Skip to main content

Háskólaráðsfundur 14. apríl 2016

05/2016

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2016, fimmtudaginn 14. apríl var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Davíð Þorláksson (varamaður fyrir Áslaugu Friðriksdóttur), Ebba Þóra Hvannberg, Eiríkur Rögnvaldsson, Margrét Hallgrímsdóttir, Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir, Orri Hauksson, Stefán Hrafn Jónsson og Tómas Þorvaldsson. Fundinn sat einnig Halldór Jónsson sem ritaði fundargerð. Iðunn Garðarsdóttir og Jakob Ó. Sigurðsson boðuðu forföll og varamenn þeirra einnig.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hefði hún því skoðast samþykkt og verið birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver vildi gera athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Jafnframt spurði rektor hvort einhver teldi sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki. Fram kom ósk um að liður 8c, „Viðauki við samning á milli Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. og CCP“, yrði ræddur. Ekki komu aðrar athugasemdir um liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a)    Upplýsingar um fjármál Háskóla Íslands, sbr. síðasta fund.

Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs og Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs og gerðu grein fyrir nokkrum kennitölum úr rekstri Háskóla Íslands sem spurt var um á síðasta fundi ráðsins. Málið var rætt og svöruðu þau Jenný og Guðmundur spurningum fulltrúa í háskólaráði. Þá greindi rektor frá því að hann muni á næstunni ganga frá skipun nefndar um endurskoðun deililíkans Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 4. febrúar sl.

3.    Starfsáætlun háskólaráðs og framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2016-2021.
Rektor fór yfir helstu þætti í starfsáætlun háskólaráðs og var staða þeirra rædd í tengslum við nýja Stefnu Háskóla Íslands 2016-2021 í kjölfarið. Jón Atli Benediktsson og Halldór Jónsson svöruðu spurningum ráðsmanna.

4.    Nefnd um störf háskólaráðs, sbr. 10. gr. starfsreglna ráðsins.
Rektor gerði grein fyrir málinu. Í 10. gr. starfsreglna háskólaráðs Háskóla Íslands segir að fyrir lok hvers starfsárs skuli ráðið taka saman greinargerð um störf sín á undangengnu starfsári og leggja mat á árangur og gera eftir atvikum tillögur til úrbóta. Háskólaráð skipar úr sínum röðum fjögurra manna nefnd sem annast matið og ritar greinargerðina. Í nefndinni er einn fulltrúi hvers hóps sem myndar háskólaráð, þ.e. einn fulltrúi háskólasamfélagsins, einn tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra, einn valinn af háskólaráði og einn fulltrúi stúdenta. Varaforseti háskólaráðs er formaður nefndarinnar og situr hann jafnframt fyrir þann hóp sem hann er fulltrúi fyrir í ráðinu. Rektor bar upp tillögu um að nefndin verði skipuð, auk Ebbu Þóru Hvannberg, varaforseta háskólaráðs, þeim Iðunni Garðarsdóttur, Jakobi Ó. Sigurðssyni og Orra Haukssyni. Nefndin mun skila greinargerð sinni á fundi háskólaráðs í júní nk.
– Samþykkt einróma.

5.    Tillaga að breytingu á 6. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009, um kosningu, tilnefningu og embættisgengi rektors.
Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs, gerði grein fyrir málinu. Málið var rætt og svöruðu Jón Atli og Halldór spurningum ráðsmanna. Rektor lagði til að millifundanefnd ráðsins myndi fara yfir málið og skila tillögum sínum í júní. Í nefndinni verði Eiríkur Rögnvaldsson, Nanna Elísa Snædal Jakobsdóttir, Stefán Hrafn Jónsson, Ebba Þóra Hvannberg og Margrét Hallgrímsdóttir. Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs starfi með nefndinni.
– Samþykkt einróma

6.    Greinargerð starfshóps um þverfræðilega samvinnu innan Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs og formaður starfshóps um þverfræðilega samvinnu á sviði kennslu og rannsókna innan Háskóla Íslands og kynnti greinargerð og tillögur starfshópsins, dags. 2. mars 2016. Auk Daða áttu sæti í starfshópnum þau Ebba Þóra Hvannberg, prófessor og fulltrúi í háskólaráði og Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs. Með hópnum störfuðu Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs og Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu og gæðastjóri Háskólans. Málið var rætt og svaraði Daði Már spurningum ráðsmanna.
– Samþykkt að fela rektor að setja á laggirnar nefnd formanna starfsnefnda háskólaráðs undir forystu Guðmundar R. Jónssonar til að gera tillögu til ráðsins um forgangsröðun tillagna starfshópsins og áætlun um framkvæmd þeirra. Með nefndinni starfi Halldór Jónsson og Magnús Diðrik Baldursson. Nefndin skili tillögum sínum fyrir fund háskólaráðs í júní nk.

Eiríkur Rögnvaldsson þurfti að víkja af fundi.

7.    Drög að stefnu Háskóla Íslands í alþjóðamálum.
Inn á fundinn komu Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður Skrifstofu alþjóðasamskipta, Patricia Anna Þormar verkefnisstjóri og Harpa Sif Arnardóttir verkefnisstjóri og gerðu grein fyrir drögum að stefnu Háskóla Íslands í alþjóðamálum sem unnin voru af starfshópi rektors sem þær áttu sæti í. Málið var rætt og svöruðu þær spurningum og athugasemdum ráðsmanna.
– Samþykkt einróma að óska eftir umsögnum fræðasviða, starfsnefnda háskólaráðs, Stúdentaráðs, Miðstöðvar framhaldsnáms, vísinda- og nýsköpunarsviðs og kennslusviðs um drögin að stefnu Háskóla Íslands í alþjóðamálum. Umsagnir berist fyrir lok maí nk. Gert er ráð fyrir að stefna Háskóla Íslands í alþjóðamálum verði á dagskrá háskólaþings haustið 2016.

8.    Bókfærð mál.
a)    Tillaga að breytingu á 29. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009, um skilgreiningu stundakennara, sbr. síðasta fund.

– Samþykkt.

b)    Tillaga að breytingu á verklagsreglum um akademísk gestastörf við Háskóla Íslands, sbr. 13. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Samþykkt.

c)    Viðauki við samning á milli Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. og CCP.
Fram kom ósk um að nánar yrði gerð grein fyrir málinu áður en það yrði tekið til afgreiðslu. Inn á fundinn komu því þeir Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. og Hilmar Bragi Janusson, formaður stjórnar félagsins, og gerðu ítarlega grein fyrir tillögunni og svöruðu að því búnu spurningum ráðsmanna.
– Samþykkt einróma.

d)    Ársskýrsla háskólabrúar Keilis.
– Staðfest.

e)    Skipun fulltrúa stúdenta í gæðanefnd háskólaráðs.
Tilnefndur var Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs.
– Samþykkt.

9.    Mál til fróðleiks.
a)   Stefna Háskóla Íslands 2016-2021.
b)   Árbók Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands 2015.
c)   Samstarfssamningur Háskóla Íslands og Skálholtsskóla, dags. 30. mars 2016.
d)   Glærur frá erindi rektors á degi verkfræðinnar 1. apríl 2016.
e)   Dagskrá ársfundar Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands 15. apríl 2016.
f)    Drög að dagskrá háskólaþings 10. maí 2016.
g)   Glærur frá Upplýsingafundi rektors 12. apríl 2016.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.25.