Skip to main content

Háskólaráðsfundur 15. janúar 2009

01/2009


HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR


Ár 2009, fimmtudaginn 15. janúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.


Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Elín Ósk Helgadóttir, Gunnar Einarsson, Gunnlaugur Björnsson, Sigríður Ólafsdóttir, Sigrún Ingibjörg Gísladóttir, Valgerður Bjarnadóttir, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir og Þórður Sverrisson. Hilmar B. Janusson boðaði forföll og varamaður hans einnig. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.


Rektor óskaði fundarmönnum gleðilegs nýs árs og þakkaði þeim fyrir samstarfið á liðnu ári. Fundargerðir síðustu tveggja funda voru lagðar fram og samþykktar.


Áður en gengið var til dagskrár gerði rektor grein fyrir nokkrum viðburðum frá síðasta fundi ráðsins, þar á meðal a) opnum fundi með starfsfólki að loknum háskólaráðsfundi 22. desember sl. þar sem rektor skýrði forsendur og útfærslu vegna ákvarðana háskólaráðs um viðbrögð við niðurskurði fjárlaga; b) Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda sem stofnaður var með 25 m.kr. stofnframlagi 22. desember sl. og er til styrktar nemendum í framhaldsnámi í ljósmóður- og hjúkrunarfræðum; c) veitingu tveggja heiðursverðlauna, annars vegar til Einars Stefánssonar, prófessors í læknadeild, sem hlaut 29. desember sl. heiðursverðlaun úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright fyrir framúrskarandi árangur í vísindum, og hins vegar til Sigurðar Guðmundssonar, forseta Heilbrigðisvísindasviðs, sem 1. janúar sl. hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til heilbrigðismála; d) fyrirlestraröð í umsjón Engilberts Sigurðssonar geðlæknis um Mannlíf og kreppur, en fyrstu fyrirlestrarnir voru fluttir 5. janúar sl. og verða aðgengilegir á netinu; e) fyrstu skóflustungu að nýjum stúdentagörðum við Skógarveg sem Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, tók 6. janúar sl.; f) andlát Margrétar Oddsdóttur, prófessors í skurðlækningum við læknadeild og yfirlæknis á Landspítala, en hún lést 9. janúar sl. 53 ára að aldri.


1.    Mál á dagskrá


1.1    Helstu verkefni Háskóla Íslands á árinu 2009.


Rektor hóf mál sitt á því að rifja upp stærstu verkefni í starfi Háskóla Íslands árið 2008; endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskólans og innleiðingu breytinga í kjölfarið, sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, nýjan vef hins sameinaða háskóla, starfrækslu Háskólatorgs og Gimlis og aðlögun háskólastarfsins að nýjum lögum um opinbera háskóla. Einnig gerði rektor grein fyrir því að Háskólinn hefði á árinu náð öllum árangursmarkmiðum sem kveðið er á um í Stefnu Háskóla Íslands 2006-2011. Þá gat rektor um nokkra stóra styrki sem komið hefðu til Háskóla Íslands á árinu, s.s. 300 m.kr. styrk til stofnunar Styrktarsjóðs Watanabe og 420 m.kr. ERC-styrks, auk þess sem Háskólinn jók samvinnu við virta erlenda háskóla í Asíu, Bandaríkjunum og Evrópu. Loks var gerð grein fyrir undirbúningi fyrir 100 ára afmæli Háskóla Íslands árið 2011.


Þá fór rektor yfir stærstu verkefni framundan. Í máli rektors kom fram að Háskóli Íslands hefur stækkað um þriðjung á aðeins 6 mánuðum, fyrst um 25% við sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands 1. júlí 2008 og svo um 10% við inntöku fjölda nýnema um nýliðin áramót. Sagði rektor að í ljósi mikillar stækkunar skólans og fjölgunar umfangsmikilla verkefna væri rétt að gera breytingar á skipulagi miðlægrar stjórnsýslu sem taki m.a. mið af skipulagi háskóla af sambærilegri stærð í nágrannalöndunum, þar sem aðstoðarrektorar, einn eða fleiri, hafa umsjón með akademískum málefnum og framkvæmdastjóri hefur yfirumsjón með málefnum sem tengjast fjármálum og rekstri. Við núverandi aðstæður gætu slíkar breytingar þó ekki haft í för með sér kostnaðarauka. Lagði rektor fram tillögu um að fá heimild háskólaráðs til að ráða aðstoðarrektor, skv. heimild í lögum um opinbera háskóla. Þá lagði rektor fram tillögu um að málefnum miðlægrar stjórnsýslu verði skipt í tvennt; annars vegar málefni vísinda og kennslu, hins vegar málefni fjármála og reksturs. Gert er ráð fyrir að aðstoðarrektor vísinda og kennslu hafi yfirumsjón með málefnum vísindasviðs og kennslusviðs og framkvæmdastjóri fjármála og reksturs hafi yfirumsjón með málefnum fjármálasviðs, framkvæmda- og tæknisviðs, markaðs- og samskiptasviðs og starfsmannasviðs. Lagði rektor til að Jón Atli Benediktsson prófessor, aðstoðarmaður rektors og þróunarstjóri verði aðstoðarrektor vísinda og kennslu og Guðmundur R. Jónsson prófessor, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs verði framkvæmdastjóri fjármála og reksturs. Þessar breytingar á starfsskyldum þeirra Jóns Atla og Guðmundar eru tímabundnar og gilda til loka skipunartíma núverandi rektors sem er 30. júní 2010. Guðmundi er jafnframt veitt leyfi frá starfi sviðsstjóra framkvæmda- og tæknisviðs til sama tíma. Tillagan gerir ráð fyrir aukinni ábyrgð tveggja starfsmanna án þess að laun eða annar kostnaður hækki. Fyrir fundinum lá minnisblað með tilvísunum í lagaákvæði um ákvörðunarvald háskóla um innra skipulag.


- Samþykkt einróma.

1.2    Eftirfylgni með fjárhagsáætlun fyrir árið 2009. Skipan nefndar til að undirbúa tillögu að reglum um tilfærslu starfsþátta, sbr. síðasta fund.

Rektor gerði grein fyrir eftirfylgni með samþykktum ráðsins frá 22. desember sl. um viðbrögð við niðurskurði framlaga til Háskóla Íslands á fjárlögum ársins 2009. Í máli rektors kom m.a. fram að forsetar fræðasviða hafa þegar hrint í framkvæmd aðhaldsaðgerðum vegna ferðakostnaðar og niðurfellingar kennsluafsláttar prófessora við 55 og 60 ára aldur. Undantekningarlítið hefur starfsfólk sýnt aðhaldsaðgerðum í kjölfar efnahagshruns íslenska hagkerfisins mikinn skilning. Aðhaldsaðgerðir sem varða tækja- og tölvukaup og frestun á framkvæmd hluta árangurstengds rannsóknasamnings eru í farvegi og yfir stendur endurskoðun fastlaunasamninga og yfirvinnugreiðslna. Fram kom að rektor, kennarar, vísindamenn og starfsfólk í stjórnsýslu Háskólans taki þátt í aðhaldsaðgerðum og niðurskurði.


Rektor bar upp tillögu um að fela formönnum starfsnefnda háskólaráðs að undirbúa tillögu að reglum um tilfærslu starfsþátta óháð aldri, sem miði að því að koma til móts við kennara sem sýna sérstaklega eftirtektarverðan árangur í rannsóknum, sbr. síðasta fund. Nefndin hafi samráð við forseta fræðasviða og formenn Félags háskólakennara, Kennarafélags KHÍ og Félags prófessora. Gert er ráð fyrir að tillögurnar liggi fyrir í byrjun júní nk.


- Samþykkt einróma.

1.3    Nýtt skipulag Háskóla Íslands. Kynning á Hugvísindasviði.

Inn á fundinn kom Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs, og kynnti skipulag, stefnu og starfsemi fræðasviðsins, deilda þess og rannsóknastofnana. Málið var rætt og svaraði Ástráður spurningum ráðsmanna.

1.4    Stefna Háskóla Íslands 2006-2011: Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands.

Inn á fundinn kom Jón Atli Benediktsson, aðstoðarmaður rektors og þróunarstjóri Háskólans, og gerði grein fyrir fyrirhugaðri Miðstöð framhaldsnáms við Háskóla Íslands samkvæmt stefnu skólans og mikilvægi þess að starfsemi Miðstöðvarinnar geti hafist þrátt fyrir niðurskurð fjárveitinga til Háskólans. Málið var rætt ítarlega og svöruðu Jón Atli og rektor spurningum og athugasemdum ráðsmanna.

- Samþykkt einróma að gera þá tímabundnu ráðstöfun vegna aðhalds í rekstri Háskólans við erfiðar aðstæður í samfélaginu að fela gæðanefnd háskólaráðs að stýra verkefnum Miðstöðvar framhaldsnáms við Háskóla Íslands. Þessi ráðstöfun gildir næstu tvö árin.

1.5    Endurskoðuð drög að jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2009-2013, sbr. fund 27. nóvember sl.

Fyrir fundinum lágu endurskoðuð drög að jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2009-2013 sem jafnréttisnefnd gerði með hliðsjón af sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands 1. júlí 2008, nýjum lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008 og ábendingum háskólaráðs frá 27. nóvember sl. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

- Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands 2009-2013 samþykkt einróma.


2.    Erindi til háskólaráðs

2.1    Tillögur að breytingum á reglum og að nýjum reglum.

Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs, og gerði grein fyrir framlögðum tillögum að breytingum á reglum og að nýjum reglum.

a) Endurskoðaðar reglur um inntökuskilyrði í Háskóla Íslands nr. 573/2005, með áorðnum breytingum.

- Samþykkt einróma.

b) Tillögur um fjöldatakmörkun í einstakar námsleiðir háskólaárið 2009-2010 og reglur um framkvæmd fjöldatakmörkunar.

Fyrir fundinum lágu eftirfarandi tillögur fræðasviða og deilda um takmörkun á fjölda nýnema háskólaárið 2009-2010 (tölur í sviga sýna fjölda nýnema háskólaárið 2008-2009):

I.    Heilbrigðisvísindasvið

a.    Læknadeild

- læknisfræði 48 (48)
- sjúkraþjálfun 25 (25)
- geislafræði 15 (15)
- lífeindafræði 20 (20)

b.    Hjúkrunarfræðideild

- ljósmóðurfræði 12 (10)

c.    Tannlæknadeild

- tannlæknisfræði 7 (7)

d.    Sálfræðideild

- cand. psych. *) (20)

II.    Félagsvísindasvið

a.    Félags- og mannvísindadeild

- MA nám í blaða- og fréttamennsku 21 (21)
- MA nám í náms- og starfsráðgjöf 30 (30)

b.    Félagsráðgjafardeild

- MA nám í félagsráðgjöf til starfsréttinda 40 (35)

III.    Menntavísindasvið

a.      Kennaradeild

- 60 eininga diplómanám á meistarastigi í kennslufræðum 90 (--)

IV.    Þverfræðilegt meistaranám í samvinnu fræðasviða/deilda:

- Meistaranám í lýðheilsuvísindum *) (40)

*) Tillaga lögð fram á næsta fundi ráðsins.


- Samþykkt einróma.

2.2    Fyrirvarar í kennsluskrá Háskóla Íslands 2009-2010 og aðhald með skráningum.

- Samþykkt einróma.

  Fyrirkomulag brautskráningar kandídata frá Háskóla Íslands.

Rektor gerði grein fyrir tillögu um að brautskráningar í október og febrúar verði framvegis sameinaðar í eina athöfn sem haldin verði í febrúar. Breytingin taki gildi þegar á þessu ári og er því ekki gert ráð fyrir brautskráningu í október 2009. Málið var rætt.

- Samþykkt einróma.

2.4    Frumvörp sem Háskóli Íslands hefur fengið til umsagnar.

Fyrir fundinum lágu þrjú frumvörp til laga sem Háskóli Íslands hefur fengið til umsagnar og drög að umsögnum Háskólans. Þórður Kristinsson gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
a) Frumvarp til laga um Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, þingskjal 154-139. mál.
b) Frumvarp til laga um sjúkraskrár, þingskjal 205-170. mál.
c) Frumvarp til laga um sóknargjöld, þingskjal 7-7. mál.

- Fyrirliggjandi drög að umsögn Háskóla Íslands samþykkt einróma.

2.5    Breyting á skipan samráðsnefndar um kjaramál.

Rektor gerði grein fyrir málinu og bar upp tillögu um að Guðmundur Ragnarsson, sem gegnir starfi sviðsstjóra starfsmannasviðs í fjarveru Guðrúnar Jóhönnu Guðmundsdóttur, verði skipaður í nefndina frá 1. janúar til 31. desember 2009 eða þar til Guðrún kemur aftur til starfa.

- Samþykkt einróma.

3.    Mál til fróðleiks

3.1    Inntaka nemenda í janúar 2009.

3.2    Einkunnaskil í prófum haustmisseris 2008.

3.3    Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. janúar 2009 í máli nr. E-1164/2008: Jafnréttisstofa vegna Önnu Ingólfsdóttur gegn Háskóla Íslands.

3.4    Skýrsla Háskóla Íslands til menntamálaráðuneytis um framkvæmd stefnu Háskóla Íslands 2006-2011, haustið 2008.


Fleira var ekki gert.

Fundi slitið kl. 16.00.