.: Í 1. tölul. bætist við setningin „Það gildir einnig fyrir kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum", í 4. tölul. falli niður orðin „eða ráðuneytisstjóra" og í 5. gr. falli niður orðin „eða kjörins fulltrúa í sveitarstjórn." Ennfremur verði í 2. tölul. vísað til 11. gr. laga nr. 55/1989 í stað 10. gr.
- Reglur um launalaus leyfi starfsmanna Háskóla Íslands samþykktar svo breyttar.

3.     Mál til fróðleiks

3.1     Kostnaður vegna prófahalds í Háskóla Íslands.

3.2     Ráðstöfun skrásetningargjalds nemenda við Háskóla Íslands.

3.3     Staða og þróun jafnréttismála við Háskóla Íslands 2003-2007. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, janúar 2009.

3.4    Stuðningur við öfluga rannsóknahópa. Niðurstaða forvals, dags. 24. febrúar 2009.

3.5    Ráðstefnan „Quality and Development in Nordic Higher Education“, haldin á vegum menntamálaráðuneytisins, Nordic Quality Assurance Network in Higher Education (NOQA) og Háskóla Íslands, við Háskóla Íslands 16.-17. apríl 2009.

3.6    Starfsáætlun Samtaka evrópskra háskóla (European University Association, EUA) fyrir tímabilið 2009-2010.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.10.