Skip to main content

Háskólaráðsfundur 13. október 2011

10/2011

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2011, fimmtudaginn 13. október var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl. 13.00.
Fundinn sátu: Kristín Ingólfsdóttir, Börkur Hansen, Fannar Freyr Ívarsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Gunnlaugur Björnsson (varamaður Önnu Agnarsdóttur), Hilmar B. Janusson, Hulda Proppé (varamaður Péturs Gunnarssonar), Sigríður Ólafsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þórður Sverrisson. Fundinn sat einnig Jón Atli Benediktsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

1.    Mál á döfinni í Háskóla Íslands.
Rektor gerði stuttlega grein fyrir nokkrum viðburðum frá síðasta fundi ráðsins og málum á döfinni.
a)    Hápunktur hátíðarhaldanna í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands var um síðustu helgi þegar haldið var hátíðarmálþing um áskoranir 21. aldar í Háskólabíói, þar sem Kofi Annan, fyrrv. aðalritari Sameinuðu þjóðanna var meðal frummælenda, afmælishátíð Háskóla Íslands í Hörpu og afmælisfagnaður starfsmanna.
b)    Á afmælishátíðinni tilkynnti Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að á tímabilinu 2011-2014 verður lagður samtals 1,5 milljarður króna í Aldarafmælissjóð Háskóla Íslands. Nánar er fjallað um þennan áfanga undir lið 4 í dagskrá fundarins.
c)    Í nýútkomnum lista Times Higher Education Supplement yfir bestu háskóla heims er Háskóli Íslands skráður í 276. sæti, en talið er að um 17.000 háskólar séu í heiminum. Nánar er fjallað um þennan áfanga undir lið 3 í dagskrá fundarins.
d)    Úthlutað var úr Háskólasjóði Eimskipafélagsins 11. október sl. Um var að ræða aðra úthlutun á árinu í tilefni aldarafmælis skólans. Að þessu sinni hlutu 12 doktorsnemar styrk, en fyrr á árinu voru veittir 15 styrkir. Úthlutun á árinu nemur 100 m.kr.

Háskólaráð óskar eftir að bókaðar verði þakkir til allra starfsmanna Háskóla Íslands sem lagt hafa hart að sér til að gera afmælisdagskrá skólans svo glæsilega úr garði sem raun ber vitni.

2.    Fjármál Háskóla Íslands.
a)    Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2012.
b)    Staða samninga við Félag prófessora.
c)    Sala hlutabréfa Háskóla Íslands í TERN hf. (Flugkerfi).

Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerðu grein fyrir framlögðu minnisblaði um fjárveitingar til Háskóla Íslands samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2012. Málið var rætt og svöruðu Guðmundur og Sigurður spurningum ráðsmanna.

Næst gerði Guðmundur grein fyrir stöðu samninga við Félag prófessora. Málið var rætt og samþykkti háskólaráð einróma svohljóðandi bókun:

„Háskólaráð áréttar að þar sem samþykkt ráðsins frá 17. desember sl. eigi ekki við um prófessora gildi slíkt hið sama um niðurstöður starfshóps um stjórnunarskyldu sem samþykktar voru í háskólaráði í júní sl. Ástæðan er sú að stofnun starfshópsins og niðurstöður hans byggjast á samþykkt háskólaráðs frá 17. desember sl. sem var forsenda vinnu starfshópsins. Niðurstöður starfshópsins gilda áfram fyrir akademíska starfsmenn í Félagi háskólakennara.”

Dagskrárlið 2 c) um sölu hlutabréfa Háskóla Íslands í TERN hf. (Flugkerfi) var frestað.

3.    Árangur Háskóla Íslands í alþjóðlegu samhengi. [sjá http://www.timeshighereducation.co.uk/world-university-rankings/2011-201...
Inn á fundinn kom Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísindasviðs, og gerði vandlega grein fyrir forsendum röðunar Háskóla Íslands í 276. sæti lista Times Higher Education Supplement yfir bestu háskóla heims. Málið var rætt ítarlega og svaraði Halldór spurningum ráðsmanna.

4.    Aldarafmælissjóður Háskóla Íslands.
Rektor gerði grein fyrir Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands og þeim forsendum sem liggja að baki fjárframlögum í sjóðinn. Fram kom m.a. að framlögin miðast við að heildartekjur Háskóla Íslands verði sambærilegar við meðaltal OECD ríkja árið 2016 og við meðaltal norrænna háskóla árið 2020. Málið var rætt ítarlega.

5.    Framlag Reykjavíkurborgar í tilefni af aldarafmæli Háskóla Íslands.
Rektor greindi frá því að Reykjavíkurborg ynni að undirbúningi framlags í tilefni af 100 ára afmæli Háskóla Íslands.

6.    Skýrsla óháðrar nefndar sem háskólaráð skipaði 5. maí sl. vegna máls siðanefndar Háskóla Íslands 1/2010.
Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Magnús Diðrik Baldursson vék af fundi undir þessum dagskrárlið og tók Jón Atli Benediktsson við sem fundarritari. Auk skýrslu hinnar óháðu nefndar lágu fyrir fundinum bréf frá Ingvari Sigurgeirssyni, prófessor og fyrrum formanni siðanefndar, dags. 11. október 2011, Reyni Harðarsyni, formanni Vantrúar, dags. 11. október 2011, Bjarna Randver Sigurðssyni, stundakennara við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, dags. 11. október 2011, og Þorsteini Vilhjálmssyni, prófessor emeritus, dags. 13. október 2011.

Rektor gerði grein fyrir málinu. Á fundi háskólaráðs 5. maí sl. skipaði háskólaráð nefnd þriggja óháðra aðila um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð. Nefndinni var jafnframt falið að fara yfir starfsreglur siðanefndar Háskóla Íslands og eftir atvikum að gera tillögur til úrbóta í ljósi reynslunnar. Nefndin hefur nú lokið störfum og skilað skýrslu til háskólaráðs 14. september 2011. Málið var rætt til hlýtar.
- Samþykkt að skýrslan verði birt á vef Háskóla Íslands með fundargerð háskólaráðs.

Kynnt var tillaga um breytingar á starfsreglum siðanefndar í ljósi álits nefndarinnar. Málið var rætt ítarlega.
- Tillagan samþykkt samhljóða með smávægilegum breytingum.

Með hliðsjón af áliti óháðu nefndarinnar, helstu niðurstöðum og ábendingum, ályktaði háskólaráð eftirfarandi:

„Kæra í máli siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010 var dregin til baka og er málinu þar með formlega lokið.

Háskólaráð skipaði óháða nefnd til þess að fara yfir málið, aðdraganda þess og málsmeðferð, en m.a. hafði fram komið beiðni um skipan slíkrar nefndar af hálfu Vantrúar og einnig frá hópi háskólakennara. Skýrsla hinnar óháðu nefndar liggur nú fyrir. 

Fyrir liggur að ekki var tekin efnisleg afstaða til álitaefnisins í máli siðanefndar nr. 1/2010 og hinni óháðu nefnd var ekki falið það viðfangsefni.

Af hálfu Háskóla Íslands er af málinu í heild dreginn sá lærdómur að tryggja verður eftir mætti formfestu og trúnað í meðferð mála siðanefndar innan háskólans. Auk þess hafa starfsreglur siðanefndar verið endurskoðaðar, með hliðsjón af ábendingum hinnar óháðu nefndar, í því augnamiði að tryggja að málsmeðferð verði eins vönduð og frekast er kostur. Er í því efni vísað til meginreglna stjórnsýsluréttar um meðferð mála sem miða að því að tryggja vandaða og málefnalega umfjöllun um hvert mál.

Í annan stað eru athugasemdir og ábendingar um aðkomu yfirstjórnar og stjórnsýslu háskólans að málinu teknar til greina.

Í þriðja lagi er þess eindregið vænst að þau sárindi sem málið í heild kann að hafa bakað málsaðilum og öðrum sem að málinu hafa komið með einhverjum hætti megi gróa um heilt. Háskólinn mun gera það sem í hans valdi stendur til að svo megi verða.

Í siðareglum háskólans eru tilgreindir helstu þættir þeirrar siðferðilegu ábyrgðar sem er samofin öllum störfum við Háskóla Íslands. Tilgangur þeirra er að hvetja og aðstoða starfsfólk skólans og nemendur við að sinna störfum sínum og námi á faglegan og árangursríkan hátt. Með reglum um málsmeðferð er einnig skapaður farvegur trúnaðar og óhlutdrægni fyrir rökstuddar ásakanir um misbrest og stuðlað að því að leyst verði úr ágreiningi á málefnalegan hátt.

Háskólaráð áréttar það sem fram kemur í formála að siðareglunum, að mikilvægasta hlutverk skráðra siðareglna er að veita almennari viðmiðanir um breytni og faglega ábyrgð en lagareglum er ætlað, enda gilda siðareglurnar áfram þegar hinum lögfestu reglum sleppir.

Háskólaráð felur þremur starfsnefndum ráðsins, gæðanefnd, kennslumálanefnd og vísindanefnd, að standa sameiginlega að faglegri umfjöllun um siðferðilegar hliðar akademísks frelsis í kennslu og rannsóknum fyrir lok janúar 2012, með opnu málþingi um efnið.”

Þórður Sverrisson vék af fundinum.

7.    Innri endurskoðun Háskóla Íslands.
- Frestað.

8.    Nefndir, stjórnir og ráð.
a)    Öryggisnefnd háskólans.
Rektor bar upp tillögu um að umboð núverandi fulltrúa í öryggisnefnd háskólans verði framlengt um þrjú ár, en í nefndinni eiga sæti þau Sveinbjörn Gizurarson, prófessor við Lyfjafræðideild Heilbrigðisvísindasviðs (fulltrúi HÍ), Sigríður Jónsdóttir, fræðimaður á Raunvísindastofnun (fulltrúi HÍ), Sigurlaug I. Lövdahl, skrifstofustjóri framkvæmda- og tæknisviðs (fulltrúi starfsmanna), og Brynjar Ólafsson, aðjunkt við Kennaradeild Menntavísindasviðs (fulltrúi starfsmanna).
- Samþykkt einróma.

b)    Staðfesting á tilnefningu formanns dómnefndar skv. reglum um viðurkenningu Háskóla Íslands á akademísku hæfi starfsmanna á Landspítala og veitingu akademískrar nafnbótar, nr. 212/2011.
Rektor bar upp tillögu um að háskólaráð staðfesti tilnefningu Bjarna Þjóðleifssonar, prófessors emeritus, sem formanns dómnefndar skv. reglum um viðurkenningu Háskóla Íslands á akademísku hæfi starfsmanna á Landspítala og veitingu akademískrar nafnbótar, nr. 212/2011.
- Samþykkt einróma.

c)    Bréf frá formanni jafnréttisnefndar, dags. 1. október sl., um skipan jafnréttisnefndar.
Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Rektor falið að fara yfir málið með forsetum fræðasviða.

9.    Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum í kjölfar gildistöku nýrra laga, sameiginlegra reglna og breytts skipulags Háskóla Íslands.
a)    Tillaga að breytingu á reglum um framgang og ótímabundna ráðningu akademískra starfsmanna við Háskóla Íslands nr. 263/2010.
Jón Atli Benediktsson gerði grein fyrir tillögunni og var hún rædd til hlýtar. 
- Frestað.

b)    Aðlögun reglna Háskóla Íslands að breytingu á lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 vorið 2010, sbr. lög nr. 50/2010:
Breyting á 3., 9., 10., 12., 29., 31., 64. og 96. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009.
- Frestað.
Breyting á 1. gr. reglna um skipan og fundarsköp háskólaþings Háskóla Íslands nr. 984/2008.
- Frestað.

c)    Tillaga að breytingu á 77. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 um Tækjakaupasjóð Háskóla Íslands ásamt vinnureglum sjóðsins - og tillaga að breyttum vinnureglum fyrir Rannsóknasjóð háskólans til samræmis við breytta 77. gr.
- Frestað.

10.    Tillaga um kjör heiðursdoktors frá Læknadeild.
Fyrir fundinum lá tillaga Læknadeildar Heilbrigðisvísindasviðs og umsögn heiðursdoktorsnefndar um að sæma Margréti Guðnadóttur, prófessor emeritus, heiðursdoktorsnafnbót við Læknadeild Háskóla Íslands.
- Samþykkt einróma.

11.    Mál til fróðleiks.
a)    Viðtal við rektor í Morgunblaðinu 12. september sl.
b)    Opinn fundur rektors 14. september sl.
c)    Dagatal Háskóla Íslands 2011-2012, uppfært.
d)    Dagskrá opnunarráðstefnu gæðaráðs háskóla þriðjudaginn 18. október nk.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 17.15.