Skip to main content

Háskólaráðsfundur 12. janúar 2012

01/2012

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2012, fimmtudaginn 12. janúar var haldinn fundur í háskólaráði sem hófst kl 13.

Fundinn sátu Kristín Ingólfsdóttir, Anna Agnarsdóttir, Fannar Freyr Ívarsson, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Hákon Hrafn Sigurðsson (varamaður fyrir Börk Hansen), Pétur Gunnarsson, Sigríður Ólafsdóttir, Tinna Laufey Ásgeirsdóttir og Þórður Sverrisson. Hilmar B. Janusson boðaði forföll og varamaður hans einnig. Fundinn sat einnig Jón Atli Benediktsson. Fundargerð ritaði Magnús Diðrik Baldursson.

Fundargerð síðasta fundar var lögð fram og hún samþykkt.

1.    Mál á döfinni í Háskóla Íslands
Rektor vakti athygli á nokkrum málum, sbr. dagskrárlið 11, þ.e. nýjum leiðbeiningum um stefnu fræðasviða og deilda um nám og kennslu, sbr. Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016, skýrslu um aldarafmæli Háskóla Íslands, dagskrá málþings Stúdentaráðs og kennslumálanefndar um gæði náms og kennslu og dagskrá málþings gæðanefndar, vísindanefndar og kennslumálanefndar um akademískt frelsi.  Þá greindi rektor frá því að Kristján Kristjánsson, prófessor við Menntavísindasvið, hefði hlotið árleg verðlaun úr styrktarsjóði Ásu Wright, en þeim var úthlutað í lok desember.

Einnig gerði rektor stuttlega grein fyrir stærstu verkefnum framundan í starfi Háskóla Íslands, þ.e. framkvæmd Stefnu Háskóla Íslands 2011-2016, endurskoðun á starfi og skipulagi Rannsóknaþjónustu og Alþjóðaskrifstofu, styrkingu stjórnkerfis háskólans, mögulegum inntökuprófum, Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands, aðgerðum til að auka samkennslu, undirbúningi fyrir fjárlagagerð 2013, gæðaúttektum, samstarfi opinberra háskóla, byggingarverkefnum og nýframkvæmdum, lærdómum af aldarafmæli Háskóla Íslands, aðgerðum til að bæta upplýsingamiðlun, væntanlegum fundum rektors með öllum deildum skólans, nýliðun starfsfólks og ýmsum þróunar- og samstarfsverkefnum.

2.    Fjármál Háskóla Íslands.
a)    Fjárhagsáætlun fyrir árið 2012.
b)    Erindi til háskólaráðs: Málefni stundakennara.

Fyrir fundinum lá vinnutafla um skiptingu fjárveitinga og fjárhagsáætlun fyrir árið 2012. Inn á fundinn komu Guðmundur R. Jónsson, framkvæmdastjóri fjármála og reksturs, og Sigurður J. Hafsteinsson, sviðsstjóri fjármálasviðs, og gerðu grein fyrir málinu. Málið var rætt ítarlega og svöruðu þeir Guðmundur og Sigurður spurningum ráðsmanna. Skipting fjárveitinga og fjárhagsáætlun Háskóla Íslands verður afgreidd á næsta fundi háskólaráðs.

Þá gerði Guðmundur grein fyrir framlögðu erindi Hagstundar, félags stundakennara á háskólastigi, til háskólaráðs. Málið var rætt og svaraði Guðmundur spurningum fulltrúa í háskólaráði.
- Samþykkt að afgreiða málið á milli funda ráðsins.

3.    Skilgreining starfsskyldna prófessora, sbr. síðasta fund. Staða mála.
Inn á fundinn kom Jóhannes Rúnar Sveinsson, formaður starfshóps sem rektor skipaði í kjölfar síðasta fundar háskólaráðs til að ræða við Félag prófessora við ríkisháskóla um skilgreiningu starfsskyldna prófessora. Auk Jóhannesar Rúnars eru í starfshópnum Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs, og Sigríður Björnsdóttir rekstrarstjóri. Málið var rætt og svaraði Jóhannes Rúnar spurningum ráðsmanna. Rektor bar upp svohljóðandi tillögu að bókun:

“Háskólaráð áréttar að starfshópur sem rektor var falið að skipa á fundi ráðsins 8. desember sl. hafi fullt umboð háskólaráðs til að ræða við Félag prófessora við ríkisháskóla (FPR) um starfsskyldur við Háskóla Íslands og undirbúa tillögu til háskólaráðs um þær. Samráð verði haft við FPR við undirbúning tillögunnar. Háskólaráð hefur skv. lögum ákvörðunarvald um starfsskyldur háskólakennara, þó kappkostað sé að komast að samkomulagi við stéttarfélögin um skiptingu starfsskyldna. Það sama á við um FPR og Félag háskólakennara (Fh) í því efni. Rétt er að taka fram að á síðustu árum hefur samkomulag sem gert hefur verið við Fh verið birt sem fylgiskjal með stofnanasamningi, en þar áður voru samþykktir háskólaráðs vettvangur slíkra reglna, t.d. samhliða kjarasamningum við ríkisvaldið, sbr. samþykkt háskólaráðs í tilefni af kjarasamningi Fh 30. apríl 2001.”
- Samþykkt einróma.

4.    Ályktanir háskólaþings 9. desember 2011.
    Rektor gerði grein fyrir málinu.
    - Ályktanir háskólaþings 9. desember 2011 staðfestar.

5.    Stefna Háskóla Íslands 2011-2016: Inntökukröfur og mögulegar aðgangstakmarkanir við Háskóla Íslands.
a)    Tillaga Hagfræðideildar um inntökupróf.
b)    Bréf frá Stúdentaráði um aðgangstakmarkanir, dags. 6. janúar 2012.

Fyrir fundinum lá tillaga Félagsvísindasviðs um breytingar á reglum um inntöku nýnema í hagfræði, samþykkt á fundi sviðsstjórnar 19. október 2011, og bréf frá Stúdentaráði Háskóla Íslands um aðgangstakmarkanir við skólann. Inn á fundinn kom Þórður Kristinsson, sviðsstjóri kennslusviðs. Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu, og Þórður gerðu grein fyrir framvindu málsins eftir háskólaþing 9. desember sl. Málið var rætt ítarlega og í samhengi við ályktun háskólaþings um mögulegar aðgangstakmarkanir, sbr. dagskrárlið 4.
- Samþykkt að fresta afgreiðslu tillögu Félagsvísindasviðs til næsta fundar.

6.    Tillögur að breytingu á reglum og að nýjum reglum í kjölfar gildistöku nýrra laga, sameiginlegra reglna og breytts skipulags Háskóla Íslands.

Þórður Kristinsson gerði grein fyrir tillögunum.

a)    Breytingar á 88. gr. reglna Háskóla Íslands nr. 569/2009 og 15. gr. reglna um meistaranám við Félagsvísindasvið nr. 643/2011. Varðar meistaranám við Hagfræðideild.
- Samþykkt einróma.

b)    Breyting á 4. gr. reglna nr. 844/2001 um Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.
- Samþykkt einróma.

c)    Vinnureglur kennslumálanefndar háskólaráðs um úthlutun úr kennslumálasjóði Háskóla Íslands.

- Samþykkt einróma.

7.    Bréf til rektors og háskólaráðs, dags. 23. nóvember sl, v/skýrslu óháðrar nefndar um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010.
Rektor gerði grein fyrir málinu.

8.    Erindi til háskólaráðs, dags. 15. desember sl.

Fyrir fundinum lá erindi fv. starfsmanns Háskóla Íslands. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.
- Samþykkt einróma að vísa erindinu frá, enda málið á forræði rektors og forseta Heilbrigðisvísindasviðs.

9.    Ársfundur Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. 2010.
Rektor setti ársfund Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. sem haldinn er skv. gr. 3.2 í samþykktum félagsins. Samkvæmt sömu gr. eru eftirfarandi mál á dagskrá aðalfundar:

1.    Stjórn félagsins skýrir frá hag félagsins og rekstri þess á liðnu starfsári.
2.    Ársreikningur ásamt athugasemdum endurskoðanda lagður fram til samþykktar.
3.    Kosning stjórnar félagsins og endurskoðanda eða skoðunarmanna.
4.    Ákvörðun um hvernig fara skal með hagnað eða tap og um arð og framlög í varasjóð.
5.    Ákvörðun um greiðslur til stjórnarmanna fyrir störf þeirra á starfsárinu.
6.    Önnur mál löglega upp borin.

Inn á fundinn kom Eiríkur Hilmarsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. f.h. stjórnar félagsins.

Dagskrárliður 1: Eiríkur Hilmarsson flutti skýrslu stjórnar Vísindagarða ehf. fyrir starfsárið 2010.
- Samþykkt einróma.

Dagskrárliður 2: Fyrir fundinum lá ársreikningur félagsins fyrir árið 2010.
- Samþykkt einróma.

Dagskrárliður 3: Fyrir fundinum lá tillaga um að stjórn verði áfram skipuð þeim Hilmari B. Janussyni, sem verði formaður, Ingjaldi Hannibalssyni, Magnúsi Tuma Guðmundssyni og Sigríði Ólafsdóttur.
- Samþykkt einróma.

Dagskrárliður 4: Enginn hagnaður eða tap varð af rekstri félagsins og er því ekki er gerð tillaga um meðferð hagnaðar eða taps eða um arð og framlög í varasjóð.
- Samþykkt einróma.

Dagskrárliður 5: Fyrir fundinum lá tillaga um að stjórnarmönnum verði ekki greidd laun eins og verið hefur.
- Samþykkt einróma.

Um dagskrárlið 6: Engin önnur mál voru borin upp.

Ársfundi Vísindagarða Háskóla Íslands ehf. 2010 slitið.

10.    Málefni fræðasviða Háskóla Íslands: Kynning á Hugvísindasviði
Inn á fundinn kom Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs, og greindi frá stöðu mála og helstu áherslumálum í starfi Hugvísindasviðs og deilda og stofnana þess. Málið var rætt og svaraði Ástráður spurningum.

11.    Mál til fróðleiks.

a)    Framkvæmd stefnu Háskóla Íslands 2011-2016: Rammi um stefnu fræðasviða og deilda um nám og  kennslu.
b)    Breytingar á matskerfi opinberra háskóla.
c)    Skýrsla um aldarafmæli Háskóla Íslands 2011.
d)    Aldarsaga Háskóla Íslands 1911-2011.
e)    Málþing kennslumálanefndar háskólaráðs og Stúdentaráðs HÍ um eflingu gæða náms og kennslu 13.01.12.
f)    Málþing gæðanefndar, kennslumálanefndar og vísindanefndar háskólaráðs um akademískt frelsi 27. 01.12.
g)    Ávörp og erindi rektors á haustmisseri 2011.
h)    Yfirlit um framgang akademískra starfsmanna Háskóla Íslands, dags. 6. janúar 2012.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 16.40.