Skip to main content

Háskólaráðsfundur 26. ágúst 2010

07/2010

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2010, fimmtudaginn 26. ágúst var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 14.00.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Börkur Hansen, Fannar Freyr Ívarsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Gunnlaugur Björnsson (varamaður fyrir Önnu Agnarsdóttur), Pétur Gunnarsson og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1.     Mál á dagskrá

1.1    Nýtt háskólaráð skv. breyttum lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008.
Áður en gengið var til dagskrár bauð rektor fulltrúa í háskólaráði hjartanlega velkomna til starfa. Fór rektor stuttlega yfir starfshætti ráðsins og helstu verkefni framundan, en nánar verður fjallað um starfsáætlun háskólaráðs með fullskipuðu ráði á næsta fundi.

1.2    Tilnefning þriggja fulltrúa í háskólaráð og eins sameiginlegs varamanns fyrir þá, sbr. 4. tölul. 3. mgr. og 4. mgr. 6. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008.
Samkvæmt lögum nr. 50/2010 um breytingu á lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 tilnefnir háskólaráð, skipað átta fulltrúum, sameiginlega þrjá fulltrúa til viðbótar til þess að ráðið teljist fullskipað, auk sameiginlegs varamanns. Rektor bar upp tillögu um að viðbótarfulltrúarnir þrír verði þau Hilmar B. Janusson, efnafræðingur og framkvæmdastjóri rannsókna- og þróunarsviðs Össurar hf., Sigríður Ólafsdóttir, lífefnafræðingur og ráðgjafi hjá SÓL ráðgjöf og Þórður Sverrisson, viðskiptafræðingur og forstjóri Nýherja. Fyrir fundinum lágu ferilskrár þessara einstaklinga.
- Samþykkt einróma.

Þá bar rektor upp tillögu um að sameiginlegur varamaður þeirra verði Sigríður Valgeirsdóttir, líffræðingur og framkvæmdastjóri Roche NimbleGen. Fyrir fundinum lá ferilskrá hennar.
- Samþykkt einróma.

Nýtt háskólaráð fyrir tímabilið 2010-2012 er þannig skipað:

·    Kristín Ingólfsdóttir rektor, forseti,
·    Anna Agnarsdóttir, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild Hugvísindasviðs, fulltrúi háskólasamfélagsins tilnefndur af háskólaþingi (varamaður Gunnlaugur Björnsson, vísindamaður við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands),
·    Börkur Hansen, prófessor við Uppeldis- og menntunarfræðideild Menntavísindasviðs, fulltrúi háskólasamfélagsins tilnefndur af háskólaþingi (varamaður Hákon Hrafn Sigurðsson, dósent við Lyfjafræðideild Heilbrigðisvísindasviðs),
·    Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, lektor við Hagfræðideild Félagsvísindasviðs, fulltrúi háskólasamfélagsins tilnefndur af háskólaþingi (varamaður Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur við Fræðasetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði),
·    Fannar Freyr Ívarsson, meistaranemi í lögfræði, fulltrúi tilnefndur af heildarsamtökum nemenda (varamaður Margrét Arnardóttir, nemandi í lífeindafræði),
·    Guðrún Sóley Gestsdóttir hagfræðinemi, fulltrúi tilnefndur af heildarsamtökum nemenda (varamaður Boði Logason, nemandi í stjórnmálafræði),
·    Guðrún Hallgrímsdóttir verkfræðingur, fulltrúi tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra (varamaður Þorfinnur Skúlason íslenskufræðingur),
·    Pétur Gunnarsson rithöfundur, fulltrúi tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra (varamaður Ragnheiður Hulda Proppé mannfræðingur),
·    Hilmar B. Janusson, efnafræðingur og framkvæmdastjóri rannsókna- og þróunarsviðs Össurar hf., fulltrúi tilnefndur af háskólaráði,
·    Sigríður Ólafsdóttir, lífefnafræðingur og ráðgjafi hjá SÓL ráðgjöf, fulltrúi tilnefndur af háskólaráði,
·    Þórður Sverrisson, viðskiptafræðingur og forstjóri Nýherja, fulltrúi tilnefndur af háskólaráði (sameiginlegur varamaður þeirra Hilmars, Sigríðar og Þórðar er Sigríður Valgeirsdóttir, líffræðingur og framkvæmdastjóri Roche NimbleGen).

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15:00.